top of page

Lágaskarðshnúkur, Þrengslahnúkur, Gráuhnúkar og Staki hnúkur í ljósaskiptum

Æfing nr. 771 þriðjudaginn 19. september 2023.


Þau voru lág fellin sem við gengum á næst síðasta þriðjudag í september... ekki góð veðurspá... rigning og vindur... en við sluppum alveg við rigninguna og tókum varla eftir vindinum... enda hlýtt, auð jörð og dagsbirta...


Nýir tindar í safnið... sá fyrsti hét Lágaskarðshnúkur... hér er litið til baka að einum af nokkrum hnúkum sem rísa í miðju þessa hnúkasvæðis og við höfum kallað Gráuhnúka til þessa en spyrja má hvort þeir séu hluti af Lakahnúkum sem eru svo austar og að Gráuhnúkar séu einvörðungu þessir vestustu sem við vorum á leið núna...


Ofan af Lágaskarðshnúki sem mældist 367 m hár blasti Þrengslahnúkur við... flatur og víðfeðmur en fagur á að líta... fjær vinsta megin er Lambafellshnúkur og smávegis sést í Lambafellið og fjær er svo Blákollur og félagar...


Haustlitirnir mættir en enn mjög sumarlegt... það er eins og sumarið komi seinna... og vari lengur fram á haustin... nema þetta hafi alltaf verið svona og þá er september vanmetinn mánuður...



Uppi á Þrengslahnúki sem mældist 359 m hár blasti Stór Meitill vel við... glæsilegastur allra á svæðinu og eins og kóngurinn...


Framundan hér eru Gráuhnúkar hinir löglegu þá... tveir samliggjandi og grárri en hinir hnúkarnir í kring sem eru mosavaxnari...


Mjög fallegt landslag sem leynir á sér þar til nær dregur...


Ágætis brekka upp á Gráuhnúka... þeir mældust 408 m háir...



Litið til baka á uppleið... Hengillinn og Stóra Reykjafell svo fagurt þarna í baksýn... og skálinn í Hveradölum hægra megin og loks þjóðvegur eitt á leið upp Hellisheiði...


Hópmynd á Gráuhnúkum með Sjöfn sem fulltrúa covid-smitaðra þessa dagana... annað hvort eru menn lasnir heima eða mæta orkulitlir í göngu... eða bara smitast ekki neitt...


Sjöfn Kr., Aníta, Karen, Örn, Gerður Jens., Linda, Þórkatla. Birgir, Kolbeinn, Kári Rúnar sem var að mæta í sína fyrstu göngu eftir nokkurra ára hlé en hann er einn af okkar kærustu fjallgöngufélögum í sögu klúbbsins, Inga nýliði og loks Johan... sjá má hundinn Hetju kíkja á milli manna og svo var Batman þarna einhvers staðar og Bára tók mynd...


Niður af þeim gráu með Stóra Meitil yfirgnæfandi...


Gráuhnúkar buðu upp á alls kyns landslag...


Fíflaskapur í fjallgöngunum ? ... við þekkjum ekkert annað ... hlæjum sem mest... tökum okkur ekki of alvarlega... höfum bara gaman


Við höfðum Staka hnúk á hliðarlínunni ef veðrið yrði erfitt... en það var ekkert að veðrinu svo við stefndum á hann sem fjórða og síðasta tind dagsins... eða þann fimmta í raun þar sem þeir Gráu voru tveir...


Litið til baka með Gráuhnúka í baksýn...


Áfram héldu Gráuhnúkar að skreyta leiðina... Þrengslin hægra megin og Staki hnúkur framundan fjær... Lambafellið fjærst...



Appelsínuguli litur haustsins... og græni litur sumarsins... við dönsum ennþá á línunni... þar til frostið heggur á hnútinn... og veturinn hefur vinninginn...


Leiðin að baki hér í baksýn... sem og leiðin til baka... á leið upp á Staka hnúk...


Komin innar hér...


Staki hnúkur genginn í annað sinn í sögu klúbbsins og mældist 423 m hár...


Bestu félagar í heimi... konur sem víla ekkert fyrir sér... bros, hlátur og grín alltaf í grennd...


Ha, var vindur ? ... kalt ? ... við heyrðum bara hlátur... sáum bara bros... ræddum svo óðamála létt og alvarleg mál lífsins að veðrið komst ekki einu sinni að...


Eitt af umræðuefnum kvöldsins: Eigum við að safna hæstu fjöllum Evrópulanda með stuttum en mergjuðum ferðum næstu árin ? ... erum búin með nokkur... jebb... gerum þetta... tíminn flýgur... mjög spennandi langtímaverkefni... sem allir geta verið með í...


Það var freisandi að ganga á Stóra Meitil... ég meina, hann blasti bókstaflega við og nánast teygði sig í okkur... en það var tekið að skyggja... og nokkrir kílómetrar til baka eftir í bílana... við ákváðum að halda áætlun... og þegar myrkrið skall á stuttu síðar og vindurinn blés stíft... þá vorum við fegin að vera ekki þarna uppi að þreifa okkur áfram í myrkrinu niður á við...


Leiðin til baka... rúmir 2 kílómetrar yfir lendurnar... gróið hraun að mestu en ótrúlega drjúgt yfirferðar...


Skemmtilegt brölt hér niður...


Greiðfært til baka í ljósaskiptunum...


Brátt húmaði að og nokkrir kveiktu höfuðljósin en flestir slepptu því og nutu glætunnar meðan hún gafst...


Þetta rétt slapp í bílana... alls 7,9 km á 2:59 - 3:01 klst. upp í 423 m hæst með alls 434 m hækkun úr 330 m upphafshæð...

25 views0 comments
bottom of page