top of page

Lakahnúkar um leynidali og lundir

Updated: Apr 25

Æfing nr. 750 þriðjudaginn 11. apríl 2023.


Batman var aftur mættur til leiks eftir smá skróp í síðustu viku út af dotlu... og var samur við sig... dýrkar sinn Kolbein og spurði hann um leið og hann kom út úr bílnum hvort hann væri nokkuð með kleinu :-)


Forréttindi... að geta farið einu sinni í viku á fjall með vinum sínum... að þessu sinni áttum við stefnumót við hnúka sem hafa ekkert unnið sé til frægðar einhverra hluta vegna en laumuðu sannarlega að okkur dýrindis landslagi...


Mun betra veður en spáð var... og áhorfðist þegar keyrt var upp að Hellisheiði með grenjandi rigninguna lemjandi bílinn... nei barasta þurrt og milt og friðsælt veður... sem hélst allt kvöldið... þar til við vorum lögð af stað keyrandi aftur í bæinn... þá lamdi rigningin á bílunum... ótrúlegt alveg...


Fallegt skyggni og friðsælt veður... kyrrðin og samveran var yndisleg... það sem við erum heppin með félaga og samstöðuna innan hópsins...


Við byrjuðum á að ganga upp það sem við höfum hingað til kallað Gráuhnúka... en heita líklega Lakar ef marka má færslu frá Ferlis-mönnun á veraldarvefnum... við ætlum að ganga á það sem við köllum Vestur-Gráuhnúka síðar í sumar... og þá skulum við spá betur í þetta og þá breyti ég tölfræði og skráningu okkar úr Gráuhnúkum í Laka og eingöngu vestustu hnúkarnir á þessu svæði heita þá Gráuhnúkar...


Við viljum endilega hafa þetta rétt og að okkar mati er þetta rökrétt því á svæðinu eru þrjár þyrpingar hnúka... sem heita þá Gráuhnúkar vestastir með Lágaskarðshnúk og Stakahnúk... svo Lakar... og loks Lakahnúkar sem við stefndum á þetta kvöld... en við byrjuðum á að ganga á austasta Lakann... sem er þá fyrrum einn af okkar Gráuhnúkum...


Litið til baka... Stóra - Reykjafell og Skarðsmýrarfjallið hvítt fjær...


Austasti Lakinn (fyrrum Gráihnúkurinn)... sá sami og við fórum á þegar við gengum sjö tinda Meitlagönguna árið 2020... Tindferð 191 sjö tinda ganga um (toppfarar.is)

... en það ár æfðum við sérstaklega langar göngur til að fara Laugaveginn á einum degi sem við gerðum svo í júní það ár og er ein af okkar ógleymanlegustu göngum í sögunni... Tindferð 201 Laugavegurinn á ein (toppfarar.is)


Ágætis gjótur voru á þessari leið og fallegar hraunmyndanir...


Ofan af fyrsta hnúknum blöstu við Lakahnúkarnir sem rísa ílangir frá suðsuðvestri til norðnorðausturs... úr frá Stóra Sandfelli... áður en Hellisheiðin tekur við...


Upp og niður brekkur og hnúka... þessi fallega tjörn varð á leið okkar og sumir í hópnum náðu mjög fallegri mynd af henni...

Lakar þá hér í baksýn og Stóra Reykjafellið hægra megin...


Stóri Meitill hér í baksýn... það er kominn tími á að ganga á Meitlana...


Ílangir Lakahnúkar framundan...


Við hækkuðum okkur og lækkuðum alls átta sinnum þetta kvöld...


Dalirnir milli Lakahnúkana eru mjög fallegir... við lofuðum okkur því að koma hér næst síðsumars með lága sólargeisla á lofti... og engan snjó...


Snjóhengjan þarna efst á mynd... við fórum upp hana... auðvitað... æfa það eins og allt annað á þriðjudagskvöldum...


Mjög falleg leið...


Alls mættir 16 manns... mætingin er frábær á þriðjudögum og búin að vera það í marga mánuði... ólíkt tindferðunum þar sem við erum í erfiðleikum með að halda uppi mætingu... covid... flensan... eða síminn... erfitt að segja hvað veldur en það hafa komið svona tímabil áður í sögu klúbbsins... t. d. eru óskapega fáir að stefna á jökul í vor... nánast enginn nema við 12 sem ætlum á Eystri Hnapp... í gegnum árin hafa alltaf allir verið á leið í einhverja jöklagöngu í maí... svo er ekki nú og erfitt að átta sig á hvað veldur...

Nokkrir í hópnum eru samt að fara mjög spennandi göngur núna i vor erlendis... sú mest spennandi er Jakobsstígurinn alls 800 km á 32 dögum sem Þórkatla er að fara núna í apríl fram í júní... við hlökkum mikið til að fylgjast með þeirri ferð... hún er þá þriðji Toppfarinn sem nær að klára þá göngu í einum rykk... á eftir Birni Matt og Þorleifi... ferðasögu takk !


Gangi þér vel elsku Þórkatla... við verðum með þér í huganum !


Við sem höfum gengið árum saman og erum að eldast ætlum nefnilega ekki að gefa eftir... því við sjáum að um leið og maður fer að gera það... þá eykst sú eftirgjöf mjög hratt... og áður en menn vita af þá eru þeir allt í einu ekki í standi til að taka nánast nokkra einustu göngu... treysta sér ekki lengur í langar göngur... ekki í mjög erfiðar... ekki í krefjandi veður... ekki að vetri til... ekki í myrkri... ekki í langar brekkur... ekki í jöklabroddafæri... ekki svona og ekki hinsegin... það finnst okkur ekki vera í boði ef við eigum jafnvel eftir að lifa í 20 - 30 ár í viðbót og vera í formi til að geta farið út að leika með vinum sínum... eða leikið okkur með barnabörnunum... nei, við ætlum að halda okkur áfram í mjög góðu formi og gefa ekkert eftir...


Alltaf tekst okkur að finna krefjandi hindranir til að yfirstíga... á alsaklausum leiðum... sem gapa af undrun yfir leiðarvali akkúrat upp þessa snjóhengju... en einmitt þannig æfum við lausnir en ekki hindranir... tækifæri en ekki vandamál... getu... sjálfstraust... staðfestu... styrk... sem stígar og troðnar slóðir æfa okkur ekki í...


Mjög skemmtileg leið í gljúpum og viðráðanlegum gömlum snjó...


... og mjög hollt og gott... fyrir utan að vera skemmtilega krefjandi...


Hæsti Lakahnúkurinn mældist 413 m hár þetta kvöld... Hellisheiðin hér framundan...


Við tókum nestispásu neðan við hann á leið á þyrpinguna sem er nyrst í röðinni...


Dásamlegt að fá vorið og friðsældina og dagsbirtuna og sumarfærið... þetta er uppáhaldstími margra okkar... betri en sumarið... allt að kvikna og verða bjart og létt og auðvelt...


Takk fyrir vorblíðuna sem nú tekur svo hlýlega og mjúklega við okkur #Þriðjudagsþakklæti


Brosandi andlit í mosanum... sem hvíslaði að hérna væri orkan... heilunin... hugræktin... líkamsræktin... ekki á malbikinu... í borginni... á veraldarvefnum... í símanum... sem er óðum að bræða í okkur heilann... fletja hann út og móta svo ekki verður aftur snúið... ef við gætum okkar ekki... og förum út og núllstillum okkur... frískum okkur við... upplifum náttúruna... þaðan sem hugmyndir streyma fram... orka... og heilun...


Eftir nestið gengum við á nyrstu Lakahnúkana...


Þaðan sem við tókum mynd af dalnum sem liggur milli þessara ílöngu Lakahnúka sem rísa syðst... með Stóra Sandfellið úti í enda... og Stóra Meitil hægra megin...


Guðmundur Jón, Steingrímur, Siggi, Þórkatla, Linda, Johan, Öyvind, Örn, Batman, Agnar, Sjöfn Kr., Kolbeinn, Þorleifur, Halldóra Þ., Jaana og Katrín Kj. en Bára tók mynd...


Niður af þessum yfir á tvo aðra áður en við héldum til baka...


Þriðjudags... ein í heiminum... ný leið... óþekkt fjöll... áttun á landslagi út frá kortum... mun betra veður en áhorfðist... uppgötvun á dölum, gígum, fjallsásum og hrauntröðum... tilraunakennt leiðarval... sæla í sál og líkama...


... snortinn og þakklátur á heimleið þremur tímum síðar... "við verðum að fara þennan hring aftur og þá öfuga leið, þessi dalur nýtur sín betur þannig"... nú vitum við hvernig þarna er umhorfs... tilhlökkun fyrir næstu ferð... sterkari og sælli eftir gefandi samveru göngufélaganna... ekta... þriðjudags...


Leiðin til baka frá síðasta gígnum... Lakar þá hér framundan en ekki Gráuhnúkar...


Takk fyrir okkur Lakahnúkar...


Greitt úr spori þennan kafla og spjallað á leiðinni... eitt það besta við göngurnar... ekki skrif undir færslur á samskiptamiðlum... heldur samræðum þar sem svo langtum meiri upplýsingar, blæbrigði og innihald kemur fram en í skrifuðum setningum...


Litið til baka... farið að þyngjast yfir en við vorum mjög heppin með veðrið þetta kvöld... sem var mun betra alla gönguna en á akstri til og frá...


Kvenþjálfari datt í nöldurgírinn og benti á þessi rör og sagði að þetta væri gott dæmi um afhverju setja ætti mannskepnuna frekar í band en hunda... hundarnir lifa í takt við náttúruna... en maðurinn valtar yfir hana með varanlegum skemmdum eins og þessum... jú, jú, við þurfum heita vatnið og rafmagnið og allt saman... en höfum við rétt á að banna öðrum skepnum jarðarinnar að umgangast náttúruna á meðan við völsum um allt... ? ...hundarnir spora ekki út stíga... skilja ekki eftir rusl... menga ekki umhverfið með verksmiðjuframleiddum efnum... né breyta varanlega landslaginu...


Yfir ásinn í norðurhluta Laka niður að bragganum þar sem bílarnir biðu okkar...


Stóra Reykjafell hér handan við þjóðveg 1 yfir Hellisheiðina...


Gamalt skátaheimili Dalbúa... sláandi að sjá niðurníðsluna... nú hanga allir í símanum og nenna sko ekki svona veseni... hita vatn yfir gasi og spila á spil... held nú ekki... jæja... meira hvað ritarinn nöldrar í þessari ferðasögu, ha, ha, uss... hættu þessu nöldri... það eru bara breyttir tímir :-) Allt í lagi, ég skal hætta þessu... þar til ég byrja næst :-)


Vorið er komið... sumarið er mætt... nýjar spírur í sinunni að kvikna... við fengum aukaslag af gleði...


Hiti rjúkandi upp úr hrauninu... bullandi jarðhiti hér... hér gæti vel gosið eins og á Reykjanesi... eitthvað segir manni að það muni gjósa nær Bláfjöllum og Henglinum og jafnvel Hafnarfirði næst... þessi goshrina er líklega rétt að byrja og aldrei að vita hvar gýs næst...


Alls 6,8 km á 2:51 klst. upp í 413 m hæð með alls 376 m hækkun úr 332 m upphafshæð...