Litla Hekla og Feðgar á slóðum Heklu um páska #Hekluslóðir
- Bára Agnes Ketilsdóttir
- Apr 23
- 3 min read
Tindferð nr. 330 föstudaginn langa 18. apríl 2025

Páskarnir 2025 voru með eindæmum veðurblíðir í sól og jú ísköldum vindi til að byrja með en á hádegi á föstudaginn langa skall á með dásamlegu logni sem við gripum feginshendi og skelltum okkur í könnunarleiðangur sem hefur verið á listanum lengi… á svörtu bunguna sem rís beint undir tindi Heklu…
Grátlega fáir gátu mætt en þjálfarar komust og ákváðu að láta slag standa þar sem við vitum ekkert hversu mörg ár við höfum í viðbót á fjöllum… og enduðum við á að vera eingöngu sex manns… en dásamlegt var það og kom leiðin virkilega á óvart… farið var frá námusvæðinu þar sem við vorum að eltast við brúna sem liggur yfir Ytri Rangá á Hellismannaleið og reyndist þetta svo góð leið að við erum að gæla við að gera nýja leið á Heklu frá þessum stað… en við fórum milli Norðurbjalla og Suðurbjalla á gullfallegri leið… þar sem sjá mátti jökul undir sandinum í rúmlega 300 m hæð… og fundum ágætis leið yfir hraunið þar sem við þurftum þó að snúa við á einum stað og velja minna úfna leið…
Sandbrekkan upp Litlu Heklu er aflíðandi og örugg og var öll í snjó efsta hlutann en við freistuðumst til að velja hana þar sem hún blasti við neðan frá frekar en að fara upp suðurhlíðarnar sem voru án efa mýkri í snjónum en þessi sem við fórum… en allt slapp þetta vel á keðjubroddunum sem dugðu vel á þessari leið á þessu snjólausa vori…
Uppi var mælivirki sem var áhugavert að sjá en þau reyndust fleiri á svæðinu á þessari leið auk þess sem við sáum nýleg jeppaför neðan við Litlu Heklu en þó urðum við ekki vör við neinar mannaferðir þennan dag…
Við ákváðum að prófa að þræða okkur niður á sandöldunum milli Heklu og Litlu Heklu norðan megin og reyndist það fínasta leið en talsverðum bratta sem reyndi aðeins á þar sem við vorum ekki með jöklabroddana meðferðis en hlýindin og snjóleysið er með ólíkindum þetta árið svo þetta gekk eins og í sögu og megum við ekki gleyma rennibrautinni okkar neðarlega í stóra gilinu sem var ansi hörð og skemmtileg 😊
Þegar niður var komið reyndum við að halda okkur á sandinum og lenda ekkert í hrauni og tókst það vel og við enduðum á að fara upp á einn móbergstindinn sem tilheyrir Feðgum og er hluti af löngum móbergshrygg sem liggur að mestu undir Hekluvikri og eingöngu efstu tindar standa upp úr… magnað náttúrufyrirbæri sem var sérlega gaman að ganga á og upplifa…
Þarna voru fleiri mælar og var leiðin eftir þetta greiðfær á sandi og vikri en okkur tókst að flækja aðeins bakaleiðina með því að fara upp suðurtaglið á Norðurbjöllum sem skreytti auðvitað bakaleiðina og gaf allt aðra upplifun en á innleið…
Virkilega skemmtileg og falleg leið sem koma á óvart og einn af dýrmætum könnunarleiðöngrum sem við höfum farið... nú söfnum við og skráum alla fjallstinda í kringum Heklu undir nafninu #Hekluslóðir en innblásturinn er frá FÍ-bókinni 1995 sem heitir “Á Hekluslóðum” en bókin sú gaf okkur heilmikinn fróðleik sem gæddi gönguna meira gildi og hjálpaði okkur betur að átta okkur á hvað beið okkar í þessum könnunarleiðangri. Takk fyrir það FÍ.
Alls 20,8 km á 7:39 klst. Upp í 972 m hæð á Litlu Heklu og 508 m á Feðgum með alls 1.207 m hækkun úr 195 m upphafshæð.
Ljósmyndir úr ferðinni hér og nafnalistin undir hópmyndinni á Litlu Heklu og Feðgum en því miður leyfir Wix-forritið ekki að ég skrifi almennilega ferðasögu með texta undir hverri ljósmynd þar sem það er svo hægt í vinnslu og tekur margar sekúndur að skrifa hvert orð en ef það lagast þá skrifa ég betri ferðasögu… því þessir könnunarleiðangrar eru ómetanlega dýrmætir og ástæðan fyrir því að við erum ennþá að eftir 18 ár með Toppfara:





















































































Jón Odds, Fanney, Baltasar, Örn, Sjöfn Kr., Aníta, Batman og Bára tók mynd :-)

































































































































































Magnaður könnunarleiðangur, takk innilega elskurnar fyrir að slá til og mæta því annars hefði þessi dagur ekki orðið að veruleika !
Myndbandið úr ferðinni hér: Litla Hekla og Feðgar 18. apríl 2025 #Hekluslóðir
Comentarios