top of page

Litli Meitill í logni og fannfergi

Miðvikudagsæfing 16. febrúar 2022 nr. 691.


Óvenju mikið fannfergi og illviðri hafa einkennt febrúar mánuð og þriðjudaginn 16. febrúar var ljóst að það gæti verið flókið að leggja nokkrum bílum við fjallsrætur Litla Meitils... en það var ágætis pláss fyrir nokkra bíla við rætur Litla Meitils... og eftir að Kolbeinn hafði dregið þjálfarabílinn upp úr skafli hinum megin vegarins... af því við héldum að þar væri betra að keyra út af þjóðveginum... lögðum við af eftir eina góða sólgleraugnahópmynd framan við fjall kvöldsins... engin sól en algert logn og fallegt veður... og dagsbirta... dásamlegt...


Það var miðvikudagskvöld þar sem þjálfarar lentu loksins í covid-hrammnum og Örn losnaði úr smitgát þennan dag og fyrri þriðjudagur hafði fallið niður vegna covid-ástands á heimili þjálfara... og við gátum ekki hugsað okkur að láta covid taka af okkur tvö þriðjudagskvöld svo lendingin var að færa gönguna fram um einn dag þar sem Örn yrði þá laus úr smitgát en Bára var óviss með að mæta vegna veikindanna...


Mættir 12 manns þetta kvöld... mörg hver fersk úr göngunni frá Bláfjöllum í Sleggjubeinsskarð um nýafstaðna helgi og í sæluvímu með gullfallegan dag...


Sérstakur blámi lá í fjarska þetta kvöld... hér niður að sjó við suðurstrandaveg...


... og hér til suðurlands þar sem Skálafell á Hellisheiði trónir þarna fyrir miðri mynd en við sáum glitta í Tindfjallajökul og Eyjafjallajökul í snjóþokunni...


Ljósin í Grindavík bak við hópinn...


Leiðin upp á Litla meitil er í aflíðandi hjöllum og efsti hjallinn á hæsta tind er hér...


Leiðin upp var á þunnu lagi af snjó ofan á möl og grjóti... engin snjóflóðahætta hér en þjálfarar höfðu áhyggjur af brekkunni norðan megin og giljunum niður að Votabergi þar sem búast mátti við mikilli snjósöfnun þar...


... og það var og... en niður norðan megin var farið með grjótinu og áhyggjur af snjóflóðahættu reyndust óþarfar...


Farið að rökkva á leiðinni til baka... mjög fallegt veður...


Einstök birta í ljósaskiptunum... birtan frá Grindavík að lita himininn...


Um leið og maður kveikir á höfuðljósunum... missir maður skyggnið fjær...


... og myrkrið tekur yfir allt sem ljósgeislinn nær ekki að skína á...


Leiðin til baka er um gilin ofan við Votaberg... við héldum okkur við grjótið á leið niður og ekki í miðjum giljunum...


... fyrr en við vorum komin niður... mjög mikið snjómagn og gangurinn þungur...


Örninn fremstur og hvílir sig hér þar sem fannfergið var ansi mikið...


Litið til baka... hnédjúpur snjór á láglendi á þessari leið...


Smá brekka hér en hallinn lítill...


... og síðasta brekkan... grjótið stóð alls staðar upp úr og engin hætta á snjóflóðum... en Veðurstofan varaði sérstaklega við snjóflóðahættu þessa vikuna þar sem mikið snjóaði dögum saman á suðvesturhorni landsins...


Leiðin til baka eftir Litla meitli var krefjandi og seinfarin í þungum snjó alla leiðina í bílana...


Votabergið var kyngimagnað ! Við vorum svo þreytt á snjónum að við nenntum ekki að ganga alveg upp að því...


Létum okkur nægja að horfa á það úr fjarlægð... risavaxin grýlukerti á þessum dökka svala vegg mitt í öllum hvíta snjónum...


Hundurinn Batman sporandi allt út og ekkert að spara orkuna...


Við spjölluðum okkur í gegnum þennan erfiða kafla... og spáðum í það hvenær við stóðum í öðru eins snjómagni... jú... í mars 2020... þegar fyrsta covid-hópmyndin var tekin með 2ja metra fjarlægð milli manna... þá vorum við saklaus og vissum ekkert hvað beið okkar með þennan faraldur...


Uss... þetta fannfergi... ekkert smávegis !


Loksins komin í bílana... þeir voru kærkomin sjón... þetta var mun erfiðari ganga en við áttum von á... tveir nýliðar mættir... Anna Berglind og Vignir sem fengu aldeilis eldskírn þetta kvöld !


Litið til baka eftir fjallinu og leiðinni niður gilin og í snjónum á láglendinu til baka... stutt og létt ganga svona almennt... en ekki þetta kvöld... þessi var erfið !


Alls 6,1 km á 2:22 klst. upp í 476 m hæð með 369 m upphafshæð úr 207 m upphafshæð...


Hörkukvöldganga sem gaf mikið og var alvöru snjóæfing !


Þar sem mikið er rætt um snjóflóðahættu þessa dagana minni ég á þessa samantekt hér af snjóflóðahættumats-námskeiði sem Jón Heiðar bauð okkur upp á fyrir nokkrum árum og var ótrúlega lærdómsríkt:43 views0 comments

Comments


bottom of page