top of page

Lyklafell í ljósaskiptum og logni

Æfing nr. 726 þriðjudaginn 18. október 2022.


"Æfing í leiðindum" grínuðumst við með í byrjun æfingar... í anda humorsins eftir Þrasaborgir um daginn sem voru líklega sísta gönguleið sem þjálfarar hafa boðið hópnum sínum upp á... nei... við ákváðum að vanvirða ekki þetta fallega fell... sem lætur jú lítið yfir sér þarna eitt og ósköp fyrirferðalítið á heiðinni milli Nesjavallaleiðar og Suðurlandsvegar, Hellisheiðar og borgarinnar... en leynir ágætlega á sér þegar nær er komið...


Peysan sem Jóhanna Fríða vígði á Þrasaborgum um daginn var úr smiðju Katrínar Kjartansdóttur prjónameistara... og þessir vettlingar líka... blái þumallinn á vinstri hendi til að gæta jafnræðis auðvitað... mjög fallegir og hreinræktaðir riddara-vettlingar ! Virkilega vel gert !


Blíðskaparveður var þetta kvöld... algert logn og skýjað... svo mikill friður að hann var áþreifanlegur... þrátt fyrir umferðina um Suðurlandsveg sem við urðum einhvern veginn ekkert vör við... svo margir gengu á peysunum sínum og ekki í jakka... það kallaði á prjónapeysumynd... af riddurunum og vinum þeirra...


Mjög flottar peysur og mjög gaman að sjá þær svona saman... næst skulum við raða öllum í landslagi í fjallinu svo hver peysa fyrir sig fái notið sín... það er lúmskt flókið að ná góðri riddarapeysumynd...


Magga Páls og Sigríður Lísabet mættu í nýjum riddarapeysum... virkilega fallegar svo erfitt var að hafa augun af dýrðinni... mjög gaman að sjá litavalið hjá báðum og hvernig peysan hennar Möggu kemur öðruvísi út af því sterkum og mildum litum er raðað öðruvísi... og eins að sjá aukalitinn hjá Sigríði Lísabetu... það brýtur mikið upp í peysunni... líklega er Lilja Sesselja sú eina sem hefur sett fleiri liti í peysuna sína en uppskriftin leggur upp með fyrir utan svo þessa... svo skemmtilegt að brjóta þetta upp í alls konar tilbrigðum...


Magga Páls annars að koma eftir nokkuð langt hlé og henni var ákaft fagnað af hópnum...


Lyklafellið að nálgast hér... mjög lítið að frétta af allir leiðinni að fellinu... þess vegna varð okkur á að bera það saman við Þrasaborgir... en þetta er skemmtileg ganga engu að síður... og útiveran þetta kvöld var algert yndi í logninu...


Smávegis brekka svo upp fjallið að vestanverðu...


En ofar er stígur sem liggur til suðurs að Suðurlandsvegi en frá þeim stað er ekki gott að ganga þar sem flókið er að koma mörgum bílum á afleggjarann af hraðbrautinni og þarna liggja rafmagnslínur og önnur mannvirki á leiðinni sem spilla upplifuninni af þessari heiði sem nýtur sín mun betur frá Nesjavallaleið...


Litið til baka... sjá stíginn sem liggur svo til suðurs að Suðurlandsvegi...


Uppi á tindinum var tekið að skyggja... meira en þessi mynd segir til um... myndavélin er ansi ljósnæm... og það var ráð að ná í höfuðljósin fyrir bakaleiðina...


En fyrst var að ná hópmynd fyrir myrkur... og fá sér nesti...


Alls mættir 31 manns hvorki meira né minna... sem var mjög heilandi sárabót eftir eingöngu 8 manns mætta í rigningunni fyrir viku síðan...


Efri: Örn, Agnar, Arnór, Kristín H., Dina, Steinunn Sn., Jóhann Ísfeld, Vilhjálmur, Jóhanna D., Guðmundur Jón og svo Edwin og Inga Guðrún standandi fyrir framan.


Neðri: Jóhanna Fríða, Kristín Leifs., Hlökk, Birgir, María Harðar, Linda, Þórunn, Dagbjört, Sigríður Lísabet, Þórkatla, Sjöfn Kr., Johan, Gylfi, Siggi, Jórunn Ósk, Magga Páls, Jaana og Katrín Kj. en Bára tók mynd og hundarnir Batman, Gotti, Bónó og Moli ærsluðust með...


Við leituðum skjóls fyrir léttri golunni uppi á tindinum fyrir nestispásu í ljósaskiptunum...


Fallegt og notalegt undir efsta kletti Lyklafells...


Nesjavallaleið hér í fjarska...


Litið upp eftir...


Hengillinn og Hellisheiðin og umferðin um Suðurlandsveg niður af henni hér í fjarska þar sem við lögðum í hann niður norðan megin á leið til baka...


Einstaklega falleg birta skreytti bakaleiðina...


Mikið spjallað og yndislegt að ná svona góðri göngu í þessu veðri...


Sjá birtuna sem varpast af borgarljósunum til skýja á himnum...


Á hverju hausti öll þessi sextán ár kviknar uggur í brjósti þegar fer að myrkva á kvöldin... þó svo við vitum af fenginni reynslu að myrkrið og veturinn hafa sína töfra... ... svo komumst við að því að þetta er allt í góðu... sterk nálægð náttúrunnar er ekki síðri og gefandi útiveran enn dýrmætari en á sumrin... því annars hefðum við bara lokað okkur inni í húsi í borginni... og misst af nærandi töfrunum sem eru þarna úti öll kvöld... ef maður bara reimar á sig skóna og leggur af stað...

Pant ganga á fjöll allt árið um kring... og upplifa ljósaskipti... sumarbirtu... kvöldsól... myrkur... stjörnhvolf... tunglsljós... logn... snjóstorm... rok... slagveður... sólskin... eða bara skýjað hæglætisveður eins og þetta kvöld...


Alls 6,9 km á 2:24 klst. upp í 292 m hæð með alls 176 m hækkun úr 223 m hæð...


Yndisganga með meiru... frábær mæting... mikil heilun... ómetanlegt !

76 views0 comments
bottom of page