Lónsöræfi með Ásu og Jóni Braga
- Bára Agnes Ketilsdóttir
- Aug 13
- 4 min read
Tindferð nr. 857 fimmtudaginn 24. júlí til sunnudags 27. júlí 2025

Haustið 2024 þegar þjálfarar báðu klúbbmeðlimi um að óska eftir fjöllum og gönguleiðum sem þeir vildu að yrðu sett á dagskrána, þá voru nokkrir sem nefndu Lónsöræfi. Vegna þessa og fjölda áskorana í gegnum árin, þá ákváðum við að biðja Ásu og Jón Bragason um að taka að sér þessa ferð fyrir klúbbinn sumarið 2025 án þjálfara, þar sem Lónsöræfin voru gengin í ágúst árið 2016 í magnaðri ferð sem aldrei gleymist en þá var einmitt Jón leiðsögumaður ferðarinnar og Bára hélt þá utan um hópinn en Örn var að vinna. Tindferð Lónsöræfi 4ra daga fer

Ása og Jón gripu boltann á lofti og lögðu fram magnaða ferð nú árið 2025 á svipuðum nótum og árið 2016 og heppnaðist þessi ferð mjög vel, en fáir voru þó Toppfararnir sem mættu því miður, eða alls fimm og duttu þó nokkrir út dagana fyrir gönguna sem var grátlegt en þau sem mættu voru þó fimm manns; Ása fararstjóri, Björg, Gerða Fr., Björg, Guðný Ester, og Kjartan Rolf:

Sjá hér textalýsingu Ásu eftir ferðina:
Lónsöræfisferð Toppfara 2025.
"Eins og allir vita sem fylgjast með þá vorum við Jón beðin um að græja ferð í Lónsöræfi fyrir Toppfara. Þegar skráning fór af stað var ljóst að Tf myndu ekki fylla öll sætin og var boðið uppá að það mætti taka með sér gesti.

Við enduðum á að vera í allt 17 manns, þar af 5 Tf, þar af 3 virkir plús Toppfarahundurinn Myrra.
Ég bauð vinum mínum úr Ameríkuhreppi með (þau kjósa aldrei Trump og vilja að allir viti það).

Hópurinn var flottur og vann vel sem hópur alla ferðina.

Á fimmtudeginum var hist í Lóni kl 18.00 þar sem fyrirtækið Glasierjourney flutti okkur yfir Skyndidalsánna og að Illakambi. Svarta þoka var á Kjardalsheiðinni og ekkert útsýni. Við röltum frá Illakambi að Múlaskála og skellti ég í kjötsúpu sem var tilbúin um hálftíu.
2,8 km,, um 200 m lækkun.

Föstudagurinn heilsaði okkur með fínu gönguveðri en ekki nægu útsýni fyrir Sauðhamarstind, svo stefnan var tekin á Tröllakróka. Tröllakrókar er svo ótrúleg náttúrusmíð að myndir eða lýsingarorð ná ekki á nokkurn hátt að skila því sem að vera þarna skilar.

Við ákváðum svo að skella okkur á Tröllakrókahnaus en þaðan getur verið ótrúlegt útsýni, við fengum vissulega útsýni en ég hef verið með betri sýn í allar áttir þarna.

Það var svo tekinn smá krókur á heimleið til að taka kaffipásu þar sem við sáum niður í Víðidal. Jón sagði sögu byggðar þar meðan fólk fyllti á tankinn.

Þarna uppgötvuðum við að tíminn hafði aðeins hlaupið frá okkur og því hlupum við Jói niður í skála, á Milli gilja og náðum að vera rúmum 1,5 klst á undan hópnum, en það þurfti að skella lærunum á grillið sem fyrst.
Rétt um 19 km og 840 m hækkun.

Laugardagurinn mætti með bjart veður og lögðum við af stað á Sauðhamarstind og gekk bara vel.

Þegar um hálftíma ganga var eftir á hærri tindinn brast á með ógeðs veðri, þung rigning og haglél.

Fyrst ætluðum við að skipta liði og Jón að taka þá sem vildu á lægri tindinn og ég að snúa við. Meðan fólk var að ákveða hvort það vildi, herti svo a rigningu, hagli, vindi og þoku að ákveðið var að snúa við með alla.

Niðurleiðin gekk hægt en vel og eftir um klst stytti upp og blíðan tók við okkur og topparnir glottu til okkar.

Við tókum góðan tíma á leiðinni til að skoða Víðagil og Kambagil. Aftur náttúrusmíði sem erfitt er að lýsa.
15.6 km 1100 m hækkun.

Heimferð var á sunnudeginum og gengum við hefðbundna leið frá Múlaskála, niður Kambana og biðu bílarnir eftir okkur við Stórahjalla til að flytja okkur yfir Skyndidalsánna og að bílunum.
12 km 620 m hækkun.

Hjá okkur Jóni þá gengur hann alltaf fyrstur og ég öftust og því eru myndirnar oftast af afturenda göngufélaganna. Jón er ekki mikið fyrir að taka myndir.

Við þökkum fyrir frábæra ferð og það traust sem okkur var sýnt með að biðja okkur um þessa ferð."

---------------------------------------- Frásögn lýkur -----------------------------------------
Frá þjálfara: Við þökkum Ásu og Jóni kærlega fyrir þessa snilld !
Lónsöræfin hafa nú verið gengin tvisvar í sögu klúbbsins og bæði skiptin með frábærri leiðsögn Jóns Bragasonar og við látum því hér við sitja og leyfum minningunum að lifa og ljóma út ævina...
Ferðasagan af Toppfaragöngunni um Lónsöræfi 11. ágúst 2016 hér - þar sem við gengum frá Illakambi í Múlaskála á degi eitt, fórum í Tröllakróka á degi tvö, á Sauðhamarstind á degi þrjú og aftur til baka á Illakamb á degi gjöfur þar sem við keyrðum svo niður eftir, en í þessari ferð árið 2025 var gengið niður eftir á degi fjögur:
Sjá ferðir Ásu og Jóns Braga (ÁSJÓ - göngur) á fésbókinni en þau hafa farið með félaga sína í margar magnaðar ferðir í gegnum árin: (7) ÁSJÓ-göngur | Facebook
Comments