top of page

Mögnuð fegurð um Bláfjallahrygg, Kerlingarhnúk og Heiðartopp í sól, snjó, heiðskíru og ískulda.

Æfing nr. 743 þriðjudaginn 21. febrúar 2023.


Örn bauð upp á ægifagra æfingu á afmælisdegi kvenþjálfarans sem lá lasin heima með flensu þriðjudaginn 21. febrúar um töfrandi fagurt baksvið Bláfjalla... heim sem gönguskíðamenn sem taka stóra hringinn fá að upplifa á hverjum vetri... en fáir aðrir fá nokkurn tíma innsýn inn í...


Gengið var frá efra bílastæði skíðasvæðisins... því sama og gönguskíðamenn nota og þeir sem fara í Suðurgil Bláfjalla og haldið beint upp á suðurtagl Bláfjallahryggjar... með gönguskíðasvæðið á hægri hönd niðri... og svigskíðalyftur og brekkur á þeirri vinstri...


Veðri allt annað en vikuna áður á Þorbirni þar sem var auð jörð, hlýtt og jú dagbjart fram alla gönguna nema bakaleiðin neðan við fjallið... nú var frost, ískuldi með gjólunni efst, snjór yfir öllu en sólin enn á lofti og því var umhverfið allt töfrum líkast...


Útsýnið var eftir því alla leið til jökla í fjarska, sjávar í suðri og fjallanna nær... Ingólfsfjallið þarna fjær... Geitafellið er hér hægra megin snævi þakið... einstakt að fá alla þessa yfirsýn yfir Bláfjallasvæðið og undirlendið alla leið til sjávar og yfir á Reykjanesið og jú til borgarinnar... sama útsýnið og svigskíðamenn njóta og hefur gefið okkur mörgum einstök kvöld og einstakar helgar í gegnum árin...


Að þessu sinni þræddum við okkur ekki upp með Bláfjallahrygg til norðurs þar sem skíðasvæðið var í fullri starfsemi... og áðum hæstu hæð kvöldsins engu að síður... 667 m... síðast vorum við hér í maí og þá var ennþá verið að skíða... en fyrirgefanlegra að gönguhópur færi um í jaðri skíðabrautarinnar... þjálfarar mátu það svo að í febrúar væri betra að halda sig við suðurtaglið og fara niður þar til óbyggðanna... enda mun styttri tími í dagsbirtu og þess virði að nýta hana á hinum tindum kvöldsins...


Sýnin yfir á Reykjanes... sólin enn á lofti... ómetanlegt eftir myrkur á þriðjudagskvöldum frá því í nóvember...


Brekkan niður af Bláfjallahrygg var í þykkum snjó og góðu færi... þetta átti upphaflega að vera jöklabrodda- 0g ísaxaræfing en þar sem eingöngu einn þjálfari var mættur þá ákváðum við að láta göngu nægja...


Sólin sest og húmið lagst að... en í svona heiðskíru nýtur birtu í klukkutíma eftir sólsetur sem er mikils virði... ef við myndum breyta klukkunni... þá myndum við missa heilan klukkutíma af birtu á þriðjudagskvöldum... sem er ástæðan fyrir því að útivistarfólk er almennt á móti breytingum á klukkunni... þetta snýst um meira en að grilla á kvöldin...


Frábær mæting... alls 17 manns... mjög lítill áhugi á göngu síðasta föstudag þegar loksins kom gott veður, sól og logn... eftir óveður allar helgar í febrúar... svo við náðum því miður ekki að halda úti göngu... sem þýddi að í febrúar var engin tindferð... þetta hefur gerst áður... en við yljum okkur við tvær gullfallegar göngur í janúar á Fagrafell og fossana og svo Vikrafellið í Borgarfirði... eins gott að við fórum þá þó mætingin væri dræm... þau gerast ekki ævintýrin nema mæta... og það á sannarlega við um þriðjudagana... þeir eru enda heil veisla... hver einasta ganga...


Tvö Hraungöt urðu á vegi okkar þetta kvöld... það fyrra var á tindi tvö... Kerlingarhnúk... í 660 m hæð...


Mættir voru: Birgir, Dina, Guðmundur Jón, Gustav, Jaana, Johan, Jóhann Ísfeld, Katrín Kj., Kolbeinn, Linda, Sigrún Bjarna., Sigurbjörg, Siggi, Silla, Steinunn Snorra., Þórkatla og Örn en Batman og Moli voru hundar kvöldsins... það sem manni þykir vænt um þetta fólk... öðlingar og ljúfmenni öll sem eitt... hvílíkur hópur... hvílík forréttindi...


Ein mikilvæg lexía / lærdómur kom frá Steinunni Snorra á fb - hópi Toppfara eftir kvöldið... ég gef henni orðið: "Mjög gaman að labba í fallegu veðri og dulmögnuðu landslagi. Þurftum því miður að kveðja ykkur á miðri leið þar sem kuldagallinn hans Mola rifnaði upp og var ónothæfur með öllu. Moli er nú vanur ýmsu úr Toppfaraferðum en eigendur þorðu ekki annað en að snúa til byggða og koma Mola í skjól. Þetta atvik kennir okkur að taka aukabúnað fyrir Mola einsog okkur. Enn takk enn og aftur fyrir skemmtilega göngu kæru Toppfarar. Moli biður að heilsa :-) ".


Meira að segja skýin vísuðu för þetta kvöld... stundum fáum við náttúruna með okkur í lið... framundan var Heiðartoppur ofan af Kerlingarhnúk og örin fór ekki á milli mála...


Bláfjallahryggur með ljósin fyrir skíðafólkið vinstra megin... og Kerlingarhnúkur hægra megin að baki hópsins... Guðmundur Jón, Johan og Gustav...


Það var sko skeggrætt þetta kvöld :-) :-) :-) Yndisdrengir þessir bræður eins og fleiri nýliðar síðustu mánuði... og við ljónheppin að fá þá inn í okkar ráðir...


Linda er ein af ötulustu vinafjallsgöngumönnum Toppfara... magnað að fylgjast með henni og fleirum... einmitt svona á að gera þetta... ekkert væl... bara heimsækja vinafjallið sitt í hverri viku og halda sér í topp fjallgönguformi allt árið um kring... og njóta þannig allra löngu dagsgangnanna sem bíða okkur í vor og sumar... og í vetur ef menn leggja í hann þrátt fyrir kulda, snjó og lítið birtustig...


#takk fyrir snjóinn... sem gefur greiðfærar öldur yfir úfið landslag... slær töfrum yfir óbyggðirnar... gefur birtu í ljósaskiptunum... vísar veginn í myrkrinu... #þriðjudagsþakklæti


Já, það var stuð... og nóg að gera við að fanga fegurðina og upplifa töfrana í hverju skrefi þetta kvöld...


Heiðartoppur framundan... skýin sáu til þess að við villtumst ekki... eða, jú, allt í lagi... gps-punkturinn frá fyrri ferð var víst aðalmálið... hér liggur gönguskíðabrautin hin lengri... og fólk var að skíða þetta kvöld um allt... mikill fjöldi fólks og bílatæðið pakkað...


Kolbeinn... einn af öðlingum klúbbsins... hlýja í hjartað og þakklæti... ein saklaus þriðjudagsæfing í febrúar... er veisla... #þriðjudagsþakklæti


Ótal þriðjudagskvöld hafa gefið okkur ólýsanlega töfra... orku náttúrunnar beint í æð... heilun á sál og líkama... svo maður kemur snortinn og ekki samur aftur heim... og enginn skilur nema þeir sem voru á staðnum...


... þess vegna höldum við áfram að ganga öll þriðjudagskvöld allt árið um kring... núna sautjánda árið í röð... af því þetta kvöld gaf allt annað en þriðjudagskvöldið í síðustu viku sem var fullt af vori, dagsbirtu og auðri jörð í klettaklöngri Þorbjarnar við Grindavík...


... á meðan þetta kvöld gaf bleikt sólarlag á endalausum snjóöldum langt frá byggð í ískulda og áhrifamiklum ljósaskiptum... #þriðjudagsþakklæti


Seinna hraungat kvöldsins var í klettunum á leiðinni á Heiðartopp... við höfum ekki séð það áður... en hitt er búið að koma við sögu allavega tvisvar í sögunni... magnað !


Heiðartoppur var handan viðn hornið og mældist 634 m hátt...


Uppi á honum söng hópurinn afmælissönginn fyrir Báru þjálfara sem lá sárlasin heima... sá söngur yljaði svo sannarlega hjartað mitt... og gaf mér bataorku... í flensu sem fellir ansi margan manninn þessar vikurnar... þessi vetur er líklega ekkert verri en allir hinir... við erum bara svo fljót að gleyma... í fyrra tók covid sinn lokadans og smitaði nánast alla sem ekki höfðu þá þegar smitast svo í kjölfarið féllu allar samkomutakmarkanir úr gildi og við gátum farið að lifa eðlilegu lífið aftur... ótrúlegt tímabil sem við höfum lítið viljað rifja upp ennþá... verum þakklát... svona kvöld eru langt í frá sjálfgefin... hvað varðar heilsu, svigrúm og getu... Alls 7,0 km á 2:22 klst. upp í 667 m hæð með alls 370 m hækkun úr 512 m upphafshæð...


Takk... fyrir að mæta... fyrir að halda þessum klúbbi gangandi... fyrir að vera góð hvert við annað... glöð að sjá félagana... heilsa þeim, knúsa, hrósa og hvetja... þannig verðum við sterkari... og upplifum ævintýri og afrek sem annars hefðu aldrei orðið... það þarf ekki annað en staldra aðeins við og líta til baka yfir sögu klúbbsins... vá, hvað við höfum afrekað og upplifað margt... verum ánægð, kærleiksrík og þakklát... þá gerast töfrar !38 views0 comments

Comments


bottom of page