Rjúpnafell og Tindfjallahringur í Þórsmörk í einstöku landslagi og útsýni.
Tindferð nr. 448 laugardaginn 11. júní 2022.

Það viðraði vel þriðja laugardaginn í röð þann 11. júní og við náðum að halda Þórsmerkurferðinni sem var á dagskrá... og kynnast loksins hinu ægifagra Rjúpnafelli sem kallað hefur hátt til okkar árum saman hvar sem við höfum gengið eða keyrt alls staðar um Mörkina og Fjallabakið síðustu ár...

Lítill áhugi var á þessari ferð til að byrja með og því afpöntuðum við rútuna en á endanum urðum við 28 manns hvorki meira né minna á fimm jeppum... færri jeppar í klúbbnum en áður fyrr og flóknara að halda úti hálendisferðum þar sem jepplingar komast ekki... en vonandi annað hvort náum við nægum fjölda í rútu fyrir þessar ferðir eða fleiri eignast jeppa í klúbbnum...

Akstursleiðin inn eftir Þórsmörk var saklausari en við áttum von á... lítið í ánum og akstur greiður... oog landslagið stórkostlegt alla leiðina... þetta er einn af kostunum við jeppaferðirnar... aksturinn gefur jafn mikið og gangan... en í rútu missum við svolítið tengslin við leiðina þar sem enginn þarf að huga að vatnsföllum og leiðarvali og færð... heldur sitjum við inni í lokuðum heimi rútunnar og tökum einhvern veginn minna eftir því var verið er að keyra...

Áhrifin af því að aka inn í Þórsmörk verða engu minni eftir því sem árin líða og skiptunum fjölgar... ef eitthvað er áttar maður sig enn betur en nokkurn tíma á því hversu mikil listasmíð þessi náttúruperla er... hingað hafa alls ekki allir komið... og eiga mikið eftir þar til þeir kynnast þessum einstaka stað...

Við vorum á því eftir þennan dag að hingað eigum við sem fjallgönguklúbbur að koma á hverju ári og ganga... og því bætum við nú við safninu #Þórsmerkurfjöllin...

Komin á áfangastað við Álfakirkju... með Eyjafjallajökul í baksýn... og nýja bílinn þeirra Dodda og Njólu að koma inn... hybrid-jeppi sem kemst yfir vatnsföll... rafmagnsbílarnir eru að þróast hratt og farnir að verða að jeppum... sem þýðir að möguleikar okkar sem jeppakeyrandi fjallgönguklúbb eru sífellt að verða betri...

Við lögðum bílunum við Álfakirkju gegnt Langadal í Þórsmörk þegar um 1,5 km eru eftir inn í Bása...

Alger rjómablíða um morguninn... logn, sól og hiti... og við æfðum þakklætið fyrir atarna... að vera nákvæmlega þarna... á þessum stað á þessum tíma... hvílík verðmæti !
Leiðangursmenn með Tindfjallajökul... Ými og Ýmu í baksýn...
Efri: Vilhjálmur, Þórkatla, Katrín Kj., Linda, Njóla, Maggi, Jaana, Sjöfn Kr., Olav Tombre frá Noregi, Siggi, Birgir, Silla og Oddný T.
Neðri: Jóhanna D., Súsanna, Sigga Sig., Doddi, Sigrún Bjarna., Bjarni, Svala, Guðný Ester, Örn, Ágústa Þ., Gulla og Fanney en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...

Við byrjuðum á að ganga yfir Krossá... á færanlegri göngubrú sem var lögð yfir ána stuttu áður í sumarbyrjun... klukkan 9:57.... heilmiklar tafir á Hvolsvelli þar sem fimmta jeppann vantaði en Páll gestur göngunnar komst ekki en hafði boðist til að keyra þá sem þurftu inn eftir og við náðum loks á hann síðar um morguninn og var hann öðlingur mikill að keyra þremenningana inn eftir svona á miðjum laugardagsmorgni... takk kærlega Páll !

Mýrdalsjökull í botni jökulaura Krossárinnar... þaðan sem hún rennur... í næstu ferð förum við hér inn eftir á tindana sem gnæfa yfir upptökum Krossár...

Göngubrúin fín og Krossáin tiltölulega saklaus...

Langidalur hér með Tind og félaga og svo Ými og Ýmu í baksýn...

Mjög fallegur staður og heilmikið líf á staðnum...

Litið til baka... Eyjafjallajökull í baksýn á leið okkar... hvílíkur staður að vera á !

Vð gengum inn að Slyppugili... sem er þröngt, skógivaxið og ægifagurt gil í Þórsmörkinni...

Sjá skálann sem er við mynni gilsins...

Slyppugilið framundan...

Litið til baka... allt svo fallega grænt og rfriðsælt... við ljómuðum af gleði og þakklæti fyrir að fá svona mikla fegurð... eftir harðneskju vetrarins er svona ganga einstaklega heilandi...

Þetta til er dásemdarheimur og minnti mann á útlöndin sjálf...

Fljótlega dró fyrir sólu því miður... en áfram hélst stillan og hitinn... en þessu var spáð og á sumum kortum átti að rigna eftir hádegið... við vorum að vona að við fengjum sólina að mestu yfir daginn... en hún kom og fór úr þessu og var að mestu bak við skýin...
Rjúpnafellið að birtast hér...

Magnað að ganga meðfram Tindfjöllunum í Þórsmörk og sjá Rjúpnafellið rísa smám saman í fjarskanum fyrir framan okkur...

Við nutum þessa dags í botn... stoppuðum oft og stöldruðum við og virtum dýrðarinnar landslagið fyrir okkur... hvorki vindur né kuldi rak okkur áfram og það var lag að njóta...

Fyrsti nestistíminn tekinn eftir rúmlega klukkustundargöngu þar sem aksturinn var langur og kominn matartími sagði maginn...

Hlýtt og fallegt og framundan stórkostlegt landslag...

Innri hluti Tindfjallahringsins norðan megin er tignarlegur og stórbrotinn... þar er enginn svikinn af landslagi sem á sér fáa líka á Íslandi...

Við tókum andann reglulega á lofti og vorum þakklát... já... nauðsynlegt að vera þakklátur og láta ekki smáatriði eins og smávegis skýjafar trufla sæluna sem hríslaðist um líkama og sál þennan dag...

Magnaður staður... við urðum að taka hópmynd hér...

... með fjall dagsins í baksýn... hvílík fegurð !

Farið var aðeins niður í gilið áður en út á hliðarstíg var komið utan í Tindfjöllum...

Óskaplega fagur þessi kafli alla leið að Tröllakirkju...

Einhyrningur vinsrtra megin ljósbrúnt með höfuðið sitt... og Hattfell með grasi gróinn tindinn hægra megin hér í fjarska...

Fínn stígur á þessari leið um svokallaðan Tindfjallahring... flott hlaupaleið... enda komið magnað utanvegahlaup á þessum slóðum sem heitir "Þórsgata Volcano run": Þórsgata Volcano Trail Run | The trails of Iceland | Volcano Trails

Tindfjallajökull og Einhyrningur...

Reynt að mynda Tindfjöllin ofan okkar... landslagið svo stórt að það var erfitt...

Hliðarstígurinn undir Eggjunum í Tindfjöllum er ævintýri líkastur og við nutum hvers skrefs...

Rjúpnafellið blasti reglulega við og þegar nær var komið reis tignarleg Tröllakirkjan upp úr skarðinu úr gilinu...

Tröllakirkja hér framan við Rjúpnafell...

Tindur og félagar... og Ýmir og Ýma í Tindfjallajökli... jökulsléttan á milli þeirra þar sem við höfum gengið ansi oft frá því árið 2009... Tindfjallagil framar á mynd...

Fegursta mynd göngunnar... Tröllakirkja og Rjúpnafell...

Auðvitað vildum við skoða þetta Tröllakirkju vel áður en lengra var haldið...

Stígur liggur upp í smávegis hellisskúta ofar...

Við skoðuðum hann... og Örn reyndi að finna leið alla leið upp... hún var þarna í heilmiklu klöngri og við hættum við að taka allan hópinn þangað upp...

Siggi messaði yfir hópnum að hætti kirkjunnar manna...

Úr hellisskútanum...

Áfram héldum við og kvöddum kirkjuna... klöngurleiðin fyrir miðri mynd í rífandi hvössu bergi...

Litið til baka...

Áfram var leiðin falleg inn að Tindfjallasléttunni... líklega eini skaflinn á leiðinni... saklaus og greiðfær...

Ótrúlega falleg fjallasýn í þessari ferð... hún var rétt að byrja hér...

Mögnuð hlaupaleið... þjálfarar fundu að þeir áttu eftir að hlaupa hér síðar...

Þjálfari hringdi í skálaverðina í Langadal fyrir ferðina til að kanna með göngufæri og aksrtursfæri... en þeir voru búnir að yfirfara slóðann kringum Tindfjöllin og því vissum við að leiðin væri í lagi... ólíkt Laugaveginum árið 2019 þegar við vorum með þeim fyrstu til að fara það sumarið og létum þá skálaverðina hjá FÍ vita af talsverðum skemmdum á leiðinni sem þurfti að laga eins og grjóthrun á brúnum við Emstruána ofl... þá var lærdómsríkt að sjá hvernig veturinn leikur stígana á hverju ári... og það þarf einhver að fara yfir þá og lagfæra á mörgum stöðum... ekkert af þessu er sjálfgefið... þarna liggur heilmikil vinna og metnaður... oftast í sjálfboðavinnu...

Undan sköflunum upp úr gilinu sáum við gróðurinn vakna og fylltumst lotningu af aðdáun...

Gróðurinn á Íslandi er svo duglegur...

Kviknandi líf undan snjósköflunum... má engan tíma missa... kominn júní... sumarið er stutt... eins gott að flýta sér að vaxa þegar himnarnir opnast og sólin kemst að...

Komin upp á Tindfjallasléttuna... fjall dagsins bauð okkur velkomið...

Við tók öðruvísi en áfram mjög falleg leið...

Niður í þetta gil sem sannarlega er gróðurvin... ber ekkert nafn á korti af Þórsmerkursvæðinu... frekar en margir aðrir fagrir staðir á þessu svæði... kominn tími til að skálaverðir og landverðir setji nöfn á fleiri staði... einhvern tíma er allt fyrst... nafngiftir fyrri tíma eiga ekki frekar rétt á sér en nafngiftir okkar tíma... það hlýtur að mega bæta við öllum til glöggvunar á svæðinu... sérstaklega þegar fleiri njóta þeirra en áður og umferðin hefur breyst úr smalamennsku í náttúrumennsku...

Dásamlegur staður...
