top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Skessuhorn í snjóföl en sól og óskertu útsýni

Skarðsheiðartindur nr. 11 af 22 á árinu laugardaginn 12. júní 2021


Skessuhorn... án efa glæsilegasti tindurinn í allri Skarðsheiðinni... það geta allir verið sammála um það myndum við halda... enda heitir heilt fréttablað eftir því... og fleira til...


Það var á dagskrá sunnudaginn 6. júní... en þá viðraði ekki nægilega vel... og þjálfarar aflýstu þeirri ferð ekki fyrr en eftir veðurfréttir í sjónvarpinu á laugardagskvöldið hálfum sólarhring á undan... sem reyndi eflaust á æðruleysið í leiðangursmönnum en enginn skammaði okkur samt og menn virtust sammála þessari ákvörðun... og það var ekki gott veður síðan þennan sunnudag og eflaust sluppum við þá við erfiða ferð í litlu skyggni...


Viku síðar... var fjallið hvítt af snjóföl... sem það var ekki á laugardeginum viku áður þegar þjálfarar fóru smá könnunarleiðangur að fjallsrótum til að finna betri stað fyrir bílana en að bænum Horni... bæ þar sem ábúendur þar hafa ekki viljað fá göngumenn til sín eftir að sá bær skipti um eigendur fyrir nokkrum árum síðan...


Það var einnig mjög kalt í veðri... og það var vindur... en spáin sagði að það myndi lægja, hlýna smá og vera sól þegar liði fram á daginn... áður en rigningarveður tæki við um kvöldið og daginn eftir... og þetta rættist eins og stafur í bók...


Við lögðum af stað kl. 9:12 að morgninum í svölum vindi með fjallið grátt niður í hlíðar og ekki ásjálegt uppgöngu... við eða kannski þjálfarar fyrst og fremst voru efins um að við kæmumst þetta alla leið upp... og allir undir það búnir að þurfa að sætta sig við að þetta tækist ekki... þökk þessu ískalda vori og sumarbyrjun árið 2021... líklega var sigurinn þess vegna svona óskaplega sætur þegar við stóðum svo allsendis óvænt í logni og blíðu á tindinum... og viðruðum ferðina uppveðruð og sigri hrósandi næstu dagana á eftir...


Skessuhornið á sér sérstakan stað í okkar hjarta... þar er mikill sársauki... því þarna rann Sigga Sig niður hlíðina ofarlega í lok mars 2009 og fékk höfuðáverka og ein stærsta björgunaraðgerð var í fjallinu í kjölfarið þar sem þyrlan gat ekki lent vegna veðurs og við urðum að halda kyrru fyrir í fimm klukkutíma áður en björgun barst... líklega jafnar enginn sig alveg á slíkri lífsreynslu, allra síst sá sem lendir í slysinu og ber þess merki alla tíð... Sigga Sig er og verður alltaf mesta hetja Toppfara þar sem hún af mikilli einurð og æðruleysi tókst á við fjöllin árum saman eftir slysið... en örin sitja alltaf eftir... við lærðum margt í þessari örlagaríku ferð og hún setti mark sitt á okkur fyrir lífstíð... en lífið er búið að kenna manni að það þýðir ekkert annað en halda áfram... það gerðum við með stuðningi og mikill samstöðu innan hópsins...


Sjá nákvæma ferðasögu um atburðina í Skessuhorni þann 28. mars 2009 - afh gamla vefsíðan www.toppfarar.is er biluð hjá premis (ekki okkar bilun NB) ! Set innn tengilinn um leið og hún er komin í lag !


Þessi nýja leið aðeins vestar en frá Horni liggur meðfram Álfsteinsánni og þýðir aðeins lengri leið... þremur kílómetrum eða svo... og því lengdist gönguvegalengdin úr 14 km í 17 km... en hefðbundin aðkoma að Skessuhorni frá bænum Horni er ekki skemmtileg leið... og því getum við ekki annað en mælt með þessari leið fyrir alla sem vilja hlífa Horni við ágang og upplifa fallegar ár á leiðinni...


Gljúfur Álfsteinsár er svipmikið og fjölbreytt og leynir á sér þar til nær er komið... það skreytti svo niðurleiðina aldeilist í lok dags...


Skessuhorn á alla athyglina norðan megin við Skarðsheiðina... það dregur öll augu að sér og fjallbálkurinn allur styður við það eins og einn samfelldur kór á bak við...


Heiðarhorn og allir hinir tindarnir eiga ekki sjens í þessa athygli... þó fagrir séu og með eindæmum hrikalegir ásýndum... Heiðarhorn hér hægra megin og Skarðskambur við hliðina ofan við Skarðsdal en þjálfarar fóru með rangt mál í ferðinni... þeir skírðu ekki Skarðskamb... hann heitir svo á sérstöku Skarðsheiðarkorti sem Ingi dreifði fyrir nokkrum árum til klúbbsins og við njótum alltaf góðs af þegar við göngum um þennan fjallgarð því þar eru fleiri örnefni en á hefðbundnum kortum...


Birtan á svona degi er einstök... skýjafarið skreytir himininn... vindurinn og kuldinn gefur hreyfingu og breytilega birtu og tærleika sem lygnt, hlýtt veður gerir ekki... lognmollan gefur mistur og lélegt skyggni... svo það á oft við að vera bara glaður með svalt og vindasamt veður því það gefur allra fegurstu myndirnar...


Hópmynd hér neðan við Skessuhornið sem rís svo ótrúlega glæsilegt ofan okkar...

allt hrímað og ógnvænlegt að ákveðnu leyti...


Bak við okkur mátti sjá líparíklitaðan hluta af Rauðahnúkafjalli sem er hæst af tindunum sem liggja hér í röð milli Hafnarfjalls og Skarðheiðarinnar og við gengum á í meitlaðri vetrarferð árið x ...


Skarðskambur 1.039 m og Heiðarhorn 1.053 m... við erum búin með Heiðarhornið í Skarðsheiðardraumnum... en eigum Skarðskambinn eftir...


Hér byrjaði bröltið upp á Skessuhornið... og við vorum öll með keðjubroddana klára... en Bára þjálfari hafði stuttu áður tryggt að allir væri með broddana... því það væri enginn að fara hér upp án þeirra... en það reyndist ekki rétt... þetta leit út fyrir að vera sjófölt og hart... dæmigert okt/nóv færi sem er hart og erfitt... en þetta var mjúkt færi með þunna snjóföl ofan á... og mun saklausara en það virtist vera...


Litið til baka... Blák0llur í Hafnarfjalli lengst til vinstri að stingast upp... og svo tindaröðin Geldingaárháls, Votuklettar, Hestadalsbrúnir, Hrossatunguhnúkur, Rauðahnúkafjall og Svartitindur... en ég get ekki flett upp hvaða tindanöfn við notuðum í okkar ferð um árið þar sem ferðasagan okkar er ekki aðgengileg núna vegna bilunar í www.toppfarar.is en premis er að lagfæra þetta núna...


Snjólínan var í 670 m hæð... það var með ólíkindum...


Frost í jörðu og klakafossar um allt... samt varð jarðvegurinn mjúkur og sumarlegur í raun að mestu undir okkur... þetta var einhver villa í árstímanum... ekki það að á Íslandi er sumarið oft svona... kalt og snjókoma jafnvel að hluta allt sumarið...


Frábær hópur á ferð... margir ekki með sem komust ekki þessa helgi en voru aldeilis klárir í slaginn helgina á undan þegar þessi ferð var á dagskránni... grátlegt alveg því þau átti svo sannarlega skilið að vera með... en sem betur fer mættu nægilega margir því þjálfarar ætluðu ekki í þessa göngu nema allavega 10 manns kæmu með... og við enduðum 16 manns sem var frábært...


Blák0llur... þarna upp höfum við farið á öllum árstímum... meira að segja fyrsta þriðjudag í janúar í algeru myrkri allan tímann... en það er varasamt efst í hálku og að sumri í kvöldsól er þetta magnaður staður að ganga upp á...


Örn var með gps-slóðina okkar frá því þriðjudagskvöld eitt í júlí árið 2010... og til samanburðar höfðum við skoðað slóðir annarra en margir fara enn lengra inn eftir og þar upp og þræða sig svo uppi á hryggnum... við hins vegar fórum þetta júlíkvöld 2010 í þoku og rigningu alla leið upp án þess að sjá nokkuð í klettastöllunum utan í tindinum vestan megin og það var svo góð leið að við vildum helst fara hana aftur... og sjá hana í þetta skiptið...


Það var aldrei á áætlun annað en að fara á Skessuhornið í mjög góðu sumarveðri og sumarfæri... en því var ekki alveg að fara þennan 12. júní 2021... en samt ekki svo fjarri lagi...


Fínt hald í mosanum og alls staðar hægt að þræða sig upp en við sniðgengum viljandi snjóskaflana þar sem við gerðum ráð fyrir því að þeir væru glerharðir eða allavega svellaðir og varasamir...


Í raun er neðsti kaflinn erfiðastur... brattinn og lausagrjótið er meira þar en ofar...


Sjá hér ofar skarðið sem sumir fara upp í áður en þeir halda svo til hliðar í átt að tindinum...


Við þveruðum hér í skriðu sem var nokkuð lausgrýtt og í talsverðum hliðarhalla og hér sneri Gerður Jens því miður við þar sem færið hentaði henni ekki... hún er búin að ganga á þetta fjall áður og vissi vel að þetta er vel fært...en þetta færi var ekki það besta fyrir hana og Bára þjálfari ákváð að reyna ekkert að telja henni trú um að halda svolítið áfram... en núna eftir á þegar maður er búinn að sjá leiðina vel í góðu skyggni... þá hefði maður sagt henni að bíða aðeins með þessa ákvörðun... því ofar var færið betra... en reyndar samt ekki strax... það var þó nokkuð brölt eftir og fleiri en einn skafl sem var þveraður...


Sjá hér hvernig Örn sniðgekk skaflinn neðan við hann...


Leiðin framundan alla leið upp... snjófölin alla leið upp á tind... við vorum hikandi og efins um að komast og Örn tilbúinn til að þurfa að snúa við... Bára var meira efins og þó nokkuð áhyggjufull því þetta var ekki það sem við ætluðum að gera... fara loksins á Skessuhorn ellefu árum frá því síðast... í víðsjárverðu vetrarfæri...


Þessi skafl var mjúkur og fínn... það var ekki sjálfgefið...


Heilmikið klöngur og gæta þurfti að grjóthruni...


Annar skafl hér... hann var langur og Örn tók ákveðna áhættu með að þvera hann fyrstur... en hann var fínn alla leið og sparaði okkur mikið brölt neðan við hann...


Allir í sólskinisskapi og mjög þakklátir fyrir að vera nákvæmlega hér á þessari stundu...


Frostið í gróðrinum... flóra Íslands er sannarlega aðdáunarverð...


Klettastallar endalaust og Örn reyndi að finna góða leið fyrir hópinn...


Hér fínasta leið undir stöllunum...


Frosnir steinar og ísfossar um allt...


Svo fallegt... eins og rennandi æðar...


Sumarið var VÍST komið !


Meistaraverk náttúrunnar...


Gróðurinn harðgerður... ný strá að koma upp græn og sterk gegnum ísinn...


Allt gránað... en veturinn var samt eins og lekandi niður fjallið... það dropaði alls staðar... og það heyrðist um allt þegar snjórinn losnaði og féll niður...


Frábær leið hjá Erninum hér upp...


Þetta sem leit út fyrir að vera ófært... var í stakasta lagi þegar nær var komið...


Úr því gróðurinn gafst ekki upp... þá gátum við ekki verið minni maður... og efldumst við bara við að finna hvernig sumarið lét snjóinn ekki segja sér fyrir verkum...


Litið til baka... Skessukambur ofan við Þórkötlu (okkar nafngift), Skarðskambur og svo Heiðarhorn...


Vandmeðfarið að finna leið fyrir hópinn svo allt gengi greiðlega fyrir sig... Sigga Lár með ökklann sinn frá því á Botna-skyrtunnu þremur mánuðum áður og þurfti að stíga varlega til jarðar í hverju skrefi...


Ennþá var allt í góðu með færið og hvergi harðfenni eða svell...


... en það hefði ekki mátt vera mikið kaldara og þá værum við í mun varasamari aðstæðum...


Þolinmæðin... var vopnið...


Síðasti kaflinn upp hér... meiri snjór en ennþá gott hald í jarðveginum...


Við vissum að þetta myndi takast úr þessu og byrjuðum að fagna...


Takk fyrir okkur Örn ! Komin upp á brún og það var mögnuð stund !


Til hægri... suðurs að meginlandi Skarðsheiðarinnar þar sem Skessuhornið stígur út til norðurs gegnum þetta klettahaft..

KLettarnir á milli.... hér er fært á brúnunum og svo er skarðið þarna hægra megin vel fært yfir... við ættum næst að fara þessa leið á Skessuhornið... mjög spennandi leið !


Mmórauðakinn fjær sem við gengum á í 14 ára afmælisgöngunni í maí... og Mófell og Ok nær sem er á dagskrá í desember og er síðasti Skarðsheiðartindurinn... Mórauðihnúkur og Hádegishyrna svo hægra megin... sem við gengum á í janúar og svo aftur á Hádegishyrnu í mars með Grjótárdalnum... austustu tindar Skarðsheiðarinnar...


Mórauðihnúkur, Hádegishyrna og Miðkambur (okkar nafngift)... allir komnir í safnið... þetta er allt að koma smám saman...


Skessukambur svo hér (okkar nafngift)... Þarna höfum við staðið tvisvar... í þoku annars vegar og í heiðskíru hins vegar... með magnaða sýn á Skessuhornið...


Afstaðan öll austan megin...


Sýnin til vesturs að Skarðskambi og Heiðarhorni...


Og svo Skessuhornið sjálft skagandi til norðurs...


Algerlega mergjað að komast hingað upp og það í þessu veðri ! ... sumar niður á láglendi en vetrarlegt í nýjum snjó hér uppi...


Fagnaðarópin glumdu og menn föðmuðust og tóku myndir...


Þetta var sannarlega sætur sigur... það eru ekki margir sem eru búnir að ná öllum Skarðsheiðartindunum á árinu... Kolbeinn, Ragheiður, Þorleifur, Örn... fleiri ?


Við gáfum okkur góðan tíma og þjálfari spilaði smá tónlist og við fengum okkur nesti í þessari bongóblíðu sem þarna var...


Smá partý á tindinum... í kvöld er gigg: (2) Facebook ... geggjað lag !


Skorradalsvatn í austri og jöklarnir...


Til norðurs...


Til norðvesturs... Rauðahnúkafjall og Hafnarfjallið allt... og Borgarfjörður...


Nesti, ræður og spjall...


Riddarapeysurnar voru m. a. ræddar... en eins og kom fram í umræðunum þá eru þær viðleitni okkar þjálfara til að sameina hópinn og þær hafa gefið mörgum í klúbbnum mjög mikið... menn hafa gagngert lært að prjóna til að gera búið til sína Toppfara - riddara - peysu og í kjölfarið prjonað á hundinn eða alla fjölskylduna sína... sem er alveg magnað... og ef menn kunna ekki að prjóna sem á við um flest fólk, bæði konur og menn... þá hafa menn fengið aðra til að prjóna fyrir sig, nú eða bara keypt sér riddarapeysu... af því þeim þykir vænt um klúbbinn sinn og vilja vera með í þessum fallega gjörningi...


Þegar við tökum riddarapeysumyndirnar þá er það til að fagna þessum sameiginlega, skemmtilega gjörningi sem kom til af algerri tilviljun og menn hafa sem betur fer haft vit á að grípa og vera bara með í og hlæja að og hafa gaman af... að njóta þessarar fegurðar sem íslenska lopapeysan er og dást að öllum þessum riddarapeysum sem flestar hefðu annars aldrei verið prjónaðar, hvort sem maður á eina slíka eður ei...


Það reynir á hvern og einn í klúbbnum að átta sig á þessu og vera með... það styrkir hópinn því flestir í Toppförum hafa ekki og tilheyra ekki öðrum gönguhópum... eru yfirleitt meira einir að ganga á eigin vegum og frekar sjálfstæðir göngumenn, en vilja samt líka njóta þess að tilheyra fjallgönguhóp og hafa í gegnum tíðina verið mjög þakklátir og ræktarsamir gagnvart klúbbnum og einmitt þess vegna finnst þeim þetta dýrmætt og kunna vel að meta þennan... ja, náttúrulega bara drepfyndna gjörning og ekkert annað... það er galið og allt of mikið myrkur... að taka aðra afstöðu til riddarapeysanna en þá að bara vera með, hvernig svo sem menn redda sér riddarapeysu því það er ekki óvinnandi vegur.. frekar en að ganga á fjall...


Þetta er mjög mikilvæg, jákvæð og samhendin afstaða sem við þjálfarar vonum að allir í klúbbnum kjósi að taka ... vegna þess að við viljum að við séum einn sterkur, samhentur hópur, en ekki margir litlir hópar innan sama gönguhóps eins og gjarnan er í stærri gönguhópunum... málið er að þeir eru svo margfalt stærri en við... við viljum ekki vera á sama stað hvað það varðar... við viljum vera lítill, persónulegur og einn og hinn sami fjallgönguklúbbur þar sem allir þekkjast þó þeir komi sjaldan... að þá sé maður samt knúsaður og fagnað að vera loksins mættur... að allir styðja alla og hjálpist að og njóti þess að hittast og njóta samvista hvert við annað... við erum allt of fá til annars... við eigum að vera sem einn maður... á fjöllum... sama hvað... alltaf...


Snillingar !


Efri: Örn og svo Þórkatla, Kolbeinn, Silla, Starri, Óli gestur, Gulla.


Neðri: Þorleifur, Haukur, Sigga Lár., Ragnheiður, Jaana, Gréta og Oddný en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...


Þjálfarar fannst eitthvað sniðugt að taka hópmynd á þessum enda af klettahaftinu á milli...


Þetta er jú magnaður staður...


Efri: Þorleifur, Haukur, Oddný, Sigga Lár., Silla, Starri, Ragnheiður, Gulla.


Neðri: Batman, Kolbeinn, Örn, Bára, Gréta, Þórkatla, Jaana og Óli gestur tók mynd.


Riddarapeysurnar... Gréta, Ragnheiður, Þórkatla, Kolbeinn og Haukur... það er alveg sama hvar þessar peysur standa... þær eru alltaf í stíl við umhverfi sitt... magnað alveg !


Freistandi að prófa þessa leið niður... en við vildum ekki flækja málin...


... og fórum sömu leið og við komum...


Sigga Lár er skvísa og töffari í senn... hún fór þetta á elju og varkárni... aðdáunarvert með meiru...


Okkur fannst snjórinn hafa bráðnað frá því við komum upp... kannski var það ímyndun...


Allavega gekk niðurleiðin miklu betur en við áttum von á...


Þörf á að fara í keðjubroddana...varast grjóthrun... finna sömu leið... lenda í vandræðum á erfiðu köflunum... allt þetta varð að engu og við vorum komin langleiðina niður áður en við vissum af...


Enda spjölluðum við svo ótrúlega mikið saman...


... og nutum þess að rúlla þessa leið niður...


Neðar eykst lausgrýtið og hvert skref verður krefjandi...


Örn ákvað því að taka stefnuna á langa skaflinn og fara bara niður hann þó það væri útúrdúr... til að hvíla fæturna á öllu þessu brölti...


Og það var alger snilld... sumir skíðuðu bara niður eða renndu sér... yndislegt !



Geggjað gaman !


Niðri horfðum við á sumarið koma undan snjónum...


Þarna var leiðin okkar... ekkert mál í góðu færi... vá, hvað þetta slapp vel !


Kaflinn fyrst upp hér er verstur í raun...


Bakaleiðin var með ólíkindum falleg...


Dýjamosinn svo grænn...


Þetta var svo heilandi...


Andstæðurnar þennan dag voru sláandi og hálf ruglandi... var komið sumar... eða réð veturinn ennþá ríkjum...


Við vorum ekkert að flækja þetta og fengum okkur bara þriðju nestispásuna á sama stað og á uppleið... í notalegu lautinni...


Skyndilega heyrðist í þyrlunni... sem sveimaði yfir Heiðarhorni... eins og hún væri að leita að lendibnfgarstað... en í stað þess að lenda og ná í einhvern... hélt hún áfram eftir allri Skarðsheiðinni og sveimaði svo yfir henni lengi vel.. var þetta æfingaflug eða leit ?


... líklega æfingaflug... en hljóðið stakk okkur sem höfum fengið þyrluna til bjargar... Sigga Lár var í öngum sínum en um leið fann hún til gleði... mótsagnakenndar tilfinningar gagnvart þyrlunni og því magnaða teymi sem hana skipa...


Áfram hélt fegurðin að verða á vegi okkar og segja okkur að það væri komið sumar...


Náttúran skákar okkur alltaf... si svona...


Litið til baka...


Himininn var heilt listaverk út af fyrir sig...


Þessi kafli er frekar einsleitur... og svona er hann alla leið niður að Horni... en okkar nýja leið meðfram gljúfri Álfsteinsár er mun fegurri...


Náttúran skákar okkur alltaf...



Við dóluðum okkur niður eftir og hvíldum okkur öðru hvoru... enginn að flýta sér...


Yndisleg samvera...


Komin að gljúfrinu...


Álfsteinsá...


Kindagötur meðfram gljúfrinu alla leið...


Viðleitni til að ná góðri hópmynd með tindi dagsins:

Haukur, Gulla, Örn, Óli gestur, Silla, Ragnheiður, Þorleifur.

Oddný, Sigga Lár., Kolbeinn, Þórkatla, Jaana, Gréta.

Bára tók mynd og Batman var þarna með.


Kyngimagnað fjall !


Mjög fallegt þarna niðri í gljúfrinu...


Hér voru ármót og Sauðadalslækur rann saman við Álfsteinslækinn... mjög sumarlegt og fallegt hér...

Síðasti spölurinn... við sáum að hestahjörð var við bílana og maður fékk í magann... vorum við nú að fá skammir fyrir að leggja bílunum þarna eða... en það var nú aldeilis ekki...


Okkur var bara boðið upp á að vera með í söng og við tókum nú bara undir í mestri gleðinni... bara gaman... enda þekktu menn hver annan þarna eitthvað...


Dj. snillingar ! Einn sætassti fjallasigurinn á þessu ári og lang flottasta Skessuhorns-ferðin til þessa... loksins í góðu veðri og skyggni allan tímann... takk fyrir okkur elsku bestu !


Áfram héldum við að mæna upp eftir tindinum... magnað að hafa verið þarna uppi á brúninni fyrr um daginn... það var ótrúlegt...


... og áfram starði maður keyrandi á leið heim... fáir tindar draga jafn mikla athygli að sér og Skessuhornið...

En þegar við komum inn í Leirársveitina var arið að þykkja upp... orðið þungbúið á Skarðsheiðinni... mjög sérkennilegt og mikil breyting á stuttum tíma... mun bjartara til borgarinnar... en þetta var veðrið sem svo lagðist yfir allt landið... rigningardumbungur...


Alls 17,0 km á 7:54 klst. upp í 976 m hæð með alls 1.091 m hækkun úr 79 m upphafshæð.


Svo sssssssætur sigur... svo sætur...



182 views1 comment

1 Comment


Yfirfer textann í góðu tómi síðar, magnaður sigur á þessu fjalli :-)

Like
bottom of page