top of page
  • Facebook
  • Instagram
  • YouTube
  • Twitter

Tindfell, Hrói, Rjúpnaborgir og Enni ofan við Ólafsvík #Snæfellsnesfjöllin

Tindferð nr. 331 laugardaginn 10. maí 2025


Eftir nokkrar frestanir vegna veðurs eða áhuga náðum við loksins að ganga á fjöllin ofan Ólafsvíkur og fengum dásamlegt veður til þess arna... en sólarhringinn á undan snjóaði heilmikið í fjöll svo létt snjóföl lá yfir öllu niður fjallshlíðarnar...


Eftir um 2,5 klst. akstur úr borginni og svo upp Snæfellsjökulshálsinn sem var auður og þurr og léttur yfirferðar lögðum við af stað kl. 10:43 og þurftum að byrja á að stikla og vaða tvær ár...


Veðrið var með eindæmum gott mestan hluta dagsins en þó komu yfir skýjagangur með smá kulda og smá snjófjúki en þegar skýjunum sleppti varð funheitt svo menn sviptu sig fötum eins og enginn væri morgundagurinn...


Þetta gekk svo langt að hér náðist mynd af herlegheitunum... snillingar þetta fólk !


Tindfell var fyrsti tindur dagsins... hann var hæstur og sá eini þar sem við fengum þokur og slitrótt skyggni uppi... en á hann var ágætis klöngur norðan megin með Snæfellsjökulinn glitrandi í fjarska en samt svo nálægt okkur... alls var hann 615 m hár...


Við borðuðum nesti á tindi Tindfells og skelltum okkur svo niður hlíðarnar en héldum okkur ofarlega í landslaginu í þeirri von að þurfa ekki að fara yfir báðar árnar í áttina að Hróa... og það tókst... en þessa þurftum við þó að þvera... og þar voru hundarnir í mestu vandræðunum og fengu aðstoð frá þjálfurum... meira að segja Batman ofurhundur sem vaðið hefur margar árnarum allt land... lét sig hafa það að láta halda á sér... og Baltasar gekk í gegnum eina eldraunina í viðbót... og fór létt með þessa á... þegar hann áttaði sig loksins á því að hann hefði vald á henni...


Leiðin að Hróa var gullfalleg í giljum, dölum, lækjum og tjörnum... funhiti í sólinni hér...


Hrói var eini óvissuþáttur dagsins... hann er brattur og hvassbrýnn í suðri en fær uppgöngu í norðri og vestri... við vissum ekkert um göngur á hann... ekkert að hafa af veraldarvefnum og heldur ekki af wikiloc... en á korti virtist hann fær frá þessum hliðum og það tókst...


Stórkostlegur tindur og með þeim flottari... ágætis klöngur hér norðan megin...


Svakalega flottar myndir teknar á Hróa !'


Nýliðarnir Smári og Helgi hafa verið ötulir í tindferðunum og á þriðjudögum og mætt í hverja gönguna á fætur annarri... með þeim kemur mikið gleði og jákvæðni... við erum lánsöm að fá þá í okkar raðir og vonum að þeir haldi áfram næstu árin með okkur í þessari vitleysu...


Tindurinn á Hróa... magnaður tindur ! Séð úr suðri en þessi tindur snarbrattur og hnífhvass að sjá úr bæði fjarska og neðan frá eins og við sáum síðar um daginn... alls 514 m hár...


Mættir voru 13 manns... frábær hópur... Magnús Már, Siggi og Brúnó, Steinar R., Aníta og Baltasar, Jón Odds., Sigrún Bjarna, Linda, Smári og efst eru svo Davíð, Sighvatur, Helgi og Örn en Bára tók mynd og Batman er þarna milli Sigrúnar og Lindu...


Rjúpnaborgir voru mjög fallegar klettaborgir á leið frá Hróa að Enni... og mældust 422 m háar... en ofan af þeim blasti bæjarfjall Ólafsvíkur við... hér... Ennisfjall... greiðfært og létt og sumarlegt í lok leiðarinnar...


Á Ennisfjalli blöstu þrír bæir við okkur... Hellissandur, Rif og Ólafsvík... alveg magnað útsýnisfjall og stórkostlegt að koma hingað... alls 438 m hátt...


Örn fylgdi ekki fyrirfram slóðaðri leið þjálfara uppi á Enni þar sem við hefðum lent á gönguslóðanum upp á Enni... og valdi frekar að taka beina stefnu til baka í bílana sem gaf okkur þetta útsýni yfir Ólafsvík... magnaður staður !


Leiðin svo beint niður var í stakasta lagi þó brött væri... það var sumarfæri þennan dag þrátt fyrir snjófölina og dásamlegt að finna ilm sumarsins um allt...


Baltasar og Brúnó tókust á í þessari ferð og það endaði með opnu sári á fæti Baltasars sem hann kveinkaði sér undan og við bjuggum um það en það greri vel næstu daga og kom ekki að sök...


Leiðin til baka í bílana undir hlíðum Ennis, Rjúpnaborga, Hróa og Tindfells tóku vel í um þúfur, gil og lækjarsprænur... en þetta var auðvitað stórgróði í hörkuferð sem endaði með 18,1 km leið á 8:01 klst. upp í 695 m hæð hæst á Tindfelli með alls 1.211 m hækkun úr 231 m upphafshæð...


Mun meira krefjandi ferð en við áttum von á... en einmitt svona eru könnunarleiðangrarnir... uppgötvun, óvissa og upplifun... ævintýri sem maður veit aldrei hvernig enda... en gefa manni gleði, sigur og ánægju sem varir út ævina...




Kærar þakkir fyrir krefjandi dag og alvöru fjallgöngur sem teljast fjórar í afmælisáskoruninni okkar um að ganga á 18 fjöll á 18 dögum !

Commentaires


bottom of page