top of page

Torfajökull 3ja tinda leið frá Strút um íshellinn og Krókagil til baka um upptök Brennivínskvíslar.

Tindferð 225 laugardaginn 14. ágúst 2021.

Friðlandið að Fjallabaki markast af hæsta tindi Torfajökuls, Hábarmi sem við gengum á 2019, Barmi sem við gengum á 2016, Rauðufossafjöllum sem við gengum á 2017 og Laufafelli sem við eigum ennþá eftir að ganga á... og kallast Friðlandið einu nafni "Torfajökulssvæðið" eða "Torfajökulsaskjan" og er 18 km löng og 13 km breið... árið 2015 ákváðum við að ganga á alla fjallstinda innan þessa Friðlands... þessi hæsti tindur Torfajökuls er einn af þeim... en við enduðum á að ganga á þrjá þá hæstu sem liggja allir í hnapp saman...


Rigningardumbungur lá yfir öllu þegar við loksins lögðum af stað kl. 6:00 úr bænum á laugardagsmorgninum en við létum það ekkert á okkur fá því við vissum að veðurspáin var björt og góð þennan dag... Doddi og Njóla komu úr Fljótshlíðinni eins og fleiri og Doddi sagði morgnana hafa verið svona þungbúna síðustu daga en svo rifi hann af sér um níuleytið... og það rættist nánast á mínútinni... þegar við ókum inn sandana fór að sjást í gula sól bak við skýjaslæðuna sem þynntist sífellt meira.. og varð að engu á Mælifellssandi... hér með Mýrdalsjökul blasandi við af Mælifellssandi og jökulsker í sama formi og nær okkjur að rísa úr jöklinum...


Mælifell á Mælifellssandi hér þar sem beygt er til vinstri inn að skálanum Strút... formfagurt og einstaklega fallegt fjall...


Mælifellssandur - NAT ferðavísir


Þegar beygt var til norðurs inn að skálanum blasti verkefni dagsins við okkur... tindarnir þrír þarna í klasa vinstra megin í Torfajökli... og fjallið Strútur hægra megin en tignarlegasta ásýndin á það fjall er ekki frá skálanum eða veginum hér...


Akstursleiðin tók okkur 3:38 klst. úr bænum og leiðin er jepplingafær en þó þarf að gæta að Bláfjallakvísl sem getur orðið vatnsmeiri og gruggugri þegar líður á daginn og eins þarf að keyra í lækjarsprænum hér að skálanum... Mælifell hér í baksýn...


Við lögðum á aurunum neðan við bílastæðið við skálann... alls 9 jeppar og 1 jepplingur í þessari ferð... rúmur helmingur kaus frekar að fara á jeppa en í rútu þegar þjálfarar könnuðu áhugann á rútu fyrir ferðina... og C19 flækir málin þar sem æskilegast er að menn séu í sinni bílakúlu... en mun fleiri eiga jepplinga en áður fyrr og vonandi bjargast þetta í næstu ferðum eins og það gerði í þessari þar sem allir fengu á endanum far með jeppa eða jepplingi...

Frábær aðstaðan í Strút... 500 kr aðstöðugjald til að komast á wc... sem er ansi kærkomið þegar keyrt er svona langar leiðir til að fara í langa göngu...


Þrjú gistu í skálanum, tvö í tjaldvagni og tvö í tjaldi... tveir gistu á Emstru leið, sex komu úr Fljótshlíð og einn frá Akranesi og restin úr Reykjavík...


Veðurblíðan var dásamleg... við vorum sannarlega heppin með veður þenann dag þó heilmikill vindur væri uppi og að hluta á leiðinni... það ar hlýtt, sólríkt og kyngimagnað útsýni...


Skemmtileg leiðin frá skálanum... þar sem byrjað var á Strútsstígnum en snúið svo við Krókagil upp í fjallsbungur Torfajökuls...


Sjá tindana okkar þrjá þennan dag í fjarska ofan við Krókagil... hópurinn hér að fara yfir Brennivínskvísl... merkilegt nafn sem okkur skilst að engin haldbær skýring sé á...


Sandfellið var okkur á visntri hönd á leið niður... dökkblátt og heilmikil andstæða við litríkt Krókagilið... Strútur hér á bak við hópinn...


Beygt til vinstri upp fjallsrætur Torfajökuls...


Sjá tindana þrjá skaga upp úr... þarna upp fórum við á alla þrjá... sá í miðið hæstur en sá vinstra megin gaf fegursta útsýnið og var næst hæstur...


Fjórir gestir voru með í þessari göngu.... hvert öðru ljúfmannslegra... það var mjög gaman að kynnast þeim og þau stóðu sig með prýði í þessari löngu göngu...


Krókagil... litríkt, formfagurt og sérlega úfið ofar... þjálfarar ætluðu að fara niður um það ef þeim litist á þá leið... en enduðu á að fara bara efsta hlutann af því og svo lendarnar niður...


Sjá Brennivínskvíslina renna niður Krókagilið...


Fallegir litir sem minntu á Landmannalaugasvæðið...


Hópmynd hér með tinda dagsins í baksýn...

Guðmundur Jón, Katrín Kj., Gunnar Már, Ágústa H., Bjarni, Örn, Jón St., Doddi, Njóla, Valla, Davíð, Björgvin gestur Davíðs, Sjöfn Krostins., Fanney, Siggi, Vilhjálmur, Jóhjanna D.


Neðri: Kristín gestur Gunnars, Kristbjörg, Jaana, Linda, Sigrún Bj., Inga Guðrún, Auður gestur Ingu, Þórkatla, Nanna, Páll gestur Nönnu og Maggi en Bára tók mynd og Batman stakk af um morguninn og missti af þessari ferð.


Sandfell... mjög fallegt á litinn og formfagurt...


Ofar og innar...


Strútur og svo Mælifell í fjarska...


Fallegur heimur þarna niðri...


Nokkrir gengu í stuttbuxum allan þennan dag þrátt fyrir vindinn sem blés mest á efstu tindum og þagnaði reyndar svo þegar leið á daginn...

Fjórir gestir voru í þessari göngu og var mjög gaman að kynnast þeim... Páll kom með Nönnu, Auður kom með Ingu Guðrúnu, Kristín með Gunnari Má og Björgvin með Davíð...


Litríkt Torfajökulssvæðið nýtur sín alltaf best í sólinni og við vorum mjög lánsöm með veðrið þennan dag...


Fyrsti nestisstaður af þremur þennan dag en þeir reyndust allir ótrúlega fallegir... dýjadalsmosinn á svarta sandinum skreytti þann fyrsta...


Yndislegt... skjól hér og friður...


Áfram var haldið södd og sæl upp eftir bungunum og núna fór snjórinn að koma niður brekkurnar en þeir voru alltaf nægilega mjúkir og vel færir...


Laugavegslegt á köflum enda giljótt með meiru allan tímann...


Full gil af snjó og rennandi lækur undir er alltaf varasamt... við minntumst banaslyssins í Sveinsgili hér um árið sem kenndi manni mikið... og menn skiptust á sögum um fall í gegnum snjóbrýr og skafla...


Brakandi blíða...


Ofar sáum við tindana... en svo dróst þessi skýjahula yfir þá og vonbrigðist læddust inn.. skyldum við bara ganga upp í skýjaþokuna og ekkert fá af magnaða útsýninu sem þarna er... en vindurinn var talsverður og þjálfarar fullyrtu að þetta væri á hraðförum yfir svæðið og það yrði flott veður þarna uppi þegar við kæmumst upp...


... og við horfðum á skýin sveipast yfir og svo urðu þeir smám saman skýlausir aftur þegar ofar dró...


Þessi kafli hér var ótrúlega fagur... svört gil... ljóst líparit... gráir og þreyttir snjóskaflar...


... og ljósir tindarnir okkar framundan... sá fyrsti hér vinstra megin...


...og skærgræni dýjamosinn... þessi kafli var alger veisla !


Yndislegur félagsskapur í þessari ferð... hvílík forréttindi að fá að ganga með þessu fólki...


Sjá snjóinn hér...


Hér var giljótt og ekki fært hvar sem var upp en Örn ætlaði að fara fyrst upp hægri bunguna og þaðan upp á fyrsta tindinn... en skorið landslagið leyfði það ekki...

Við snerum því til vinstri hér framhjá gilinu...


Töfrandi landslag !


Gunnar Már og Guðmundur Jón...


Fyrsti tindurinn framundan hér... erfiðasta brekkan af þremur upp tindana þrjá...

en samt var þetta ekkert í samanburði við klöngrið sem við erum alltaf að kljást við...

bröltið á þriðjudögunum skilar sér vel í svona tindferðum eins og þessum...