Tröllkerling og Tröllbarn við Örninn Snæfellsnesi
Tindferð nr. 253 föstudaginn 28. október 2022.

Eftir ítrekaðar frestanir á Tröllafjölskyldunni á Snæfellsnesi og meira að segja tilraunum til að fara á Heklu á föstudegi eða sunnudegi í staðinn þegar betur viðraði þá en ekki náðist nægileg mæting.. enduðu þjálfarar á að ákveða að fara á Tröllin síðasta föstudag októberbmánaðar svo sá mánuður fengi nú einhverja tindferð... og þó nokkrir skelltu sér með sem gátu komist þó það væri virkur dagur sem var frábært...

Bjarnarhafnarfjall hér með mynni Hraunsfjarðar... dulúðug þoka lá yfir öllu þegar við keyrðum þessa ægifögru leið eftir öllu Snæfellsnesinu... fyrst að sunnan... svo um Vatnaleiðina og áfram að norðan... til Grundarfjarðar... hvílíkur staður að keyra um... megi elja okkar ávalt vera svo að við látum aldregi langan akstur taka af okkur fallegar göngur á þessum stórkostlega landshluta...
Bjarnarhafnafjallið var gengið í sögulegri ferð þar sem við vorum svo lánsöm að ná að kynnast vel honum Hildibrandi heitnum í Bjarnarhöfn árið 2014...
Tindferð 106 Bjarnarhafnarfjall (toppfarar.is)

Eyrarhyrna með Eyrarfjallið vinstra megin líka í þokunni... þangað gengum við í stórbrotinni birtu og ljósstöfum allan daginn í febrúar árið 2018 en gangan sú kenndi okkur að lá fjöll og óþekkt gefa jafn mikið og þau hærri og þekktari... þó það sé erfitt veður... ómetanlegur febrúardagurinn sá !
Tindferð 153 laugardaginn 3 (toppfarar.is)

Kirkjufellið... nýlega tók það þriðja lífið... Banaslys í Kirkjufelli - Vísir (visir.is)
... og var lokað í kjölfarið stuttu síðar þangað til 15. júní 2023... átakanlegt banaslys sem okkur var tíðrætt um í göngu dagsins... Banna fjallgöngur upp Kirkjufell (frettabladid.is)
Sem betur fer eigum við þetta fjall að baki... í enn einni ógleymanlegri ferðinni um þennan landshluta... Kirkjufellið loksins í safnið (toppfarar.is)

En... við vorum á leiðinni á fjallstinda sem enginn talar um... eru ekkert fræg... en hafa dáleitt okkur í öllum fjórum ferðum okkar um Helgrindurnar... svo mikið í síðustu ferð...
Helgrindur... hrikalega fagrar fjallsbrúnir (fjallgongur.is)
... að við ákváðum að setja loksins þessa tinda á dagskrá í byrjun október 2022... og þá var ætluni að ganga á þá í sumarfæri... og alls ekki því vetrarfæri sem beið okkar þennan dag...

Þó ekki væri það stysta leiðin... á ákváðu þjálfarar að fara frá tjaldstæðinu ofan við sundlaugina í Grundarfirði þar sem hentugt yrði að hafa aðgang að salerni... og það kom sér mjög vel... við munum án efa fara í fleiri göngur frá þessum stað... þó engin séu salernin því þarna truflum við engan landeiganda... og hundarnir eru ekki fyrir eins og við hesthúsin sem eru líklega styttri upphafsstaður í göngu hérna megin við Helgrindur...

Falleg leiðin til að byrja með... við lögðum af stað kl. 9:37 sem var ansi seint... en svona er þetta.... tíminn flýgur og við þurfum að vera ansi stíf ef við ætlum að nýta hann eins vel og hægt er á svona löngum degi...

Það var smávegis rigningarúði í byrjun göngu sem þornaði svo fljótlega...hlýtt og algert logn...

Þungbúið jú... en það átti að létta til og verða bjartara og við vonuðum það besta... sýnin upp í fjöllin var ekki mikil en það var allt að opnast...

Brátt kom Kirkjufellið í ljós.... það sést ekki mikið á þessari uppgönguleið nema á smá kafla... landslagið er það mikið í norðurlendunum að það er oftast í hverfi fyrir ásum, hryggjum og bungum... það koma á óvart...

Sterkir og djúpir litir einkenndu þennan dag... jörðin full af vökva og gróðri eftir sumarið... haustið er einstakur tími... eins og hinar þrjár árstíðirnar...

Dina var í sinni annarri tindferð með okkur... nýbúin að skrá sig í klúbbinn og hafði komið sem gestur í eina göngu fyrir tveimur árum eða svo... og hún keypti sér jöklabrodda og ísexi fyrir þessa göngu... þann búnað þorðum við ekki annað en taka með ef ske kynni... þó við ættum síður von á að þurfa að nota hann... þar höfðum við svo sannarlega rangt fyrir okkur eins og átti eftir að koma í ljós...

Kirkjufellið skreytti hluta af uppgönguleiðinni... einstakt fjall... og er stundum í samantektum yfir fegurstu fjöll heims... The 12 most beautiful mountains in the world - Hostelworld

Jebb... það var að birta til... við fylltumst orku við að sjá upp í fjöllin... fannhvít og freistandi...

Þjálfarar studdust við gps-slóð frá Jóni Oddssyni fjallamanni sem fer mikið einn mjög flottar leiðir... en hann er einn af tveimur sem við vitum um sem gengið hefur upp á fjallið Örn án klifurbúnaðar... og það var gps-slóðin sem við notuðum... af því við vorum að fara hér upp í fyrsta sinn... og vorum jú búin að velja leið út frá ljósmyndum af göngunni á Helgrindur í fyrra... þar sem við sáum fínustun leið... en það var öruggara að hafa einhvers lags viðmið ef þoka myndi flækjast fyrir og landslagið ekkert hjálpa okkur...

Vegna þessa þurftum við að velja hvoru megin við fjallsásinn við færum upp... og við þorðum ekki öðru en fara vestan megin við hann... af ótta við að lenda annars í frosnum hliðarhalla ofan við hann... en þessi uppgönguleið reyndist ekki eins falleg og sú sem við fórum svo niður um... og hefði getað verið uppgönguleiðin ef Bára hefði ekki beðið Örn að velja vestari leiðina... en við græddum þó á þessu smávegis hringleið... og fengum annað landslag á niðurleið sem naut sín mjög vel þá í síðdegisbirtunni... og við reyndar kynntumst þá landslaginu vestar... en við hefðum án efa ekki farið vestan megin niður ef við hefðum varið austari leiðina upp... svo þetta var svo sem alveg ágætis leið hvað það varðar...

Magnaðir litir... birta... form... landslag... hvílík fegurð !

Regnboginn skreytti meira að segja sjóinn á kafla... landslagið og birtan breyttist stöðugt allan daginn... eitt af mörgum sérkennum vetrargangnanna sem gefa almennt meiri fegurð í birtu en sumrin... af því sólin er lægra á lofti og dulúðin meira...

Við heilluðumst af fjallgarðinum austan við okkur á uppleið... og veltum fyrir okkur örnefnunum... Digrimúli... Hrókur... Smjörhnúkur... Kráka... magnað !
Reyndar mættu Snæfellsnesingar róa sig svolítið í Smjörhnúkunum :-) :-) :-)

Kirkjufellið og Brimlárhöfði... sá síðarnefndi er kominn á vinnulistann... flatt fjall jú... en magnað útsýni og einstök staðsetning !

Grundarfjörður hér í baksýn... og fjallið Klakkur nær og Eyrarfjallið fjær... Klakkur er líka kominn á vinnulistann...

Fegurðin var um allt...

Skyndilega komu Helgrindurnar í ljós... en landslagið nær hindað góða sýn.. tók því miður ekki fleiri myndir hér upp... hélt að útsýnið væri að opnast... en svo lokaðist það aftur...

Nesti og hvíld á uppleið... ennþá sumarfæri og allt mjög saklaust...

Ferskur snjór í gjótunni... snjólínan hafði sum sé verið neðar en nú fyrr í vetur...

Hvílíkt útsýni... hvílíkt fjall !

Fjallið Kráka... farið að opnast á Þverhlíðar og svoHvítahnúk ofar... mosagræni tindurinn hægra megin er nafnlaus...

Nú fór landið að svellast smám saman... og snjórinn smám saman að taka við... allt breyttist við þetta... við vorum komin í harðneskjulegri heim en sá sem neðar var...

Hráslaginn tók við... en samt ekki því það var enn lygnt og hlýtt...

Einstök litasamsetning... riddarapeysulitir...

Fljótlega eftir snjólínu fórum við í keðjubrodda... eina vitið... annar kostur var að þrjóskast við og detta svo á hendina og úlnliðsbrjóta sig til dæmis... við sem ekki þurfum að sýna hversu hraust við erum án keðjubrodda völdum að fara í þá snemma... enda þurfti maður þá ekkert að hræðast hvort maður stigi á svell eða mosa... léttir... aukinn gönguhraði... minni slysahætta... til hvers að halda á keðjubroddunum og tipla milli grjóta og mosabletta frekar en að fara í broddana og stíga bara þar sem maður þarf að stíga... ?

Þetta gekk hratt og vel fyirr sig á keðjunum...

En færið harðnaði enn frekar ofar... og fór að vera svellaðra í snjónum sem gaf sífellt minna eftir...

Það létti til... og svo þyngdi aftur yfir... vonbrigðin voru mikil... við sem héldum að það myndi létta til þegar liði á daginn... enginn var mættur hér á föstudegi til að ganga í þoku og engu skyggni...

Jú... förum í jöklabroddana... engin spurning... aftari menn horfðu á þá fremstu renna til og detta á keðjunum... til hvers að ganga með jöklabroddana og ísexina í bakpokanum og eyða orku í að leita að grjóti eða föstu landi til að feta sig á... jafnvel detta og slasa sig... frekar en að fara í þessa jöklabrodda sem allir eiga og kostuðu sitt... og æfa sig í að nota þá ?

Dina að nota sinn búnað í fyrsta sinn... vel valið hjá henni enda fékk hún góða þjónustu í GG-sport var það ekki ?
Bára þjálfari fór vel yfir ísaxarbremsu og hvernig ganga skyldi á jöklabroddum... ekkert gefið eftir í því... gerum þetta alltaf til að skerpa á og rifja upp í hvert sinn sem við förum í þennan búnað... notkun brodda og ísexi lærist fyrst og fremst með notkun... ekki á námskeiði... sem er samt gott að fara reglulega á... og þá best eftir að vera búin að nota búnaðinn til að skilja og geta spurt um og tileinkað sér hlutina út frá reynslunni...

Fremstu menn sem komnir vorun lengra en þeir öftustu fóru líka í sína jöklabrodda ofar... en fengu reyndar ekki þessa yfirferð á notkun búnaðarins... sem við skerptum samt á fyrir Tröllkerlinguna... en best hefði verið að við hefðum öll verið á sama stað og getað verið saman í að fara yfir handbrögðin... aldrei of oft farið yfir og spáð í þetta saman... enda stóðu menn sig mjög vel í þessari göngu og beittu búnaðinum rétt og yfirvegað allan tímann... virkilega vel gert !

Uppi í Egilsskarði var þoka og lítið skyggni... mikil vonbrigði... þar var grýtt og Bára þjálfari sá eftir því að hafa sett hópinn í jöklabroddana... en við fengum þá góða æfingu í að ganga gegnum grýttan snjó í þeim búnaði... og þurftum hvort eð er að nota hann stuttu síðar á báðum tindum...

Úr skarðinu sáum við varla til tindanna en vissum skv. gps að þeir væru þarna greyin... og héldum niður úr skarðinu til suðurs... reyndar fínt að fá þessa brekku og komandi hliðarhalla til að æfa broddana svo þetta kom ekki að mikilli sök að vera komin í allan búnaðinn svona snemma...

Á niðurleiðinni úr skarðinu tók að létta til.. alveg á réttum tímapunkti fyrir okkur... ótrúlegt alveg !

Tröllbarn sást brátt... sérkennilegt í lögun... höfuð þess mosavaxinn klettur...

Örninn... sem Reynir Ingibjartsson Snæfellsneskortamaðurinn okkar kallar einnig Tröllkarl í samræmi við Tröllkerlinguna og Tröllbarnið... var í skýjunum... og faldi sig þar allan daginn því miður...

Hliðarhallinn úr skarðinu í átt að Tröllkerlingu... sem við ákváðum að byrja á þar sem hún var erfiðari og fjær... og við ætluðum aftur um skarðið á niðurleið svo það yrði betri hringur...

Tröllkerling hér... virtist saklaus og létt uppgöngu þó brött væri efst... hún varð okkur meiri fjötur um fót en við gátum ímyndað okkur...

Tröllbarnið... þetta höfuð...

Klettarnir niður af Erninum til suðurs fengu skyndilega á sig sólina... við sáum til sjávar í suðri... en landið var ennþá þoku hulið að mestu...

Það var sannarlega ekki ætlunin að vera hér í vetraraðstæðum... enda var Örninn tekinn af dagskránni úr því við vorum svona seint í október og komin með snjó yfir allt... en við héldunm að við kæmumst upp með að fara á Tröllin tvö í mjúku snjófæri fyrsta snævar vetrarins eins og oft er nú ansi saklaus... með mjúkan mosann og jarðveginn undir sem gefur gott hald... en það reyndist aldeilis ekki verða svo...

Fljótlega hér... í um 750 m hæð tók færið að harðna...

Við fengum ekki nóg af þessum sérkennilega tindi eða höfði á Tröllbarninu... ótrúlegt alveg...

Örninn enn í skýjunum...

Færið orðið hart neðan við Tröllkerlingu og hér komu jöklabroddarnir sér mjög vel...

Ísexin mót brekkunni... breiða skaftið fram... efri fótur í göngustefnu... neðri í 45 gráður niður ef þarf til að halda jafnvægi... hafa gleitt milli fóta svo broddarnir flækist ekki í skálmunum eða hvor öðrum... lyfta hátt af því nú er fóturinn hærri en vanalega og broddarnir eiga til að rekast niður undir í jarðveginn og fella mann... taka stutt skref til að hafa meira vald á göngunni... stíga fast niður til að broddarnir nái í gegnum ísinn... og fimmta jöklabroddareglan; stíga jafnt niður til að nýta broddana í ísnum og alls ekki stíga á jarkana eins og maður gerir í skóm því nú er maður í broddum og þeir eru það sem heldur manni á ísnum... þjálfari ítrekaði þetta alla gönguna og menn gerðu þetta mjög vel...

Uppi á öxlinni á Tröllkerlingu var útsýnið til Tröllbarnsins mjög fallegt...

Hér ákváðu Bjarni og Sigríður Lísabet að láta gott heita... færið orðið alveg glerjað... ekkert hald í snjónum sem var bara einn ís... ekkert hélt okkur á fótunum nema broddarnir... allur búnaður okkar virkaði hér með eins og sleði sem færi mjög hratt með okkur niður þessa brekku... við höfum oft farið lengri brekkur en þetta... þjálfarar máta það svo að við gætum komist hér upp og lögðu af stað með hina... en hundurinn Batman komst hvorki lönd né strönd... það hefur ekki gerst áður... og lexía þessarar ferðar er sú... að þegar hundar sem vanalega fara allt með okkur á þessum árstíma, geta ekki lengur fótað sig í glerjuðu færi... þá erum við ekki að komast mikið ofar...

Þetta gekk vel til að byrja með... alla leið upp að klettunum... þar þurfti að skjáskjóta sér undir þá og upp síðustu brekkuna á tindinn... en færið varð sífellt verra... brattinn jókst... og brekkan var orðin löng sem mögulega var hægt að renna niður um ef einhver missti fótana... og því kallaði Bára þjálfari til Arnar hvort hér ætti ekki að láta staðar numið... Örn samþykkti það strax... og við snerum við... líklega með um 20 hæðarmetra eftir á tindinn eða svo... komin í 856 m hæð en Tröllkerling er sögð 873 m á Snæfellsneskorti Reynis Ingibjartssonar en um 860 m á map source...