Æfing nr. 717 þriðjudaginn 16. ágúst 2022.
Nyrsti tindur Hafnarfjalls var loksins á dagskrá eftir sjö ár frá því við gengum síðast á hann... í fjórða sinnið í sögunni samt... og í þriðja sinnið á þriðjudagsæfingu... nú upp hrygginn og niður dalinn... af því veðrið var með besta móti... sól og lygnt veður...
Innri Seleyrará... sé ekki nafn á kortum af þessari á sem rennur frá Hafnarfjallinu en á öðrum stöðum eru gilin nefnd Ytri og Innri Seleyrargil... gæti samt verið Hafnarfjallsá...
Glæsilegur tindur sem sker sig að ákveðnu leyti frá hinum Hafnarfjallstindunum... ljós að lit og stakur í norðri... en brattur og svipmikill eins og hinir tindarnir...
Stiklað svo yfir Seleyrarána sem rennur milli kollsins og hinna Hafnarfjallstindanna... og kemur heilmikið við sögu síðar í göngunni... en gilið nefnist Ytra Seleyrargil...
Leiðin upp hrygginn á Tungukolli er greiðfærari en áhorfist þegar að er komið... brattinn er sláandi úr fjarlægð og frá þjóðveginum.... og frá bílastæðinu svo einhverjir supu hveljur þegar við bentum á hvert för væri heitið þetta kvöld...
... en það er kominn góður slóði alla leið upp... hann var óljós þegar við fórum hér um fyrst árið 2010... en hefur greinilega styrkst með meiri umferð síðustu ár...
Mjög löng brekka... öll á fótinn... þetta var tekið í skrefum og mörgum pásum á milli til að halda hópinn...
Seleyrargilið og Seleyraráin... efst trónir Þverfellið, Þverhnúkur, Katlaþúfa og svo stingur Klausturstunguhóll sér upp þarna hægra megin...
Sjá stíginn sem er kominn í grjótið... myljandi gott færi og dásamlegt veður á uppleið... mikið spjallað og gefandi útsýni sem varð sífellt betra með hverjum metranum...
Þverhnúkur, Katlaþúfa, Klausturstunguhóll og svo stingast fjær upp Miðhnúkur og Gildalshnúkur... en Vesturhnúkur er út af mynd hægra megin...
Skemmtilegur árstími... lok sumars... snjórinn í minnsta lagi... og allt þurrt og hlýtt... og gróðurinn í hámarki þar sem hann hefur náð sér á strik sumarlangt...
Ofar fórum við að brúnunum og röktum okkur eftir þeim síðasta hlutann...
Mjög drjúgt og krefjandi... en við tókum þetta bara á spjallinu í rólegheitunum...
Litið til baka... leiðin er krefjandi niður líka... í lausamöl og renneríi... Borgarnes og brúin þarna niðri... þeir sem sáu þáttinn um Amazonfljótið... sem hækkar vatnsyfirborð sitt um 10 metra á monsúntímabilinu fengu smá ugg við tilhugsunina og hækkun sjávaryfirborðs fyrir byggðir eins og þessar úti á annesjum... sem eru ansi margar á Íslandi...
Komin upp og útsýnið var óborganlegt...
Til Snæfellsness og Vesturlands...
Til sjávar í suðri...
Til norðurs að Baulu og Holtavörðuheiði...
Til austurs að Skarðsheiði...
Reisulegir tindar Skarðsheiðarinnar blöstu við ofan af Tungukolli og nær voru litfagri fjallgarðurinn milli Hafnarfjalls og Skarðsheiðar sem er vanmetinn en við höfum gengið einu sinni... og löngu er kominn tími til að rifja upp... Rauðahnúkafjall og Svartitindur og félgara... Tindferð 72 - Baksviðs milli haf (toppfarar.is)
Tindurinn á Tungukolli mældist 689 m hár...
Hópmynd á tindinum með Hafnarfjallið all tí baksýn...
Björgólfur, Inga Guðrún, Kolbeinn, Þorleifur, Örn, Batman, Bjarni, Hjördís, Sigurbjörg, Þórkatla og Sigurjón en Bára tók mynd...
Með Skarðsheiðina, Rauðahnúkafjall og Svartatind í baksýn...
Grátlega fáir mættir í þessa fl0ttu göngu... en langar og krefjandi þriðjudagsgöngur eru almennt fámennar og áberandi betri mæting þegar lagt er upp með styttri göngur á þriðjudögum... svo þjálfarar gæta þess að standa við það sem lagt er upp með og eru hættir að lengja léttari þriðjudagsgöngurnar... því menn eru meðvitað að mæta í þær og ná sér í góða æfingu sem er ekki mjög löng... stundum einnig af því menn vilja ekki vera komnir mjög seint í bæinn... sem ber að virða því það er mál að endast árum saman í svona kvöldgöngum... og eitt af lykilatriðunum þar er að ofkeyra sér ekki... eða gera sér þetta of erfitt... stundum er notalegt að koma fyrr heim en áður... og ná í skottið á stöku þriðjudagskveldi...
Við gengum Tungukollinn til enda...
... þaður en við héldum niður aftur í dal Seleyrarár...
Gróskumikið sumarið áþreyfanlegt þó svalt væri í veðri...
Nokkuð bratt hér niður og við spáðum í hvort þetta hefði verið röng fjallstunga sem við völdum niður... en Örn var með leiðina á hreinu og þetta reyndist rétta leiðin...
Mjög skemmtileg leið einmitt svo skemmtilega krefjandi.... hörkuæfing í brekkum og bröttum upp- og niðurleiðum...
Gengum niður í botn dalsins... stikluðum yfir... og röktum okkur svo sunnan megin árinnar niður eftir...
Gott að fá svona margar ferðir yfir árnar... fjórar alls þetta kvöld... það þarf að æfa stiklun og vöðum sem oftast til að viðhalda jafnvæginu og útsjónarseminni í því... ekki venja sig á að hika sífellt og vera í vandræðum þegar komið er að svona hindrun... heldur bara vera snöggur að meta aðstæður og vera fljótur yfir... nú ef skórinn fer aðeins á kaf í vatn... þá blotnar maður ekki ef maður er í alvöru gönguskóm... utanvegaskórnir sem nú eru svo vinsælir hins vegar blotna strax enda meðvitað gisnir til loftunar og dreneringar... bókstaflega gerðir til að fara margsinnis yfir ár og drenera sig svo sjálfir á áframhaldandi för skokkandi... gönguskórnir eru hins vegar vatnsheldir og þola stöku skref á kaf án þess að hleypa vatni inn að sokkunum...
Gaman... ekta sumar... dásamlegt...
Litið til baka... mjög fallegur þessi dalur...
Sólsetrið tók á móti okkur út dalinn...
Við horfðum á leiðina okkar upp fyrr um kvöldið þarna handan við gilið...
Mjög falleg birta...
Leiðin okkar... alvöru brekkur... flott leið...
Ljóst bergið í botni árinnar...
Haustlitirnir komnir... berin... þessi árstími er einstakur...
Húmið læddist inn síðasta kílómetrann...
Við töfðumst svolítið við berjamó... það var ekki annað hægt...
Alls 6,6 km á 3:21 klst. upp í 689 m hæð með alls 665 m hækkun úr 50 m upphafshæð...
Mjög flott kvöld í fallegu en svölu veðri... hrikalegu landslagi, stórskemmtilegri yfirferð og yndislegum félagsskap... næstu þriðjudagskvöld eru hvert öðru fallegra... njótum þeirra í botn... áður en myrkrið skellur á í vetur...
Commentaires