top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Vífilsfell enn aðra óhefðbundna leið um brattar hvilftir, klettaskoru og gil

Æfing nr. 705 þriðjudaginn 24. maí 2022.


Í annað sinnið í sögunni fórum við upp þessa öxl hér sem blasir við þjóðvegi 1 og er skreytt kroti frá því maður man eftir sér í æsku þegar ekið er framhjá Vífilsfelli... og beint þaðan upp á stærri öxlina áður en haldið er upp á höfuðið... um hvilftina sem tengir tindinn við neðri bungur...


Rigning í bænum og rigning í kortunum... en skraufþurrt, logn og hlýtt við fjallsrætur... og við lögðum af stað hálf hissa og efins um að þetti yrði svona gott veður... sum enn í hlífðarbuxunum og með hlíf yfir bakpokunum... til þess eins að fara úr og létta á sér alla leiðina upp...


Við sneiddum norðan við námusvæðið... þar sem sjá mátti þennan stein sem vélarnar unnu ekki á... eða vildu hlífa sökum álfa eða annarra dýra merkurinnar...


Manngerður fjallshryggur hér upp meðfram námunum... sérstakt... en skemmtilegt...


Vífilsfellsöxl heitir þessi bunga sem rís norðan við Vífilsfellið og stendur sér... svo við leyfðum okkur að telja hana sem einn af fimmtán tindum sem við erum nú að ganga á fimmtán dögum í tilefni af 15 ára afmæli fjallgönguklúbbsins...


Á Vífilsfellsöxl beið okkar þessi klettur... og Örn byrjaði...


... og allir komu á eftir... það var svo gott veður og erfitt að leika sér ekki aðeins úr því við fengum ekki þessa rigningu sem við áttum von á...


Alls 10 manns á þessari æfing sem var sorglega lítið þar sem leiðin var svo flott... en svona er þetta... rigning er nóg til að draga mikið úr mætingu... meira en rok eða kuldi... en einmitt í svona lygnu og hlýju veðri... þá skiptir engu þó það rigni smávegis... sem það gerir yfirleitt... það rignir mjög sjaldan mikið ef maður hugsar um það...


Ofan af Vífilsfellsöxl héldum við yfir á Vífilsfellið... upp hvilftina hér innst var ætlunin... en við enduðum á að fara upp auða blettinn milli skaflanna í klettabeltinu þarna vinstra megin... af því nýlegar stikur lokkuðu okkur þangað... það var ekkert mál...


Vífilsfellið er ótrúlega flottur heimur... auðvitað eigum við að ganga hér á hverju ári... í öllum veðrum og alls kyns færi og á öllum árstímum... gerum það hér með !


Átta manns hér og svo Bára ljósmyndari... Guðmundur Jón bættist svo við en hann mætti vestan megin við fjallið og hélt að við ætluðum ÞÁ óhefðbundnu leið... sem við höfum farið nokkrum sinnum... en þessi var ENN önnur óhefðbundin leið á þetta fagra fjall...


Kolbeinn, Þórkatla, Örn, Silla, Njóla, Sigrún Bjarna, Sigubjörg og Sjöfn Kristins og Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...


Magnaðar bergmyndanir í Vífilsfelli og töfrar um allt...


Mikið rætt um málefni líðandi stundar... Vitjanir... sveitastjórnarmálin... flóttamannavandann... yndislegt og gefandi og þroskandi að ræða ólík mál og fá ólík sjónarhorn... hollt og gott...


Við sáum stikur efst í klettunum milli skaflanna sem lágu yfir brúninni efst á innri öxl Vífilsfells... og þjálfarar ákváðu að fara þar upp í stað þess að fara hvilftina innst...


og þetta reyndist fínasta leið sem var mjög gaman að fara... en hér geta allir farið upp ef þeir eru fótvissir...


Smá snjór efst en mjúkur og greiðfær...


UPp vorum við komin á stóru innri öxlina og stefndum þaðan á efti hvilftina þar sem gamla leiðin er... við getum enn ekki skilið hvernig mönnum datt í hug að stika leið úti á sléttu hraunhellunum austan megin... þar sem strax er komin fljúgandi hálka á haustin og veturna...

... hvilftin um gömlu leiðina er einfaldlega mjög góð leið í smávegis brölti og klöngri en ekkert í líkingu við það sem bíður ofar og því á allra færi sem á annað borð ganga á Vífilsfell...


Ennþá var veðrið gott og yndislegt að ganga í sumarveðri og færð... eftir erfiðan veturinn...


Neðan við höfuðið á Vífilsfelli hittum við á Guðmund Jón sem dreif sig á eftir okkur þegar hann áttaði sig á mistökunum... fór hefðbundnu leiðina upp og náði okkur á rétta staðnum... magnað hjá honum !


Efsti hluti Vífilsfells er alltaf ævintýri... já... á hverju ári... auðvitað komum við hingað upp... hvað annað !


Búið að endurnýja reipin á fjallinu og setja eitt gott hér alla leið niður... fyrir einhverju síðan...


Hvílíkt landslag... þetta fjall er geggjað !


Við lékum okkur og vorum í núinu... dásamlegt... útsýni alla leið upp á tind og logn... frábært gönguveður og langtum framar vonum...


Sjá lágskýin yfir Bláfjallahrygg... við sluppum alveg við þetta...


Ný reipi á efsta kaflanum... vel hugsað um gönguleiðirnar á þessu fjalli hjá Kópavogi...


Yndislegur félagsskapur og mjög gefandi samvera þetta kvöld eins og alltaf... ekki síst andlega eru þessar þriðjudagsæfinga heilandi fyrir mann eins og líkamlega...


Komin upp á tind í logni og útsýni og þurru veðri... magnað ! Í 669 m mældri hæð í þetta skiptið... við vorum í þrettánda skiptið í sögu Toppfara hér uppi... https://www.fjallgongur.is/v-öll-fjöll-sem-byrja-á-v

Vestar fann Örn aðra leið niður eða upp... sem við ætlum að fara á næsta ári... hún er stikuð og einhverjir hafa farið hana áður í hópnum... mjög spennandi...


Nesti og spjall á tindinum...


Nú fór að rigna smá... og það þyngdi aðeins yfir... var veðrið sem var spáð loksins að koma yfir okkur núna ? Við vorum allavega undir það búin og drifum okkur niður...


En nú fórum við nýja leið... um þrönga klettaskoru sem einnig var búið að setja stiku við... en hún var það þröng að fötin gátu rispast og rifnað sem og bakpokinn sem gat nánast fest mann milli kletta...


... og hundurinn Batman hringsólaðin og vildi ekki hér niður... við reyndum að tala hann til... og taka hann í fangið... en hann vildi ekki samþykkja það og stökk milli kletta í vandræðum... yfirleitt þegar við lendum í þessu þá finna hundarnir sjálfir sína leið... en hér rak hann upp nístandi örvæntingaróp þegar Bára sem síðasti maður lagði af stað hér niður og vildi alls ekki koma á eftir henni... sem þeir vilja stundum til að hafa engan yfir sér á meðan þeir fara krítískan kafla... svo Örn fór aftur upp og fór niður með hann sömu leið og við komum upp... litla skinnið sitt... þetta óp nísti mann inn að beini í nokkra daga á eftir...


Frá klettaskorunni fórum við undir klettunum þar sem farið er vanalega upp og komum aftur út á ásinn sem liggur að höfðinu...


... og þaðan fórum við aftur niður gömlu leiðina í hvilftinni...


... og Örn ákváð að fara aftur niður klettabeltið í norðurhlíðunum og snúa þar aðra leið niður... frekar en að fara hefðbundnu leiðina niður... úr því veðrið var ennþá með besta móti... því rigningarúðinn sem kom á tindinum þegar við lögðum af stað niður... þornaði strax og varð að engu... við vorum ennþá í þurru veðri á niðurleið...


Mjög skemmtileg leið... sjá þokuna komna á hraunsléttuna vestan megin...


Mjög flott leið hér niður klettabeltið...


En nú sneri Örn austar og stefndi beint á bílana þarna niðri handan við námusvæðið...


Þetta reyndist virkilega flott leið... hingað verðum við að koma aftur...


Steinninn sérstaki... skoðum hann aftur síðar engin spurning !


Guðmundur Jón, Sigurbjörg, Sjöfn Kr., Njóla, Silla, Örn, Kolbeinn. Þórkatla, Sigrún Bjarna og Batman en Bára tók mynd :-)


Steinninn á hlið... bergið í Vífilsfelli er einstakt...


Nú sá Örn gil birtast á niðurleið og tók smá áhættu... þau enda oft í ógöngum þegar neðar er komið en geta verið mjög saklaus efst...


... en hann ákvað að prófa því þetta leit vel út...


Mjög skemmtileg leið með smá brölti...


Jú... það var fært alla leið niður... Örn fór á undan og sá greiðfæra leið neðst... við vorum undir það búin að þurfa að snúa upp úr þessu gili... við vorum sko í stuði... en það þurfti ekki...


Hér þurfum við að koma aftur...


... og fara þá upp hér öfuga leið miðað við þetta kvöld... og fara svo hringleiðin um vesturhöfuðið til baka svona til að breyta þeim kafla líka...


Námusvæðið beið okkar reyndar þegar komið var niður úr gilinu... sem skýrir líklega hvers vegna enginn er að ganga þetta gil... en við bara sniðgöngum það næst og skoðum þetta gil aftur hina leiðina ekki spurning...


Alls 7,4 km á 3:17 klst. upp í 669 m hæð með alls 581 m hækkun úr 215 m upphafshæð...


Virkilega flott leið á þetta kyngimagnaða fjall sem er komið til að vera árlega hjá okkur... það á það svo sannarlega skilið sakir fegurðar og einstakleika og fjölbreytileika og dulúðar og ég veit ekki hvað :-)

96 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page