Æfing nr. 747 þriðjudaginn 21. mars 2023.
Ætlunin var að ganga á Torfdalshrygg á jafndægrum 21. mars... en þann dag skall á smávegis snjóstormur mitt í langri froststillu þessa dagana... og við ákváðum að meta aðstæður á staðnum og velja aðra leið eftir veðri... úr varð Reykjafell og Æsustaðafjall um Skammadal... öfuga leið frá því síðast...
Heilmikill vindur en líka ágætis skjól til að byrja með og rokið í bakið svo fyrri hluti göngunnar var fínasta ganga með spjalli og öllu saman...
Vanalega erum við hér í myrkri svo þetta var ágætis ganga til að sjá brekkur Reykjafells í dagsbirtu... þær voru saklausari núna en í myrkrinu ef eitthvað var...
Það reyndi mest á tvennt í þessari göngu... að halda jafnvægi í vindinum... og hvað maður var með fyrir andlitinu... þeir sem ekki voru með skíða- eða útivistargleraugu brugðu á það ráð að setja buff yfir allt andlitið og rýna í gegnum það til að sjá... skafrenningurinn lamdi ansi hvass á andlitið...
En við náðum að taka hópmynd í hviðunum á tindinum... sjá ungabangsann á tindi Reykjafells... margt svona gerir Mosfellsbæ að frábæru, heilsusamlegu og fjölskylduvænu samfélagi sem maður fær ekki innsýn í nema vera búsettur þar eða gengur á fjöll þeirra eða ferð í sundlaugarnar þeirra þar sem heilsumarkmiðin fimm blasa við en bara þau ein og sér eru virkilega vel gerð...
Guðmdur Jón, Birgir, Sjörn Kr., Inga Guðrún, Sigrún Bjarna, örn, Siggi, Kolbeinn og Þorleifur, en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...
Frá Reykjafelli niður að Æsustaðafjalli var mikill mótvindur og þeir sem ekki voru með einhvers lags gleraugu hlífðu andlitinu með hettum eða buffum... élin lömdu grimmt á okkur á þessum kafla...
Tindar Æsustaðafjalls blasa hér við... það leynir á sér það fjall og er víðfeðmara en áhorfist í byrjun...
Þetta var hugfrískandi og hugvíkkandi einn og hálfur klukkutími í hvössum skafrenningi... eða hugdeyfandi og hugþrengjandi skjátími eftir vinnu fram að kvöldmat...
#Takk úthverfi Reykjavíkur fyrir að gefa okkur þetta val... að geta farið upp í fjöll og fjölbreyttar óbyggðir í jaðri borgarinnar og slegist við slæm veður... og koma sterkari heim... með nýjar hugmyndir... rjóðheitar kinnar... hlátur í huga... meira sjálfstraust... ólgandi blóð í ystu æðum... yl í hjarta eftir hlátur og samveru alls kyns fólks úr öllum áttum... á öllum aldri... með önnur sjónarhorn en maður sjálfur... hugljómandi kvöldganga #Þriðjudagsþakklæti
Þarna náðum við aðeins að setjast því það var krefjandi að halda sér standandi á tveimur fótum... og gott að geta aðeins spjallað eða lagað búnaðinn...
Færsla frá Sjöfn Kristins af lokaða fb-hópi Toppfara, leyfi mér að hafa hana alla því hún er svo frábær: "Það lá við ég setti grjót í vasana í göngunni í kvöld, var foki næst í hressilegustu hviðunum. Reykjafell og Æsustaðafjall virkuðu sem fullvaxin fjöll í þetta sinn.
Gengu fjöll í grimmdarbyl garpar ofurknáir. Meiri naglar tæpast til, trúlega mjög fáir."
Tilvitnun lýkur ! Takk Sjöfn, geggjuð vísa !
Guðmundur Jón mældi 24 m/sek á fyrri tindi Æsustaðafjalls og á þessum sem er hæstur mældi hann 28 m/sek... já, þetta var ansi hvasst á þessum köflum en skárra á milli... skráður vindur á þessu svæði skv. Veðurstofunni 18 m/sek sem var líklega nærri lagi á leiðinni almennt...
Batman hrímaðist óvenju mikið í þessari göngu... enda hiti í kringum frostmark sem er verstu skilyrði til að snjór festist í feldinum... en hann kann að hrista þetta af sér og héld sér stöðugt á gangi alla gönguna...
Hann er með vaxandi æxli undir neðri kjálka sem dýralæknir metur svo að of flókið sé að skera burt þar sem lítið hold sé til að taka við umfanginu sem hyrfi... hann er kominn á æxlisdrepandi lyf frá Önnu Rósu grasalækni sem heitir Turkey Tail sveppaduft... og þjálfarar vona það besta... virðist ekki vera með verki né virðist þetta hamla honum í daglegu lífi... vonum það besta... besti vinur okkar og besti fjallafélagi í heimi...
"Bæði betra" ... hetta, skíðagleraugu og ullartrefill... eða ullarhúfa yfir þunnri lambhúshettu og útivistargleraugu... ólíkur búnaður... ólíkar lausnir... með alls kyns fólki úr öllum áttum koma mismunandi útfærslur við varnir gegn veðri... það er hugvíkkandi... og svo gefandi að upplifa það... það er jú ekkert eitt rétt í þessu... fögnum fjölbreytileikanum... alltaf... alls staðar... það eru forréttindi að ganga með þessu fólki á fjöllum... takk fyrir að vera okkar göngufélagar elskurnar !
Frískandi... styrkjandi... búnaðarprófandi... herðandi... lífgandi... hugléttandi... alls 5,3 km á 1:29 klst. upp í 281 m hæð með alls 274 m hækkun úr 109 m upphafshæð.
Geggjuð æfing ! Megi þær koma reglulega til að kenna okkur og styrkja og gefa okkur frískleika á sál og líkama til móts við þessar lygnu sólríkur og friðsælu... þó ekki væri nema til að minna okkur á hversu lánsöm við erum að geta farið á fjöll í jaðri borgarinnar í góðfúslegu leyfi úthverfanna sem hugsa svo vel um þessi svæði fyrir okkur og af miklum metnaði ! Takk Mosó... Grafarvogur... Grafarholt... Árbær... Breiðholt... Kópavogur... Garðabær... Hafnarfjörður... fyrir öll ykkar útivistarsvæði sem gefa okkur óendanlegar gæðastundir !
댓글