top of page

Vor í lofti og dagsbirta á Þorbirni

Æfing nr. 742 þriðjudaginn 14. febrúar 2023.


Við prófuðum nýja leið á fjallið Þorbjörn um miðjan febrúar í þessum rysjótta vetri... og vorum í fyrsta sinn í vetrargöngu á þetta fallega fjall... en mitt í öllum illviðrunum... fengum við þetta ljúfa vorkvöld með dagsbirtu og hlýindum sem var óskaplega vel þegið... og lygilegt að upplifa á þessum krefjandi vetri....


Skiltið við bílastæðið var mjög skilmerkilegt og við sáum að það er einnig leið upp vestan megin sem heitir "Gyltustígur" og við þurfum auðvitað að prófa hann næst...


Þar sem við erum lítið fyrir að ganga troðnar slóðir og á stígum þá fór Örn upp mosa og kjarr í suðurhlíðunum og var ætlunin að fara bara beint upp en Þórkatla var búin að setja okkur í bílnum að það væri fínn stígur suðvestan megin sem staðfestist á skiltinu við fjallið og við vorum of forvitin til að sleppa honum... enda gott að menn læri á fleiri leiðir á fjallið þar sem Þorbjörn er eitt af vinafjöllunum tólf á árinu 2023 og er fjall júní - mánaðar... svo við þurfum öll að fara hér í þeim mánuði sem erum með í þeirri áskorun...


Frábær mæting þrátt fyrir langan akstur og yfirvofandi verkfall Eflingar sem olli því að allir voru að birgja sig upp af bensínu... en þjálfarar ákváðu að láta ekki þetta verkfall taka af okkur þessa æfingu eftir tilfæringar vegna veðurs vikuna á undan og fleiri breytingar á árinu... þetta var komið gott... við ákváðum að halda áætlun og vona að nægilega margir myndu ekki hafa áhyggjur af þessu bensínleysi... enda var sett hlé á verkfallið tveimur dögum síðar og eins gott að við héldum okkar striki...


Við vorum fljótlega komin á þennan fína slóða upp suðvestan megin og hér kom smávegis él í líklega hálfa mínútu... með smávegis vindi... en svo var eins og Þorbjörn setti verkbann á veðrið... og það féll allt aftur í ljúfa löð... logn, hlýtt og meira að segja sólarroði í suðaustri þar sem sólin var að setjast...


Mjög flott leið upp meðfram klettunum... fegurð Þorbjarnar eða Þorbjarnarfells lætur ekki að sér hæða...


Mættir alls 14 manns... dugnaðurinn er staðfastur á þriðjudögum þó mætingin sé mjög lítil í dagsferðunum... vel af sér vikið !


Brátt fórum við að sjá verksummerkin eftir jarðhræringarnar á Reykjanesi frá því í ársbyrjun 2021 sem endaði svo með gosi í Fagradalsfjalli 19. mars og svo 3. ágúst 2022... sár í klettaveggjunum og grjót sem hrunið hafði úr þeim neðar í brekkunum...
Þetta var hálf óhugnanlegt og sláandi að sjá þetta...


Stundum var grjótið á stígnum... bæði hér og vestan megin undir fjallinu...


Stór sár og heilu björgin...


Komin upp á fjallið hér... sjá stóra sárið hægra megin og risavaxin björg sem hafa losnað úr klettaveggnum... hér koma þeir yfir klettana sem ganga upp bílveginn á fjallið...


Sjá hvernig stórt bjarg hefur losnað frá veggnum og stendur sér rétt fyrir neðan en minni björg halda því og koma í veg fyrir að það detti fram...


Halldóra Þórarins kom á eftir okkur á þessa æfingu og fór upp akstursveginn og náði okkur hér...


Ennþá dagsbirta... vá, hvað það var dýrmætt... eftir allt myrkrið... #takk fyrir dagsbirtuna... já, dagsbirtan var þriðjudagsþakklæti vikunnar... #Þriðjudagsþakklæti


Lausa bjargið hér hægra megin... erfitt að ná stærðinni á mynd...


Við ákváðum að taka hópmynd hér til að bera svo saman þar til síðar... þar sem þetta mun líklega falla fram í frekari jarðskjálftum...


Andrea, Bára, Guðmundur Jón, Halldóra þórarins., Johan, Katrín Kj., Kolbeinn, Linda, Sigurbjörg, Siggi, Sjöfn Kr., Steingrímur, Þórkatla og Örn og Batman var eini hundurinn...


Nú var stefnan tekin á tindinn til vesturs...


... í gegnum gjárnar... sem eru magnað fyrirbæri og fá mann alltaf til að taka andann á lofti...


Í stígnum á leið niður í gjárnar mátti sjá klofning í jarðveginum... svipaðan og efst í Hrómundartindi sem við sáum eftir Suðurlandsskjálftann síðasta...


Magnað að ganga hér niður og um allt !


Ennþá snjóskafl í sumum gjánum...


Einstakur staður... við ættum eiginlega að fara á þetta fjall á hverju ári... eins og Vífilsfellið o.fl. sem eru orðin uppáhalds... og safna mánuðum á þeim öllum... auðvitað !


Þessi svipmiklu fjöll eru aldrei eins og skipta litum og skipta um ham eftir árstíðum... þau eru náttúrulega vinir okkar... og vini sína heimsækir maður... þessum fjöllum sendir maður ekki skilaboð á samfélagsmiðlum... við þurfum að heimsækja þau til að viðhalda tengslunum...


Auðvitað fórum við upp um hraungatið... a la Toppfarar...


Geggjuð leið fyrir klifurketti og þá sem vilja smávegis ögrun...


Og mjög hollt þegar maður vill gera meira en það léttasta og auðveldasta...


Andrea Gríndvíkingur... ljúfmennskan og gleðin uppmáluð... ein af afskaplega dýrmætum nýliðum síðustu mánaða... hér að koma upp um gatið... það má eiginlega ekki vera þrengra... þetta er alveg útfærsla... en félagarnir sannarlega til í að hjálpa eins og þarf...

ekkert smá gaman !


Komin á tindinn... og ennþá var dagsbirta... og hægt að horfa niður að sjá og niður á bæinn Grindavík... og yfir allt Reykjanesið... vá, hvað þetta var dásamlegt og vel þegið... hvílík þriðjudagsæfing í febrúar innan um öll þessi veður !


Þjálfarar héldu sig við lengri áætlunina úr því það var svona gott veður... ekki niður svipaða leið sem hefði þýtt um 4 kílómetrar... heldur niður norðan megin... og hálfan hring í kringum fjallið vestan megin... sem lofaði um 6 kílómetrum og var mjög spennandi þar sem hún var ný útfærsla á göngu á þetta fjall..


Og ekki sveik þessi leið okkur...


Andrea sagði okkur að hér gróðursettu öll grunnskólabörn Grindavíkur tré á hverju ári... og eru á góðri leið með að græða upp fjallið að norðan... virkilega fallegt að sjá þetta og gaman að upplifa þennan skóg verða til... því frá því við fórum hér fyrst í júlí 2009... hafa þau sannarlega vaxið...Þegar niður í skóginn var komið og lagt af stað meðfram fjallinu var komið rökkur... það munaði um að vera staddur norðan megin eða sunnan megin... hér var myrkrið... og við fengum síðasta hlutann til baka í höfuðljósabirtu...


Á þessum kafla var sláandi að sjá afleiðingarnar af grjóthruninu í jarðskjálftunum... röð stórra hola eftir eitt bjargið sem hafði rúllað niður hlíðina...


... sjá eina holuna hér...


... og hér lenti það... vestan við stíginn... engin smá för eftir þetta grjót !


Og sums staðar var grjótið á stígnum og við þurftum að sneiða vel framhjá... svo stígurinn mun breytast á nokkrum árum... það var ótrúlegt að sjá þetta... hingað verðum við að koma aftur... þetta var hluti af leiðinni okkar fyrsta legginn þvert yfir Ísland... en það var fyrir jarðhræringarnar... já, förum hingað aftur á næsta ári... en hey, við sem erum í vinafjallsáskoruninni getum líka vel skoðað þetta í júní-göngunni á okkar á eigin vegum í sumar... það verður þess virði að keyra alla leið hingað fyrir þetta fjall, svo sannarlega !Alls 5,8 km á 2:08 klst. upp í 255 m hæð með alls 319 m hækkun úr 42 m upphafshæð...


Vor í lofti... dagsbirta... hlýtt... ja, það var 1 stigs hiti... smá roði á himni... yndileg samvera... maður biður ekki um meira í febrúar... við keyrðum heim full þakklætis...

45 views0 comments

Comments


bottom of page