top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Yfir Búrfell í Grímsnesi og Lyngdalsheiði að Reyðarbörmum um legg 8 #ÞvertyfirÍsland

Tindferð nr. 264 laugardaginn 22. apríl 2023.


Það snjóaði í fjöll og heiðar aðfararnótt laugardagsins 22. apríl... þegar við loksins hundskuðumst legg númer átta á leið okkar yfir landið...


Fallegt veður... algert logn... svalt til að byrja með en svo hlýnaði... og skyggni var gott allan daginn... með smávegis sól en að mestu skýjuðu veðri...


Syðsta súla hvít niður... þarna vorum við tveimur dögum áður... á fimmtudeginum, sumardeginum fyrsta í algerri þoku niður neðri hlíðar... grátlegt... sérstaklega af því veðurspáin var sól og blíða...


Fjöldi húsbíla og tjaldvagna á Þingvöllum á þessum næst síðasta laugardagsmorgni í apríl... breyttir tímar með margfaldri ferðamennsku... fyrstu ár Toppfara var enginn hér í apríl nema við...


Búrfellið í Grímsnesi líka grátt yfir... ótrúlegt... en það var nú bara apríl...


Við skildum tvo bíla eftir á Lyngdalsheiðinni og keyrðum á tveimur öðrum í Grímsnesið... þar sem lagt var af stað gangandi kl. 8:43...


Við reyndum að sniðganga sumarhúsasvæðið eins og við gátum og fórum móann sunnan við svæðið...


Mjög góð leiðin upp í móa að mestu...


Sumarið áþreifanlegt þrátt fyrir svalann... og við vorum frekar léttklædd upp þessar brekkur í logninu...


Mjög mikið spjallað í þessari göngu og yndislegt að fá svona notalegan dag...


Gil og klettar á leiðinni upp...


Mjög fallegt hér...


Ingólfsfjallið vinstra megin... Sogið og heiðin að Hveragerði hægra megin...


Hvergi mikill bratti né tæpistigur og frekar létt uppgöngu þó þétt væri...


Uppi var heilmikil snjóföl ennþá eftir nóttina en hún átti eftir að hverfa þegar leið á daginn...


Stöðuvatnið uppi á fjallinu er svo fallegt... við verðum að koma hér síðsumars í góðu veðri einn þriðjudaginn...


Batman og Myrra að skoppa hér saman...


Litið til baka með Ingólfsfjallið og Sogið fjær...


Spegilslétt vatnið... alger friður... og við ein í heiminum... hverfandi lúxus með örmul ferðamanna um allt og sífellt þreyttari landeigendur með átroðninginn svo sífellt fleiri leiðir sem er erfiðara að taka...


Við fórum ofan við vatnið austan megin...


Litið til baka... sjá skýjafarið sem huldi Hengilinn að hluta...


Tindurinn á Búrfelli í sjónmáli...


Seinni tindurinn... Búrfellið mældist 543 m hátt... gaman að þvera það á þessari leið...


Litið til baka með vörðuna á fyrri tindinum að baki...


Við ákváðum að taka nestispásu á góðum stað í meira skyggni því það var smávegis gjóla efst...


Dalverpi hér uppi á fjallinu sem var notalegt fyrir góða nestispásu...


Nú var haldið niður norðan megin og stefnt á Lyngdalsheiðina...


Þjálfari reitti hár sitt í leit að spennandi leið yfir þetta svæði og endaði á þessari útgáfu... sama hvað hún reyndi... það var engin leið framhjá Lyngdalsheiðinni úr því sem komið var nema fara yfir byggð ból með tilheyrandi girðingum, skurðum, görðum, húsum og vegum... þá var þetta skárra...


Leiðin niður hér var tilraunakennd en reyndi ekkert á leiðarval... var greið alla leiðina og hægt að fara nánast hvar sem er...


Lyngdalsheiðin hér skellótt og endalaus að sjá... með Þrasaborgirnar sem efsta tind...


Smá landslag hér... við fengum ekki einu sinni skyggni til fjalla á Þingvöllum né til jökla á Suðurlandi til að skreyta leiðina... þessi leggur átti greinilega að kenna okkur einhvers lags æðruleyti... þakklæti... staðfestu... já, það þarf víst ef maður ætlar að þvera landið...


Riddarapeysurnar og vinir hennar... mjög fallegar prjónapeysur allar saman... Kolbeinn í nýrri peysu og Ása einnig.... mjög gaman að sjá og ekki síður hinar prjónapeysurnar... þetta er svo fallegt... og auðgar andann mikið...


Batman og Myrra náðust með á mynd... meiri töffararnir... Batman með skerm á höfðinu eftir aðgerðina síðasta miðvikudag... búinn að læra að lifa með honum eftir heilmikla hræðslu og óöryggi fyrst... og Myrra var góð við hann...


Við ætlum þessa leið yfir... eins gott að rata sko :-) ... stefndum bara á Þrasaborgir... efsta "tind" Lyngdalsheiðarinnar...


Þessi vegaslóði var tekinn en hann náði stutt... þúfurnar voru aðalverkefnið á þessari leið yfir heiðina...


En slóðinn var ekkert endilega betri en þúfurnar... eins og hinum megin á fjallinu...


Litið til baka með Búrfellið orðið nánast snjólaust aftur...


Komin fjær hér...


Grín og glens... "leghafar og punghafar"... og allur texti til útskýringar á þessu var fjarlægður þar sem ritari þorir ekki að skrifa hvers vegna við enduðum á að skilgreina okkur svona... það gæti móðgað einhvern og þessi ferðasaga endað sem fyrirsögn í fjölmiðlum... mikið væri gott ef við fengjum aftur Spaugstofuna... eða ef Kanarí-þættirnir mættu vera vikulega og gera grín að fréttum vikunnar... en það þorir því líklega enginn lengur... allt grín er orðið svo vandasamt... æji... hvar erum við ef við getum ekki hlegið smávegis að hversdeginum og verkefnum hans án þess að móðga sífellt hvort annað... jæja... best að hætta áður en maður móðgar einhvern og endar sem fyrirsögn og er slátrað á samskiptamiðlunum...


Þessi vegaslóði var jafn erfiður og þúfurnar...


Snjókorn tóku að flyksast hér niður í nokkrar mínútur... en svo kom sólin beint í kjölfarið... magnað alveg... vetur og sumar að takast á í alvöru bardaga beint fyrir framan okkur...


Jebb... sólin komin aftur... yndislegt...


Það voru um 7 km frá Búrfellstindinum á hæsta punkt Þrasaborga... og um 5 km frá Þrasaborgum í bílana... og þetta gekk mun betur en við áttum von á... sem var náttúrulega af því það var ekkert að skoða eða staldra við á leiðinni nema skipta um föt og borða...


Heilandi engu að síður og mjög dýrmætir kílómetrar í líkamann...


Þrasaborgir í sjónmáli... þetta gekk framar vonum... og allir þeir sem áttu erindi á laugardagskveldinu glöddust að hafa nægan tíma...


Litið til baka að Búrfellinu... við vorum komin svona langt sem sé...


Komin á einn klettinn í gígbarminum sem er efst á Þrasaborgum... eins og lítil útgáfa af öskjubarmi Öræfajökuls þar sem tindarnir stingast upp úr gömlum gígbarmi...


Útsýnið niður á undirlendi Suðurlands... Mosfell, Vörðufell og Hestfjall... við þurfum að ganga á þau á þriðjudagskveldi...


Búrfellið frá Þrasaborgum...


Efsti tindurinn framundan...


Komin upp... í 418 m hæð...


Yfir farinn veg... horft yfir Þrasaborgir til Búrfellsins...


Fanney er einn af bestu vinum Toppfarahundanna... þeir koma aldrei að tómum kofanum hjá henni... góðgæti á hverjum fingri... sem þeir kunna mjög vel að meta...


Gott að sitja á efsta tindi... í logni... Örn í gamalli lopapeysu sem Bára þjálfari prjónaði löngu áður en riddararpeysurnar komu við sögu... aðeins of stór... en kemur sér vel það r sem riddarapeysan er í viðgerð...



Ji, það eru bara 386 kílómetrar að Fonti á Langanesi... það er ekki neitt... við erum aldeilis komin langt áleiðis fannst okkur...


Áfram var lágskýjað því miður og því ekki nægilega góð fjallasýn en ofan af Þrasaborgum á Lyngdalsheiði er mikið útsýni til allra átta...


Laugarvatn og fjöll þess í fjarska hér...


Ofan af Þrasaborgum straujuðum við rösklega niður eftir til norðurs að Reyðarbörmunum sem koma hér smám saman í ljós...


Gamall vegaslóðinn ekki betri yfirferðar en þúfurnar... bara hálf þriðjudagskvöldgönguleið eftir... það var ekkert... á okkur runnu tvær grímur... þetta var mun fljótlegra en við áttum von á... klukkan var varla orðin tvö...


Kálfstindarnir að koma í ljós...


Litið til baka... já... þetta var heiði... og ekkert meira en það :-)


Komin á stutta vegaslóðann að hestagerðinu sem er vestan við okkur...


Tókum hópmynd með leiðina framundan í baksýn... hún verður allt öðruvísi en þessi... innan um fjöll allt í kring og inn í sönduga sali sem fáir koma í... það verður geggjað !

Stefnum á sunnudaginn 18. júní... en hugsanlega fyrr ef tækifæri gefst...


Tveir bílar biðu okkar frá því um morguninn... en sá hængur var á að Agnar hafði skilið bíllykilinn sinn eftir í bílnum hans Kolbeins við rætur Búrfells... sniðugt hjá honum... en við vorum á því að þetta var náttúrulega bara að skreyta ferðina... það var þá hægt að hlæja að þessu eins og svo mörgu öðru... æðruleysið var algert... enda gott veður og við biðum bara meðan Kolbeinn fór með Erni að sækja lyklana... en Ása og Gulla fengu far og gátu keyrt heim frá Búrfelli...


Þessi tvö fengu far með Toppfarabílnum... hættulegt að bíða við vegakantinn sem laus hundur í þessari umferð...


Alls 17 km á 6:02 klst. upp í 543 m hæð með alls 879 m hækkun úr 74 m upphafshæð... mismunandi mælingar tækjanna... en við létum stóra gps-tækið ráða sem var aldrei þessu vant með hærri tölu... 16,5 km var líka nærri lagi...


Sjá meðalhraðann... ef hann er þessi á hringleiðinni Kringum Langasjó í júlí... þá erum við 17 klukkustundir að fara kringum hann... það er ekkert mál... þrisvar þessi dagleið... með góðum matarpásum og nægilega mikið af bröndurum, gefandi spjalli, rólegheitum á köflum í eigin hugleiðingum, fallegri náttúru, algerum friði, kyngimögnuðu umhverfi... þá verður þessi hringleið kringum Langasjó einstök upplifun... hlökkum mikið til !


Skyndilega opnaðist himininn og eingöngu Miðsúla í Botnssúlum kíkti á okkur þar sem við biðum meðan strákarnir náðu í bíllykla Agnars... það var eins og hún væri að híja á okkur... en við hlógum bara með henni... allt í lagi... það má alveg æfa staðfestu og þolinmæði... við náum þér næst... í betra veðri en var síðasta fimmtudag... bíddu bara :-)


Reyðarbarmar og Kálfstindar... sá hæsti og ansi fáfarinn miðað við Flosatind... þarna auður innst... vá, hvað það verður gaman að ganga næsta legg... alla leið að Klukkutindum sem eru einstakur staður að heimsækja... og svo um Hrútatinda og Skriðutinda niður Brúarárskörðin... vá... það er erfitt að bíða... en gott að vita af svona mergjuðum leggjum... nema við höldum áfram um Jarlhetturnar... nei, þá vantar brú yfir Laxá og Þjórsá og... æj... þessi þverun er alveg leið sem krefst úthugsunar... ef við ætlum okkar fjallgönguleið... en ekki feta bara í fótspor þeirra sem gengið hafa þetta í einum rykk á sem stystum tíma á sem einfaldastan máta...


Spjallað og beðið eftir lyklunum hans Agnars... logn og hlýtt og þurrt... en strákarnir keyrðu inn í grenjandi rigningu við Búrfellið...


... og þegar þeir komu til okkar um 20 mín síðar... og sögðu okkur að það væri grenjandi rigning rétt neðar en þarna upp frá... duttu niður fyrstu regndropanir... við sluppum nákvæmlega á mínútunni sem það fór að rigna... magnað hvað veðurguðirnir eru alltaf með okkur í liði... líka þegar það viðrar illa... það er vel meint af þeim... bara gert til að æfa elju og þrautsegju og hæfni gegn öllum veðrum... takk fyrir okkur veðurguðir...


Akstursleiðin falleg til baka... og sólin skein greinilega í heiði norðar... Ármannsfellið hér og Hrafnabjörg og Skjaldbreiður...


Miðsúla ítrekaði hláturinn... gaman að sjá þetta svona... við sendum henni fingurkoss og getum ekki beðið eftir að heimsækja hana aftur eftir stórkostlega göngu á hana árið 2020... Tindferð 198 Syðsta súla og Miðs (toppfarar.is)


Sjá hér Þverunarleggina alla í tímaröð: thvert_yfir_island | Toppfarar (fjallgongur.is)




Þar til næst... takk Ísland fyrir að vera til svo við getum þverað svona kyngimagnað land og uppgötvað alls kyns töfra á leiðinni...


77 views0 comments

Comments


bottom of page