top of page

Þríhyrningur var föstudagsfjallið í mars.

Tindferð nr. 262 föstudaginn 17. mars 2023 #Föstudagsfjallgöngur


Þetta fjórhyrnda fjall... sem er alveg í stíl við stóra bróður sinn... Eyjafjallajökul þegar horft er úr Grunnbúðum þjálfara í Landsveit... Fjallaseli... var föstudagsfjallið okkar í marsmánuði og það fékk... eins og Vikrafellið... að komast að á sinni upphaflegu dagsetningu skv. dagskrá sem svo sannarlega er sjaldgæft á þessu ári 2023... þar sem stöðugt hefur þurft að fresta og færa til ferðir vegna veðurs eða ófærðar eða jafnvel verkfalls... en það sama verður ekki sagt um Bjólfellið... sem var föstudagsfjall febrúarmánaðar... enda bíður það ennþá á hliðarkantinum og hefur þurft að víkja vegna veðurs... verkfalls og tindferða á laugardegi...


Fámennt þennan friðsæla föstudag... en algert logn og hlýnandi veður í einn sólarhring sem var ansi kærkomið mitt á milli vindasamra daga og frosts sem annars hefur ríkt dagana á undan og eftir þessari ferð...


Við ákváðum að keyra ekki yfir Fiská... rennandi straumurinn undir þykkum klakanum... heldur leggja bílunum austan við hana og freista þess að komast yfir ána á tveimur jafnfljótum...


Smá klakaganga meðfram girðingunni og súludans utan um girðingarstaurinn kom í staðinn fyrir að festa bílana í klakanum í ánni... góð skipti það :-)

Leiðin upp á Þríhyrning hefur breyst hratt síðustu ár og er orðin að vel troðnum slóða upp á syðsta tindinn... ótrúlega miklar breytingar við fjallsrætur og upp mörg fjöll síðustu ár... en okkur grunar að fjallgöngurnar almennt sem nokkurs konar útivistaræði sem rann á landsmenn upp úr 2007 sé í rénun núna... það er allavega okkar tilfinning... önnur hreyfing hefur tekið að hluta til við... og önnur afþreying eins og síminn... sem hefur huggleypandi... hughamlandi og jafnvel huglamandi áhrif á ótrúlega marga... væri gaman að vita hvernig aðrir upplifa þetta... gaman að spá í þetta... og kannski er ekki langt gagnrýniraddir í garð síma- og samskiptamiðlanotkunar verði ekki leyfðar... það má spyrja sig... og það má missa sig í samsæriskenningunum af því það er allavega meira frískandi en huglamandi notkun á símanum inni í stofu... :-)


Konurnar fjórar sem mættu í þessar ferð mæta sama hvað... Fanney, Jaana, Sjöfn Kr., og Þórkatla... þær hefðu mætt þó þetta hefði verið 25 km ganga á 12 klukkustundum... við skellihlógum að þessu... eins og það var nú góð hugmynd að hafa léttar og stuttar fjallgöngur einu sinni í viku á föstudögum... koma snemma heim og eiga alla helgina framundan... að þá virkaði hún allavega ekki þennan föstudaginn... en við vitum að þetta er góð hugmynd... og höldum ótrauð áfram með eina föstudags... göngu... í mánuði...


Dásamlegur dagur í algeru logni... og það heitu á uppleið að vettlingar, jakkar og lopapeysur fuku af okkur smám saman upp brekkurnar... það var svo vel þegið...


Háskýjað og meiri sól en við áttum von á... spáð skýjuðu veðri og hita í kringum frostmark og yfir frostmarki þegar leið á daginn... og það rættist... en snjókomubeltið sem átti að skríða inn á suðurlandið um þrjúleytið kom aldrei... það var bara blár himinn og sól allt kvöldið í Fjallaseli... en svo snjóaði í borginni smávegis daginn eftir...


Þetta var fimmta ganga Toppfara á Þríhyrning... en þjálfarar hafa komið hér nokkrum sinnum til viðbótar með fjölskyldu eða jafnvel skokkandi í friði og ró... og höfum við aldrei hitt á annað fólk hér svo ég muni... bara það... eru vaxandi forréttindi í heiminum... Þ öll fjöll sem byrja á Þ | Toppfarar (fjallgongur.is)


Eyjafjallajökullinn geislaði af sól og frosnum snjó... mjög fallegt að sjá hann þennan dag...


Það er alltaf jafn áhrifamikið að koma fram á brúnir Þríhyrnings austan sunnan megin... þessar brúnir biðu okkar allt til enda á hæsta tind sem er nyrstur...


Mjög fallegur staður að koma á... hér var meira að segja friður og algert logn... ótrúlegt !


Hekla í samhengi... og niðri rann Fiskáin fallega í klakaböndum...


Við gengum nokkurn veginn sömu leið og áður eftir brúnunum en þó með einu skemmtilegu afbrigði... Tindfjallajökull í fjarska hægra megin og Hekla vinstra megin út af mynd...


Batman hljóp alla leið niður í botn fjallsins milli austurtindsins og tindahryggjarins og lék sér í snjónum... og hljóp svo eins og fætur toguðu upp aftur þegar hann heyrði að við vorum að tala um hann og kalla á hann... bara þessi lífsgleði hundanna... er mannbætandi... heilsubætandi... hugvíkkandi...


Austurtindurinn... sem þurfti náttúrulega að fá nafn...


Magnaðar brúnir... einstakt landslag...


Fuglinn á syllunum utan í klettunum... gleymdum að ræða tegundina... Rita ?


Hvílíkur staður að heima á... pant vera fugl á einhverju æviskeiði...


Litið til baka á fyrsta tindinn...


Tindur tvö... og Hekla veifandi þarna vinstra megin... hún verður gengin síðar á árinu... löngu kominn tími á að heimsækja hana...


Það er meira að segja kominn vel mótaður stígur eftir öllum Þríhyrningi...


Magnaðar brúnir og heimsfræg eldfjöll og jöklar allan hringinn... Eyjafjallajökull, Mýrdalsjökull, Tindfjallajökull, Hekla og Vestmannaeyjar... magnað !


Leiðin framundan... við tókum stíginn undir klettinum hægra megin við miðja mynd á útleið... og hrygginn til baka...


Það eru hrein forréttindi að ganga með félögum Toppfara... hvílíkur eðalfélagsskapur... gefandi samvera og hugvíkkandi umræður... mannbætandi og ekkert minna... svona dagur gefur meira en hangs fyrir framan skjáinn...


Já... við ræddum það síðast... það er kominn tími á að fara upp þessar brekkur... gerum það næst... og niður norðan megin... löngu kominn tími á að fara nýjar leiðir á þetta fjall !


Áfram hélt veislan...


Litið til baka...


Ágætis klöngur í grjóti á köflum upp og niður brúnirnar...


Hópmynd dagsins... Sjöfn Kr., Örn, Þórkatla, Jaana og Fanney og Batman á bak við... loksins farinn að skilja þetta hópmyndablæti þjálfara... eða ekki :-)

Bára með og Örn tók mynd... þessi rauða peysa passaði náttúrulega ekkert inn í græna og brúna gengið... það vantar fleiri rauðar peysur sko :-) Batman var miklu betri á þessari hópmynd :-)


Sjá stíginn sem við tókum vinstra megin framundan hér og svo undir klettana fjær... það var ný leið...


Vel mótaður stígur... gamlar kindagötur...


Mjög skemmtileg leið... smá frost í jörðu sem slapp samt ágætlega...


Örn passaði ungana sína fimm vel þennan dag... Bára var einn af ungunum... haltrandi með stafi... en hnéð varð ekki verra við þessa göngu... það er hollt að hreyfa sig eins og frekast er unnt... frekar en að liggja heima í sjálfsvorkunn og volæði... áfram útivera og hreyfing eins og heilsan leyfir !


Litið til baka... hólpin úr hliðarstígnum :-)


Staki kletturinn framundan...


Meðfram honum og svo meðfram þessum líka en á hryggnum til baka...


Fagrafellið okkar ofan við fossana þarna í fjarska... og Vestmannaeyjarnar... og endalaus fjöll sem við höfum gengið á í gegnum árin allt í kring...


Hliðarstígurinn hér greiðfær og fínn... ekki frost né hálka en smávegis lausagrjót reyndi á eins og vanalega...


Hæsti tindurinn framundan...


Við vorum enga stund hér upp... þegar gengið er allt árið um kring... þá líður manni alltaf vel og er aldrei að erfiða... það er lykillinn að því að njóta fjallgangnanna... viðhalda góðu fjallgönguformi tólf mánuði á ári...


Nestispása á efsta tindi... af því það var logn og við þurftum ekki einu sinni að velja stað neðan við tindinn... dásamlegt ! Hann mældist 699 m hár...


Sátum bara og horfðum yfir allt suðvesturundirlendið frá Hellisheiði að Hvolsvelli... með Heklu trónandi yfir öllu eins og sú sem hefur síðasta orðið á þessu svæði... sem er jú einmitt það sem hún hefur...


Hópmynd á efsta tindi með fjallið í baksýn... frábær félagsskapur... hugbreytandi umræður um málefni líðandi stundar þar sem svo gott er að heyra ólík sjónarhorn og alls kyns skoðanir... nýjar hugmyndir... góðar lausnir... alls kyns spennandi hluti... jafnvel heilu heimana sem maður vissi ekki að væru til.. sem víkkuðu hugann og nærðu sálina,,,


Hryggurinn til baka... þessi ganga átti að vera í snjó... því þetta fjall hefur eingöngu einu sinni verið gengið hvítt frá tindi og niður... en það er löngu orðið snjólaust... jafnvel upp í 800 - 900 m hæð... sem þýðir að ef vorið verður gott þá opnast hálendið frekar snemma í sumar... sem skiptir miklu fyrir okkur því það eru nokkrar mergjaðar ferðir á hálendinu á dagskrá í sumar... og við ætlum þó við verðum bara sex manns eins og þennan dag... af því það er ekki sjálfgefið að hafa endalaust af tækifærum til að fara... eins gott að nýta tímann... heilsuna, getuna meðan maður kemst...


Mjög skemmtilegt klöngur á þessum kafla...


Ennþá alger friður og við fundum hvernig það var að hlýna...


En vorum í jökkunum eftir kyrrsetuna í nestispásunni því það var nokkuð svalt uppi í 699 m hæð...


Vestmannaeyjar þarna úti á hafi... svo falleg leið...


Þórkatla brá á leik... það var ekki hægt annað en vera himinglaður í þessu logni... ein í heiminum á einu svipmesta fjalli Suðurlands...


Hollt og gott klöngur hér niður...


Og þá var að stefna næst á austurtindinn...


Hann var greiðfær í mosaslegnu grasi... litið til baka hér með hæsta tindinn hægra megin...


Uppi var dásemdin ein...


Jú... förum hér niður og að gljúfrinu... það var nægur tími og enginn að flýta sér...


Vestmannaeyjar... þær ætla að gefa okkur stórkostlega göngu um hvítasunnuna...


Gljúfrið á niðurleið... við höfum ekki alltaf skoðað það...


Allir fóru niður á oddann nema Fanney og Bára sem var haltrandi á niðurleið...


Þetta landslag minnti ás Tröllakróka í Lónsöræfum...


Aðeins upp og ofan við gljúfrið...


... uppþornaður árfarvegurinn og fossfarvegurinn í gljúfrinu...


Einu sinni rann vatnið hér og mótaði landslagið... allt þurrt núna og horfið... snjóa leysir hér á hverju vori... allt farið nú um miðjan mars...


Mikið spjallað og spáð... samræður sem eru ómetanlegar... á tímum gegndarlausrar símanotkunar... Örn, Jaana og Sjöfn Kristins...


Þórkatla og Fanney...


Batman hvíldi sig þegar við misstum okkur í spjallinu... :-)


Frosnar lækjarsprænur á niðurleið...


Það voru -2 gráður uppi... og +2 niðri... og komnar 5+ gráður á Hvolsvelli á heimleið...


Bára þjálfari tafði niðurleiðina líklega um korter eða svo... hnéð aumt og þoldi olla svona langa niðurleið... örlög margra Toppfara í gegnum tíðina... algengustu meiðslin í sögu klúbbfélaga og algengasta ástæðan fyrir því að menn hætta fjallgöngum... en það er spurning hvort það eigi ekki að halda áfram og gefast ekki upp þegar svona meiðsli koma því líkaminn er stöðugt að græða sig og gera sig sterkari ef mann er beðinn um ákveðna hreyfingu...


Litið til baka upp eftir fjallinu...


Sérstakar bergmyndarnir rétt við ána...


Fegurð hins smáa er ekki síðri en stóra landslagið í fjallgöngunum...


Súludansinn aftur í bílana... :-)


Friðsældin og hlýindin við bílana var áþreifanleg... við tímdum varla heim...


Úr og gps-tæki mældu þetta frá 8,3 - 10,5 km...


Við enduðum á að láta 9,8 km á 5:12 klst. upp í 699 m hæð með alls 752 m hækkun úr 148 m hæð standa... ekki að marka gps-tæki kvenþjálfarans þar sem hún fór ekki niður tangann í gljúfrinu...


Prjónaskapur Fanneyjar skoðaður... og Örn reyndi að vera með... það er svo gefandi að spá í prjónaskap í fjallgöngunum... :-)


Takk fyrir okkur Þríhyrningur... þú ert geggjað fjall !


Teygjur, nesti, prjónales, viðrun... áður en haldið var heim...


Og Batman tók þátt í þessu öllu með því að liggja og hlusta og njóta eftir notalega göngu...


Um kvöldið tók sólin að skína á Þríhyrning úr Grunnbúðum þjálfara... Þríhyrningur hefur þann góða eiginleika að minna okkur á að það eru mörg ólík sjónarhorn til af sama hlutnum... og öll eiga þau rétt á sér... bara þessi eini eiginleiki fjallanna er gott dæmi um hversu hugvíkkandi það er að ganga á fjöll...


Og Hekla minnti á sig eins og vanalega...


Gullin fegurð og töfrar sem toga okkur alltaf aftur... tvö föstudagsfjöll að baki af 12 á árinu... við gefumst ekki upp og göngum á þau öll tólf á árinu sama hvað mætingu áhrærir... annars gerast ekki ævintýrin... takk fyrir okkur elsku félagar sem gengu eftir öllum þessum brúnum þennan dag... hvílík forréttindi á föstudegi...



127 views0 comments
bottom of page