top of page

Fri, May 05

|

#Vatnajökulstindarnir

Eystri Hnappur í Öræfajökli

Jöklaferð ársins 2023 er mjög spennandi ganga á sjaldfarnasta tindinn í öskjubarmi Öræfajökuls. Eingöngu á færi þeirra sem eru vel undirbúnir í mjög góðu formi fyrir krefjandi göngudag í jöklabúnaði og línum undir leiðsögn Asgard Beyond sprungna leið í bratta, fjórir á hvern leiðsögumann.

Registration is Closed
See other events
Eystri Hnappur í Öræfajökli
Eystri Hnappur í Öræfajökli

Time & Location

May 05, 2023, 2:00 PM EDT – May 07, 2023, 4:00 PM EDT

#Vatnajökulstindarnir, Öræfajökull, Iceland

About the Event

Uppfært 4. maí 2023:

Aflýst vegna veðurs, enginn dagur mögulegur. Þessi ferð er komin á síðustu helgina í apríl 2024.

Uppselt; staðfestir með fullnaðargreiðslu eru 12 manns: Bára, Davíð, Fanney, Gunnar Viðar,  Gustav, Jaana, Johan, Sigrún Bjarna, Sjöfn Kr.,  Sturla Hvanndal Birkisson gestur, Tinna og Örn.

*Fullskipað í allar þrjár línurnar (4 göngumenn á einn leiðsögumann).

*Skráning eingöngu með fullnaðargreiðslu og athugið vel afboðunarskilmála neðar NB.

*Enginn á biðlista og við afboðun er ekki endurgreitt NB þar sem annars þarf að fella alla línuna niður og hinir þrír kæmust þá ekki í ferðina. 

*Afboðað: Doddi og Njóla.

*Hámark 12 manns (fjórir á hvern leiðsögumann) og lágmark 8 manns. 

Mikilvægar tilkynningar: 

*Það er skýr krafa frá leiðsögumönnum að eingöngu þeir sem æfa mjög vel fyrir þessa ferð og eru í mjög góðu gönguformi fyrir mjög langan og krefjandi dag geti komið í þessa göngu. Leiðin er flókin, fjölbreytt og krefjandi allan tímann, dagurinn er langur og það er ekki möguleiki á að snúa við með hluta af hópnum, svo ALLIR þurfa að vera mjög vel undirbúnir. Til að tryggja að við séum öll í takt þurfa allir leiðangursmenn að æfa með klúbbnum og mæta vel, helst sem oftast í okkar göngur til að æfa formið og einnig svo við þjálfarar getum metið formið á öllum og tryggt að allir séu vel undirbúnir.  

*Góð viðmiðun fyrir gott gönguform eru allir þeir sem geta haldið sig framarlega í göngunum okkar, bæði upp brekkur og á sléttum köflum og eru almennt ekki að dragast aftur úr né í vandræðum með formið í löngum göngum.  Það er góð regla ef menn vilja bæta formið sitt að staðsetja sig alltaf í hverri göngu framarlega og reyna að halda í við fremstu menn eins lengi og þeir geta og finna hvernig formið eykst. Önnur góð regla er að fara einsamall eina röska göngu á viku á vinafjallið sitt eða álíka, ganga alla leið upp á tind og niður aftur án þess að stoppa nema eingöngu uppi á tindinum, þó maður sé móður og þreyttur. Gera þetta að lágmarki einu sinni í viku og finna hvernig formið eykst. Allir sem koma í þessa göngu þurfa að fara í lágmark tvær göngur sem eru mjög langar eða um 18+ km langar og vera ekki í vandræðum með formið í þeim. Ekkert stress, mjög margir í klúbbnum eru í nægilega góðu formi fyrir þessa göngu nú þegar, nú reynir á að halda því formi fram í maí eða bæta það ef menn geta ekki  mátað sig við ofangreind skilyrði - það er vel hægt og mögulegt öllum með góðri ástundun. Koma svo, við getum þetta,  þetta verður geggjað gaman og algerlega þess virði eins og fyrri jöklagöngur öll þessi ár sýna vel.  

*Skráning er hafin með fullnaðargreiðslu kr. 42.000 á mann sem er óendurkræf við afboðun eftir 1. mars 2023 NEMA annar taki plássið. Ekki skrá ykkur nema þið séuð ákveðin í að koma með og komist alla þrjá göngudagana.

*Fylla þarf hverja línu (4 manns) þannig að við þurfum lágmark 8 manns til að ná tveimur jöklalínum og þriðja línan fer eingöngu ef fjórir ná að fylla hana. Hámarksþátttaka í þessa ferð er 12 manns (3 jöklalínur). 

*Takið frá tímarammann frá fimmtudagskveldi 4. maí, fös 5. maí, laug 8. maí og sun 9. maí þar sem stefnt er að göngu laug 7. maí en göngudagar til vara eru föstudagur og sunnudagur.  Allir þessir dagar gilda sem mögulegir göngudagar þegar nær dregur og skráning og greiðsla fyrir ferð miðast við að allir komist alla dagana (fimmtudagskveldið þá til að keyra austur og í versta falli erum við að keyra heim á mánudegi eftir göngu á sunnudegi. NB nauðsynlegt að allir komist alla þessa daga til að ferðin sé möguleg öllum, ekki skrá ykkur ef þið komist eingöngu suma þessara daga NB.

*Ég pantaði alls 12 gistipláss í Svínafelli, 2 x 2ja manna herbergi í kojum bak við matsalinn og 2 x 4ra manna smáhýsi í kojum (líka fyrir Hvannadalshnúksfarana) - en NB hver og einn þarf að skrá sig í það pláss með því að senda þeim tölvupóst og þau pláss sem ekki eru staðfest með tölvupósti til Pálínu, falla niður í lok janúar þar sem mikið er verið að spyrja um gistingu í maí - sjá nánar neðar undir gistingu. 

*Sjá hér allar lengri jöklaferðir Toppfara á Vatnajökul hér í tímaröð: http://fjallgongur.is/vatnajokulsferdir_fra_upphafi.htm

*Sjá Undirbúningur fyrir jöklaferðir - mikilvægt að allir lesi þetta alltaf fyrir árlegu jöklaferðirnar í maí NB: http://fjallgongur.is/jokla_gongu_thjalfun_almennt.htm

Veðurspár:

www.vedur.is Skoðið staðaspár og veðurþáttaspár til að fá betri yfirsýn yfir vind, úrkomu og hita á svæðinu. NB Textaspá er réttari en myndaspá. www.belgingur.is er stundum nákvæmari.

Sjá norska veðurspávefinn www.yr.no þar sem hægt er að skoða langtímaspá, helgarspá og klukkutímaspár en taka þarf með í reikninginn að um fjallendi er að ræða þar sem önnur lögmál gilda en á láglendi og oft er hæðartala á þessum vef röng.

Verð á mann miðað við fjóra á hvern jöklaleiðsögumann:

Kr. 42.000 fyrir klúbbmeðlimi - allur jöklabúnaður innifalinn (broddar, ísexi, belti, hjálmur, karabína). 

Kr. 49.000 fyrir gesti - allur jökla búnaður innifalinn (broddar, ísexi, belti, hjálmur, karabína).

Greitt beint inn á reikning Toppfara ehf: 0114-26-58100. kt. 581007-2210 eða með símgreiðslu á kreditkorti: Örn er í síma 588-5277 eða 899-8185 og Bára í 867-4000 og tölvupóst orn-bokari(hjá)simnet.is og baraket(hjá)simnet.is.

Skráning og skilmálar: Skráning í ferðina fer fram með greiðslu heildarverðs ferðar kr. 42.000 inn á reikning Toppfara: 0114-26-58100. Kt: 581007-2210.  Greiðsla á ferð er ekki endurgreidd við afboðun eftir 1. mars 2023 NEMA annar taki plássið NB enda þurfa hinir í línunni annars að taka á sig kostnaðinn til að geta fyllt línuna og komist í ferðina en að öðrum kosti fellur línan niður.

Leiðsögumenn:

Jón Heiðar Andrésson og leiðsögumenn hjá Asgard Beyond: www.asgardbeyond.is og  https://www.facebook.com/asgardbeyond

Göngulengd, hæð, hækkun og tímalengd:

Um 18 km á 10 klst. upp í 1.740 m hæð og hækkun er alls um 1.400 m miðað við 500 - 600 m upphafshæð. 

Gengið frá jeppaslóðanum um Hnappavallaleið í hrauni og grjóti aflíðandi brekkur til að byrja með og svo fljótlega á jökli þar sem fara þarf í jöklalínur og gæta að sprungum. Leiðin er talsvert sprungin alla leið að tindinum. Tindurinn sjálfur er brattur og hópurinn verður lóðsaður upp í öryggislínum með tryggingum sem er tímafrekt og vandasamt og þess vegna eru 4 manns á hvern leiðsögumann. Þeir sem gengu með okkur á Dyrhamar 2017 eða á Vestari Hnapp 2021 eða Suðurtind Hrútsfjallstinda 2022 þekkja þetta fyrirkomulag en vel reynir á yfirvegun og öryggi í bratta þegar lóðsað er upp svona brattar  brekkur í snjó upp og niður en við förum þetta auðvitað alltaf á stuðningi og orkugjöf hvert frá öðru. Ef færið er mjúkt er þetta ekkert mál (eins og á Suðurtindi) en ef þetta er harðfenni þá reynir aðeins á en við getum þetta öll sbr. Vestari Hnappur. Sjá ferðasögurnar úr þessum ferðum hér:

Tindferð 141 Hvannadalshryggur D (toppfarar.is)

Vestari Hnappur Öræfajökli 2. maí 2021 (fjallgongur.is)

Suðurtindur Hrútsfjallstinda stórkosleg upplifun ! (fjallgongur.is)

Brottför og heimkoma:

Brottför frá Reykjavík í Skaftafell kl. 14:00 á föstudegi. Gengið af stað kl. 5:00 á laugardagsmorgni en ákveðið endanlega á fimmtudag eða föstudag. Grillveisla í á tjaldstæðinu í Skaftafelli eftir göngu - gaman saman - og brottför heim kl. 10:00 á sunnudegi eða eftir smekk hvers og eins og heimkoma um kl. 15:00.

Aksturslengd/-lýsing: 

Um 326 km á 4 - 5 klst. um Suðurlandsveg alla leið í Skaftafell með viðkomu í Systrakaffi (þá 5 klst alls).

Gisting:

- Pöntuð eru 14 gistipláss fyrstu helgina í maí með sveigjanleika frá fimmtudegi fram á mánudag eftir því hvaða göngudagur verður fyrir valinu - alltaf miðað við 2 nætur á mann og við greiðum fyrir þær þar sem Pálína heldur þessum gistiplássum fyrir okkur fram að staðfestum göngutíma sem er langt í frá sjálfgefið. 

- 3 x 2ja manna herbergi í kojum bak við matsalinn (þjálfarar í einu þeirra) og 2 x 4ra manna smáhýsi í kojum. 

- Þetta er svefnpokapláss, taka með lak, sæng og kodda eða svefnpoka.

- Mikilvægt að senda póst á svinafell(hjá)svinafell.com til að festa sér pláss og mikilvægt að taka fram "Toppfarar". 

- Pálína í Svínafelli vill allt fyrir okkur gera... virðum sveigjanleika þeirra og liðlegheit.

- Gistiplássum sem ekki er búið að staðfesta með tölvupósti til Pálínu í lok janúar verður ráðstafað til annarra NB.

- Annars er það tjald þeir sem vilja og það þarf ekki að panta tjaldstæði. 

- Sturtuaðstaða við matsalinn og bakherbergjunum við hann.

- Tökum með handklæði, snyrtidót og hlý og þægileg föt til að fara í um kvöldið eftir gönguna.

- Þjálfarar koma með kol og olíu og hver og einn kemur með sitt á grillið eftir göngu. 

- Fínn matsalurinn sem við höfum aðgang að, - sjá www.svinafell.com.

- Ef menn vilja betri gistingu en svefnpokapláss þá er Kartöflugeymslan, Hótel Skaftafell, Hof o. fl. gististaðir í nágrenninu.

- Ath við verðum að sofa í Skaftafelli nóttina fyrir og eftir, ekki möguleiki að keyra í bæinn eftir göngu v/þreytu og lítils svefns fyrir göngudaginn NB.

Erfiðleikastig:

Um 6 af 6 eða mjög krefjandi dagsganga, eingöngu á færi þeirra sem farið hafa í krefjandi dagsferðir vikurnar og mánuðina á undan. Reynsla í göngu á broddum með ísexi nauðsynleg. Tindferðir í janúar fram í apríl miða að því að undirbúa þessa jöklaferð þar sem farið er í fremur langar dagsferðir og í mars og apríl förum við á há fjöll á jöklabroddum með ísexi til að æfa þann búnað vel auk þess sem farið verður yfir notkun hans í þriðjudagsgöngu í febrúar. Nýtum þennan búnað sem oftast á veturna til að hann sé okkur sem tamastur enda nauðsynlegur búnaður í fjallgöngum að vetri til. 

Búnaður:

Í grunninn sami búnaður og í vetrartindferðunum og því kemur sér vel að hafa gengið reglulega í vetur og vor. Jöklabroddar, ísexi og göngubelti með læstri karabínu nauðsynlegur búnaður allra - innifalið í verði en þarf að panta við fullnaðargreiðslu. Sjá yfirlit undir búnaður.

Tryggingar:

Þátttakendur eru ekki tryggðir í göngunum og er bent á tryggingarfélögin í þessu sambandi. Toppfarar ehf tryggir hvorki þátttakendur né farangur þeirra. Þátttakendur ferðast á eigin ábyrgð og eru því hvattir til að kanna með eigin tryggingar.

Sjá viðburð á fb hér: 

Share This Event

bottom of page