Tindferð 246 laugardaginn 7. maí 2022 #Hrútsfjallstindar #AsgardBeyond #Öræfajökull #Vatnajökull #Svínafell
Í fjórtánda sinnið í sögu klúbbsins var stefnan tekin á fjallstind í Öræfum Vatnajökuls og nú sem hin síðari ár fyrstu helgina í maí... enn einu sinni lánsöm með veðurspá sem var reyndar ekki alveg bongó alla helgina en með nægilega góðan veðurglugga til að við ættum að ná ágætis göngu í lygnu og sólríku veðri...
Kristínartindar hér fyrir miðri mynd... og Hrútsfjallstindarnir hægra megin í úfnum skýjunum... við hættum við að ganga á föstudeginum þar sem of mikill vindur var í kortunum... og það var ískalt í veðri þennan dag og tindarnir umluktir skýjum sem vindurinn feykti ofan af fjöllunum... við hefðum ekki viljað vera þarna uppi þennan dag...
Frábært veður á akstursdeginum... það skiptir miklu og gerir ferðalagið skemmtilegra...
Hafursfellið og Skaftafellsjökullinn... gönguleið okkar daginn eftir þarna meðfram jöklinum í hlíðunum og svo inn fellið upp í skarðið þar sem snjórinn er...
Hrútsfjallstindarnir í skýjunum...
Veðrið að kyrrast og mjög notalegt að koma í Svínafell eins og alltaf...
Efri menn og Fremri menn í Hafursfellið þessir tindar hér dökku snjólausu.. skarðið og brekkan upp úr því sést hér... fyrsti hlutinn á Hrútsfjallstinda er í raun sá erfiðasti...
Byrjuðum á að borga og fá lyklana að smáhýsunum eða herbergjunum...
Allir komu sér fyrir og svo kíktu menn yfir í bakherbergið við matsalinn þar sem þjálfarar hafa sofið síðustu ár og fleiri komist á bragðið með að gista...
Smáhýsin voru fullbókuð af okkur eða Fjallavinum eða erlendum gestum þessa helgi..
Sýnin til Hafrafells frá gististaðnum...
Matsalurinn... staðarhaldarar Svínafells opna gistinguna hér niður frá í byrjun maí svo við erum gjarnan fyrstu helgargestir þeirra á hverju sumri... grillið var ekki komið á staðinn og bóndinn þurfti að sækja það kvöldinu síðar þegar við gripum í tómt með lærisneiðarnar í höndunum...
Jón Heiðar og Róbert kíktu á okkur um níuleytið um kvöldið og fóru yfir göngudaginn... ræs kl. 3:30 3ða 4:00... brottför áætluð kl. 4:45 frá Svínafelli... gangan skyldi hefjast kl. 05:00 um morguninn... við fórum því beint í rúmið eftir fundinn... full tilhlökkunar og kannski smá kvíða líka... þetta venst með árunum en fyrstu skiptin eru kvíðavekjandi og spennan er heilmikil... erfitt að sofna og sumir sváfu lítið sem ekkert eins og er dæmigert í þessum ferðum...
Við héldum tímaplani morguninn eftir og veðrið var sn öggtum betra en kvöldinu áður... orðið skýjað og lygnt og mun hlýrra... í raun mikil breyting milli daga...
Leiðin á Hrútsfjallstinda er veisla frá fyrsta skrefi... bílaplanið er kyngimagnað eitt og sér... það eru alger forréttindi að vera á þessum stað... og geta yfirleitt gengið þessa erfiðu og löngu leið... við vorum þakklát og auðmjúk gagnvart þessum degi... og í okkur var líka léttir... það var gott að loksins var að þessu komið...
Fjallavinir voru á sama stað á sama tíma, sex manns í einni línu með einn leiðsögumann... og þjálfarar þekktu tvo í þeim hópi, Gunna Dór föður körfaboltadrengs í Fjölni og svo Jón Sigurðsson fyrrum Toppfara... og svo var Þórður höfðingi Fjallavina þarna með sem gaman var að hitta en þjálfarar höfðu spjallað lítillega við hann kvöldinu áður í Svínafelli...
Við lögðum af stað á slaginu 05:00... vel af sér vikið !
Gengið var í hlíðunum meðfram Skaftafellsjökli sem er kyngimögnuð leið per se... með jökullónið á vinstri hönd og brattar, grýttar hlíðarnar á hægri hönd...
Alger friður... blankalogn og hlýtt... við vorum of mikið klædd mörg hver og svitnuðum strax mikið á þessum fyrsta kafla sem reyndist dýrkeypt fyrir suma... Kolbeinn lenti í vandræðum og fleirum leið ekki sérlega vel eftir... leiðsögumennirnir höfðu sagt okkur kveldinu áður að vera í stuttermabol og léttum síðerma yfir fyrsta kaflann... í öllum kuldanum á föstudeginum var erfitt að trúa því að þetta væri rétti klæðnaðurinn eldsnemma morguns... en þeir höfðu í raun rétt fyrir sér... við hefðum átt að vera mjög létt klædd og koma í veg fyrir alla þessa svitnun...
Við gengum þennan kafla í myrkri árið 2011 og því var þetta ný upplifun fyrir þá sem höfðu farið hér í þeirri ferð...
Leiðin inn með skriðjöklinum er rúmlega tveir kílómetrar og við vorum frekar neðarlega í skriðunum (ekki hér á mynd samt) en stígurinn er og fórum alla leið út á tunguna sem þýddi að frá henni var bein leið upp en ekki í hliðarhalla eins og stígurinn er sem er kostur því ofar er löng leið í hliðarhalla...
Sjá tunguna sem við vorum á... stígurinn er þarna fyrir ofan... með Fremri menn efst...
Hliðarhallinn hér inn og upp í skarðið var léttur og sumarlegur... eitthavð annað en svellað færið árið 2011 þegar menn voru í vandræðum og það endaði með að við fórum í broddana á niðurleið eftir allt óöryggið í svellinu á uppleið...
Nokkrir snjóskaflar á leiðinni sem þurfti aðeins að spora...
Harðari þegar ofar dró en léttur snjór yfir sem gaf gott hald... Róbert hjó spor fyrir okkur sem á eftir komu...
Mun betri kafli en við áttum von á eftir reynsluna árið 2011...
Komin upp í skarðið... hér blasia tindarnir skyndilega við ásamt Hvannadalshnúk og Dyrhamri...
Magnaður staður... nema að tindar Hrútsfjalls voru í skýjunum sem og hinir tindarnir á svæðinu...
Við fengum samt magnaða sýn niður allan Svínafellsjökulinn...
Áhrifamikill staður og við nutum þess að vera búinn með fyrsta kafla leiðarinnar...
Litið til baka... Hafrafellið hér og hliðarhallinn á uppleið...
Komin lengra upp eftir... þessi brekka var löng og ströng eftir það sem var að baki...
Þokan var ekki langt undan... við bjuggum okkur undir að missa skyggnið og vonuðum að spáin myndi rætast og það myndi létta svolítið til og jafnvel koma smá sól í kringum hádegið... áður en sunnanáttarskýin með rigninguna kæmu svo inn þegar liði fram á daginn... þessi spá rættist svo um munaði og við gengum aldrei upp í þoku á uppleið heldur hækkuðu skýin sig jafnt og þétt með okkur og sólin mætti á miðri leið upp...
Snjórinn að hverfa hér af Hafrafellinu...
Lítil fjallasýn ennþá yfir í Morsárjökulsfjölllin...
Litið til baka... léttara yfir til vesturs... við skynjuðum að veðrið var batnandi... þetta var allt að koma !
Magnaður staður að ganga á... með skriðjöklana beggja vegna og hæstu tinda landsins allt í kring... við skynjuðum tignarleikann í gegnum morgunsúldina...
Litið til baka... skarðið í Hafrafelli...
Þokan svo stutt undan... en við náðum henni ekki... hún þynntist út og hopaði sífellt ofar... þar til sólin gleypti hana við línustallinn...
Þarnra við klettinn fengum við okkur nesti... þjálfari gaf sér ekki tíma til að taka mynd... og svo var haldið áfram inn eftir að Sveltisskarði...
Skýin að opna fyrir okkur fjallgarðinn vestar í jöklinum...
Allir í góðum gír nema Kolbeinn sem barðist við ógleði eftir allt vökva- og steinefnatapið á fyrsta kafla leiðarinnar og svo Björgólfur sem var ekki í sama gönguhjraðagírnum og hinir í hópnum...
Við náðum að halda meiri hæð hér en í fyrri ferð 2011 sem var frábært því okkar beið svo að hækka okkur upp brekkurnar austan við skarðið...
Frábær hópur á ferð sem var búinn að æfa vel og undirbúa sig fyrir göngu sem skilgreind er sem mun erfiðari en Hvannadalshnúkur en það er svo alltaf persónubundið hvar mönnum finnst því dagsformið ræður þessu og í gegnum árin sér maður að sumum finnst þessi leið ekki svo erfið og Hnúkurinn jafnvel erfiðari en þar ræður líklega meira hvernig líðanin var í hvorri ferð... þessi leið er mun flóknari og meira krefjandi en Hnúkurinn um Sandfellið...
Hér kom í ljós að Róbert hafði gleymt ísexinni sinni á nestisstaðnum og nú voru góð ráð dýr... vonandi myndi leiðsögumaðurinn sem gekk með Fjallavinina sömu leið á Hátind en þeir þekktu hann, finna exina og koma með hana... og það varð úr...
Reglan í löngum ferðum er almennt sú að forgangsraða í pásum hvað maður gerir... byrja á að drekka, borða og laga búnaðinn... svo taka myndir og spjalla... það reynir á aga í þessu í svona erfiðum ferðum og margir hafa tamið sér þeta ósjálfrátt á meðan aðrir eiga erfitt með að fá ekki nægilega margar og nægilega langar pásur en þetta kemur ef menn fara oft í svona langar ferðir... þjálfarar taka fleiri og lengri pásur en í þessum jöklaferðum svo það er gott að venja sig á þetta vinnulag alltaf... gera það nauðsynlegasta fyrst... "og svo allt hitt"... slagorð Flokks Fólksins á vel við í þessu :-)
Jæja... brekkan upp í Sveltisskarði er fræg og þykir sérlega óheppilegur tálmi á þessari leið þar sem það er grátlegt að þurfa að lækka sig til þess eins að hækka sig aftur... en við sluppum vel í þetta sinn og tókum þetta sem einn maður til að byrja með...
Ströng uppleið en færið var eins gott og það getur verið... við gátum ekki kvartað...
Engin þörf á broddum sem var frábært... harðfenni með þunnu, nýju, meðfærilegu snjómagni ofan á sem sporaði vel fyrir okkur á skónum...
Sveltisskarðið með lækkunina og hækkunina...
Geggjað veður... logn og hlýtt... og fjallasýnin sífellt tignarlegri...
Kolbeinn barðist við vanlíðan á þessum kafla og Björgólfur dróst aftur úr... þjálfarar tóku það þyngsta úr bakpoka Kolbeins og við náðum hér upp í rólegheitunum á endanum...
Sífellt að létta meira til... og verða bjartara...
Stutt í jökulröndina þar sem farið er í línur...
Nestispása hér... allir í göngubeltin og í línur... þetta var pásan til að gera allt sem maður þurfti... salerni, drykkur, matur, sólarvörn, belti, búnaður...
Við nutum þess að hvílast aðeins og spjalla og njóta þess að vera hér á þessum stað á þessari stundu í þessu dýrindis landslagi...
Búin með rúmlega 10 kílómetra... fimm klukkutíma...
Fjallavinir komu stuttu síðar á eftir okkur og tóku sér líka pásu... stemningin var frábær og allir glaðir... sólin var komin og það var bjart framundan !
Hey ! Eru ekki allir í stuði ? Jei... sólin mætt... þetta var geggjaður dagur !
Tvær línur... menn röðuðu sér eins og hentaði með Jóni Heiðari eða Róberti...
Þetta var rúmlega hálftímalöng pása...
Lína Jóns Heiðars... Örn, Fanney, Bára, Jaana, Elísabet, Svavar og Gunnar...
Lína Róberts... Björgólfur, Sigrún, Tinna, Kolbeinn, Sjöfn, Siggi og Gulla...
Dásamlegt !
Lögð af stað upp í sólina... við vorum geislandi af gleði...
Allt að verða bjart og gullið allt í kring...
Hjallinn þar sem tindarnir komu í ljós...
Litið til baka með tindana í Kjós við Morsárjökul í baksýn...
Fjallavinir á leiðinni með Sveltisskarðið að baki...
Við tókum andann á loft hér... Vesturtindur, Suðurtindur, Hvannadalshnúkur, Dyrhamar og Hvannadalshryggur blöstu við og við áttum ekki til orð...
Sjá hér Suðurtind hægra megin eins og pýramída lengstan í burtu... Vesturtindur nær og nafnlaus bunga lengst til hægri nær...
Við eigum Vesturtind eftir... verðum að ná honum einn daginn...
Hvannadalshryggur eða Neðri Dyrhamar...
Gengið er meðfram Vesturtindi að norðan...
Spáð í leið upp á hann...
Sjá sprungurnar þar sem jökullinn fellur niður...
Hér var farið að blása köldu og einhverjir bættu á sig jakka eftir að hafa verið mjög léttklædd fram að því...
Litið til baka...
Návígið við Vesturtind er mun áhrifameira en maður gerir sér grein fyrir fyrr en maður er mættur á staðinn...
Þessi kafli er kyngimagnaður... en hér komum við inn á mikið sprungubelti og því þurfti að halda vel áfram hér og hafa strekkt á línunum...
Árið 2011 þegar við gengum hér upp í sól og blíðu þá var líka ískaldur vindur við Vesturtind... greinilega napur kafli á leiðinni...
Hvílík leið ! Hrein forréttindi að ganga hér...
Tindarnir ofan við Fauslárgljúfrið... ekki nöfn á þeim svo við vitum til... ?
Norðurhlíðar Vesturtinds eru alvöru... við straujuðum þetta eins og áður án þess að stoppa... sjá sprungurnar uppi vinstra megin...
Litið upp með Vesturtindi...
Komin aftur í sólina og stutt í fjalladal tindanna allra...
Litið til baka...
Sólin skein og hjartað var að springa af gleði yfir því að vera hér á þessum fallega degi...
Fjallgarðurinn nánast allur kominn í ljós undan skýjunum... Skaftafellsjökullinn þar sem hann skriður niður Vatnajökul...
Vesturtindur... við spáðum heilmikið í uppgönguleið á hann...
Hvílíkt landslag !
Hátindur kominn í ljós... hæsti tindur Hrútsfjallstindanna allra... og sá greiðfærasti... næst vinsælasta gönguleiðin á eftir Hvannadalshnúk...
Skýin léku sér við efstu tinda og við gerðum okkur grein fyrir því að það var ekki sjálfsagt að ná okkar tindi í sól og skyggni...
Gengið undir Vesturtindi eftir því hvernig sprungurnar lágu...
Komin ofar...
Hátindur... greið leiðin á hann héðan... og svo stutt eitthvað... en leiðsögumenn ætluðu að sjá til með hann eftir því hvernig gengi að fara á Suðurtind fyrst...
Hér áðum við svolítið og neðri línan kom framhjá okkur...
Sjá þau koma inn hér...
Hrikalegt landslag jökulsins blasti við... ógnvænlegar sprungur... þessi jökull gæti gleypt okkur í heilu lagi öll fjórtán manns og enginn myndi finna okkur...
Róbertslína að koma inn...
Allir himinglaðir með veðrið... Róbert var ekki ánægður með að menn væru að halda á línunni á þessum kafla enda hættulegt sprungubeltið og mikilvægt að virða reglurnar þar sem höggið er svo mikið ef einhver fellur ofan í sprungu og fallið er þá lengra ofan í hana...
Tinna að koma inn og svo Kolbeinn...
Jæja, við héldum áfram... það var bara veisla framundan... flottari en okkur þorði að vona...
Litið til baka...
Miðtindur kemur í ljós...
... og okkar tindur... Suðurtindur... vá... við áttum ekki til orð... hvílíkur tindur ! Pýramídlaga og svo illkleifur að sjá með sprungubeltin allt í kring að þjálfari beið eftir að Jón Heiðar tilkynnti okkur að þetta yrði ekki mögulegt...
... en Jón Heiðar hélt bara áfram för... og við eltum...
Hann mat landslagið á göngu og valdi góða leið niður í dalinn...
Hér gengum við samsíða sprungunum en mikið snjómagn var okkur í hag...
Miðtindur og Suðurtindur eru tvíburarnir í þessum tindafans Hrútsfjalls... og Suðurtindur snöggtum erfiðari uppgöngu en sá í miðið...
Litið niður jökulinn á Svínafellið og Svínafellsjökulinn alla leið niður á láglendið...
Syðsti hluti Vesturtinds..
Sjá glitta í Hafrafellið hægra megin dökkt... og Svínafellsjökulinn eins og löng mjó tunga alla leið niður... þar sem bílarnir okkar voru frá því um morguninn... magnað að vera komin alla leið hingað upp...
Færið ennþá gott og leiðin greið... litlar sprungur á leiðinni sem við sáum glitta í þegar snjórinn fór ofan af þeim...
Vá... var þetta í alvörunni fær leið... gátum við komist að tindinum... vorum við virkilega að fara að ganga þarna upp...
Litið til baka...
Áfram var færið gott og við nálguðumst tindinn óðfluga...
Sjá slóðina okkar yfir dalinn...
Þegar nær dró komu í ljós ísiklæddir klettar milli Miðtinds og Suðurtinds sem ekki sjást nema sem smá hólar úr fjarlægð...
Vesturhlíðar Miðtinds... sjá sprungurnar... og snjóboltana rúllandi niður...
Sýnin niður Svínafellsjökulinn og Hafrafellið hægra megin... við vorum stödd ofan við ísfallið sjálft sem var kyngimagnað !
Við vorum andaktug af þessari fegurð...
Miðtindur og ísilagði kletturinn...
Komin að Suðurtindi og nú beið leiðsögumannanna að meta aðstæður og velja uppgönguleið og aðferð sem hentaði best og tryggði öryggi hópsins um leið...
Hin línan að koma inn...
Himinn og jörð héldu veislu beint fyrir framan okkur...
Við störðum á tindinn... nú var hann í seilingarfjarlægð og það varð raunverulegt að við myndum í alvörunni ná að fara hingað upp...
Við h0rfðum á Fjallavini taka síðustu skrefin upp á Hátind sem reis þarna ávalur ofan okkar handan við Miðtind... þau rétt sluppu með skyggni á tindinum áður en skýin umluktu allt...
frábær tímasetning hjá þeim !
Meðan við settum á okkur broddana o g leiðsögumenn græjuðu línur og mátu sprunguna á miðri leið... byrjuðu skýin að renna inn að tindunum...
Þetta var fínasta pása... og nauðsynleg... ef við hefðum vitað að skyggnið var að fara endanlega þennan dag... þá hefðum við flýtt okkur hér upp... en því var ekki að skipta...
Mynd sem Gunni Dór Karlsson tók af okkur frá Hátindi í Fjallavinahópnum... sjá betri myndgæði neðar...
Gott að vera í góðu veðri að setja á sig broddana... fyrir þá sem ekki eru vanir jöklaferðunum og aldrei búnir að fara áður... var gott að hafa mætt á jöklanámskeiðið með Jóni Heiðari og Ragnari Þór fyrr í vetur í Bláfjöllum...
Tilbúin !
Mynd frá Tinnu á fb... gleðin var allt í kring..
Mynd frá Þórði í Fjallavinum þaðan sem þau stóðu uppi á Hátindi Hrútsfjallsinda... magnað að fá þessar myndir frá honum !
Upp lögðum við af stað...
Jón Heiðar skoðaði sprunguna... hún var stór og náði þvert undir allan tindinn...
Skyggnið tók að hverfa á þessum mínútum...
Það þykknaði undir sólinni... meðan við biðum og leiðsögumenn tryggðu línurnar fyrir okkur...
Báðir komnir upp og settu þei snjóakkeri á syllunni neðan við tindinn ofar...
Litið til baka... við grínuðumst bara og voru himinlifandi með það sem var að baki... og ís vo mikilli vímu að okkur var saman þó sólin færi og allt skyggnið... þetta var búið að vera svo geggjað flott !
En sólin skein í gegnum skýjaþykknið... kannski yrði útsýni uppi...
Mynd frá Jóni Sigurðssyni sem hann sendi þjálfara ofan af Hátindi en við fengum myndir frá Þórði, Gunna Dór og Jóni sem var svo gaman að fá... magnað að sjá okkur maurana þarna...
Róbertslína fór fyrst... gott færi og ekkert mál að þvera sprunguna...
Þungt snjófærið hjálpaði okkur... eitthvað annað en glerhart færið á Vestari Hnapp árið á undan...
Komin upp og seinni línan að skila sér líka...
Tindurinn framundan...
Ekkert mál að fara hér upp... þykkur snjór yfir glerjuðu færi neðar sem jú, stundum var grynnra á og þá rann maður en almennt fínasta færi og ekki hægt að kvarta því hér hefði verið erfitt að vera í harðfenni...
Jón Heiðar að lóðsa síðustu menn upp öxlina...
Erfitt að ná myndum því maður varð að halda stöðugt áfram... en þetta tókst...
Komin öll upp á öxlina... Hátindur þarna í fjarska og Miðtindur nær... hann lítur sem sé svona út suðvestan megin...
Róberts lína lagði svo af stað upp efsta hluta tindsins...
... og við hin á eftir...
Fínasta færi áfram en glerjað undir mjúka snjónum sem gat reynt aðeins á...
Hér hvarf skyggnið alveg... því miður... þetta var sorglega stutt...
Uppi á tindinum sem mældist 1.851 m hár var ekkert skyggni nema rétt um sjálfan tindinn... þarna var nóg pláss fyrir okkur... svipað og á Vestari Hnapp... hægt að setjast á brúnina með hengiflug norðaustan megin en brekkuna suðvestan megin...
Við biðum talsvert eftir skyggni... í von um að það myndi opnast fyrir... en það gerðist ekki...
Svo niður fórum við enda helmingur leiðarinnar eftir... öll bakaleiðin...
Kominn að snjóakkerunum á syllunni...
Litið til baka upp eftir tindinum...
Jaana ljósmyndari að munda myndavélina sína en frá henni hafa komið óskaplega fallegar myndir frá því hún byrjaði í klúbbnum...
Snjóakkerið...
Við vorum í skýjunum að af náð skyggni alla leiðina að tindinum og gátum ekki kvartað...
Svolítið flókið að koma sér hér niður með því að hanga í línunni og bakka... en það tókst... erfitt að vera fastur í línu og vera togaður í báða enda... en svona er línulífið...
Fyrri línan komin niður og horft upp eftir þeirri seinni að skila sér...
Þegar niður var komið var farið úr broddum og haldið inn í þokuna alla leið niður að línustaðnum...
Fremri línan fékk meiri tíma til að græja sig og borða þar sem hún beið svolítið eftir seinni línunni niður... en þarna reynir á útsjónarsemi... að grípa í nesti og græja sig meðan beðið var uppi meðan fyrri línan fór niður... það kemur með endurtekningunni að nýta allar pásur vel og forgangsraða verkefnunum...
Við gengum svo alan jökladalinn og niður með Vesturtindi í engu skyggni... yfir nokkrar sprungur sem ekki trufluðu okkur og var gangurinn samfelldur nema þegar slóðin hvarf í skafrenningnum og Jón Heiðar þurfti að fara að elta gps-tækið til að sjá hvar hann ætti að fara... ekkert útsýni og engin kennileiti...
Hér var komið skyggni.. eftir hjallann neðan við Vesturtind... stuttu áður en komið er að línustaðnum...
Allir hrímaðir eftir kuldann í snjóþokunni á leið niður... en erfitt að ná myndum af fólki þar sem við stoppuðum ekkert... sem var gott... það var kalt og maður var þreyttur... best að halda vel áfram því það var löng leið eftir...
Þungbúnu skýin sem komu svo með rigninguna dagana á eftir væru mætt á svæðið...
Þumall og Miðtindur þarna hinum megin...
Úr línunum sem var léttir fyrir okkur en aukinn þungi fyrir leiðsögumennina...
Sveltisskarð framundan...
Engin hópmynd var tekin á tindinum þar sem sklyggnið var ekkert og svigrúmið lítið á þeim stað... við smelltum einni af okkur hér... dýrmætur minnisvarði af leiðangrinum og alltaf mikils virði að taka góða hópmynd...
Hér með Báru þjálfara sem Róbert tók... prófaði að þysja hana lítið eitt inn til að sjá betur fólkið...
Orðin frjáls og nú gátu menn gengið á eigin hraða...
Enga stund gegnum létt Sveltisskarðið...
En hér fór að reyna á gönguhraða manna og ef allir ganga ekki í takt skilur fljótt á milli...
Þumall og Miðtindur ennþá í góðum málum og ekki með skýjabreiðuna á sér...
Skaftafellsjökull hér... Kristínartindar og Skarðatindar...
Komin að fyrsta nestisstaðnum þar sem Róbert gleymdi ísexinni sinni...
Komin á þurrt... þessi niðurleið var krefjandi eftir allt sem á undan var gengið og nú reyndi á hversu mikið menn voru búnir að ganga síðustu vikur og mánuði...
Sjá skýin liggjandi yfir tindunum...
Snjórinn var mýkri en á uppleið en hvergi nærri eins þungur yfirferðar og oft í þessum jöklaferðum...
Þessi brekka er ótrúlega löng hér niður í skarðið...
Tindarnir í skýjunum og Hnúkurinn einnig...
Svínafellsjökullinn... sjá jarðfallið hægra megin... svakalegt magn af jarðvegi sem féll úr hlíðunum og niður á jökulinn... svinafellsheidi-stada-okt-2018.pdf (almannavarnir.is)
Hafrafellið í síðdegisbirtunni... það var bjartara niðri en við áttum von á og allt annað veður en uppi í kaldri snjóþokunni...
Hver á sínum hraða og þreytan sagði til sín...
Skíðamennirnir ekki vanir langri niðurgöngu þar sem þeir skíða allta fniður... það reyndi virkilega á þetta og eins á ástand hnjáa... ekki gott að vera slæmur á hné á þessari leið...
Við vorum aftur komin í hlýindin hér niðri við Skaftafellsjökulinn...
Bjórinn sem Gunnar hafði borið fyrstu tvo kílómetrana lokkuðu okkur niður... hvíld og smá pása var freistandi eftir alla þessa niðurleið...
Hugsa sér fegurðina... og forréttindin að fá að upplifa þessa náttúru...
Sjá bjórkassann úti í læknum...
Mjög fallegur áningarstaður...
Kolbeinn bauð upp á Gajol-staup... eins og í Emstrum á Laugaveginum þegar við gengum 53 km á einni langri nóttu...
Gunnar sótti ískaldan bjórinn út í læk... og deildi á alla... einn bjór á mann takk fyrir... alls 15 bjórar þar sem Örn var sá eini sem ekki fékk sér...
Skál ! ... fyrir geggjuðum degi !
Hvílíkir snillingar !
Frábær hópur... söguleg ferð... afrek og upplifun sem skákuðu hvort annað stöðugt í þessari ferð... það tekur marga dga að átta sig á verðmætunum sem svona ferð skilur eftir sig... líklega verðum við út ævina að átta okkur á öllu því sem er að baki...