top of page

Vestari Hnappur Öræfajökli í rjómablíðu og dísætum sigri

Updated: Jun 6, 2021

Sjöundi tindurinn í öskjubarmi Öræfajökuls... undir faglegri leiðsögn Jóns Heiðars og félaga hjá Asgard Beyond... sunnudaginn 2. maí 2021.

Vestari Hnappur í Öræfajökli sigraður í sól og blíðu.... blankalogn á tindinum í 1.866 m hæð og kyngimagnað útsýni yfir alla öskju Öræfajökuls á hæstu tinda landsins sem komu og hurfu í skýin en alltaf vorum við í sólinni uppi...


... stigið yfir nokkar saklausar sprungur og þær stærri sniðgengnar í góðu færi á löngum köflum en þyngri snjó þess á milli... og löngrast í tryggingum upp á sjálfan tindinn í miklum, ísuðum bratta þar sem vel fór um flesta...


... í öruggum höndum einstakra, yfirvegaðra og framúrskarandi leiðsögumanna #AsgardBeyond með Jón Heiðar Andrésson (IFMGA/UIAGM) í fararbroddi ásamt Mike sem gekk með okkur upp Kotárjökulinn á Rótarfjallshnúk 2019 og loks Bjarti sem við vonum að komi einnig með okkur í fleiri ferðir... hvílíkir fagmenn þessir menn allir sem einn takk fyrir !

... enn ein jöklaferðin á sjaldfarinn og krefjandi tind úr smiðju Jóns Heiðars sem við erum svo lánsöm og þakklát fyrir að fá að upplifa... Stórt TAKK allir fyrir fullkominn dag þar sem allt gekk upp... og ekki síst fyrir að mæta og leggja í þetta því annars hefði þessi ganga aldrei orðið að veruleika...


Alls 17,8 km á 9:17 klst. upp í 1.866 m hæð með alls (1.451) m hækkun úr ca 550 m hæð. Hví... líkur... dagur !


Árlega jöklaferðin okkar í maí í Skaftafell hefur yfirleitt verið í góðu veðri en þó hefur ýmislegt gengið á í gegnum árin... en þetta var í fyrsta sinn sem við keyrðum inn í hvíta jörð á Suðurlandi... Vík í Mýrdal hér... Beta og Silla voru á leið á Sveinstind með V&V og höfðu varað okkur við... slydda og hálka... reyndar skárra þegar við komum en ansi vetrarlegt að sjá...


Fyrr á leiðinni höfðum við mænt á Eyjafjallajökul og hugsað til Davíðs og Helgu Rúnar sem gengu á hann á laugardeginum með vinnufélögum sínum og fengu öll veður reyndar en mergjaðan dag...


Hefðbundin snið var á okkar jöklaferð að þessu sinni þrátt fyrir C19... lagt var af stað kl. 14:00 úr bænum... og borðað á Systrakaffi sem nú var með opið á laugardegi... en annars hefur eingöngu verið opið hér einu sinni í viku í langan tíma vegna kórónuveirufaraldursins... og ekki allir réttir í boði... en það kom ekki að sök enda ekki hægt að biðja um meira á veitingastað við þjóðveginn sem alla jafna er fullur af fólki en þarna vorum við nánast ein í heiminum...


Lómagnúpur... og Öræfajökull... þessi fjallasýn er alltaf jafn áhrifamikil... maður fyllist alltaf lotningu þegar maður sér jökulinn í fyrsta sinn á hverju ári...

Eins og alltaf rifjuðust upp ferðir á þá tinda sem maður keyrir framhjá á landinu... Lómagnúpur sællar minningar... mergjuð leið en þoka á tindinum...

... Kristínartindar svo sigraðir degi síðar í sömu ferð í sól og óborganlegu útsýni...


Og ekki voru síðri fjallatindarnir í kringum jökulinn... tindarnir í Kjósinni... Kristínartindar og Skarðatindar... og Blátindur sem við eigum alltaf eftir... og Ragnarstindur og...


En Kristínartindar eiga metið hvað okkar smekk varðar með fegursta útsýnisstað á landinu hreinlega... á eftir Háskerðingi að Fjallabaki... og hver var aftur í þriðja sæti ? Tindferð 159 Kristínartindar 22 (toppfarar.is)


Hrútsfjallstindar... og Hvannadalshnúkur og Dyrhamar í skýjunum efst...

Dyrhamarinn trónir efst á lista yfir allar okkar jöklaferðir sem sú allra magnaðasta nokkurn tíma... Tindferð 141 Hvannadalshryggur D (toppfarar.is)


Blátindur... Þumall... Miðfellstindur... Ragnarstindur... Morsárjökull... Vatnajökull... Skarðatindar... Kristínartindar... magnað !

Miðfellstindurinn var söguleg ferð... með allt á bakinu inn Kjósina... og einstaka kynningu á Morsárjökli og fossi hans... Tindferð 93 helgina 17 (toppfarar.is)


Hrútsfjallstindarnir... við eigum ennþá eftir að fara á hina þrjá... en sú sem var farin á efsta tind, Hátind... var fullkomin í alla staði... og í fjórða eða fimmta sæti yfir allra bestu jöklaferðirnar... Stórkostlegir Hrútsfjallstindar (toppfarar.is)


Pálína í Svínafelli alltaf jafn liðleg... sem fyrr fáum við að panta gistingu með fyrirvara um nákvæmlegan göngudag og pantanir sveiflast alltaf til... í þessu tilfelli hættu mjög margir við þessa göngu og því voru mikil afföll í göngu og gistingu...


Um áttaleytið komu Jóni Heiðar, Ásdís og Bjartur og fóru yfir daginn með hópnum... mjög gott yfirlit yfir daginn, tímaáætlun og búnað... allir fengu hjálma sem ekki áttu og þann jöklabúnað sem þeir þurftu en nánast allir voru með sinn eigin búnað...


Í rúmið kl. 21... og strax komin ró á svæðið...vaknað kl. 5:00... lagt af stað kl. 5:53... átti að vera 5:45... og ca 10 mín akstur að afleggjaranum upp Hnappavallaleið...


Keyrandi á leiðinni austur... birtist tindur dagsins... Vestari Hnappur í Öræfajökli... og sá Eystri fjær hægra megin... en vinstra megin er hryggurinn á Rótarfjallshnúk... sem við gengum á upp kolsprunginn Kotárjökulinn... leið sem mjög fáir hafa farið... enda víðsjárverð ekki síst fyrir gljúfrið í upphafi þar sem farið er mikinn hliðarhalla í bratta með gapandi gljúfrið fyrir neðan og hrynjandi grjótið ofan okkar úr berginu... sú ferð er nr. 2 af allra flottustu jöklaferðunum frá upphafi vega... á eftir Dyrhamri sem er í fyrsta sæti...


Beygt upp Hnappavallaleið við nýja glæsilega hótelið að Hnappavöllum... þar sem yfir 100 konur gistu þessa sömu helgi og gengu á Hvannadalshnúk og gekk mjög vel... frábært hjá þeim... því engin helgi í maí gaf viðlíka veður eða færi til þess arna...


Aksturinn upp Hnappavallaleið gekk mjög vel... hart færi... snjóföl... allir á góðum jeppum en samt bara venjulegum... ekki upphækkuðum að ráði né á mikið stærri dekkjum...


Snjóskaflar flæktu aðeins för... það er verst þegar þeir skaflast upp í lægðir eins og á þessum vegi... en við komumst yfir eina hindrun og héldum áfram... en komumst ekki lengra hér... nema vera á stærri bílum sem við vorum ekki á... tindur dagsins hér trónandi yfir okkur... Vestari Hnappur og sá Eystri hægra megin meira í hvarfi... það var auðveld ákvörðun að stoppa bara bílinn og leggja af stað gangandi...


Flottur... einbeittur hópur... flestir skráðir mánuðum á undan... og hættu ekki við né gáfu eftir... og áttu ekki eftir að sjá eftir því... því þó nokkrir voru skráðir í aðra ferð á Öræfajökli síðar í maí... en þá gafst ekki veður... eða menn sneru við á miðri leið vegna veðurs eða sprungna... eins og varð raunin með þau sem gengu á Sveinstind þennan sama dag... þau fengu erfitt veður og stór sprunga hindraði þeirra för í rúmlega 1700 m hæð svo þau þurftu frá að hverfa meðan við vorum í sól og blíðu á tindinum og horfðum á hina tinda Öræfajökuls berjast við veðrið... nema Rótarfjallshnúk sem slapp eins og Hnapparnir við allt saman...


Tinna, Gunnar, Haukur, Ólafur vignir, Bjarni, Þorleifur, Sigrún Eðvalds., Gulla, Marta, Sigrún Bjarna, Siggi og Örn og Bára tók mynd... alls 13 manns... grátlegt að það skyldu ekki fleiri vera með... og leiðsögumennirnir aftar... Jón Heiðar, Bjartur og Mike og svo leiðsögumannanemarnir Karel og Dan sem við áttum eftir að kynnast vel í ferðinni...


Við lögðum af stað í 555 m hæð klukkan 5:53 á sunnudagsmorgninum 2. maí... degi síðar en áætlunin var en þar sem sunnudagurinn var til vara þá vorum við í góðum málum...


Við gengum fljótlega fram á jeppann hans Einars í Hofsnesi sem var með Gunnari lungnalækni á fjallaskíðum á Vestari Hnapp og Sveinstindi en þeir náðu ekki fleiri tindum í sinni ferð vegna veðurs... og við áttum eftir að hitta þá á niðurleið síðar um daginn...


Karel... Dan... Bjartur... og Siggi aftar... við gengum rösklega upp eftir fyrsta kaflann og flestir í góðu formi og nutu þess að arka loksins á þennan tind... en þessi gönguhraði hentaði ekki öllum í byrjun dags og þegar farið var í línurnar hægðist á þessum hraða og allir voru í góðum málum eftir það...

Frábært veður... langt í frá sjálfgefið... við höfðum mænt á veðurspána og vissum að við vorum við veðurskilin þar sem meiri vindur var lítið eitt norðar... og hefðum vel getað fengin vind og snjókomu á okkur... en vorum svo heppin að ná sólinni rétt svo...


Hryggurinn að jökulröndinni... gaman að klöngrast smá þar sem jöklagöngurnar eru frekar einhæfar að eðlisfari...


Litið til baka... suðurströnd landsins blasti við og skýjafarið var tvísýnt... en við vorum í sólinni nánast allan daginn...


Frábær hópur á ferð... þaulæfður og vel stemmdur... loksins vorum við mætt í þessa jöklaferð sem við vissum að yrði söguleg... og langt í frá sjálfgefin...


Nesti... hvíld... línur... hér með breytist lífið í göngunni og hver lína verður sérheimur þar sem allt getur gerst... hver lína upplifir gönguna og verkefni hennar eftir því hvað gengur á í þeirri línu... og svo hafa menn alls kyns sögur að segja þegar niður er komið... góð sárabót fyrir annars svolítið erfitt línulífið á jökli...


Sjá færið... gat ekki verið betra... ekki of hart og ekki of mjúkt... en það var samt breytilegt og stundum of mjúkt...

Lína Mikes... Gunnar, Ólafur Vignir, Gulla, Siggi og Sigrún Eðvalds...


Lína Jóns Heiðars... Örn, Tinna, Sigrún Bjarna og Þorleifur...


Nemalínan fjær... Karel, Dan og Ásdís...


Lína Bjarts... Bára sem tók myndina, Haukur, Marta og svo Bjarni sem er bak við ljósmyndarann...


Lögð af stað á jökulinn... í línum... ekki á broddum þar sem færið var gott...


Tindurinn framundan okkur allan tímann... það var magnað...


Öruggt svæði til að byrja með og línurnar samsíða...


Vestari Hnappur nálgaðist óðfluga... þetta gekk mjög vel...


Gleðin í algleymingi... Ólafur Vignir, Gulla, Siggi, Sigrún E. með Mike í línu...

... og Þorleifur, Sigrún Bjarna, Tinna og Örn í línu Jóns Heiðars...


Við vorum fljót að hækka okkur upp fyrir 1000 metrana... og svo áfram upp í 1500 metrana... og áfram... með því að halda stöðugt áfram, halda hraðanum og vera ekki sífellt að stoppa þá safnar maður fljótt upp hæðarmetrunum... á svona göngu reynir á að vera sparsamur með orkuna... ganga orkusparandi, afslappað og bara njóta kyrrðarinnar og þeirra hugsana sem koma þar sem maður gengur svo smár og lítils megnugur í stórfenglegum heimi jökulsins sem gæti gleypt okkur öll á einni sekúndu án þess að tangur né tetur fyndist af okkur ef því væri að skipta...


Vestari Hnappur vinstra megin... og Eystri Hnappur hægra megin...


Karel leiðsögumannanemi með suðurströnd landsins að Jökulsárlóni og uppgönguleiðina á Sveinstind frá Kvískerjum (Kvískerjaleið, ekki læknaleið... með virðingu fyrir ábúendum og sögu Kvískerja) í fjarska... frábbær drengur á ferð... eins og Dan !


Pása... það var steikjandi hiti í sólinni og maður fækkaði fötum ólmur... svo kom skyndilega gola og hún var svo ísköld að maður fraus nánast strax... miklar öfgar í veðrinu... og Sveinstindsfarar fengu kuldann og vindinn beint til sín því miður... sömu öfgar og voru á Tindfjallajökli viku síðar... eftir allar okkar ferðir á jökli í gegnum tíðina þá var þetta ný upplifun... þessi óskaplega andstæða á lofthita með sekúndna millibili aftur og aftur í sömu ferð...

Karel, Ásdís og Dan... nemalínan sem lærði margt og útfærði alls kyns hluti á tindinum...


Þorleifur, Sigga Bjarna., Tinna, Örn og Jón Heiðar...


Eru ekki allir í stuði ? Ólafur Vignir, Siggi, Gulla, Sigrún E., Gunnar og Mike... gleðin var ríkjandi í sólinni og blíðunni...


Nú nálguðust Hnapparnir hratt... sá Vestari nær vinstra megin...


Nú sást hann vel... frosinn klettur upp úr öskjubrún jökulsins...


Stórfenglegt að komast svona undir hann...


Sprungurnar neðar... stórar og langar... en alltaf hægt að fara framhjá með sneiðingum... eins og við gerðum ítrekað á uppleið og niðurleið...


Litið til baka... við vorum spennt og um leið hikandi... vorum við að þora að fara þarna upp í línum... ? ... efinn... kvíðinn sótti aðeins á...


Komin upp á öskjubrúnina vestan við Hnappinn... þetta var mögnuð sýn...


Þetta leit vel út... en var samt nokkuð bratt að sjá... og frosið en samt með mjúkum snjó yfir... þetta virtust fínar aðstæður...


Spor eftir Einar í Hofsnesi og Gunnar fyrr um morguninn... þeir fóru fljótt yfir tveir saman...


Við vorum þakklát... fyrir að vera nákvæmlega þarna... á þessari stundu... það var ekki hægt annað... með skyggni... gott veður... og frábært færi... og það sem mikilvægast var... örugga og faglega leiðsögumenn sem vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera...


Ekkert sást til Sveinstinds né Sveinsgnípu sem voru hulin ófriðarskýjum... en við sáum Snæbreið, Hvannadalshnúk og Rótarfjallshnúk böðuð í sólinni til að byrja með... en skýin hrönnuðust fljótt yfir þá... nema Rótarfjallshnúkinn sem hélst í sólinni eins og Hnappurinn allan daginn...


Sjá hér Eystri Hnapp sem jú líka náði sólinni... borða skyldum við hér og hvílast meðan leiðsögumennirnir undirbjuggu bröltið upp á sjálfan tindinn...


Tindur dagsins... þetta gat ekki verið flottara né betra... einhverjum datt í hug að sleppa þessum tindi... en þjálfari talaði þá aðeins til... þeir myndu alltaf sjá eftir því... og það þurfti ekki meira til... þetta yrði ekkert mál... leiðsögumennirnir væru pottþéttir og við værum í öruggum höndum... og upplifunin af þessari uppleið var mögnuð svo ekki sé meira sagt...


Fjöldi manns á Rótarfjallshnúk... þau komu Sandfellsleiðina sem er einföld leið og í raun ekki mikil viðbót við Hvannadalshnúkinn ef menn vilja skreyta þá leið aðeins... en mun flóknari leið er upp hér vinstra megin um kolsprunginn Kotárjökulinn eins og Jón Heiðar fór með okkur árið 2019... en þá fórum við niður Sandfellið á rúllandi fart og engum áhyggjum af sprungum nema þessum örfáu þekktu á leiðinni upp löngu brekkuna...


Hnúkurinn rétt komst upp úr skýjabreiðunni sem lagst hafði yfir Öræfajökulinn að norðan og austan... og fljótlega hvarf tindurinn líka í skýin... Jaana sem síðar varð Toppfari var á Hnúknum þennan dag með Fjallavinum og þau fengu frábært veður á uppleið en þoku á tindinum... þetta er ótrúlega svekkjandi en harður raunveruleikinn á þessum slóðum... það er langt í frá sjálfgefið að fá göngu á Hvannadalshnúk í sól og blíðu og góðu skyggni allan tímann... og sumir þurfa nokkrar tilraunir áður enn þeim tekst að upplifa slíkt á þessum tindi... sbr. þegar við loksins komumst á Hnúkinn í þriðju tilraun... þá fengu fyrri tvær línurnar útsýni yfir allt en síðasta línan sem tafðist á uppleið... fékk snjókomu og ekkert skyggni sem var sorglega svekkjandi fyrir Örn og félaga sem þar voru í línu saman...


Við héldum að leiðsögumennirnir okkar myndu græja línu fyrir allan hópinn sem við myndum svo vera lóðsuð upp smám saman... en svo reyndist ekki vera... við fórum fjórar línur hver og ein upp á sínum stað... og leiðsögumaður hverrar líinu setti sínar tryggingar á uppleið þannig að við fórum svo í fótsporin hans hvert of eitt í sinni línu...


Þetta þýddi mun minni biðtíma og allir að fást við sitt á sama tíma sem var tær snilld... öryggi og fagmennska leiðsögumannanna skilaði sér mjög vel á þessum kafla eins og mörgum öðrum í þessum ferðum með #AsgardBeyond


Jón Heiðar með línuna sína vestast upp...


Nemalínan fór austast og bröttustu leiðina í raun... lína Bjarts þar við hliðina vestan við haftið... og línur Mikes og Jóns Heiðars vestar... en á miðri leið var sprunga sem virtist fyrst bara vera smá sylla til að hvíla sig... en reyndist staður til að flýta sér yfir...


Sýnin til Sveinstinds og Sveinsgnípu... úfið skýjafarið og allt annar heimur sem Sveinstindsfararnir voru í en við... ótrúlegt að sjá þetta... skilin voru rétt hjá okkur... og það eina sem við fengum yfir var snjófjúk eins og glimmer yfir öllu þar sem sólin skein á agnirnar sem voru frekar stórar þannig að það glitti í þær allar... líðaniin var eins og það væri verið að líða yfir mann og maður sæi stjörnur... þjálfari sem spurði tvisvar hópinn hvort allir væru að upplifa þessa sömu glimmer-tilfinningu... "já, Bára, það er ekki að líða yfir þig " :-) :-) :-)


Karel og Bjartur á uppleið að finna bestu leiðina og setja tryggingar og við beint á eftir... sjá sprunguna hér hægra megin... fín æfing fyrri þau og þjálfun... en Karel var mjög öruggur upp og var örskotsstund að þessu...


Jóns Heiðars lína komin áleiðis upp vestan við okkur...


Engar myndir teknar á erfiðasta kaflanum... en Bjartur fór upp og við áttum að losa tvær karabínur úr miðju-tryggingunni (sem hélt honum meðan hann fór fyrstu upp) sem var erfitt þar sem við vorum frosin á puttunum og línan svo strekkt... en þetta hafðist allt saman á endanum og var mjög skemmtilegt verkefni fyrir okkur almenninginn... :-)


Brattinn og hallinn náðust illa á mynd... þetta sýnist léttara á myndum en það raunverulega var... allavega finnst ritaranum það :-) En fyrir lofthræðslulausa eins og nokkra í hópnum þá var þetta bara skemmtilegt og áhugavert verkefni :-)


Haftið efst... tvær línur fóru beint upp haftið en tvær til hliðar af því...


Jón Heiðar og Mike að setja tryggingar á miðri leið við haftið...


Komin upp... dauðfegin... þetta gekk mjög vel en það tók smá skjálfta að fara þetta...


Fagnaðarlæti í háltfíma ! ... mögnuð víma sem er engu annarri lík !


Útsýnið til austurs að Eystri Hnapp... og að Kvískerjaleið á Sveinstind... ennþá í lagi með veðrið neðar en mjög úfið ofar...


Snæbreið farin í skýin og Hnúkurinn slapp ennþá en við horfðum á hann svo hverfa í skýjabreiðuna...


Við sáum hvernig snjókoma hafði lagst yfir Kvískerjaleiðina og alla leið niður að sjó... eins og þarna hefði orðið tungulaga skýfall á takmörkuðum kafla... með ólíkindum að sjá þetta... enda lýstu menn því sem voru í Sveinstindsferðinni og gistu í Svínafelli með okkur hvernig þau voru fyrst í sól og blíðu en svo versnaði veðrið og þegar þau keyrðu svo til baka þá keyrðu þau úr kulda og skýjuðu veðri inn í sól og blíðu vestar... það er ljóst að þessi Öræfajökull er með sitt eigið veðurkerfi og þar ríkja mörg veður á einum og sama jöklinum...


Bjartur og Jón Heiðar... en Bjartur er í sama námi og Jón Heiðar kláraði ásamt Róberti í vor...

alþjóðleg leiðsögumannaréttindi þar sem þeir mega leiðsegja fólki um fjöll um allan heim... um fjallgarða sem eru margfalt stærri og flóknari en Öræfajökullinn... mjög krefjandi og langt nám sem valdið hefur langdvölum Jóns Heiðars í Kanada og Ölpunum síðustu ár... en Jökull Bergmann var fyrsti og eini Íslendingurinn sem lauk þessu námi hingað til... þeir eru því þrír sem eru núna búnir... og Friðjón var í þessu námi síðast þegar við vissum (sem fór með okkur á Hvannadalshnúk árið 2010) Toppfarar.is - Tindur 38 - Hvannadalshnúkur 130510 ... og núna Bjartur líka... heiður að ganga með þessum mönnum...


Samtökin hér: IFMGA: International Federation of Mountain Guides Associations.

og á frönsku: UIAGM: Union Internationale des Associations de Guides de Montagnes.


Þrotlaus vinna á bak við þessi réttindi... og mikil þekking og færni... sem við erum svo lánsöm að njóta góðs af í okkar árlegu jöklaferðum með þessum mönnum... takk fyrir okkur #AsgardBeyond :-)


Nemalínan að koma upp... ennþá var lína Mikes ekki komin...


Dan, Ásdís, Karel komin... og Jón Heiðar að kenna...


Marta, Haukur, Tinna, Þorleifur og Sigrún Bjarna... við vorum í sæluvímu og trúðum því varla að við værum virkilega að fá þennan tind í þessu veðri...


Örn og Bjarni komnir með !


Loksins komst lína Mikes upp... þau lentu í vandræðum þar sem jöklabroddarnir hjá Ólafi Vigni losnuðu af skónum í mesta brattanum... ekki auðvelt að leysa það í þessum bratta... eitthvað sem við getum öll lent í og er alger martröð... skelfilegt þegar broddarnir losna...


Borða og hvílast og fagna líka...


Alir komnir upp og við vorum á toppi heimsins að okkur fannst !


Frábærir ferðafélagar í þessari ferð... hér náðust Haukur, Bjarni, Marta, Ólafur Vignir, Gunnar og Sigrún Bjarna á mynd :-)


Hópmynd ferðarinnar:


Efri: Bjartur, Bára, Þorleifur, Haukur, Bjarni, Marta, Ólafur Vignir, Tinna, Ásdós, Jón Heiðar.

Neðri: Mike, Gulla, Siggi, Sigrún Eðvalds, Gunnar, Örn, Sigrún Bjarna. Karel tók mynd.


Hópmyndin með Karel sem Bára tók :-)


Allir létu taka mynd af sér á tindinum... þjálfarar líka..


Þegar fyrsta jæja-ð kom... allir saddir og myndatökur búnar og hvíldin og allt saman... varð skyndilega þungbúnara og skýjað... mjög sérstakt... það dró ský fyrir sólu á augabragði og allt í einu varð mjög kalt... þetta var smá ávæningur af veðrinu sem Sveinstindsfararnir fengu... og tvímenningarnir á fjallaskíðunums sem ætluðu á fleiri tinda en styttu ferðina sína...


Það var ráð að fara að græja sig niður á við...


Niðurleiðin ef oft erfiðari en uppleiðin í svona bratta...


En þetta gekk mjög vel hjá fyrstu línunum tveimur...


Lína Jóns Heiðars fyrst... svo Bjarts... svo Mikes og nemalínan síðustu...


Það var brattara austan megin þar sem Mike og nemarnir fóru...


Og erfiðast að koma sér fram af brúninni...


Lína Mikes að komast niður...


Nemarnir lentu aðeins í vandræðum... voru mjög öruggir á uppleiðinni og þau voru fyrst upp minnir mig... en Jón Heiðar skaust svo síðar upp til þeirra og aðstoðaði þau við að losa tryggingarnar efst án þess að ógna öryggi þeirra sem síðastir fara niður sem er meira en að segja það...


Stuð í línu Mikes ! Siggi var veikur eftir C19-bólusetningu með Astra Zeneca fyrr í vikunni... og barðist við vanlíðan nánast alla ferðina en lét sig hafa það sem var aðdáunarvert... Örn fékk sömu sprautu og tók sjensinn á að verða veikur þar sem hann var ekki leiðangursstjóri í þessari ferð... en Gunnar og fleiri slepptu sinni bólusetningu fyrir þessa ferð og það var skynsamleg ákvörðun eftir að hafa séð Sigga berjast mjög ólíkur sjálfum sér í þessari erfiðu ferð...


Mikill kuldi var á þessum tímapunkti neðan við tindinn og á niðurleiðinni og allt fraus hér og puttarnir unnu því ekki eins vel... á þetta reynir þar sem vinna þarf tæknilega vinnu á jökli og mikilvægt að fá reynslu í því og vita hvernig maður leysir slíka hluti... það er gott að upplifa þetta... vera svo frosinn á fingrunum að maður getur ekki rennt upp rennilás eða notað gps-tækið... það hafa þjálfarar upplifað... ("maður hefur ekki lifað á fjalli fyrr en maður er svo frosinn á fingrunum að maður nær ekki að renna rennilás" - safnið okkar :-)) - en slík staða ógnar öryggi og því var gott að vera með vana menn sem höfðu fullkomna stjórn á aðstæðum... þeir voru í eins vettlingum og leiðsögumenn okkar í Chamonix voru í árið 2017... greinilega þeir bestu fyrir þessa menn sem þurfa að stússast í karabínum og línum... enda minna Jón Heiðar og félagar mann oft á leiðsögumennina okkar í sögulegu ferð klúbbsins á Mont Blanc þar sem við komumst ekki á tindinn árið 2017: Ferðahluti 2 af 3 í vikuferð til (toppfarar.is)


Skyndilega sáum við til tveggja skíðamanna... þar voru á ferð Einar í Hofsnesi með Gunnari en þeir náðu á Sveinstind og sneru þar frá og niður eftir að hafa farið á Vestari Hnapp á uppleið... slepptu því Sveinstindi og Snæbreið vegna veðurs... ath leiðréttið þetta ef þetta er rangt haft eftir hjá mér NB !


Jón Heiðar spjallaði við Einar og Bára þjálfari þekkti ekki Gunnar en hefði viljað tala svolítið við hann ef hún hefði áttað sig á hver var þarna á ferð...


Flestir komnir niður og erfitt að bíða í kuldanum... Jón Heiðar endaði á að biðja Örn að leiða línuna sína niður til að byrja með meðan hann skaust upp til nemana á tindinn til að aðstoða við tryggingarnar...


Það var gott að leggja af stað niður og ná hreyfingu á líkamann... kyrrstaða er það versta í erfiðu veðri...


Jón Heiðar og nemarnir með Ásdísi efst... fínn lærdómur hjá þeim... menn segja að betri kennara sé ekki hægt að hafa en Jón Heiðar en hann hefur haldið mörg námskeið fyrir okkur Toppfara... og kennir björgunarsveitum o.s.frv... Grunnnámskeið í vetrarfjallamenn (toppfarar.is)


Einar og Gunnar fengu sér nesti neðan við Vestari Hnapp og nýttu neyðarskýlið til að halda vindinum og kuldanum eitthvað frá... við héldum hins vegar áfram niður og áttum ekki eftir að sjá þá meira í þessari ferð þar sem þeir fóru beinustu leið til baka... en við tókum smá sprunguleitarsveig ef svo má segja...


Bjartur fór fremstur og niður fórum við frekar sprungna leið í átt að Kotárjökli...


Veðrið lagaðist strax og aftur kom sólskinsstuðið... Jón Heiðar hér kominn fremstur með sína línu aftur... alltaf að vinna og hugsa... sjá hreyfingar hans... það er ekkert mál að elta næsta mann fyrir framan sig... allt annað má að vera hugsuðurinn á bak við leiðarval og allar ákvarðanir í göngunni... Örninn yfirleitt í þessu hlutverki og þýðir stöðugt mat á aðstæður og stöðugar ákvarðanir með leiðarval út frá landslagi, tíma, hópi, veðri, færi... þetta virðist einfalt þegar maður eltir... en er allt annað mál fyrir fremsta mann...


Við vorum í sæluvímu... með magnaðan dag... sjá hér snjódrífuna sem kom frá veðrinu sem náði aðeins að trufla Vestari Hnapp þegar við fórum niður hann... við vorum fáránlega heppin með þá tímasetningu líka... hálftíma seinna á tindinn... og við hefðum ekki fengið skyggni né sólarblíðuna þarna uppi heldur snjódrífuna sem gekk yfir hann á þessum tímapunkti... hvílíkt lán !


Miklar sprungur um allt... en sniðgengnar að mestu... en við hoppuðum yfir ansi margar á þessum kafla samt... og fórum of langt til vesturs... okkur grunaði að menn vildu ná einni sprungubjörgun á leiðinni... sem hefði verið fínt fyrir alla að upplifa... en það náðist ekki þrátt fyrir meintan einbeittan sprunguvilja :-) :-)


Smá hopp og gleði í pásunni á niðurleið :-)


Litið til baka...


Matarpásan á þessum kafla var hver á sínum stað... með strekkt á línunum vegna sprungusvæðisins...


Stutt í línuleysið...


Okkur lá á að komast úr línunum og geta straujað á eigin hraða niður...


Þetta var alvöru landslag sem við gengum í...


Samstíga línurnar... við vorum að komast á fast land...


Úr línum og beltum... wc... og frelsi...


"Frelsið er yndislegt...


... ég geri það sem ég vil... skyldi maður verða leiður á því til lengdar að vera til..." ja... ekki þarna allavega...


Fljótlega komin á veginn... þar sem Einar og Gunnar keyrðu fyrr um daginn niður...


Við vorum eldfljót niður fannst manni... komin í bílana klukkan 16:22... meiri lúxusinn þessi jöklaferð... mun seinna að vakna og leggja af stað en vanalega... og komin snemma niður...

Eitthvað allt annað en þegar við gengum á þrjá hæstu tinda landsins, Sveinstind, Snæbreið og Hvannadalshnúk og lögðum af stað kl. 4:00 og komum niður síðasti maður kl. 01:30 um nóttina... alls 19 - 20 klukkustunda ganga alls... enda erum við ennþá að rifja hana upp og engin jöklaferð er eins mikið rifjuð upp og þessi... já.... þessar erfiðustu sitja nefnilega mest í minningunni og gefa mest þegar árin líða... ekki þessar sem voru léttar og notalegar í góðu veðri... heldur þessar sem þöndu mann til hins ítrasta... Tindferð 109 Öræfajökull hringle (toppfarar.is)


En þessi leið var víst kölluð "Platínuleiðin" af Einari í Hofsnesi í blaðaviðtali fyrir þessa helgi... þegar við gengum á þessa þrjá hæstu árið 2014 var ekkert nafn á þrennunni... en þetta sniðug nafngift og ef einhver hefur leyfi til að skíra leiðir á Öræfajökli varanlegum nöfnum þá er það líklega Einar :-)


Niðurstaðan með vegalengd göngunnar var 17,8 km á 9:17 klst. upp í 1.853 m hæð með alls 1.406 m hækkun úr 555 m upphafshæð...


Úrið sagði þetta... en úrin og strava og álíka forrit sýna alltaf lengri vegalengdir...


Tindurinn veifaði okkur bless og þakkaði fyrir sig...


Menn tíndust inn smám saman...


Gunnar býður alltaf upp á einn kaldan fyrir alla... það er höfðinglega gert... og vel þegið...


Fagmennirnir þrír sem komu okkur á sjötta tindinn í Öræfajökli... gegnum sprungur og upp ísaðan, brattan tindinn... Jón Heiðar, Bjartur og Mike...


... við treystum þessum mönnum algerlega og erum þeim ólýsanlega þakklát fyrir enn eitt einstaka ævintýrið á Vatnajökli... hvílíkir snillingar... yfirvegaðir, faglegir og ljúfir... TAKK... takk... takk svo mikið... fyrir okkur... #AsgardBeyond


Allt teymið með Ásdísi hjá Asgard Beyond og svo nemunum tveimur...


Aksturinn gekk vel niður... og við fengum fréttir af því að kvennaleiðangurinn gekk vel... það voru góðar fréttir... vel gert hjá þeim... þó við séum samt ekki hrifin af kvenna-eitthvað almennt... en mjög smart samt hjá þeim !


Áfram hélt Hnappurinn að veifa okkur bless... og hann mun alltaf minna okkur á þessi kynni hér með... þegar við keyrum framhjá Hnappavöllum á leið austur að Jökulsárlóni eða í hina áttina... magnað að vera loksins búin að standa á þessum tindi frá því við ákváðum að við skyldum fara með Toppfara þarna upp árið 2012 á leið heim af Þverártindsegg á 5 ára afmælisári klúbbsins... Tindferð 78- Þverártindsegg laug (toppfarar.is)


Við vorum ekki búin að fá nóg þegar komið var í náttstað... hífuð af fjallavímunni og fórum í keppni um að geta staðið á höndum fyrir tilstilli Sigrúnar Bjarna...


Bjarni og Örn náðu þessu ! Æfum okkur í sumar takk !


Grillað og skálað og spjallað og farið í sturtu...


Maður er sko svangur eftir svona krefjandi dag... og þá ýðir ekkert að bjóða manni kolvetni... prótein eins og kjöt eða fiskur og svo ferskmeti eins og grænmeti og feitmeti eins og sósur er það fyrsta sem líkaminn vill... dýrmæt stund eftir svona göngu að sitja og spjalla og viðra daginn...


Sigrún kom með ljúffengar kransasmákökur í eftirrétt fyrir hópinn... þær voru algert æði takk !


Og Gunnar gaf þjálfara freyðivín í tilefni af því að vera búin að klára alla tinda Öræfajökulsgígbarmsins... reyndar er sá Eystri eftir ef það á að telja hann sem uppgöngutind... en hann er flókinn enda umkringdur sprungum um allt... Jón Heiðar sagðist samt vera til í að fara hann... og var búinn að finna leið sem hann sýndi okkur ofan af þeim Vestari...

Sigrún og Tinna keyrði í bæinn eftir matinn og einnig þjálfarar en allir aðrir gistu nóttina eftir göngu sem er eina vitið þar sem maður er þreyttur og ósofinn og við mælumst eindregið alltaf með því að menn gisti eftir svona göngu á jöklinum... en vinnan og krefjandi fjölskyldumál kölluðu... hinir héldu áfram að skála og njóta enda nauðsynlegt eftir svona upplifun !


Hrútsfjallstindarnir vinkuðu... og Hnúkurinn og Dyrhamar... á leið heim í kvöldsólinni...


Keyrt inn í sólsetrið um kvöldið og hinir sem keyrðu daginn eftir voru líka í fínu veðri... á mánudegi sem sé... það var þessi virði... til að ná þessum kyngimagnaða degi á jökli enn einu sinni... í boði Jóns Heiðars og félaga...


Takk... takk... takk... fyrir okkur allir sem mættu... án ykkar hefði þessari ferð verið aflýst því það hættu mjög margir við og langi biðlistinn sem var allan tímann fram að ferð tæmdist og ekki fylltist í laus pláss... sem þýddi að sumir sem hefðu viljað fara gerðu önnur plön þessa helgi þegar þeir horfðu á langa biðlistann... lexían ? Að skrá ekki biðlista heldur eingöngu þá sem skrá sig og borga staðfestingargjald og auglýsa svo bara pláss ef þau losna ? Erfitt að segja en nauðsynlegt að finna lausn á þessu þar sem þetta er ekki að gerast í fyrsta sinn og það er svo mikill synd að laus pláss nýtist ekki í flókna og sögulega ferð eins og þessa sem er ekki í boði á hverju strái eins og vinsælustu tindarnir eru (Hvannadalshnúkur, Hrútsfjallstindar og Sveinstindur)...


Það er komið jöklagönguplan næstu sex árin fram að 20 ára afmæli Toppfara sem Jón Heiðar sendi okkur... mög spennandi tindar sem við viljum ekki gefa upp hér en á þessum lista er ein endurtekin ferð... á Þverártindsegg sem við vitum að margir vilja fara á... höfuðverkurinn verður sá að raða þessum ferðum niður þannig að maður geti beðið í sex ár eftir þeim sem lenda aftastir... en það er svo gott að eiga eitthvað spennandi eftir... svo verum þakklát númer eitt... ekkert af þessu er sjálfgefið... hvorki að hafa heilsu né svigrúm til þess að upplifa dag eins og þennan þann 2. maí árið 2021...




Allar Vatnajökulsgöngur klúbbsins frá upphafi - en nú þarf að gera nýjan lista á þessari nýju vefsíðu og bæta þessum tindi við: Vatnajökulsferðir Hér eru göngu (toppfarar.is)


Sjá hér loftmynd af Öræfajökli þar sem tindarnir sjást allir... neðst eru Hnapparnir tveir... efst vinstra megin er Hvannadalshnúkur og Dyrhamar neðan við hann dökkur... Sveisntindur sést hægra megin á brúninni og Sveinsgnípa neðar... og Rótarfjallshnúkur er svo vinstra megin við Hnappana.

192 views1 comment
bottom of page