top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Blákollur og félagar sjö tinda leið milli Hafnarfjalls og Skarðsheiðar í magnaðri fjallasýn.

Tindferð nr. 267 mánudaginn 1. maí 2023.


Eftir dásamlega föstudagsfjallgöngu númer þrjú á árinu á Þórólfsfell föstudaginn 28. apríl blés Örn til aukagöngu mánudaginn 1. maí þar sem spáð var góðu veðri þann dag en síðri var spáin á sunnudeginum sem var upphaflegi göngudagurinn auk þess sem fleiri komust á mánudeginum en sunnudeginum...


Þennan morgun var samt stífur vindur fram undir hádegi... því var jú spáð... en svo átti að lægja... og með þessum vindi kom kuldi svo menn voru fljótt komnir í allan sinn hlífðarfatnað þegar ofar dró...


Fljótlega þegar gengið er á Blákoll opnast fyrir töfrandi Hróarstindana sem rísa inni í miðjum Hafnardalnum og eru svolítið faldir annars... en þegar við gengum á þá fyrst var bókstaflega ekkert til um þá á veraldarvefnum... en síðan hafa fleiri komið í kjölfarið og nú fara fleiri reglulega á þessi fjöll þó þau séu ennþá sjaldfarin...


Sólin skein í heiði... það var fullkomið skyggni og fjallasaýn... og það var sumarfæri... en það var vindur og það var kalt... tvennt neikvætt á móti þremur jákvæðum þáttum...


Engu að síður ekki alveg yndislega veðrið sem var á Þórólfsfelli á föstudeginum og menn í misgóðu stuði fyrir svona barning... hann er krefjandi og mjög orkufrekur...


En útsýnið var slíkt að það var ekki hægt annað en setja undir sig hausinn og njóta... Hafnarfjallið, Giljatunguhnúkur... sem er einnig mjög sjaldfarinn en við höfum gengið tvisvar og löngu kominn tími á hann aftur... og loks Hróarstindarnir hægra megin...


Brekkan upp Blákoll er löng, brött og krefjandi... en þarna er að myndast ágætis stígur alla leið upp...


Sýnin til Akrafjalls og Esjunnar... yfir Leirársveit...


Sjá stíginn og hrygginn... þetta er magnað fjall !


Heilmikið brölt en vel fært...


Hrímuð norðurhlíðin sem ekki fær notið sólarinnar... slíkur var kuldinn...


Frábær hópur á ferð... að mestu Eystri-Hnapps-farar sem stefna á þann tind næstu helgi... alls átta manns...


Komin upp á tindinn og allir orðnir glaðir... jú, það er þess virði að vera á svona stað þó það sé kalt og vindur... hann átti að lægja þegar liði á daginn... og það stóðst... við enduðum í logni síðustu tindana... Blákollur var hæstur átta tinda dagsins... 788 m hár...


Fanney, Sigrún Bj., Jaana, Tinna, Johan, Agnar og Gustav en Örn tók mynd og Bára var á næturvöktum þessa helgi...


Hryggurinn niður af Blákolli austan megin er mjög skemmtileg leið og þar er ágætis stígur kominn líka en svo þynnist hann út og endar greinilega í allar áttir slóðalaust...


Hafnarfjall og Hróarstindar...


Leiðin framundan... mjög gaman að sjá hana snjólausa eftir fyrstu ferðina okkar þarna í snjó alla leiðina árið 2012... Tindferð 72 - Baksviðs milli haf (toppfarar.is)


Við förum reglulega á þessa tinda Hróana... kannski kominn tími á að reyna að ganga á fleiri tinda en þann hæsta...


Blákollur þegar litið var til baka...


Bræðurnir Gustav og Johan á tindi tvö... Geldingaárhálsi í með Esjuna og Akrafjall í baksýn... þeir ásamt Halldóru Þórarins Toppfara og fleiri úr stórfjölskyldu sinni eru að æfa fyrir Hvannadalshnúk þann 20. maí í gegnum FÍ - alla leið... vonandi fá þau geggjað veður á Hnúknum og uppskera eftir allan veturinn...


Skarðsheiðin hér i fjarska...


Ytri Svartitindur og Hrossatunguhnúkur framundan með gíginn fagra...


Sýnin á Hróana breyttist stöðugt... sjá Giljatunguhnúk vinstra megin svo fallegan...


Tungudalur út eftir til norðurs og gígurinn fagri... Rauðahnúkafjall er smávegis hrímað í fjarska...


Tungudalur og Agnar...


Hundurinn Batman að ná sér í smá snjó til að svala þorsta eða kæla sig eða strjúka sér við... hann eltist alltaf við alla skafla...


Sjá smæð mannsins á uppleið... þetta var risavaxið landslag og flókið að finna út úr örnefnum í öllu þessu viðfeðmi... en við vorum á því eftir þessa ferð að þetta væri 7 tinda leið en ekki 8... Þverfellið væri ekki þarna megin heldur Hafnarfjallsmegin enda er það einn af tindunum 7 um Hafnarfjallið...


Ytri Svartitindur var þriðji tindur dagsins í 656 m hæð...


Litið til baka... Geldingaárháls og Blákollur að baki...


Vert að setjast og hvílast aðeins milli tinda...


Framundan var Rauðahnúkafjall... með viðkomu á einum tindi... Hrossatunguhnúk hægra megin...


Það verður sífellt dýrmætara að hittast og spjalla við fólk... klukkustundum saman... en ekki eiga eingöngu stutt skilaboð milli manna... æfa samræðuhæfni... geta skipst á ólíkum skoðunum án þess að móðgast eða reiðast... við verðum að viðhalda þessari hæfni...

Hrossatunguhnúkur mældist 640 m hár og var fjórði tindur dagsins...


Klöngrast upp á svipmesta og næst hæsta tind dagsins... Rauðahnúkafjall... í 781 m hæð eða eingöngu 7 metrum lægra en Blákollur... fimmti tindur dagsins...


Litið til baka úr hlíðunum...


Hrímað...


Ekki komin alla leið upp ennþá...


Magnað landslag svona hrímað að vori til...


Mikið útsýni og einstök fjallasýn...


Hróarstindarnir vinstra megin og Hafnarfjallið hægra megin... komið í suðvesturátt frá gönguleið dagsins...

Blákollur mili fóta þjálfarans...


Tungudalur... mjög gaman að sjá þetta í sumarfæri... ein af okkar uppáhaldsleiðum sem við höfum búið til í gegnum árin... eins og níu tinda hringleiðin um Hafnarfjallið þar sem engum tindi er sleppt...


Ofan af Rauðahnúkafjalli blasti Innri Svartitindur við... ljósa fellið vinstra megin var líklega misreiknað sem Þverfell hjá okkur í fyrri ferð árið 2012 en eftir uppfærslur á kortum virðist þetta örnefni eingöngu eiga við um Þverfellið í Hafnarfjallið svo við fækkum einum tindi í þessari seinni ferð um þessa leið... alltaf að læra og leiðrétta... það er svo gaman að spá í þetta... ekkert meitlað í stein og við erum glöðust allra ef við fáum leiðréttingar eða athugasemdir sem auka á okkar þekkingu og glöggvun á því fjalllendi sem við göngum um...


Tungukollur í Hafnarfjalli vinstra megin... mjög gaman að ganga hérna megin við Hafnarfjallið... líklega sjaldfarnasti tindur Hafnarfjalls... snarbrattur vestan megin og ágætlega brattur upp úr dalnum... en samt vel fær... fórum hann aftur á þriðjudagskveldi í fyrra... fáir mættu en veðrið var dásamlegt og við munum endurtaka göngu á þennan tind... hann er svo flottur hinum megin frá... sem og leiðin gegnum dalinn... Tungukollur í Hafnarfjalli (fjallgongur.is)


Skessuhorn... Skessukambur... Skarðskambur... Heiðarhorn... magnaðir tindar Skarðsheiðarinnar eru farnir að segja okkur að endurtaka gönguna endilangt yfir Skarðsheiðina frá austri til vesturs... já, við verðum að fara að endurtaka þá leið... hún var gengin í þoku að hluta og veislan sem er þarna uppi er þess virði að njóta aftur einn daginn... Tindferð 94 Skarðsheiðin endilön (toppfarar.is)


Niður af Rauðahnúkafjalli... svo fallegur hrímaði mosinn... hvílíkir litir og formfegurð þennan dag... bara veisla þessi leið...


Agnar, Tinna, jaana, Fanney, Johan, Gustav og Sigrún Bjarna en Örn tók mynd... englar á ferð... forréttindi að eiga svona göngufélaga...


Og önnur hópmynd í hina áttina... með Borgarfjörðinn í baksýn...


Niður af þessu umfangsmikla og litríka Rauðahnúkafjalli...


Tungukollurinn í baksýn...


Innri Svartitindur framundan...


Litríkt í átt að Skessuhorni...


Innri Svartitindur...


Já... þetta var stórt landslag...


Innri Svartitindur var sjötti tindur dagsins... líka hrímaður að hluta...


Hann mældist 728 m hár...


Sýnin til baka á Rauðahnúkafjall og félaga... sést smávegis í tind Blákolls líklega þarna fyrir miðri mynd ?


Klettarnir í Innri Svartatindi voru skemmtileg tilbreyting frá ávölum fjallsbungum dagsins...


Fjallahundurinn með skerminn á degi þrettán... saumarnir voru teknir degi síðar og skermurinn fjarlægður sólarhring síðar... við mikla gleði yfir að geta um frjálst höfuð strokið aftur...


Blákollur og Hróarstindarnir og Hafnarfjallið þegar litið var til baka... við vorum komin ansi langt á þessari leið...


Óvænt uppgötvuðum við vatn efst í Skálafjalli... sem var síðasti "tindur" dagsins...


Hér var bongóblíða... sól og komið logn... loksins...


Baula og Tröllakirkja á Holtavörðuheiði ?... þarna í fjarska í norðri...


Lagst í sólbað og stundarinnar notið til hins ítrasta...


Skálafjall er fjallsbungan sem farið var niður um á niðurleiðinni... sjöundi tindur dagsins og mældist 620 m hátt...


Stuðlabergið...


Litið til baka... brekkan góða sem við renndum okkur niður um árið 2012... mynd tekin ofan af smá kletti á leiðinni sem var sleppt síðast en heitir líklega Hádegishæð...


Ekki fleiri myndir teknar... síminn gamall og að berjast við rafmagnsleysi og var samt hlaðinn í miðri göngu... en það er meira en að segja það að leiðsegja... taka myndir og vera að hlaða símann líka... eina sem var eftir var mjúk lending um ávalar grónar hlíðarnar niður að veg þar sem bílarnir biðu og aksturinn stuttur heim aftur með viðkomu í Ölveri að sækja hina tvo...


Frábær ferð í alla staði í gullfallegu landslagi og krefjandi veðri til að byrja með en svo sumarfílíng...


Alls 17,5 km á 7:07 klst. upp í 788 m hæð með alls 1.409 m hækkun úr 72 m upphafshæð... veruleg hækkun er á þessari leið... kom á óvart og því er hún nokkuð krefjandi enda umfangsmikið landslag sem leynir sannarlega á sér... takk fyrir okkur Blákollur og Rauðahnúkafjall og félagar !


151 views0 comments

Comments


bottom of page