top of page

Hörðubreið, Ljónstindur, Gjátindur, Eldgjá og Ófærufoss #Skaftárfjöllin

Tindferð nr. 251 sunnudaginn 4. september 2022.


Fjórða gangan okkar um áhrifasvæði Skaftár var fyrsta sunnudag í septembermánuði og þá var spáð hæglætisveðri, skýjuðu með smávegis von um sól... nokkuð svipuðu og var á Uxatindum, Gretti og Sveinstindi á sama tíma í fyrra... en því miður reyndist veðrið mun síðra en spáin sagði til um... þoka, rigning og lágskýjað framan af degi... en svo kom gott skyggni og smá sól síðari hluta dags þegar við vorum á leið til baka um Eldgjána...


Flestir gistu í Hólaskjóli fyrir gönguna, í tjaldi eða skála og nokkrir einnig nóttina á eftir... en hinir komu keyrandi frá Reykjavík kl. 6:00 um morguninn... aksturinn tók 3:25 klst. og eftir stopp í Hólaskjóli og keyrslu yfir Hörðubreiðarháls að Skuggafjallakvísl lögðum við af stað gangandi kl. 10:36...


Þykk þoka lá yfir öllu og við sáum ekki einu sinni sjálfa Hörðubreið sem gnæfir þarna yfir rétt hjá... Örn eingöngu með gps-punkta á fjallstindum dagsins og svo Ófærufossi... og því runnu þjálfarar blint í sjóinn... því ekkert er á veraldarvefnum um göngur á Hörðubreið né Ljónstind... en eftir heilmikla yfirsetu yfir kortum og ljósmyndum úr fyrri ferðum okkar um þetta svæði vissum við að Hörðubreið væri fær... en vorum ekki viss með Ljónstind... Gjátindur er svo fjölfarinn ferðamannastaður og þangað upp er stikuð og vel slóðuð leið austan megin við Eldgjá en við vorum hins vegar að koma að honum vestan megin við gjána og áttum því eftir að finna nýja leið á Gjátindinn... sem varð sama krefjandi verkefnið og á hin tvö fjöllin...


Staðarhaldari í Hólaskjóli sem einnig hefur leiðsagt árum saman fyrir Útivist sagði þjálfara þennan dag að menn væru ekki að ganga á þessi fjöll og heldur ekki ferðafélagið Útivist... og við lofuðum að gefa þeim skýrslu þegar við kæmum til baka...


Nornabaugar voru á víð og dreif á slóðum dagsins... og mosinn lék stórt hlutverk þennan dag...


Lækir voru á leið okkar að Hörðubreið... vatnið sem kemur niður Hörðubreiðarhálsinn...


Hörðubreið er lítið en bratt fjall... og þjálfarar reyndu að velja suðurhlíðarnar sem eru líklega aðeins meira aflíðandi en vestur- og austurhlíðar...


Gott hald í mosanum, grjótinu og jarðveginum... mjög gaman að koma hér en grátlegt að sjá ekkert frá sér...


Bratt upp en vel fært...


... og mjög skemmtileg leið...


Landslagið stjórnaði okkur þennan dag í leiðarvali... og Örn missti aldrei sjónar á markmiðunum sem voru efstu tindar þessara tveggja fjalla...


Fjölbreytt leið og klettótt...


... mjög skemmtileg...


... og alls staðar hægt að fóta sig með vissu...


Tindurinn sjálfur ávalur og léttur efst... við merktum fyrsta punkt hér en svo var hæsti tindur aðeins lengra inn á fjallið... við sáum ekkert og því var þetta óvissuferð í hæsta gæðaflokki...


Komin upp á tindinn... í 829 m hæð...


Alls 25 manns í þessari ferð og allir gengu alla leiðina á þrjá tinda um eina gjá og að einum glæsilegum fossi... fyrir utan að vaða eina á á leiðinni...


Þórkatla, Jaana, Njóla, Örn, Bjarni, Sjöfn kr., Katrín Kj., Kristín Leifs, Maggi, Guðmundur Jón, Inga Guðrún, Edwin, Birgir og Fanney með hundinn Batman fremstan á mynd og Bára tók mynd...


Niður af Hörðubreið var fundin mögulega fær leið niður brattar en grasi grónar brekkurnar... fínasta leið og engin vandamál en ekkert hægt að sjá nema í líklega um 50 metra fjarlægð...


Landslagið milli fjallanna var óvissuþáttur... eina hindrunin sem þjálfarar voru búnir að greina var áin Skuggafjallakvísl sem rennur meðfram Ljónstindi áður en hún fellur fram af brúninni niður í Eldgjá sem Ófærufoss... áin Nyrðri -Ófæra er á þessu svæði og kemur að norðan og rennur saman við Skuggafjallakvísl rétt áður en við óðum þessar tvær ár sameinaðar... en á sumum kortum heitir áin áfram Skuggafjallakvísl en á öðrum Nyrðri-Ófæra...


Óskaplega fallegt þegar nær var litið á þessari leið... mosinn var í lykilhlutverki...


... og rennandi vatnið...


Við héldum allan daginn í vonina um meira skyggni og jafnvel sól... trúðum því ekki að þetta yrðu örlög okkar... að fá þessa skelfilegu þoku allan tímann...


Ásar, gil, lækir og hjallar... hvergi hindrun og fallega fjölbreytt leið milli Hörðubreiðar yfir að Ljónstindi...


Í þessu gili voru stórar breiður af dýjamosa...


Við dáðumst að þessari dýrindis fegurð... og reyndum að hlífa mosanum...


... en stundum urðum við að stíga varlega til jarðar þar sem hann fyllti upp í allt göngufært svæði...


Litið til baka ofan í gilið... mun fallegra en fangast á myndum...


Elsku íslenska náttúra... þú ert svo falleg... við eigum ekki til orð... fegurðin í hinu smáa... fjallgöngurnar hafa sannarlega gaumað henni að okkur ekki síður en að stórfenglegu útsýni yfir stór svæði...


Jæja... þá kom að vaðinu... mjög skemmtileg tilfinning að ganga að þessari á... og komast að því að við vorum sko ekki að fara að stikla yfir hana... eins og í fyrra þegar við vorum þá líka með vaðskóna í bakpokanum... og "hefðum getað sleppt því að pakka þeim í bakpokann"... nú þurftum við svo sannarlega á þeim að halda...


Þetta voru tvær ár... sem höfðu sameinast lítið eitt ofar úr gagnstæðum áttum... Skuggafjallakvísl að sunnan og Nyrðri Ófæra að norðan... á sumum kortum heitir áin alls staðar Skuggafjallakvísl og alla leið niður eftir... en á öðrum færi hún að heita Nyrðri Ófæra að ofan og svo þegar þær eru sameinaðar...


Þetta var ekkert mál yfir fyrri kvíslina... og alltaf gaman að vaða... þó það sé rigning !


Seinni kvíslin var meiri óvissa... aðeins straumharðari fjær en þetta leit vel út... tært... ekkert jökulfljót hér... en Örn ákvað að hafa allan hópinn saman áður en lagt yrði í seinni kvíslina... '

... sem reyndist mun saklausara vað en við héldum í fyrstu... þurftum ekki að leiðast í raun og hundurinn Batman komst sjálfur yfir... sem sagði allt um dýptina...


Mergjaður hópur... vílar ekkert fyrir sér... svona vöðun er nauðsynleg og ætti að vera sem oftast í göngunum... því hún æfir vinnubrögðin við að þurfa að vaða.... vera bara snöggur í vaðskóna og pakka dótinu niður í bakpokann... og þurrka sér, fara í skóna og ganga frá vaðdótinu aftur... þetta getur stundum tekið óratíma en ætti bara að vera snögg handbrögð sem eru vel útfærð við endurtekninguna... vöðum sem oftast... líka að vetri til... og öðlumst þannig styrk til þess arna... og fumlaus vinnubrögð...


Handan árinnar gengum við að bröttum hlíðum Ljónstinds í þokunni og ljóst var af gps-tækjum þjálfara að við værum komin að Ljónstindi... hér áðum við því og fengum okkur nesti...


Sérkennilegt að ganga á ný fjöll í þoku... það var aldrei ætlunin... það var jú komin þoka í veðurspána á laugardaginn... en þá var of seint að hætta við ferðina... við vonuðumst til þess allan daginn að þessari þoku myndi létta... og stundum var eins og það tækist næstum því... eins og þegar sólin kom í gegnum þokuna á tindi Hörðubreiðar fyrr um daginn... en þessi þoka átti eftir að fylgja okkur í gegnum snarbrattar fjallseggjar Ljónstind allt til enda... og lengra...


En Örn leiddi okkur öruggur hér upp... mat þéttnina í hæðarlínunum og lét landslagið stjórna sér... í átt að merktum tindi Ljónstinds... sem hann hafði sett í gps-tækið deginum áður... en merktir punktar hans voru furðu nálægt raunverulegum tindum á bæði Hörðubreið og Ljónstind... en það er ekki sjálfgefið að svo sé þar sem nöfn fjallanna eru ekki alltaf á hæsta punkti...


Skyndilega opnaðist fyrir þokuna... og við sáum ána renna niður eftir í átt að Eldgjá...


Og við sáum litlu tindana sem rísa sunnan við Ljónstind og eru í raun hluti af tindóttu landslaginu hans...


Vá... hvílíkt landslag sem við vorum að missa af í þessari þoku... hjartað tók sorgarkipp... hrikalegt landslag allt í kring og við bara í svartaþoku...


Áin sem við óðum yfir hér að baki... hún er sameinuð aðeins ofar... og svo aftur neðar... við óðum yfir á góðum stað...


Brekkurnar á Ljónstindi voru grýttar og góðar til uppgöngu... enginn gönguslóði... hér fer enginn nema sauðféð... og stundum sáum við gamlar kindagötur á báðum fjöllum...


Eldgjáin þarna niðri... og Skuggafjallakvísl = Nyrðri Ófæra að renna í flúðum og smá fossi þarna neðar áður en hún steypist niður í Eldgjána... það var heilmikill hávaði frá þessum flúðum og fossi... glumdi í öllu í þokunni... og gaman að sjá hvað olli þessum hávaða... því okkur fannst varla að Ófærufossinn væri að ná eyrum okkar svona ofarlega...


Við gengum fyrst aðeins inn eftir suðurenda Ljónstinds...


... og tókum svo að hækka okkur upp á hrygginn...


Mikil orka fylgdi því að sjá aðeins meira niður og um allt umhverfis... og við fylltumst eldmóð hér upp af þeim sökum... okkur fannst á kafla að þokan væri að létta á sér smám saman... og við myndum enda í góðu skyggni... oft hefur einmitt þetta gerst...


Mjög svipmikið landslagið á Ljónstindi... og gaman að sjá aðeins hvernig þetta leit út...


... en svo þykknaði aftur í þokunni...


Komin upp á fjallseggjarnar... og tindarnir röðuðust í báðar áttir eftir hryggnum... við áttuðum okkur á því að við vorum á stórkostlegu fjalli... sem átti skilið sól og skyggni... en kyngdum bara og nutum þess sem þó bar fyrir augu... dulúðin var alltumlykjandi og við vorum einhvern veginn dolfallin og ölvuð þrátt fyrir þokuna... kannski af því við skynjuðum svo stertk á hvers lags tindóttu landslagi við vorum stödd í...


Ofar var saklausari leið til að byrja með... þjálfurum var létt... það leit út fyrir að okkur skyldi takast að komast á hæsta tind ef hryggurinn var þó ekki torfærari en þetta...


Við lofuðum okkur því að koma hingað sem allra fyrst aftur... þessar fjallseggjar skyldu upplifðar í sól og skyggni !


Stefnt á hæsta tind... upp í þokuna... hann var merktur nokkuð innar en hér upp... þetta var óvissuferð í hæsta gæðaflokki...


Jú... vel fært hér inn eftir... þjálfarar voru fegnir... þetta lofaði góðu... svo mikill sigur ef okkur tækist að komast á hæsta tind Ljónstinda... hvílíkt nafn á fjalli ! Bara nafnið fékk mann til að vilja ganga á þetta fjall fyrst þegar við sáum það árið 2014... og núna loksins vorum við hér uppi... verst að sjá ekki umhverfið... allan veginn inn eftir að Langasjó vinstra megin... og Eldgjána alla hægra megin... Gretti, Grjátind, Sveinstind, Lakagíga...


Fínasta leið eftir fjallseggjunum og saklaus á köflum...


Komin á hæsta tind... hann mældist 801 m hár og var stutt frá merkingunni á map sourdce...


Komin lengra og litið til baka á hópinn á tindinum... þjálfarar sáu fyrir sér að fara til baka sömu leið ef hryggurinn yrði illfær... en Bára tók smá skoðunarferð áfram norður eftir og sá ekkert nema saklausa leið... það væri jú skarð enn lengra sem væri greinilga bratt á kortum og við vissum að það væri þverhnípt skarð norðarlega í Ljónstindi... sem við höfðum séð fyrir okkur að þurfa að sniðganga með því að fara upp og niður...