Tindferð nr. 321 föstudaginn 1. nóvember 2024
Við erum að safna mánuðum á Heklu og Baulu.... með árlegum göngum á þessu uppáhaldsfjöll okkar... og náðum febrúar á Baulu á árinu... nóvember var mánuðurinn á Heklu á þessu ári... og því þrjóskuðust þjálfarar við að stefna á föstudaginn 1. nóvember... þó nánast enginn kæmist... því ef við ætlum að ná þessum tólf mánuðum... þá dugar ekki að hætta við...
Á endanum melduðu sig tveir til viðbótar, Sighvatur og Pétur Magnússon sem skráði sig í klúbbinn þar með... og var þetta frábær viðbót við leiðangurinn... þar sem þjálfarar voru búnir að gíra sig inn á að vera bara tvö og slá þar með met í fámenni tindferða... en fjórir var samt met... aldrei hafa færri mætt í tindferð... en góðmennskan var slík í göngunni að það kom ekkert að sök... við spjölluðum allan tímann og skemmtum okkur konunglega... það var ótrúlegt þegar göngu lauk að við skyldum hafa verið tæpa átta tíma á leiðinni... því þessi ganga leið eins og örskotsstund...
Þjálfarar komu úr bústaðnum sínum í Landsveit... þar sem Hekla geislaði í morgunskímunni... en birtan á fjöllum er ís ama gæðaflokki og þarna í sveitinni... sólarupprás og sólarlag beint í æð... og náttúran í 360 gráður allt í kring... lygileg upplifun... og því var aksturinn inn að Heklurótum ekki síðra ævintýri en sjálf gangan... eins og svo oft áður... síbreytileikinn í birtunni, litunum og formunum er með ólíkindum... hvílíkt lán... að vera fjallgöngumaður yfirleitt...
Allt var með kyrrum kjörum á Heklu á mælum Veðurstofunnar svo okkur var ekkert að vanbúnaði... rétt eins og á Eyjafjallajökli... Fimmvörðuhálsi... Torfajökulssvæðinu... Öskjusvæðinu... Ljósufjallasvæðinu... ja... ekki reyndar alveg eins kyrrt á Reykjanesi... þar er enn kvikusöfnu og búist við gosi... en það hvarflaði ekki að okkur að þetta fallega eldgjall myndi gjósa á sama tíma og við skruppum þarna upp... við erum ekki svo illa haldin af sjálflægni eins og Serbinn orðaði það hér um árið...
Einn jeppi og einn hálfjeppi og einn jepplingur... við komumst í 1,1 km fjarlægð frá Skjólkvíabílastæðinu og því lengdist gangan sem því nam... en dagurinn gekk eins og í sögu... ævintýrið í fjallshlíðum og á tindi Heklu er með ólíkindum og í þessari áttundu göngu Toppfara á þetta fjall komu enn og aftur alls kyns uppgötvanir á óvart... hitinn á tindinum bræddi óðum snjóinn í einni langri línu eftir endilöngum tindinum... gegnum gígana til norðausturs og suðvesturs... og allt sem var utan þessarar línu var ískalt og farið að safnast upp í snjóþunga og klakabúnt... ótrúlegt að upplifa þetta... jörðin var volg ef krafsað var aðeins í hana... eins og á Eldfelli í Vestmannaeyjum... eins og í gígunum á Fimmvörðuhálsi... þar sem fjöldi manns er staddur á hverjum degi öll sumur frá síðasta gosi á þeim stöðum...
Íshelli var mjög neðarlega í fjallinu.... sprungurnar þar ekki fýsilegar ef einhver myndi detta þarna ofan í og ekki átta sig á landslaginu... svo það er okkar niðurstaða að best er að halda sig á gönguslóðinni sem gps-tækin gefa manni... þetta fjall er ljóslifandi og þarna er sífreri og jökull á köflum sem getur verið hættulegur þar sem hraun og vikur liggur yfir honum og svo snjór að vetrarlagi...
Við fundum hvergi boxið fyrir gestabókina en grunaði að ískletturinn sem var á tindinum væri söfnun íss utan um boxið svo Örn prófaði að höggva nokkuð í ísinn og fann hann boxið loks og við gátum skrifað í bókina sem var skemmtilegt þar sem okkur er til efs að margir hafi farið á fjallið í þessum mánuði...
Yfir Heklu var einhver sérkennileg birta... sem var erfitt að útskýra þar sem þungskýjað var til vesturs og suðurs... þar sem sólin var... og sást þetta greinilega úr fjarlægð bæði þegar við nálguðumst fjallið gangandi og eins í lok dags þegar við litum til baka... norðurhlíðarnar voru upplýstar í sólargeislum þó sólin væri hinum megin fjallsins... og eina skýringin sem við gátum komið með var að sólargeislarnir vörpuðust svona af skýjunum ofan fjallsins niður á norðurhlíðarnar... sem var langsótt þar sem þykk og dökkgrá skýjahula lá yfir öllu sunnan megin og hvergi sást til sólar... nema birtan af himni hafi varpast svona niður á fjallið... þetta var hálf yfirnáttúrulegt og ein leiðin til að skilja þetta var að samþykkja að þetta fjall er dulúðugt og stærra en allt í kring og lýtur sínum eigin lögmálum... sem eru handan skilnings manna... á þessa skýringu sættist ritari þessarar ferðasögu... virðingin fyrir Heklu er botnlaus... eftir ellefu ferðir á hana þar sem hver einasta ferð kennir manni nýja hluti um fjallið... og það er áþreifanlegt á hverri sekúndu sem maður er staddur á þessu fjalli að það er lifandi vera og hefur eitthvað að segja... ef maður bara hlustar nægilega vandlega... í auðmýkt og lítillæti...
Gangan var alls 18 km á 7:45 klst. upp í 1.491 m hæð með alls 1.190 m hækkun úr 471 m upphafshæð... við höfum oftast mælt tindana tvo yfir 1.500 m hæð en merkilegt nokk þá var hann eingöngu 1.491 m hár að sinni...
Ljósmyndir úr ferðinni hér fyrir neðan:
Seinnipartinn daginn eftir... var fjallið skýlaust... rigning um morguninn en svo sól og blíða og einstakt veður...
Gps-slóðin hér: Wikiloc | Hekla vetrarferð í nóvember 011124 Trail
Myndband úr göngunni hér: Hekla 1. nóvember 2024
Hjartansþakkir elsku Pétur og Sighvatur fyrir þessa göldróttu göngu... sigurinn er okkar... nú eru "bara" sjö mánuðir eftir; des, jan, feb, mars, júní, júlí og ágúst :-) ... við getum þetta... gefum ekki eftir... höldum okkur í góðu fjallgönguformi og náum öllum tólf mánuðum ársins á Heklu !
Comentarios