Þriðjudagsæfing 4. janúar 2022.
Frost og ískaldur vindur lék um fyrstu daga nýs árs 2022... og það stefndi í sama krefjandi veðrið þriðjudaginn 4. janúar þegar 39 manns mættu við fjallsrætur á fyrstu æfingu ársins... og fyrstu Esjugöngu ársins af 15 (jebb... búin að bæta einni við þar sem nýr tindur fannst á æfingunni !)... en það var mun betra veður þegar á reyndi um kvöldið... sem gaf hörku góða æfingu á rúmum þremur klukkustundum í myrkrinu...
En... það var ekki alveg orðið myrkur í raun þegar við stóðum og spjölluðum saman á bílaplaninu áður enn klukkan sló 17:30... það styttist í birtuna... í lok janúar er orðið albjart í byrjun þriðjudagsæfingar og myrkrið lætur hratt undan í febrúar...
Lítill snjór á fjallinu en frosinn jarðvegur og lækirnir í klakaböndum... við lögðum af stað hefðbundna fjölfarna leiðina upp Esjuna en beygðum fljótlega til hægri inn slóðann sem nú er orðinn mjög greinanlegur alla leið að Geithól... enda mikið notaður síðustu ár af göngumönnum sem vilja hafa hundana sína lausa einir á ferð... hjólreiðamönnum... og utanvegahlaupurum...
Þessi leið er með eindæmum falleg... gegnum skógana í neðri hlíðum fjallsins og grasigrónar lendur... dásamleg leið...
... og skógurinn orðinn ansi þykkur og dimmur á köflum eins og á Úlfarsfellinu... magnað að upplifa þessar breytingar í gegnum árin...
Þrír nýir meðlimir mættu þetta kvöld... þær Ásdís Hlökk sem kallar sig Hlökk og Kristín Leifs og svo mætti 15 ára drengurinn hennar Ásu sem heitir Jóhann Örn og er mikill heiður að fá hann í hópinn þar sem kraftur og önnur orka kemur með unga fólkinu... og við viljum auðvitað sem mest vera í návíst og í félagi við þau...
Þá mættu nokkrir sem ekki hafa mætt mikið síðustu vikur eða mánuði... en annars voru nánast allir mættir þeir sem gengið hafa reglulega þetta árið... og gefa greinilega ekkert eftir... en það er til marks um að menn séu komnir til að vera ef þeir ná að fara í gegnum heilt ár með okkur... og hefja annan árshring... ef þeir ná því... þá eru þeir yfirleitt komnir til að vera í klúbbnum og á fjöllum með okkur... og það eru ansi margir frá nýliðahópnum í byrjun síðasta árs... sem er alveg frábært !
Það var töfrandi að ganga Esjuna þetta kvöld í góðu skyggni og lygnu frostveðri... og sjá ljósin frá öllu fólkinu á hefðbundnu leiðinni upp á Steini... við vorum eflaust ein stór ljósakeðja í þeirra augum... en frá okkar sjónarhóli þá dreifðust ljósgeislarnir niður allt fjallið og skreyttu það eins og jólatré...
Þjálfarar skoðuðu vel hólana í suðurhlíðum Esjunnar en þeir eru ansi margir og mun fleiri austar í fjallinu undir Kistufellinu... og heita þar heillandi nöfnum eins og Kúpuhryggur og Skotlandsöxl... en við áttum eingöngu stefnumót við þrjá hóla undir Þverfellshorni... Kögunarhól, Rauðhól og Geithól... og höfum við aldrei í raun verið viss hvar tveir fyrrnefndu hólarnir eru... og ákváðum því að láta landslagið ráða... ganga á þá sem rísa efst og virðast eiga svæðið í kringum sig...
Sá sem við teljum að sé Kögunarhóll rís ofan við Löngubrekkur og skóginn... hann var á svipuðum stað og við höfðum áður merkt hann... mældist í 240 m hæð... á honum var vel hlaðin varða... svo þetta var augljóst að okkar mati... en endilega látið okkur vita ef við merktum ekki inn réttan hól (sjá wikiloc-slóðina okkar hér: Wikiloc | Kögunarhóll, Rauðhóll, Geithóll 010422 #EsjanÖll2022 Trail
Sýnin þegar litið var til baka... frábær mæting upp á 39 manns... en Guðmundur Jón og Katrín gengu þessa leið fyrr um daginn í dagsbirtu en þau ætla að vera með í Esjuverkefninu og í Fjallamaraþonverkefninu okkar á árinu sem er alveg magnað og segir allt um hvílíkt fjallafólk þetta er !
Frá Kögunarhóli gekk Örninn með okkur upp hólóttan ásinn á hæsta hólinn í skarðinu ofan við ána... og ákváðum við að þetta hlyti að teljast formlega sem Rauðhóll þar sem hann var hæstur allra á svæðinu nema Geithóll... en við vissum að margir miða við mastrið... en við sáum það hvergi í myrkrinu þó við sæjum landslagið vel... og héldum því áfram með merktan punkt upp á 484 m hæð... þegar niður efsta Rauðhólinn var komið blasti mastrið skyndilega við á lægri hól austan við þann hæsta... og til öryggis gengum við að mastrinu til að hafa það inni í þessari formlegu þriggja hóla leið... en mastrið er í 476 m hæð og því lægra staðsett en hæsti og stærsti hóllinn á svæðinu... við létum því fyrri staðsetningu ráða... sá hæsti fengi að vera fulltrúi Rauðhóls... þar til annað sannast...
Frá Rauðhólsmastrinu gengum við fram á langa snjóskafla sem voru þó með það mikið viðnám að keðjubroddarnir minntu ekki á sig.... og nú blasti Geithóllinn við... en hann er einn af tindum Esjunnar sem hafa komið okkur einna mest á óvart þegar við gengum á hann fyrst... glæsilegur fjallshryggur innst og efst undir hömrum Esjunnar... lætur ekkert yfir sér og liggur þarna eins og í felulitum í hernaði... en er snarbrattur og mjög svipmikill... og gefur mjög flott útsýni yfir alla Esjuna að sunnan til suðurs yfir borgina... hér er maður yfirleitt einn í heiminum... hér hafa margir Toppfarar, hlauparar, hjólarar, göngumenn eflaust átt sínar friðsælu stundir með Esjunni utan alfararleiðar einir í heiminum... að skokka niður frá Geithól á slóðanum er eins og að fljúga sem fugl niður Esjuna... magnað alveg !
Geithóllinn er brattur upp og niður... en vel fær í góðu klöngri og góðu haldi í klettum og mosavöxnu grjóti... hallinn er um 40 - 45 gráður og síðustu menn skelltu á sig keðjubroddunum og gátu þá stigið hvar sem var áhyggjulaust... en þetta slapp vel án broddana...
Mjög skemmtilegt klöngur hér upp... alla leið á tindinn...
Tindurinn mældist 557 m hár og var vel fær sem betur fer... lítið pláss á tindinum sjálfum... en Örn ákvað að snúa við af honum til baka frekar en að fara niður hinum megin þar sem myrkrið, færið og fjöldinn flækti þá för...
Við spáðum í landslagið... og Hjördís (sem er ekki á þessari mynd) benti þjálfara á aukatind sem rís vinstra megin við Geithól séð frá þessu sjónarhorni... hann virtist eins útlítandi og Geithóll en meira aflíðandi og lægri... við höfum ekki gengið á hann... hann verður að komast í safnið... og í þessa Esjutindasöfnun... og því er hann kominn á listann sem 54ði tindurinn á árinu... en það er ágætt að geta komið hér upp í haust og skoðað þetta landslag í dagsbirtu fyrir þá sem voru að koma hér í fyrsta sinn... við köllum þennan aukatind "Innri Geithól"... en þjálfari var næstum því búin að kalla hann "Hjördísartind" :-)
Niður afGeithól þurfti að stíga varlega til jarðar í mesta brattanum... sérstaklega ef menn voru ekki á keðjubroddunum...
Sjá hallann hér... og frosinn skaflinn nær... hann var varla göngufæri vegna bratta á keðjunum en slapp með herkjum...
Litið til baka upp með Geithól...
Alls 39 manns mættir.. glimrandi gleði og stemning... mikil orka og einurð í hópnum... tilhlökkun fyrir verkefnum ársins... og þeirri einföldu staðreynd að árið 2022 hlýtur að verða betra en árin 2021 og 2020...
Ása, Bára, Davíð, Elísa, Guðmundur Jón (eigin vegum á T1-3), Gréta, Hafrún Hjördís, Inga Guðrún, Jaana, Jóhann Örn, Jóhanna D., Jórunn Ósk, Katrín Kj. (eigin vegum á T1-3), Kolbeinn, Kristín Leifs., Lilja Sesselja, Linda, Magga Páls, Maggi, Oddný T., Ólafur V., Ragnheiður, Sigga Lár., Sigríður Lísabet, Sigurbjörg, Siggi, Sigurjón, Silja, Silla, Sjöfn Kr., Steinar A., Súsanna, Svandís, Tinna Bjarndís, Tómas, Vilhjálmur, Þórkatla, Örn.
Hundar: Batman, Myrra, Snót, Tinni.
Niður til baka var farið um slóðann sem liggur að Geithól og er mjög falleg leið...
Gegnum skóginn til baka en hér ná'i ég því miður ekki nægilega góðri mynd af skógargöngunni...
Alls 8,3 km á 3:07 - 3:16 klst. upp í 240 m á Kögunarhól, 484 m á Rauðhól og 557 m á Geithól með alls 661 m hækkun úr 5 m upphafshæð...
Gangan á korti hér af Basecamp...
Tindarnir á ljósmynd af Esjunni tekin fyrr sama dag... Kögunarhóllinn sem við gengum á er líklega sá efri... hann var í 240 m hæð og virtist líklegastur en er frekar innarlega og nálægt gilinu og ánni en hann gnæfði sannarlega yfir og var með myndarlegri vörðu... það má spyrja sig hvort neðri hóllinn sé hinn eiginlegi Kögunarhóll... við skoðum það í haustgöngunni á "Innri Geithól" og höfum þá þann neðri með til öryggis..
Næstu 4-9 tindar Esjunnar á dagskrá á laugardaginn með göngu þvert yfir vestasta hluta Esjunnar... en veðurspáin er eitthvað að stríða okkur... við förum þó það sé einhver útkoma og einhver vindur og þó við náum ekki lágmarksþáttöku... þar sem við ætlum ekki að byrja Esjuverkefnið á að gefa eftir... en ef spáin er slæm þá frestum við til laug 22. janúar og hlökkum bara til !
Frábært kvöld.... hörkuframmistaða... geggjaður hópur !
Gps-slóðin af wikiloc hér: Wikiloc | Kögunarhóll, Rauðhóll, Geithóll 010422 #EsjanÖll2022 Trail
Myndband af ferðinni hér: Kögunarhóll, Rauðhóll, Geithóll 040122 #EsjanÖll2022 - YouTube
Comments