top of page
  • Facebook
  • Instagram
  • YouTube
  • Twitter

Löðmundur við Landmannahelli

Tindferð nr. 277 laugardaginn 15. ágúst 2023.


Þjálfarar gáfust loksins upp á að halda úti mánaðarlegum föstudagsfjallgöngum þegar kom að því að ganga á Löðmund við Landmannahelli aðra helgina í ágúst... en eingöngu 7 manns mættu á Hattfellið í júlí sem var svipuð mæting og í hin föstudagsfjöllin... og því var ákveðið að láta veðrið ráða för og fara á laugardeginum þegar veðurspáin var alger bongóblíða... og spáin sú rættist...


Lagt af stað klukkan átta úr bænum þar sem ganga á Löðmund jafngildir í raun kvöldgöngu að magni og álagi... og því afslappað andrúmsloft og allir að njóta í botn...


Lagt var af stað frá hefðbundnum stað við bílastæðið í Landmannahelli en ekki frá staðnum nær Löðmundarvatni þaðan sem við fórum í okkar fyrstu ferð á þetta fjall en það var vetrarferð í byrjun nóvember og telst hún með þeim ógleymanlegustu sakir þess að komast alla leið hingað upp eftir í þeim mánuði áður en veturinn skall á...



Árið 2017 fórum við of snemma upp ásinn vestan megin og urðum að færa okkur yfir svo nú var stikuðu leiðinni fylgt upp eftir...


Rauðufossafjöll... Krakatindur... smá sést í Heklu... Sauðleysur... Herbjarnarfellsvatn og smávegis sést í Herbjarnarfellið...


Sauðleysur og Herbjarnarfellsvatn og Herbjarnarfell... líklega bera átta vötn og fjöll sama nafn sem skreyta Hellismannaleiðina og þetta voru þrjú af þeim að meðtöldum Löðmundi sjálfum og Löðmundarvatni... Hrafnabjörg og Hrafnabjargarvatn er svo enn vestar og sást þegar ofar var komið... enn fleiri vötn verða svo á leið Hellismanna síðar... Lifrarvatn og Lifrarafjöll... Eskihlíðarvatn og Eskihlíð... og Dómadalsvatn og Dómadalsháls... og svo Höfðavatn og Mógilshöfðar eða Stórhöfði og Litlhöfði... en svo tekur Frostastaðavatn við undir Suðurnámi... svo það er spurning hvort þetta séu alls átta fjöll og vötn... ?


Leiðin áfram hér upp...


Uppi á Löðmundi blasa krúnurnar allar á kórónu þessa fjalls við... ótal tindar sem margir hverjir eru strítulaga og sérlega formfagrir... einn daginn skulum við ganga á þá alla og telja... hversu margir eru þeir ? ... þeir leyna á sér og rísa hver á fætur öðrum beggja vegna og frá enda til enda...


Örn ætlaði sér að fara á fleiri en þann hæsta og láta veður og landslag ráða för...


Einmuna veðurblíða sumarsins 2023 ríkti þennan dag og stuttbuxur og hlírabolir voru búnaður dagsins...


Gaman að koma hér í djúpgrænum mosanum en ekki með snjóinn yfir öllu...


Útsýnið ofan af Löðmundi er með ólíkindum gott... sér til nokkurra jökla og þarna sást Sveinstindur við Langasjó... og Vatnajökull sjálfur...


Tindur eitt af fjórum... það er ekki hægt að kalla Anítu lengur nýliða... búin að mæta í ótal göngur og orðin einn af okkur ötulustu göngumönnum örfáum mánuðum eftir að hún byrjaði í klúbbnum...


Fararstjóri dagsins... Örninn... Bára var að vinna þessa helgi...


Eftir tvo tinda... (fáar myndir teknar í þessari ferð)... beið hæsti tindur Löðmundar eftir okkur... mest strítulagaður af þeim öllum... Strókur er nafn á korti þar sem hann rís en þó aðeins austar... þar sem einmitt hinn tindurinn rís bak við hann á þessari mynd... hvor sé Strókur erum við ekki viss um... en látum það liggja milli hluta... við allavega ætluðum á þá báða...


Útsýnið ofan af aukatindi tvö... Eskihlíðarvatn næst... Tungná... sem rennur úr Tungnárjökli sem við gátum nánast snert í næturkyrrðinni í byrjun júlí þegar við gengum kringum Langasjó á einni nóttu... Langisjór á einni nóttu - seinni hluti. (fjallgongur.is)


Tindar Löðmundar svipar mikið hver til annars... hér á leið niður af tindi tvö...


Örn tók svo enga mynd á leið upp á hæsta tind enda ágætis bratti efst... en útsýnið var þá í samræmi... hér til Langjökuls, Jarlhettna og svo Kerlingarfjalla og Hofsjökuls hægra megin...


Rauðufossafjöll, Krakatindur og Hekla... og nær Sauðleysur og Hrafnabjörg... og fjær Valahnúkar líklega ?


Sýnin ofan af efsta tindi í 1.099 m hæð til austasta tindsins, Stróks, nema hann sé nafnið á hæsta tindi... með Lifrarvatn líklega þarna á bak við og svo Frostastaðavatn og Suðurnám...


Lítið pláss á tindi Löðmundar... og erfitt að taka hópmynd... en það var verið að vinna í því :-)


Útsýnið upp að Vatnajökli... Eskihlíðarvatn... Tungná... Sveinstindur við Langasjó... Þórisvatn... ótal fjöll og vatnasvið út frá Vatnajökli... við þurfum að skoða betur þetta svæði...


Örn var eini karlmaðurinn í þessari ferð... ef það má segja svoleiðis lengur... eingöngu konur mættar... og þær voru sko ekki lengi að finna út úr því að stilla upp fyrir hópmynd...


Guðný gestur, Silla, Jaana, Oddný T., Anna Margrét gestur, Njóla, Aníta, Linda, Fanney og Sigríður Lísabet en Örn tók mynd og Batman og Kolka voru hundar dagsins...


Niður af hæsta tindi... slóðin um Löðmund sniðgengur þennan hæsta tind sem er miður því hann er vel fær ef menn fara varlega og alger óþarfi að sleppa honum enda einstakt að standa þarna uppi trónandi yfir öllu í kring...


Komin yfir á austasta tindinn... Strókur ef marka má kortin en vel gæti verið að þetta nafn eigi við um hæsta tindinn...


... sem blasir við hér og er ansi myndarlegur og strókslegur... hvílík formfegurð...


Austasti tindur Löðmundar er tilvalinn hópmyndastaður... mun plássmeiri en sá hæsti... hvílíkt útsýni... Löðmundarvatn hægra megin og Lifrarfjöll og Lifrarvatn vinstra megin...


Fjær... með fjöllunum og vötnunum að Fjallabaki... einstakt landslag... Lifrarfjöll nær, Mógilshöfðar um miðja mynd og hægra megin... Suðurnámur vinstra megin fjær en nær er Tjaldfell þetta dökka... Frostastaðavatn vinstra megi, Dómadalsvatn þetta litla og svo Lifrarvatn bak við hópinn...



Mergjaður hópurinn þennan dag... tveir gestir og gleðin glumdi um allt...


Örn ákvað að fara óhefðbundna leið niður af fjallinu... og skoðaði hlíðarnar nánast beint niður af austasta tindinum... þar heitir Skál og virtist ágætlega fært... jú... prófum að fara hér niður...


Þetta leit ágætlega út ofan frá... Löðmundarvatn hér svo fagurt...


Þetta reyndist mjög brött leið en með góðu haldi í grónu grjóti þar sem feta þurfti sig varlega og njóta um leið...


Neðar var leiðin skaplegri... það var bara smá kafli sem var eitthvað tæpur sagði Örn... en sitt sýndist hverju... en flestir himinlifandi með leiðina og þeir sem misstu af þessari ferð urðu enn svekktari af því að missa af þessari niðurleið...


Jebb... bratt var það...


Gestirnir tveir... vinkonur hennar Oddnýjar fengu Toppfaraháttinn á fjöllum beint í æð í þessari ferð... hver nennir að fara stikaða leið allan daginn, ha ?


Auðvitað varð að fá að þreifa sig aðeins áfram með nýja leið í þessu fallega fjalli...


Komin úr mesta brattanum... hér fældist lamb undan hundinum Kolku sem er ansi lambsleg útslits og sækir mikið í að leita uppi kindur til að leika við þær... en það versta er að þær vilja ekkert með hundana gera... og lambið haltraði eftir að hafa hlaupið í ofboði undan hundinum og þar sem stelpurnar höfðu áhyggjur af lambinu eftir gönguna sendi Bára þjálfari skilaboð til Hugrúnar Hannesdóttur sem er gangnamaður á þessu fjalli til margra ára og lét hana vita af hugsanlega slösuðu lambi í hlíðunum... en við vorum að vona að lambið hefði bara beðið af sér hópinn þar sem það settist niður og svo rölt burt til hópsins síns... vonum það besta... elsku skinnið...


Sjá sauðféð í bröttum hlíðum Löðmundar... líklega ekki vanar að göngumenn séu að ybba gogg á þessari niðurleið... þetta gæti verið hin eiginlegi Tæpistígur sem svo heitir en að sögn Hugrúnar var það Kristján frá bænum Hólum sem fann hann fyrir einhverjum árum síðan... en við komum niður austan megin um Skál, ekki vestan megin eins og þessi Tæpistígur er merktur á korti í FÍ-bókinni um þetta svæði og á gps-kortinu í Basecamp...


Saklaust síðasta kaflann niður að vatninu... þarna var lífið orðið ljúft...


Litið til baka eftir leiðinni niður... bratt jú, en vel fært með varkárni...


Við vatnið rákumst við á hræ af lambi... sem var sláandi að sjá... líklega eftir veður ? ... en búið var að tilkynna um þetta lambshræ... (best að taka merkið af eyranu til að láta vita)...


... og hræ af fugli rétt hjá... þetta var svolítið truflandi... en við höfum ekki áður rekist á tvö svona hræ á sama stað í fjallgöngunum...


Hundarnir hentu sér út í Löðmundarvatn til að kæla sig og drekka í sólarhitanum...


Óskaplega fallegt fjall... dásamlegur dagur... yndislegur félagsskapur... fullkomin útivera...


Löðmundur er skrýddur bröttum tindum niður allar hlíðar... magnað fjall !


Komin á veginn frá vatninu í áttina að Landmannahelli...


... og að sjálfsögðu var kíkt í Landmannahelli sjálfan síðasta sprettinn í bílana...


Alls 11,3 km á 4:44 klst. upp í 1.099 m hæð með alls 730 m hækkun úr 602 m upphafshæð...


Frábær dagur í besta hugsanlega veðri og skyggni sem hægt var að óska sér... svona hélt ágúst áfram út mánuðinn þar sem fyrsta haustlægðin mætti ekki fyrr en föstudaginn 1. september... takk fyrir það elsku veðurguðir... þessi ferð eins og svo margar aðrar þetta sumarið voru vel þegnar...+


94 views0 comments

Comentários


bottom of page