top of page

Langisjór á einni nóttu - seinni hluti.

Tindferð nr. 274 sem hófst kl. 16 þriðjudaginn 11. júlí og lauk miðvikudaginn 12. júlí kl. 07 árið 2023. Seinni hluti af tveimur í langri ferðasögu... framhald frá fyrri hluta:


Já... Grasverið var áhrifamikill staður... og sem fyrr segir áhrifamesti staðurinn á leiðinni að mati ritara þessarar ferðasögu en hver og einn átti sinn sérstaka stað eins og Útfallið, norðurendinn, lónin o.fl...


Áttunda lónið hér... nafnlaust... Grasverslón ?


Á kortinu við suðurenda Langasjávar er gönguleiðin merkt niður að lóninu og þaðan upp svo að skörðunum að Útfallinu... en við eltum kindagötur og eflaust gönguslóða og jú, gps-slóð Ragnars ofarlega í hlíðunum hér...


Jökullin var sláandi nálægt okkur... þetta var mjög áþreifanleg tilfinning fyrir því að við vorum að komast út í enda Langasjávar... sem þýddi að við vorum að fara að snúa við og halda áfram hinum megin vatnsins... sem var þá að raungera þá staðreynd að okkur var líklega að takast þetta og það án þess að vera orðin þreytt eða á nokkurn hátt komin í vandræði...


Skaftárjökull og fjær Síðujökull... skriðjöklar úr Vatnajökli og í honum rísa glæsilegir tindar eins og Geirvörtur sem eru líklega vinstra megin við miðju... og Hágöngur og Veðurárdalsfjöll... við Núpsstaðaskóg... en jökulhlutinn við Hágöngurnar heitir Hágöngujökull og eru fjöll þarna nefnd á allavega þremur stöðum Hágöngur...


Tröllhamar hér handan við sandana með lón Grasvers næst...

Við tók ágætlega langur kafli á hliðarstíg efst í grónum hlíðunum...


Mjög fallegur kafli og mjög heilandi... í lóninu sáum við tvo svani og nokkra máva... mesta lífið var hér því sauðfé var svo á beit uppi í hlíðunum litlu innar... og ekkert annað dýralíf á allri hringleiðinni fyrir jutan himbrimana tvo norðvestan megin sem töluðu heilmikið við okkur... og svo mannfólkið í suðurenda sjávarins.....


Sólin verulega tekin að lækka á lofti en náði engu að síður að skína hér yfir á Tröllhamar og lægri fellin við lónið...


Litið til baka...


Nafnlaus tindur sunnan við Lambshöfða ?


Sjá stíginn sem við fórum... kindagötur... því hér innar rákumst við á eina sauðféð sem var alla leiðina...


Mjög fallegt hér...



Það var stutt í Útfallið og við vildum ljúka því áður en við fengjum okkur nesti tvö þó viðmiðið hefði verið að borða á 10 km fresti... og vorum við öll full orku og tilhlökkunar fyrir þetta Útfall...


Litið til baka... innstu fjallgarðarnir í Skaftártungum hér... ofar en Lakagígar og kambarnir við Skaftá sunnar... gæti þetta verið Blængur þarna vinstra megin ? Frekar erfitt að átta sig þar sem við vorum hér í fyrsta sinn en þó búin að ganga um Lakagíga...


Hér komum við að rennandi læk og grasi grónum hlíðum þar sem sauðfé var á beit...


... efst í hlíðunum hér... um 10 - 15 kindur í fljótu bragði... þær hreyfðu við sér við okkar komu en vissu líklega vel að þetta voru ekki smalar...


Hoppað yfir lækinn og fyllt á brúsana...


Gengið upp úr Grasveri... svei mér þá ef þessi glæsilegi tindur er ekki nafnlaus... það getur varla verið samt... upplýsingar óskast ! Þetta getur ekki verið Háskanef... það er sunnar...


Nornabaugar... þeir voru nokkrum sinnum á okkar leið...


Nú komu Lakagígarnir í ljós... eða voru þetta Lyngfellsgígar, Lambafellsgígar og Kambagígar ?


Takk fyrir okkur Grasver... ógleymanlegur staður og sá sem snerti ritara þessarar ferðasögu mest af öllu á leiðinni...


Nú hækkuðum við okkur upp í skarð nokkurt...


Hér sló gullinni birtu á allt... sólin var að setjast og við tók töfrandi klukkutími með einstaka birtu... en eiginlega vöruðu þessir töfrar allan tímann þar til sólin reis aftur...


Síðasta augnablikið til baka yfir Grasver... einstakur staður... nánast ekkert til um hann á veraldarvefnum... ein af mörgum perlum íslenskrar náttúru sem lítið er skrifað um og lítið myndaður... en geymdur í hjarta þeirra sem hingað hafa komið... og kannski farið að halda svona stöðum leyndum fyrir fjöldanum með tilkomu samfélagsmiðla... ekki það að það er flókið að komast hingað og það eitt er vörn fyrir þennan stað...


Útfallið var sláandi nálægt... allt landslagið kom á óvart þar sem við vorum öll hér í fyrsta sinn í lífinu... en slík tilfinning er alveg einstök... og sú sem við viljum sífellt upplifa áfram í klúbbnum... en ekki endurtaka stöðugt sömu leiðirnar...


Vá... hvílíkur staður... hvílík stund... síðustu sólargeislarnir slógu hér gulli á allt... níunda lónið í göngunni... nafnlaust... Útfallslón ?



Við gátum varla talað fyrir þessari fegurð sem hér var...


Ennþá sólargeislar á lofti...


Mjög fallegt lón... og það voru kindagötur handan við lónin utan í fjöllunum... eða voru það göngustígar ? Erfitt að segja en gæti verið ef menn taka einhvurs lags hring þarna frá jeppaslóðinni og göngustígnum að Útfallinu og vilja ekki vaða en ná að fara hring utan í höfðanum hér... forvitnilegt...


Hér var mikill friður og sláandi falleg birta...


Komin að vaðinu... Örn sem hafði lítið legið yfir kortum og þótti leiðin borðleggjandi af gps-slóðinni hélt hér áfram inn eftir eins og fleiri gera áður en áin er vaðin af því það er ekki augljóst af gps-slóðinni í tækinu að menn fara yfir ána neðarlega þó einhverjir hafi samt vaðið alveg við útfallið... en af stígnum handan við ána mátti ráða að best væri að vaða strax hér því innar verður hliðarstígurinn mjög grýttur og brattur og líklega snúa flestir við þar og vaða hér yfir...


Vatnið mjög tært...


Nærmynd... ahhh... það er vesen að vaða... en mikið var það gott fyrir fæturna...


Gullinn himininn...


Best að hika ekki... bara láta vaða... já... einmitt "láta vaða"... þetta var alltaf að fara að vera misdjúpt og grýtt og ískalt... en frískandi var það !


Enginn í vandræðum en erfiðara að vera ekki með stafi til að halda jafnvægi... létt vöðun og á engan hátt hættuleg...


Þurrka og aftur í sokka og skó...


Eins og þetta er tímafrekt og orkufrekt þá er svona gönguleið alltaf betri ef einhver vöðun er á leiðinni... á Laugaveginum voru nokkur vöð... á Vatnaleiðinni var eitt vað ef ég man rétt... og allir nutu þess í botn...


Komin yfir og Útfallið framundan...


Litið til baka að Útfallslóni...


Útfallið... frægasti staðurinn á þessari gönguleið fyrir utan Fögrufjöll... líklega koma Fagrifjörður, eyjan Ást og Grasver í annað sæti yfir þekkta staði við Langasjó en erfitt að átta sig á því þar sem lítið er skrifað um þessa hringleið á veraldarvefnum...


Mjög merkilegt að koma hingað og maður var andaktugur af virðingu...


Bleiki liturinn mættur... um leið og sólin var sest...


Jahá.... búin með tæpa 23 km á 7 klukkustundum...

... og klukkan hér var nákvæmlega 22:59... við vorum Útfallið klukkutíma fyrir miðnætti... sólsetur þennan dag var kl. 23:33... mjög gott að sjá hér t.d: Sólargangur (hi.is)


Við gáfum okkur góðan tíma til að upplifa...


... enda merkilegur staður...


Örn lítur til baka... þessi sandbrekka var alveg ágætlega krefjandi...


Hvílíkur staður... hér bókstaflega lekur Langisjór út í lón sem lekur svo út í Skaftá... sem svo rennur niður Skaftártungurnar... út í sjó... og stundum verða vatnavextir í Skaftá þegar jökulvatn flæðir í hana... hin margfréttuðu Skaftárhlaup...


Lambshöfði... hvað ætli hann sé hár ?


Við gengum út á tangann við Útfallið...


Hér koma greinlega fleiri en handan árinnar... enda stutt í jeppaslóðann við norðurenda Langasjávar...


Stutt í norðurendann frá Útfallinu og þá yrði ákveðnum áfanga náð... en við áttum eftir að fá okkur nesti tvö...


Horft beint ofan á vatnsfallið...


Voru þetta verksummerki eftir einhverja sem farið hafa yfir hér og klöngraast upp höfðann ?


Horft út eftir vatninu til suðurs...


Jæja... hvar eigum við að borða ?


Mikill sigur... annar af tveimur stórum áföngum á leiðinni að baki...


Við urðum að taka eina hópmynd hér með Útfallslónið í baksýn...


Við ákváðum að finna skjólsælan stað fyrir nesti tvö og lögðum af stað eftir fjörunni til norðurs...


Miðnætti nálgaðist og það birtan þvarr en fór aldrei... aldrei þörf á höfuðljósum og himininn var litríkur alla nóttina milli sólarlags og sólarupprásar... sem runnu eiginlega saman í eitt...


Ágætis slóði hér og þó nokkuð brölt eftir honum...


Þessi leið öll austan megin var ágætlega krefjandi og hélt heilanum vel gangandi við að fikra sig og fóta eftir alls kyns stigum og slóðum...


Hér var skjól fyrir norðangjólunni sem var farin að lægja enda lygndi stuttu síðar... en það var svalt í veðri og þess virði að setjast niður í skjóli...


Mjög fallegur nestisstaður sem gleymist aldrei... mikill friður hér en napurleikinn læstist um okkur og minnti á miðnæturnestistímana á Laugaveginum við Álftavatn og heiðina eftir Gvendarskarðið þar sem við borðuðum í mínus tveimur gráðum og samlokan var farin að frjósa svo tannkul kom við að bíta í hana...




Nesti tvö eftir 24 km á 7:23 klst....


Hér hituðu Steinar og Örn sér heitt vatn og Steinar bauð upp á heitt kakó sem Sjöfn þáði og bar mjög vel söguna því henni þótti þetta kakó gefa sér orku og hlýju sem skipti miklu máli... ritari borðaði kjúkling og kartöflustrá en hafði ekki mikla lyst... hefði átt að taka mynd af nestinu...


Mjög gott að vera með primus í þessum ofurferðum... fyrir þá sem vilja heitt kaffi eða kakó...


Aníta bauð upp á jógateygjur á miðnættinu eftir nestið til að hrista úr okkur hrollinn áður en við lögðum af stað aftur...


Þessi nestistími tók 29 mínútur... vissi að ég myndi aldrei muna þetta og tók því mynd af úrinu í byrjun og loks hvers nestistíma...


Jæja... búmm búmm... gott að vera búinn að borða og teygja smá og nú vorum við sko til í þennan norðurenda vatnsins... svo við gætum nú farið að snúa við hinum megin...


Áningarstaðurinn okkar var nefnilega þar sem slóðinn snýr frá vatninu og milli fjallanna enn og aftur... ennþá í Fögrufjöllum sem hlýtur að eiga við um allan fjallgarðinn sem liggur eins og gígaröð meðfram vatninu og endar stuttu norðar en sjálfur Langisjór þar sem árnar koma niður af jöklinum...


Sjá skarðið þar sem við komum upp um... Útfallið er þarna í skarðinu ofarlega vinstra megin þar sem brattur Lambshöfðinn tekur við...



Tíunda og síðasta lón gönguleiðarinnar... ef maður telur Grasverslón með... Litlalón ? Af því það er minnst af öllum ? Gæti líka heitið Nyrsta lón því það er nyrst ?


Hér með var lón-kaflanum lokið og við hlökkum til að heyra af nöfnum á þessi lón frá heimamönnum eða göngumönnum sem fara reglulega hér um og hafa haft þörf á að nefna þessi lón einhverjum nöfnum til aðgreiningar...


Eftir Litlalón tók við skarð og skyndilega komum við fram á þessa brún hér þar sem nyrsti endi Langasjávar blasti við okkur...



Mjög óvænt og við fögnuðum mikið... þetta var svo mikilvægur áfangi... hér var gangan hálfnuð og við í mjög góðum málum og allt eins og best verður á kosið... norðanáttin farin og við var tekið algert logn... falleg birta... tært skyggni og kyngimagnað útsýni... himininn litríkur og sólin á leiðinni upp bráðum aftur... og tunglið átti eftir að heilsa upp á okkur síðar... jú, og erfiðari kafli hringleiðarinnar var að baki... einfaldara og mun greiðfærara landslag framundan alla leið til baka... vá... við gerðum okkur grein fyrri því að þessi áfangastaður lofaði okkur í raun að okkur var að takast þetta úr því staðan á okkur var svona góð...


Örn lagði af stað niður eftir en þá áttuðum við okkur á því að við vildum eiga hópmyndir hér...


Stelpumynd ferðarinnar... Bára, Silla, Sjöfn og Aníta...


Strákarnir tveir... Steinar og Örn... jæja strákar... konur í meirihluta í þessari ferð... þær voru líka í meirihluta hlaupahópsins sem skokkaði kringum Langasjó fyrir viku síðan... afrek sem fáir geta leikið eftir og konur í meirihluta... hvar eru karlmennirnir ? Við vonum að þeir komi sterkir inn sem fyrst því við viljum hafa hlutfallið nokkurn veginn jafnt í okkar hópi og þá sem eru þarna á milli endilega með líka !


Það var miðnætti... og Vatnajökull með skriðjöklana sína teygði sig til okkar og heilsaði okkur með virktum... Tungnárjökull hér... vá... það var heiður að hitta hann... jökulinn sem gefur af sér sjálfa Tungná...



Jeppaslóðar ná vestan megin við Langasjó að þessu bílastæði hér... mjög sjaldfarið og ekki fyrir venjulega jeppa að því er við best vitum... hingað höfum við ekki keyrt sjálf... en hér var gamall wc-kofi, bílastæði og bekkir... magnað !


Hér ætluðum við upphaflega að hafa möguleika á að fá bíl til að sækja þá sem ekki treystu sér lengra... en það kostar og eftir ábendingu og ósk um að lækka verð ferðarinnar með því að sleppa honum ákváðum við að taka áhættuna og gera það... og sáum það að í þriðju ofurferðinni í röð þá þarf enginn að draga sig úr göngunni á miðri leið og ætlum því hér með ekki að kaupa þennan hliðarmann með jeppa (eða bát) til vara... þeir sem mæta í þessar ofurgöngur eru einfaldlega allir í stakk búnir fyrir verkefnið og ef eitthvað kemur upp á þá þarf einfaldlega að leysa það með því að kalla á hjálp en það var samt einmitt hugsunin að þurfa ekki að gera það heldur vera alveg sjálfbær...


Stelpurnar á bekkjunum tveimur... Bára, Aníta, Sjöfn og Silla...


Það var lygilega gott að setjast... búin að ganga rösklega 25 km á 8 klst. og maður var lúinn... það var eitthvað freistandi þægilegt við að setjast á bekk...


Sýnin til Langasjávar í suðri... ótrúlegt... við vorum að horfa í hinn endann þar sem allir koma keyrandi og ganga á Sveinstind... fyrst hélt þjálfari að þetta væri Sveinstindur sem þarna bæri við úti í enda... svo vorum við að spá í hvort þetta væri Gjátindur... en svei mér þá... ég er ekki viss... hvorugur virðist eiga að sjást frá þessum norðausturhluta vatnsins...


Við strunsuðum af stað full orku því þetta var vendipunktur í ferðinni... komin út í enda og nú var bara að strauja til baka vestan megin...


Er þetta ekki Sveinstindur ?


Slóðin okkar niður úr fjöllunum sést vel hér...


Fyrst var farið eftir veginum í áttina að Breiðbak...


Tungnárjökull í Vatnajökli... við sáum tunglið koma upp þarna undan jöklinum... alveg magnað ! Hér er klukkan 00:31...


Sanddrýlin héldu áfram...


Birtan fangast mismunandi eftir myndavélum...


Hópurinn við sanddrýlin...


Sjá gróinn sandinn frá jöklinum en þetta hefur gróið upp smám saman síðustu ár... fyrir ekki svo löngu náði jökullinn lengra niður eftir og jökulvatn litaði Langasjó... en



Tungnárjökull og sandarnir sem við gengum um til að komast áleiðis að vesturfjörum Langasjávar...


Þessi kafli var einstakur... sólin farin... miðnæturbirta sem aldrei varð dimm... algert logn... alger friður... öræfakyrrðin var mjög áþreifanleg hér...


Sanddrýli öðru hvoru...


Sveinstindur hér...


Hann var kennileitið okkar á leið til baka... því nær sem við vorum honum... því styttra var í lok göngunnar...


Svartur sandurinn á þessari leið varð enn dekkri í nóttinn sem þó var björt... sumum hugnast alls ekki að ganga yfir nótt... en maður þarf að prófa það til að vita hvernig það er og skilja afhverju sumir einmitt sækjast í það allavega einu sinni á hverju sumri... tvær næturvaktakonur voru í þessari ferð... Bára og Sjöfn sem báðar vinna á Landspítalanum og víla ekki fyrir sér að vinna á þessum tíma dagsins þó það henti alls ekki öllum... en fyrir dagvinnufólkið er þetta meiri eldraun og Örn þjálfari sem er árrisull og mjög reglusamur í svefni þá eru þessar næturgöngur ekkert mál... Steinar og Silla bæði mætt áður í þessar næturgöngur og leika sér að þessu... afhverju ? Jú... af því maður er gangandi og þannig vel vakandi og tekur varla eftir því að það sé nótt... ef við værum að ganga í myrkri þar sem ekkert ber fyrir augu og lítið verið að brölta eða taka ákvarðanir um leiðarval eða hvar skal stíga og hvar ekki... þá myndi syfjan líklega sækja á mann... en hún gerir það ekki í svona göngu...


Það var nefnilega nóg að gera á þessum helmingi leiðarinnar... mun meira en við áttum von á og kom á óvart...


Himbrimar tveir kölluðu mikið á okkur þegar við gengum yfir þennan grjóthólma þar sem klöngrast þurfti ágætlega í lausagrjóti yfir hörðum sandinum... voru þeir að tala við okkur eða vara unga við eða aðra fugla... þjálfari náði því á myndband og deildi á fb:



Við bröltum hér yfir og himbrimarnir hljóðuðu upp fyrir sig reglulega og syntu úti á Langasjó og fylgdust mjög grannt með okkur...


Ótrúlega skemmtileg uppákoma... vonandi farnast þessum tveimur mjög vel... og kannski var ungi einhvers staðar þarna líka... þetta var þriðja fuglategundin sem við sáum á þessari hringleið... máva og tvo svani í Grasveri en annars enga aðra...


Komin úr lausagrýtinu og hér settumst við stutta stund niður og horfðum til baka á himbrimana...


Gróðurinn eljusamur við vatnið og ritari reyndi að taka mynd af öllum tegundum...


Nú tók við fjöruganga það sem eftir var leiðarinnar... með reglulegaum útúrdúrum upp á höfða, kamba eða sandskörð sem héldu okkur vel við efnið og gaf þessum kafla mun meiri fjölbreytni og fegurð en við áttum von á...


Litið til baka... mikið spjallað eða bara gengið í sínum hugsunum... það er það mest gefandi við þessar ofurgöngur... samvera og einvera í bland þar sem hugur og sál fær heilun eins og hvergi annars staðar...


Tunglið reis hratt fannst okkur... eins og sólin gerði svo síðar um morguninn...


Heilmikil fjöll vestan megin líka og óljós jeppaslóði sem fylgir greinilega fjöruborðinu og er ekki sá sem merktur er inn á kort og flestir fara...


Miklar klettamyndanir í fjöllunum við vatnið og oft hefðum við viljað staldra við og skoða það en tímdum ekki að eyða orkunni í útúrdúra... sem maður tímir líklega heldur ekki með allt á bakinu... spurning hversu mikið þessi náttúruvætti séu skoðuð almennt...


Breiðbakur heitir fjallgarðurinn vestan við Langasjó og vestar kallast fjöllin Tungnárfjöll og þar rennur Tungná niður í öllu sínu veldi alla leið að Kýlingum... þar sem Örn fór svo með hópinn á Barm og Hrygginn milli gilja að Grænahrygg tveimur vikurm eftir þessa ferð...


Almennt vel greiðfært... sandurinn oft harður en stundumn mjúkur og oft hægt að ganga á grasinu við fjöruna... aldrei erfiðir kaflar eða illfærir... en þó ágætis brölt yfir höfðana oftar en einu sinni...


Stundum voru eyjur mjög nálægt landi... hér væri létt að vaða út í og upp á þessa litlu sandreyju...


Miklar kletta kynjamyndir voru reglulega á þessari vesturleið... merkilegt...


Farið að birta vel af degi þó sólin væri ekki komin á loft...


Útfallið þarna handan við og eyjan Padda í fjarska...


Upp á móbergklettana hér...


Kynjamyndir um allt... myrkfælnin hér áður mjög skiljanleg í svona landslagi... tröllslegt og ógnvekjandi ef það væri meira myrkur...


Nú var komið að nesti þrjú... og hér er eina vaðið fyrir utan Útfallið þar sem í raun þarf að fara úr skónum nema mönnum sé sama þó þeir blotni kannski aðeins... hver og einn fann sína leið hér yfir og Steinar var sá eini sem nennti að fara í vaðskóna... hinir stukku bara yfir í mjög fljótum skrefum til að blotna ekki...


Búin með tæpa 33 km á rúmlega 10:10 klst... ótrúlegt alveg...


Klukkan rúmlega tvö að nóttu... ekki sama vegalengdarmælingin milli tækja eins og vanalega og úrin yfirleitt gjöfulli í kílómetrum...



Þetta var kuldalegasti nestisstaðurinn... norðangjólan var farin af stað aftur og var jú í bakið... en við hefðum viljað vera laus við hana meðan við borðuðum... þetta var skásti staðurinn sem við fundum... en hér fengum við samt ekki mikið skjól... það varð að hafa það... við nærðumst til að geta haldið áfram...


Svo kalt að við settumst bara niður í 19 mínútur... ín þessari ferð voru nestistímarnir styttri en á Laugaveginum og Vatnaleiðinni af því norðanvindurinn blés það kaldur...


En við vorum einbeitt og full af tilhlökkun að ljúka þessum "bara 17 km" sem voru eftir... engan bilbug að finna á okkur og við vissum að sólin beið okkar fljótlega og þá yrði aftur hlýtt og bjart...


Hjartað í ferðinni... í mosa á miðjum sandinum...


Þessi höfði var ágætlega krefjandi... harður undir og lausar skriður ofan á... enn og aftur prísuðum við okkur sæl að burðast ekki með þungan farangur á bakinu...


Brölt aftur niður hér... jepparnir keyra út í vatnið sem fara hér um...


Litið til baka... já, þessi höfði var ágætis uppvakningarbrölt fyrir heilann ef einhver var orðinn syfjaður... :-)


Áfram héldu tröllin í Breiðbak að heilsa upp á okkur... hvert öðru dularfyllra og sérstakara... þetta minnti á klettastríturnar við sólarupprásina á Vatnaleiðinni...


Stundum var jeppaslóðinn aðeins uppi í sandinum... þá líklegast fór hann ekki niður í vatnið hér eða hvað ? ... er ekki viss...


Sólin var að mæta... hún byrjaði á að lýsa upp himininn og skýin smám saman...


Guli liturinn var mættur... sjá hversu langt tunglið eða máninn eru kominn upp á himininn...


Enn og aftur brölt upp á höfða í fjörunni... vöðvabúntið hún Aníta hjálpar gömlum konum eins og Sjöfn... nei, þetta er nú grín af fésbókinni... :-)


Sveinstindur farinn að nálgast... allt að gerast... við gengum greitt og vorum himinlifandi með að vera langt komin með leiðina og ennþá að strunsa... eiginlega strunsuðum við of hratt... en gátum ekkert ráðið við það... allir í góðu formi og enginn að dragast aftur úr og allir að njóta í botn að fá loksins að ganga rösklega á sínum hraða...


Sjá öldurnar í Langasjó... norðangarrinn mættur... og sjá ólíka yfirferð... hér grýtt í sandinum...


Í nestispásu þrjú ákváðum við að hvílast á um 5 km fresti frekar en að taka einan langa nestispásu fjögur eftir 40 km... þetta var sú fyrsta af þremur... og í þeim öllum fengum við okkur öll meira og minna bara sætindi... þessi drykkur var kærkominn á þessum tímapunkti hjá ritara... súkkulaði, sætindi, kökur, djúsar... voru málið


Skál fyrir okkur ! Við erum geggjuð að gera þetta ! :-) ... og svo bara hlógum við dátt :-)


Hér varð birtan töfrandi falleg... og sólin átti sviðið hér með... sólarupprás var klukkan 3:37... hér var klukkan 3:45...


Skýin orðin gullin... það er engu líkt að ganga í sólarupprás...


Sólin farin að slá geislum sínum á hæstu tindana í kring...


Allt orðið gyllt í kringum okkur...


Vá... Sveinstindur og fjöllin orðin gullin...


Þetta er ástæðan fyrir því að við viljum ganga eina svona ofurgöngu yfir nóttina á bjartasta tíma ársins... það er einfaldlega mjög sterk upplifun og engu öðru líkt... sólsetur.... næturhúm... sólarupprás...


Kletturinn mikli í Breiðbak... einn af mjörg mörgum stona strítum af alls kyns toga en þessi var mjög stór og breiðari ofar en neðar...


Samhengið við okkur og landslagið... mjög stór klettur...


Þessi kafli var einstakur á vesturhluta leiðarinnar... þar sem sólin tók smám saman að skína á allt saman í kringum okkur og á okkur sjálf...


Maður gleymir þessum hluta aldrei...


Við gengum bókstaflega inn í sólina...


Enn eitt gilið sem hefði verið áhugavert að skoða í Breiðabak...


Sjá göngumennina við fjörðuna gula og rauða... við vorum svo smá í þessu landslagi...


Fyrsti skuggi dagsins 12. júlí 2023...


Fögrufjöll græn og fagurmótuð honum megin Langasjávar... en við í sólinni... mikið vorum við heppin með veður... ef það hefði verið skýjað... hefði vel getað verið þokukennt í rakanum við vatnið yfir nóttina... og allir töfrarnir sem fylgja sólinni hefðu ekki upplifast... því r ekki annað hægt en mæla með að fara svona leið þó það sé norðanvindur ef það er skýlaust og bjart veður... það var margfalt þess virði að fá á sig norðanvindinn fyrir þetta landslag og þessa birtu..


Komdu sæl sól... og takk fyrir að vera til... hvar værum við án þín ? Það er ekki skrítið að þú sért Guð í einhverjum trúarbrögðum... þú skiptir algerum sköpum í lífi hér á jörðinni...


Græn fjöll... blátt varn... svartur sandur... brún fjöll... fjögur einkenni þessarar ferðar...


Sólin breytti öllu... allt varð gyllt og bjart og hlýtt... og allt varð svo auðvelt...


Sólarupprás yfir Langasjó... forréttindi að vera hér á þessari stundu um fjögurleytið að nóttu til... hefðum ekki viljað hafa þessa ferð á nokkurn hátt öðruvísi...


Stelpurnar brugðu á leik og dönsuðu og sungu gamla sönginn Jenkadansinn góða "Fríða litla lipurtá"... en þjálfari náði ekki mynd af því :-) :-)


Við fengum orku af sólinni og jukum örugglega hraðann án þess að átta okkur á því...


Sveinstindur með fyrstu geisla sólarinnar miðvikudaginn 12. júlí árið 2023...


Hér var farið um sandskarð mikið nokkuð frá fjörunni...


Örn lítur til baka... hann er með gamlan Samsung síma sem er ekki eins góður á myndavélinni og síminn sem Gljúfrabúi gleypti...


Spennandi gil...


Sýnin úr skarðinu... við vorum komin þetta langt frá norðurendanum... vá...


Fimmta nestispásan... eða sú fjórða ef maður telur ekki þessa stuttu með áðan... búin með rúma 42 km á tæpum 13 klukkustundum...


Klukkan var sjö mínútur í fimm...


Hér áðum við lengur þar sem þetta var hinn eiginlegi síðasti nestistími áður en göngu lyki... gott að hvílast, borða, drekka og fara afsíðis...


Fögrufjöllin svo falleg hérna megin... óskiljanlegt að við hefðum verið þarna seinnipartinn í gær...


Morgunleikfimi áður en haldið var aftur af stað síðasta kaflann...


Þetta var bara 8 mínútna nestistími... jæja... óþreyjan í okkur... en þetta var kuldinn... okkur var enn kalt ef við stoppuðum mikið þar sem það var árla morguns ennþá...


Það var létt að ganga í sólinni og nú var lygilega stutt eftir... við vorum orðin óþreyjufull að sjá suðurenda vatnsins... sjá fyrir endann á göngunni...


Aftur upp í skarð hér til að sniðganga tanga út í vatnið...


Sólin komin vel á loft og kominn dagur í raun...


Sanddrýli og sérkennilegur kafli hér en við treystum Ragnari og sáum að fleiri fóru hér um í sínum leiðum á wikiloc...


Svona brölt vakti bara þreytta liði sem voru farnir að minna okkur á að það væri nú nótt sko...


Stórkostleg birta og stórmerkilegt að fá að vera hér á þessum stað á þessum tíma...


Við spjölluðum um alls kyns verkefni lífsins og trúðum hvort öðru fyrir flóknum hlutum og krefjandi viðfangsefnum... einn af mörgum kostum þess að ganga á fjöll með góðu fólki er einmmit þessi samvitund, samvera og trúnaður og þetta tækifæri til að ná dýpt í samtölum sem næst ekki lengur þegar fólk hittist í borginni og helmingurinn er með símann fyrir framan sig að reyna að spjalla á sama tíma...


Hvílík birta... hvílíkur staður...


Hér kom langur söndugur kafli og Sveinstindur var kominn mjög nálægt okkur... það var ekkert eftir fannst okkur... við vorum orðin þreytt og vildum sjá fyrir endann...


Hlýjan af sólinni var mætt og við fórum að fækka fötum þennan kafla...


Örn lítur til baka... stelpurnar fjórar...


Hér mættum við göngumanni sem við héldum auðviað að væri erlendur ferðamaður... en þetta reyndist vera hann Loftur... sem var að berjast við að tjalda tjaldinusínu við þjónustuhúsin í suðurenda Langasjávar þarna um fjögurleytið þegar við lögðum af stað í gær... hann gafst upp á vindinum í tjaldinu og fór í bítuð á fætur og lagði af stað gangandi um fimmleytið... ætlaði að ganga út í enda og tjalda eina nótt og gang a síðari hluta leiðarinnar á morgun... aðdáunarvert að gera þetta á tveimur dögum með allt á bakiinu... einsamall á ferð... við óskuðum honum góðrar ferðar... og hugsuðum reglulega til hans þennan dag...


Komin að Sveinstindi sem rís hér svo fagur og tvítinda í raun þar sem sá nyrðri rís yfir Langasjó og allir eiga að fara niður á hann því þar fást bestu ljósmyndirnar af göngumönnum með Langasjó í baksýn... mun betri myndatökustaður en af sjálfum hæsta tindi Sveinstinds...


Hér blasti skyndilega við okkur síðasti kaflinn á Langasjó en syðst liggur löng tunga vestan megin að veginum þar sem hann kemur að þjónustuskálanu... hér fékl okkur allur ketill í eld... úff... þetta var löng tunga... við misstum aðeins máttinn við þetta... og æltluðum varla að trúa því að þetta væri þó allt eftir... en við vorum fljót að jafna okkur og kyngdum bara og héldum áfram... eftir á var þetta erfiðasti kaflinn á leiðinni... sem er ótrúlegt samt því þarna er svo eðlilegt að vera mjög þreyttur og óþreyjufullur... við eigum eftir að muna þetta augnablik alltaf... þegar okkur féllust hendur á síðasta kaflanum þegar við sáum laöngu suðurtundu Langasjávar... það verður mjög gaman að ganga upp á Sveinstind og horfa á þessa gungu sem blasir vel við ofan af honum og sýnir vel hverseu mikið viðbót hún er við vatnið... allavega þegar maður er búinn með 47 km og vill fara að hætta að ganga...


Sveinstindur svo fallegur...


Við gengum í mjúkum sandinum hér...


Sjá veiðihúsið eða skálann sem þarna er og er í útleigu en alls kyns útivistarfólk leigir hann sem er á kajak, að ganga eða veiða...


Litið til baka með sólina hátt á lofti...


Vá... við vorum komin út í enda... þetta var að verða búið...


Síðasti kaflinn... síðasta beygjan... handan við hornið hér blasti þjónustumiðstöðin og bílastæðið við...


Litið til baka... Hrútabjörg heita tindarnir sem rísa við suðurodda Langasjávar vestan megin...


Og Grænifjallgarður tekur svo við þar sem sjórinn endar... við munum að sjálfsögðu ganga á öll þessi fjöll næstu árin... í söfnun okkar á fjöllunum í vatnasviði Skaftár þar sem við færum aðeins út kvíarnar og tökum þau öll sem eru við Langasjó líka... #Skaftárfjöllin

Engin uppgjöf... ekkert væl... einbeiting... elja... þrautsegja... jákvæðni... dugnaður... ósérhlífni... aðdáunarverð frammistaða...


Loksins... þessir tveir endar Langasjávar gleymast aldrei... alltaf þegar við keyrum að þessu vatni hér með... munu streyma fram minningar um blóð svita og tár... eða næstum því... allavega svita sko ! :-)


Síðustu metrarnir... það skrítna var að við vorum svo upptekin að spjalla að við bera gengum fram á húsin og enduðum gönguna... nú, já, þetta er búið já... vei ! ´'Otrúlegt hversu mikið við vorum í núinu þó við værum á sama tíma óþreyjufull að klára þetta !


Gps-tækin voru mismunandi eins og alltaf en mældu þetta frá 47,9 km upp í 51,1 km og enginn var með svipaðar tölur í raun... við enduðum á að velja 51 km eftir japl, jaml og fuður dagana á eftir... erfitt að segja hvað er rétt...

Úrið hér 50,91 km...

Það mátti vera þreyttur... loksins settumst við niður... svona bekkur var við norðurenda Langasjávar í 25 km fjarlægð...


Héðan lögðum við af stað rétt fyrir fjögur deginum áður... vá... þetta var stjarnfræðilega skrítið... klukkan var sjö að morgni og það var fólk sofandi í húsbílum í kringum okkur... meðal annars Inga Guðrún og Edwin sem við vissum ekki af... en þau voru ein af þeim sem spáðu mikið í að koma með en komust á endanum ekki...


Örn með 51,5 km... tíminn var 15 klukkustundir og 12 mínútur... sem þýddi að meðaltali 14 mín á kílómetrann eða um 4 km á klukkustund... með pásunum... ótrúlegur hraði enda meiri en í fyrri ofurferðum þar sem við vorum 19 klukkutíma með 53 km á Laugaveginum 2020 og 15 klukkutíma með 40 km á Vatnaleiðinni 2021...


Hví... líkir... snillingar ! Steinar, Sjöfn, Aníta, Silla og Örn fararstjóri.


Bára með á mynd... sögulegur sigur og ógleymanleg ferð með öllu... væntumþykjan, virðingin og vináttan við þessa ferðafélaga jókst við þessa ferð... við eigum það sameiginlegt að hafa afrekað það að ganga hringinn í kringum Langasjó 50 km á 15 klukkustundum á einni nóttu...


Auðvitað var smá bjór í bílnum... beint eftir göngu... best í heimi !


Öll í einn bíl... einfalt og lausnamiðað lífið á fjöllum :-)


Sama góða veðrið og deginum á undan... fjöllin allt í kring kölluðu á okkur og við skráðum niður pantanir næstu árin... Hellnafjall fær líklega plássið 2024... en spurning með Grænafjallgarð... eða tindana við Skaftá... þeir eru mjög freistandi...


Ljónstindur veifaði og þakkaði fyrir síðast... við verðum að ganga á hann í góðu veðri aftur af því hann var í þoku í fyrra...


Hörðubreið sömuleiðis... svo fallegt fjall...


Þegar við komum í Hólaskjól eftir tæplega klukkutíma akstur frá Langasjó... tók alger veðurblíða á móti okkur... logn, sól og hlýtt... með besta veðrið sem við höfum fengið á þessum gististað öll þessi ár... sama bongóblíðan og ríkti á suðurhluta landsins í júlí og ágúst...


Við drifum okkur í að tjalda.. dauðþreytt en himinlifandi einhvern veginn... þjálfarar spáðu alveg í þaðn hvort við myndum nenna að skála smávegis áður en við færum að sofa... það hefðu ekki þurft að koma nema smávegis úrtölur um það og við hefðum bara ákveðið að sleppa því og fara að sofa...


Við sáum laust borð á tjaldsvæðinu en það var fullt af dóti... fólkið farið að pakka saman og virtist búið að vorða... erlendis ferðamenn... Bára fór og spurðu þau hvort borðið væri mögulega laust... já, nei, þau væru ennþá að borða... hún spurði hvort það væri möguleiki að við fengjunm að sitja líka þar sem við hefðum verið að klára langa göngu um nóttina... jú, eftir smátíma, þau væru ekki ennþá búin að borða...


Nú... þá var að hugsa í lausnum... Sjöfn sagðist vera með fínasta teppi í bílnums em gæti verið dúkur og við gætum bara slegið upp veislu á grasinu... það varð og... tvær kampavíns... ostar, kex, ávextir, súkkulaði, snakk, snúðar, orkubitar, kökur, brauð, sallat... allir lögðu sitthvað á borðið og úr varð ein allsherjar veisla...


Aníta kom með tvær bleikar kampavíns (ég bara get ekki skrifað freyðivíns þó þetta hafi verið það... Langisjór átti skilið að nota orðið "kampavíns" :-)) - hlæjum sem oftast !


Og svo skáluðum við... og skáluðum... vorum ölvuð af sigrinum... kampavínið bætti aðeins í þá ölvun... en hún var fyrst og fremst sigurvíma... sem varaði dögum og vikum saman...


Hérna áttum við yndislega stund saman... hlíogum og viðruðum ferðina... og meltum það sem á undan var gengið...


Strákarnir tveir með stelpunum fjórum... við byrjuðum strax að plana næstu ofurgöngu um Strandir fyrir vestan... um Drangaskörð í Ófeigsfjörð...


Aftur var skálað... við skáluðum mjög oft... og rákum upp hvern skellihláturinn á fætur öðrum... klukkan var níu á miðvikudagsmorgni... við vöktum líklega einhverja af værum svefni á tjaldsvæðinu... en þetta var ekki ókristilegur tími... það var erill allt í kring... en við vorum auðvitað á algerri skjön við umhverfið... fjölskyldufólk og ferðafólk að vakna og hafa sig til... við að halda partý... en það skipti okkur engu máli... við vorum bara glöð og þakklát og sigursæl...


Eftir rúmlega klukkutíma partý... sveif á okkur þreytan... um tíuleytið... og við vorum fljót að pakka saman veislunni og henda okkur í svefnpokann... ræs klukkan 14 og brottför í bæinn... menn stilltun klukkuna sína og sumir steinsofnuðu en öðrum var ekki vært...


En það varð allavega einn að sofa vel... bílstjórinn... sem keyrði í tæpar 5 klukkustundir... gekk í 15 klukkustundir... keyrði í 1 klukkustund... svaf... og keyrði í tæpar 4 klukkustundir til baka í bæinn... það var langt í frá sjálfgefið og eingöngu hægt að gera þetta ef einhver treystir sé til þess...


Við vorum ekki lengi að pakka saman eftir svefninn... stirð og þreytt... en furðu vel á okkur komin... tvö með blöðrur á fótum en hinir í lagi...


Greiddum og þ0kkuðum fyrir okkur... alltaf hreint er viðmótið hér og afgreiðslan til fyrirmyndar... hér starfar gott fólk sem alltaf er gaman að hitta á hverju ári... takk fryir okkur Hólaskjól :-) Eldgjá - Hólaskjól Hálendismiðstöð - gisting og gönguleiðir (eldgja.is)


Það var engin leið að keyra í bæinn úr Hólaskjóli nema með viðkomu á kaffihúsi... einhvern veginn vildum við ekki heitan mat eins og deginum áður á leiðinni í gönguna... nú var það bara kaffi og kökum... og flestir fengu sér tvær kökur... við vorum sko svöng !


Dagana á eftir meltum við ævintýrið en höfðum líklega flesti lítinn tíma til að virkilega meðtaka það sem var að baki því önnur ævintýri sumarsins tóku við... en reglulega þetta sumar skaust upp í kollinn á manni... jú, við gerðum þetta... við gengum hringinn í kringum Langasjó á einni nóttu... það var alveg magnað !


Lærdómurinn:


Þjálfari bað leiðangursmenn að svara nökkrum spurningum sem gætu hjálpað þeim sem vilja prófa svona ofurgöngu um þessa leið og einnig fyrir okkur til að skerpa á og muna hvað skiptir máli í svona ofurgöngu, hér koma svörin:


1. Hver var upplifun þín af ferðinni almennt ?


Aníta: Ég lifi lengi á þessari ferð og fór heim brosandi hringinn og svo gríðarlega þakklát fyrir alls konar. Fyrir fólk sem lifir fyrir ævintýri og gleði, fyrir hreysti og getu til að gera svona, fyrir landið, friðinn, fyrstu sólargeislana, upplifun sem er bara svo tjúlluð og NÁTTLA MORGUNPARTÝIÐ!!


Bára: Mér fannst þetta yfirnáttúruleg upplifun, að koma sífelt að nýju lóni, uppgötva Grasver, fá gulu birtuna við Útfallið, ganga inn í nóttina, sjá tunglið koma upp yfir Vatnajökli, ganga um í næturhúmina, upplifa sólarupprásina og hvernig allt varð litríkt og hlýtt aftur og síuðast en ekki síst öll samveran þar sem við ræddum alls kyns flókna og erfiða hluti í lífinu sem annars gefst sjaldan tími til að gera. Er óendanlega þakklát þessum ferðfélögum og þau eiga alla mína aðdáun. Allt gekk upp nema kaldur norðanvindurinn en hann gaf samt gott og tært skyggni og algera fjallasýn. Það er mikil áhætta að vera með svona ferð og koma fólki í aðstæður þar sem hlutir geta farið fljótt á versta veg ef eitthvað kemur upp á og því var það að sleppa vara-bílstjóra við norðurendann mér þungbær ákvörðun, en þessi þriðja ferð sýndi mér vel hvers fólk er m egnugt og því var aðdáun og þakklæti mér efst í huga eftir ferðina, vá, hvað þetta göngufólk var magnað !


Silla: Þetta var frábær ferð! Það er alltaf gaman að fara í ferð að degi til, sjá sólina hverfa og koma svo upp aftur, upplifa næturhúmið og svo nýjan dag. Það bætist við fjölbreytilegt og fagurt umhverfið, skemmtilegan félagsskap og spenninginn að ganga mun lengur en í hinum hefðbundnu ferðum. Maður er spenntur að takast á við þá áskorun í von um að vel takist til sem er þvílíkt gefandi fyrir sjálfstraustið, heildarupplifunina af ferðinni þótt undir niðri kraumi smá kvíði fyrir því að eitthvað komi upp á sem trufli aðra í göngunni.


Sjöfn: Almenn upplífun af ferðinni var einfaldlega bara góð, allt gekk vel allan tímann og margt kom skemmtilega á óvart. Ég var nokkkuð viss um að þetta væri hress og samstilltur hópur og ég hafði sko rétt fyrir mér. Eiginlega bara jákvæð reynsla.


Steinar: Hún var bara mjög góð. Hópurinn var samrýmdur og á sömu blaðsíðu þannig að þetta gekk allt mjög vel. Þetta var fín tímasetning á göngunni.

Það var kuldalegt á köflum en það klæðir maður bara af sér, hefur á móti þann kost að maður svitnar minna en venjulega í svona göngu.

Álagið og áreynslan var bara hæfileg og eymsli og stirðleiki innan skynsamlegra marka.


Örn: Jákvæð upplifun og kostur að menn voru í takt, gönguhraðinn var góður. Meira krefjandi en ég átti von á og fjölbreyttari leið.



2. Hvaða búnaður var hárréttur og hvaða búnaður var ekki í lagi/óþarfi í göngunni?


Aníta: Hárréttur búnaður var staðalbúnaður minn; ullarbolur, lopapeysa, skel, göngubuxur, ullarkragi, húfa og vettlingar. Þegar ég lít til baka hefði ég viljað hafa dúnúlpu fyrir pásurnar og lúffur (eða amk hlýrri vettlinga) og jafnvel að gefa mér tíma þegar fór að kólna að fara í ullarbuxur undir göngubuxurnar. Einnig mun ég bæta við lágum legghlífum þegar ég geng í stuttbuxum. Það er algjört möst til að spæna ekki möl ofan í skóna.


Bára: Fegin að vera í uppháfum gönguskóm með ökklastuðningi. Stuttu þunnu hlaupabuxurnar innan undir göngubuxunum nægðu til að halda mér heitri gegn norðanvindinum og næturkuldanumn, skipti aldrei um föt en fór í og úr ullarpeysunni og jakkanum. Hefði getað sleppt öllum þessum varafötum (vettlingum, húfu, gammosíum, sokkum) en hugsunin var sú að ef það blotnaði þá hefði ég þurrt til skiptanna (göngubuxurnar þola litla bleytu í raun.


Silla: Held að búnaðurinn hafi bara verið fínn, allt nýttist vel nema öryggisgræjurnar eins og regnföt, plástrar o.fl. sem ég tel alltaf nauðsynlegan útbúnað í öllum ferðum ekki síst þessari.


Sjöfn: Mér finnst ég hafi haft réttan búnað. Man ekki eftir að mig hafi vantað neitt, og var með passlegt af fötum. Var komin í svotil allt þegar var sem kaldast um nóttina. Átti enn eftir primaloftúlpuna mína í bakpokanum, en hún var bara þar sem andlegur stuðningur, þ.e. gott að vita af henni, en kom ekki til að ég þyrfti að fara í hana. Sama með stafina, tók þá með bæði af því að ég vissi að þyrfti að vaða, og eins ef ske kynni að hnéð mitt skyldi verða með leiðindi. Að fenginni jákvæðri reynslu af kakóbolla, held ég að ég ætti framvegis að vera með prímus í svona ferð.


Steinar: Var á lágum skóm sem reyndist vel þótt það væri víða laus sandur. Var með mjög góða ullarskokka sem ég held að hjálpi mikið. Myndi alltaf reyna að vera í þannig léttari skóm í svona göngu nema aðstæður kalli á þunga gönguskó.


Örn: Ég var í Hoka utanvegaskóm sem héldu illa við ökklann, mæli með gönguskóm með ökklastuðningi á þessari gönguleið.




3. Hvernig var nestið þitt og hversu mikið borðaðirðu af því ?Lexían um nestið.


Aníta: Ég las fyrri ofurgönguferðasögur og eins erlendar greinar frá reynsluboltum varðandi næringu og samsetningu. Ég nánast negldi mínar þarfir en mun gera smá breytingar næst.


Útgangspunktar voru:


  • Sleppa því sem gefur litla orku t.a.m. grænmeti og mat sem inniheldur mikið vatn s.s. pasta

  • Hafa macros í samræmi við úthaldsálag í öllum máltíðum, þ.e. prótín í fyrsta sæti, fitu í öðru og kolvetni í aukahlutverki en bæta þeim frekar inn sem aukanasli ef þyrfti.

  • Taka þyngsta nestið fyrst

  • Hafa fjórða nesti mjög orkuríkt í sem fæstum bitum og næringu sem hægt væri að drekka


Nesti #1 Prótínskyrdrykkur í fernu + tvær flatkökur með hangikjöti (Klárað 100%)

Nesti #2 Kjötsalat; nautakjöt ca 100gr, litlir beikonbitar, 1 egg, saxaðar hnetur, basil, niðurskorin nektarína. (Klárað 75%)

Nesti #3 Roast beef samloka. (Kláruð 75%)

Nesti #4 Lifrapylsa og Whey clear juice prótínduft (ekki borðað, 0%)


Extra:

Harðfiskur með smjöri (0%)

Hnetur, þurrkaðar apríkósur og súkkulaðirúsínur (100%)

Hjónabandssæla (borðaði eftir göngu)

Prótínstöng (100%)

Dökkt súkkulaði (100%)

EAAS Nano aminosýrur með electrolyte og Bvít blöndu (100%)



Lexían:

#1 Að vita að þú þarft að bæta við Amino og söltum um miðnætti en gleyma því þangað til þú færð svima… eða ca. 6 klst og einhverjum 20km síðar er smá ljóskufílíngur

#2 Að nenna ekki að dúndra prótíndjúsdufti í brúsa í fjórða nesti er rugl. Hérna þarf just do it attitude.

#3 Þar sem lystarleysið er algjört í fjórða nesti þá hefði verið betra að taka djúsí kleinu og kókómjólk og svo prótíndjúsduftið sem er ferskt og svalandi.

#4 Eins og harðfiskur með smjöri er æðislegur þá nenni ég ekki að borða hann í svona ævintýri

#5 Að dröslast með lítinn kaffibrúsa er pottþétt þyngdarinnar virði.


Bára: Var með of mikið nesti, samlokan og kókómjólkin í nesti tvö var étið upp til agna, lítið borðað af kjúklingnum og kartöflustráunum í nesti tvö, eingöngu ein flatkaka með hangikjöti í nesti þrjú en hámaði í mig kleinuhringjum og mars-súkkulaðinu í nesti fjögur. Sem fyrr er lexían sú að maður tekur of mikið nesti með, maður er svangur til að byrja með en svo fer líkaminn í einhvers lags matarsparnaðarham og vill svo nær eingöngu kolvetri = sætindi þegar líður á gönguna. Diet-kókið milli nestis 3 og 4 var veisla. Myndi vilja hafa fleiri svona drykki með næst, ekki endilega koffein heldur eitthvað ferskt með bragði eins og sykurlaust appelsín.


Silla: Mér hættir gjarnan til að vera með of mikið nesti og tókst það í þessari ferð eins og endranær. Ég reyndi að vera skynsöm og borða vel í öllum pásum en í þeirri þriðju og síðustu pásunni kom ég bara ofan í mig sætmeti og fann því vitaskuld fyrir svengd rétt áður en við komumst í mark. Það er sjaldgæft að ég finni fyrir svengd í ferðum. Ég hefði því viljað stoppa og borða smá mat ekki bara nammi, en það tók því ekki því svo stutt var í höfn. Ég fékk því bara útrás i tjaldpartýinu að ferð lokinni og lagðist í ostana og annað gúmmelaði sem var þar í boði.


Sjöfn: Úff nestið ! Fattaði í 1. pásu að ég hafði gleymt í bílnum boxi með nesti fyrir pásu nr.2, en stressaðist ekkert við það því ég reiknaði með að hafa samt nóg. Sem kom á daginn, því matarlystin var þokkalega góð í fyrstu tveimur pásunum, svo dofnaði yfir henni og maður var að hálfpína í sig nærinu í seinni hálfleik ! Vissi að ég myndi helst hafa lyst á hnetum og svoleiðis ef lystin hyrfi, svo ég var með eitthvað af því sem dugði mér vel. Kom með ca 1/3 af nestinu til baka.


Steinar: Var með allt of mikið nesti (þótt ég hafi gleymt harðfiskinum heima). Var með eina dollu af kjúklingarétt en annars þetta dæmigerða, flatkökur og hangikjöt, kex, múslístykki, hnetumix, súkkulaði og sælgæti. Var svo með prímus til að hita vatn í kaffi og kakó. Þegar allt er talið hef ég varla borðað mikið meira en helminginn.

Það sem læra má er að stilla magninu í hóf, reyna að halda fjölbreytni en minna magni af hverju. Það er svo þannig að matarlystin verður takmörkuð seinni hluta göngunnar nema í eitthvað sætt. Þess vegna gæti verið best að reyna að borða vel af “alvöru mat” í stoppum í fyrri hluta göngunnar og geyma það sæta meira í seinni hlutann.


Örn: Ég var með samloku, flatkökur með hangikjöti, harðfisk og kleinuhringi. Ég borðaði um 80% af nestinu, var ekki með mikinn óþarfa. Matarlystin varð minni eftir því sem leið á gönguna.



4. Hvað var erfiðast í göngunni?


Aníta: Ég hugsa að fyrstu tveir kílómetrarnir hafi verið erfiðastir. Ég var aðeins að berjast við hausinn á mér því ég hoppaði beint úr gríðarlegu álagi, búin að sofa lítið vikum saman og fá litla hvíld. Ég hafði því efasemdir um að ég myndi njóta þess að gera þetta og bjóst við því að óþolinmæðin myndi hræra duglega í mér. En sko… þetta var nú meira tuðið í höfðinu á mér og ég var fljót að segja sjálfri mér að snarhalda kj.


Bára: Vindurinn í fangið fyrri hlutann var það eina "erfiða" í þessari ferð og svo að uppgötva suðurósinn sem manni fannst lengja leiðina því lokin á göngunni voru orðin áþreifanleg en svo blasti skyndilega við þessi skelfilega vatnstunga þarna lengst inn eftir. Fannst reyndar allt þetta hliðarbrölt krefjandi en það var samt kostur því það braut upp gönguna, hreyfinguna og álagið, hefði ekki viljað strunsa 50 km í fjöru eins og maður átti hálft í hvoru von á að yrði en svo var sannarlega ekki.


Silla: Í raun gekk allt vel að mínu mati, veðrið var æðislegt, formið í góðu lagi og félagsskapurinn geggjaður, allir í stuði! Það var ekkert sem amaði að nema smá svengd í lok ferðar. Hefði getað reddað mér með því að hafa 2 flatkökur tiltækar í vasanum, en alltaf auðvelt að vera klár eftirá. Fannst jafnframt seinni endi vatnsins ekki alveg sanngjarn þar sem fara þurfti þó nokkra aukaleið til að geta nálgast aftur skálann og bílana hinum megin.


Sjöfn: Erfiðast í göngunni var líklega ca hálftími eftir að skrattans "botnlanginn" kom í ljós, þ.e. að það reyndist dágóður spotti eftir þegar maður hélt að nú væri maður að klára.


Steinar: Það var ekkert sérlega erfitt þar sem það eru engar verulegar hækkanir eða torfærur. En það eru þarna einhæfir kaflar og kannski helst að kæmist þreyta og leiði í mann þegar voru kannski 10-15 km eftir.

En líka þegar það er svona hráslagalegt þá verða stoppin styttri og maður fær einhvern veginn minni hvíld út úr þeim.


Örn: Mótvindurinn fyrri hluta göngunnar. Annað var ekki erfitt.



5. Hvað var léttara en þú áttir von á ?


Aníta: Ég fann minna fyrir líkamlegu og andlegu álagi en ég bjóst við og einhvern veginn þutu kílómetrarnir og klukkutímarnir áfram og brandararnir flugu á milli þess sem ég skundaði ein í minni íhugun. Aldrei varð ég vör við eitthvað væl eða vesen innan í mér og minni þreyta í kroppnum en ég átti von á fyrir utan eymsli í vöðvafestingum við hnésbætur og smá klúður sem ég henti í lexíubankann.


Bára: Gangan í heild, það að geta gert þetta og liðið vel allan tímann. Var hissa hvernig við komumst upp með að ganga mjög rösklega allan tímann því það var gengið mun hraðar en í fyrri ofurferðum. Einnig var yfirferðin á leiðinni um sandinn í fjörunni léttari en ég æatti von á, hafði miklar áhyggjur af því að við yrðum brjáluð á þessum sandi en það varð ekki, það var alltaf hægt að færa sig upp á fastara land og brjóta upp yfirferðina ef maður vildi.


Silla: Gangan í heild sinni. Hélt að hækkunin (yfir 1000 m) gæti tekið á sérstaklega undir lok ferðar en hún kom svo jafn og þétt að maður fann lítið fyrir henni.


Sjöfn: Eiginlega reyndist það léttara að ganga þessa 50 km en ég átti von á. Held ég hafi aldrei gengið nema mesta lagi 30 km í einu áður, og man eftir að hafa verið orðin lúin eftir slíka vegalengd, og vissi ekki fyrir víst hvernig ég myndi tækla 50 km. En svo fór maður bara nokkuð létt með þetta.


Steinar: Eins og á Vatnaleiðinni þá hefur það merkilega lítil áhrif að ganga yfir nótt. Maður finnur ekki fyrir teljandi syfju eða aukaþreytu út af því.


Örn: Ekkert í raun. Það er ekki erfitt að ganga svona að næturlagi. Af því við höfum gert þetta áður þá vissi maður að maður gæti þetta.



6. Hvað kom á óvart í göngunni ?


Aníta: Það kom á óvart hvað fyrri helmingur göngunnar leið hratt en ég tel fjölbreytileika landslags og tæknilega flóknari ganga hafi fangað athyglina betur en sá síðari sem var einsleitari. Þá leitaði hugurinn meira inn á við og tíminn varð svolítið óraunverulegur og skrýtinn. Eins og veruleikinn væri í risastóru tímaleysi og dagur hefði getað liðið án þess að maður fattaði það. Mjög undarleg upplifun. P.s. ég held barasta að engir sveppir hafi verið með í för 😂


Bára: Hversu fjölbreytt leiðin var, hún var ekki einsleit né tilbreytingasnauð en ég átti hálft í hvoru von á því og hafði áhyggjur af því að þetta yrði of einhæft miðað við Laugaveginn og Vatnaleiðina en svo var alls ekki. Einnig kom náttúrufegurðin mér á óvart, litafegurðinn og formfegurðin, tunglið, sólin, og svo dýralífið, það var magnað að sjá mávana, svanina og svo himbrimana svona langt frá byggð og nálægt jöklinum, og eins sauðféð í Grasveri, þetta var sannarlega þeirra staður, ekki okkar. Fann fyrir meiri lotningu gagnvart náttúrunni á þessari leið eins en oft áður þar sem þetta voru svo mikil öræfi.


Silla: Fjölbreytileiki náttúrunnar. Ég vissi að við myndum ganga í kringum undurfagurt vatn en hélt að gangan yrði samt nokkuð einsleit, fylgdum að mestu ströndinni og færum yfir eina á. En svo var ekki… Fögrufjallarmegin (um 20 km), þar sem við byrjuðum að ganga var mjög gróin leið þar sem við sáum fullt af litlum, fallegum vötnum og ólíkar eyjar eins og Pöddu og Ást í Fagrafirði. Við gengum stundum á ströndinni í alls kyns færum, en fórum líka oft upp í fjallið, stundum í mikinn bratta, til að komast áfram. Það var sérstakt að upplifa hvað vatnið var langt og mjótt, ekki nema 2 km í breidd við enda þess. Andstæðurnar beggja vegna vatnsins voru gríðarlegar, fallega gróið öðru megin en mikið eyðimerkurlandslag hinum megin.


Sjöfn: Það kom skemmtilega á óvart hversu fjölbreytilegt landslagið var í kringum Langasjó, hafði átt von á eilífum sandi og fjörugrjóti, en það var nú gott betur. Viðurkenni að ég var ekki búin að stúdera umhverfið neitt og vissi ekki um þessi mörgu og fallegu lón sem við myndum ganga austan við, og þau skreyta nú ferðina heldur betur.

Svo kom mér líka á óvart hversu rosalega vel hópurinn var samstillur - ég vissi að við værum í svipuðu tempói og með svipaða seiglu, en það var samt vonum framar.

Það kom líka mjög á óvart hversu einn óvæntur kakóbolli rústaði hrollinum sem var sestur að í kroppinum í pásunni !


Steinar: Ekkert sérstakt þannig lagað.


Örn: Landslagið var fjölbreyttara og þessi leið var meira krefjandi en ég átti von á.



7. Hvaða kafli var skemmtilegastur og hvaða kafli var sístur í göngunni ?


Aníta: Að ganga langa malarslóða eins og eru vestan megin við er aldrei mitt uppáhalds en samt svo nauðsynlegt á síðari hluta göngu að leiðin sé greiðfær.


Bára: Skemmtilegast í Fögrufjöllum og síst á söndunum en þeir voru samt kærkomnir eftir allt bröltið í fjöllunum.


Silla: Mér fannst mun skemmtilegra að ganga Fögrufjallarmegin þar sem landslagið þar var fegurra, grónara með litlum vötnum og æðislegu útsýni. Hinum megin var svolítið mikið eyðimerkurlandslag sem var vissulega tilbreyting. Skemmtilegheit í hópnum bættu það upp þegar umhverfið varð of einsleitt.


Sjöfn: Þarna er erfitt að velja, allir kaflar höfðu nú sína sjarma. Líklega fannst mér samt skemmtilegra að ganga meðfram lónunum, en samt, ég fílaði eyðsandana líka í botn hinumegin. Það var enginn kafli heldur sístur, smásjokk þarna þegar botnlanginn birtist, en það varði svo stutt.


Steinar: Kaflarnir sitt hvoru megin við útfallið voru skemmtilegastir. Einsleitu kaflarnir vestan við vatnið voru sístir en höfðu samt upp á margt að bjóða.


Örn: Fyrri hluti göngunnar var skemmtilegri en sá síðari en hann var líka meira krefjandi.



8. Hvað telur þú mikilvægt þegar farin er svona ofurganga ?


Aníta: Note to self…


#1 Ekki hundsa sokkakrumpu undir hæl í 10-20km af því þú nennir ekki að laga (halló nýji hælblöðruvinur minn)

#2 Ekki hundsa það sem þér var sagt; að losa reimar eftir ca 20km því fætur bólgna (ok… við skulum ekkert ræða hvað ég var aum og marin á ristum 😁 )

#3 Það er eiginlega nauðsynlegt að kæla fætur þó maður sé að drepast úr kulda (glamur í tönnum er ekki afsökun)

#4 Íbúfen og melatonin fyrir svefn eftir göngu hefði verið snilld… en þúst… ég sef bara næst 😂

#5 Að morgunpartý með drykkjulátum er algjört möst

#6 Að ganga með tjúllað skemmtilegu og ævintýragjörnu fólki sem er á sama leveli í gönguhraða og úthaldi er ekki bara kostur, heldur nauðsyn

#7 Að þegar þú heldur að þú sért að verða komin þá er þetta smá alveg geggjað langt.


Bára: Hugsa jákvætt, vera lausnamiðaður, hafa trú á sjálfum sér og æfa vel. Einsetja sér að láta engin smáatrið né vandamál slá sig út af laginu, það er auðvelt en er hreinlega ekki í boði í svona ferð. Úrtölur og hugsanir í hindrunum duga duga aldrei fyrir svona ferð, það er auðveldast af öllu að búa til listann yfir afhverju við áttum ekki að fara og sem betur fer höfum við reynt að tileinka okkur ekki slíkt hugarfar, heldur nákvæmlega hið gagnstæða og það skiptir hreinlega sköpum. Það þarf að æfa vel fyrir svona ferð, fara í langar göngur, vera vanur búnaðinum sínum og temja sér jákvætt hugarfar. Ef allt ofangreint er ekki gert, þá getur menn hreinlega ekki gert þetta nema í miklum kvölum og vanlíðan sem okkur hugnast ekki.


Silla: Hver og einn þarf að taka ákvörðun fyrir sig að fara í svona ferð. Fólk verður að treysta sér líkamlega í gönguna en líka að hafa mikla löngun fyrir áskorun að þessu tagi. Það er svo misjafnt hvað á við hvern og einn. Síðan þarf að vera með réttan útbúnað, nesti og góður andi þarf að ríkja í hópnum. Leiðsögnin er líka mikils virði.


Sjöfn: Það er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér og ætla að gera þetta vel. Til þess þarft að æfa vel og vera í góðu formi, svo maður hlakki miklu meira til en manni hugsanlega kvíður fyrir. Og ræða undirbúinginn, hvað varðar búnað og næringu, það er alltaf gott að fara yfir hlutina í sameiningu.


Steinar: Skipulagning og góð upplýsingagjöf, sem hefur verið til fyrirmyndar hjá ykkur. Mikilvægt að allir sem fara með hafi skýra mynd af gönguleiðinni s.s. hækkun, landslag, torfærur og vöð svo það ekkert sem komi of mikið á óvart.

Mikilvægt að hópurinn sé samstíga og allir ráði við verkefnið því það er takmarkað svigrúm til að hægja á eða bíða eftir einhverjum.

Svo bara að vera líkamlega undirbúnir og æfa vel. Mikilvægt að reyna vel á sig í löngum erfiðum göngum í aðdragandanum.

Það er eiginlega nauðsynlegt að hafa úr nokkrum dögum að velja eins og þið hafið gert til að fá góðar aðstæður.


Örn: Undirbúa sig vel með löngum göngum. Þjálfa sig alltaf vel fyrir það sem maður er að gera. Ef maður kemur vel undirbúinn þá verður þetta léttara og skemmtilegra.



9. Langar þig aftur í svona ofurgöngu og myndir þú gera eitthvað öðruvísi þá en í þessari?


Aníta: Já, alveg hiklaust. Ofurganga er geggjuð upplifun og algjört ævintýri í minningabankann, sérstaklega með skemmtilegu fólki. Það sem ég vildi gera öðruvísi en tókst ekki var að fá nægan svefn dagana fyrir göngu og ná að lesa mér betur til um staðhætti til að auðga upplifun enn frekar. Einnig hefði ég viljað taka meira af myndum síðari helming göngunnar en þann hluta datt ég inn í mitt zone og góða heilun á sál sem var líka kærkomið.


Bára: Get ekki beðið eftir næstu ferð 2024, þessar ofurgöngur gefa manni eitthvað sérstakt sem hinar gera ekki. Maður kemst í snertingu við sjálfan sig og náttúruna á annan hátt en með dagsgöngum og ferðir með allt á bakinu komast án efa nálægast þessu en þar sem okkur þykja slíkar ferðir snúaast svo mikið um búnað og burð þá veljum við þessar frekar, að ferðast létt og eyða orkunni í að ganga langa leið og upplifa frekar en að eyða orkunni í búnaðinn og matinn og svo allt stússið við að tjalda og taka saman, það er þess virði að gera þetta líka fyrir þá sem geta. Þarf að passa að hafa allavega eina yfirlýsta ofurgönguæfingu en ekki bara almennt tindferðirnar fram að ferð, svipað og þegar við fórum Leggjabrjót fram og til baka fyrir Laugaveginn, því sálrænt var það gott til að sjá að við gátum gengið 53 km úr því við gátum gengið Leggjabrjót 33 km.


Silla: Já ég er meira en til í að taka þátt í annarri ofurgöngu. Þá tek ég pottþétt með mér minna nesti og hef flatkökur í vasanum undir lokin.


Sjöfn: Já ég er alveg til í fleiri ofurgöngur. Ég veit ekki hvað ég ætti að gera öðruvísi því allt gekk upp og ekkert nema gleði.

Miðað við hversu göldróttur kakóbollinn var, þá held ég að ég myndi alveg vilja bæta prímus við í bakpokann.


Steinar: Ég mun klárlega vilja fara í fleiri svona göngur ef þær eru í boði. Það er helst að reyna að hemja sig í nestinu.


Örn: Já, mig langar aftur. Ég myndi vera í uppháum gönguskóm.



10. Er eitthvað sem þér finnst mikilvægt að taka fram fyrir þá sem lesa þetta og vilja prófa svona ofurgöngu ?


Aníta: Ofurganga = líkamlegur styrkur + hugarfar. Hvoru tveggja er jafn mikilvægt.


Ef þú ert að tala þig niður með lista af ástæðum fyrir að þetta sé ekki fyrir þig núna og vilt jafnvel að einhver selji þér hugmyndina, þá er ofurganga ekki málið núna. Kannski seinna. Það verða alls konar óþægindi á leiðinni sem efasemdir magna upp í meiriháttar þröskulda en eldmóður feykir jafnharðan út í buskann.


En ef þú ert týpan sem finnur FOKK JÁ í hjartanu og hoppar til af spenningi þó hugurinn stari á þig skelkaður yfir hvers konar vitleysu þú sért að ana út í… þá er ofurganga fyrir þig!


Takk fyrir mig elsku ferðafélagar.


Bára: Mjög gott líkamlegt form og jákvætt, lausnamiðað hugarfar er nauðsynlegt fyrir svona ofurgöngu og ég sagði í ferðinni að þetta væri 50/50 og stend við það. Leiðangursmenn höfðu allir rétta hugarfarið, allir fundu vel fyrir þessu, þetta var ekki "létt" og það fylgir þessun alltaf ákveðin þjáning / eymsli / þreyta en þetta var heldur ekki óyfirstíganlegt. Svona ofurganga er ekki farin nema með rétta hugarfarinu þannig að ef eitthvað er, þá er hugarfarið mikilvægara en líkamlegt ástand, en formið og ástandið þarf engu að síður að vera mjög gott, því það reynir vel á líkamann að ganga svona vegalengd í reinum rykk. Ég mæli eindregið með því að leita til og hlusta á þá sem hugsa jákvætt og í lausnum og ekki láta úrtöluraddirnar í kringum mann telja manni hughvarf, því slíkar raddir eru alltaf í boði og það reynir á mann sjálfan að láta þær eki stjórna sér og koma í veg fyrir að maður upplifi svona göngu ef maður getur farið í hana. Tökum eftir þeim sem eru að gera merkilega hluti, leitum í þeirra félagsskap, lærum af þeim og treystum ás eigið innsæi í stað þess að láta neikvæðu raddirnar stjórna manni.


Silla: Ef fólk er í góðu gönguformi þá er þrælupplagt að prófa eitthvað nýtt. Ofurganga er yndisleg ganga að degi, kvöldi, nóttu, aftur degi, við sólarlag og sólarupprás. Mjög sérstök tilfinning, einstakt að upplifa allt þetta í viðbót við landslagið, veðrið og þetta hefðbundna. Lengd hennar styrkir, bætir, kætir og eflir sjálfstraustið.


Sjöfn: Ég held það sé jafngaman og gefandi að taka þátt í ofurgöngu þegar maður er rétt undirbúinn, eins og ég get séð fyrir mér að það sé ömurlegt að vera í tómu tjóni af því að réttan undirbúning vantar. Semsagt: vertu viss um að þú sért í góðu formi, maður getur kannski aldrei verið 100% viss um eigin getu, en ekki líta á svona göngu sem eitthvað tilraunaverkefni á forminu. Vertu ákveðinn í að vera jákvæður þó eitthvað á bjáti. Undirbúðu þig vel gagnvart fatnaði, búnaði og nesti, og vertu opinn fyrir umræðum samferðamanna hvað þessa hluti varðar. En fyrst og fremst: vertu í formi og vertu jákvæður !


Steinar: Þetta er bara skemmtileg upplifun og áskorun að fara í svona ofurgöngu og með góðum undurbúningi ættu flestir í góðu gönguformi að ráða vel við þetta. Að ákveða með góðum fyrirvara að fara í svona göngu gefur manni líka heilmikla hvatningu til að æfa og koma sér í form.


Örn: Undirbúningur er það sem skiptir máli og að passa vel upp á næringu og vökva alla leiðina.






Þakklæti:


Takk Ragnar Antoníusson fyrir gps-lóðina á wikiloc, takk Páll Ásgeir Ásgeirsson fyrir mjög skemmtilega lýsingu í bókinni "Bíll og bakpoki", takk skálaverðir í Hólaskjóli fyrir vinsemd og virðingu, takk Brynhildur og Róbert fyrir góða innsýn í myndbandi ykkar af kajakferð um Langasjó, takk Stefán Bragi ofurhlaupari fyrir góðar upplýsingar af leiðinni, og takk allir sem deilt hafa ljósmyndum og myndböndum af ferðum um Langasjó (sem voru ekki margir) því allar slíkar upplýsingar hjálpuðu okkur að undirbúa þessa ferð... ef ég er að gleyma einhverjum þá látið mig vita !


... og að lokum takk öll elsku englar fyrir fullkomið og ólýsanlegt ævintýri og afrek sem aldrei gleymist... höldum þessu áfram einu sinni á ári á bjartasta tíma ársins... og æfum okkur vel fram að ferð... það er þess virði að upplifa svona ofurgöngu sem líkist engum öðrum...




61 views0 comments
bottom of page