top of page

Langisjór á einni nóttu... hringleiðin öll... fyrri hluti...

Updated: Aug 18, 2023

Tindferð nr. 274 sem hófst kl. 16 þriðjudaginn 11. júlí og lauk miðvikudaginn 12. júlí kl. 07 árið 2023. Fyrri hluti af tveimur í langri ferðasögu.


Margra ára draumur þjálfara um að fara kringum Langasjó á einum löngum degi rættist loksins í júlí árið 2023... þegar sex Toppfarar gengu þessa einstöku hringleið á einni nóttu... og fengu yfirnáttúrulega upplifun ljóss og skugga... sólar og mána... vatna og fjalla... hálendisauðnar og öræfakyrrðar eins og hún gerist best...


Þessi frekar villta hugmynd eins og hinar tvær ofurgöngurnar höfðaði eðlilega ekki til allra í klúbbnum en það voru samt grátlega fáir sem kveiktu á snilldinni við hana... maður er nefnilega alltaf... enga stund að búa til lista yfir ástæður fyrir því að gera ekki eitthvað eins og þetta sem var klárlega út fyrir þægindarammann... en það var sem betur fer aldrei efst í huga okkar sem létum slag standa... Toppfarar sem fjallgönguklúbbur væru ekki til ef þjálfarar hefðu tamið sér úrtöluþenkjandi hugarfar... og Steinar hafði á orði að hann skildi ekki hvers vegna ekki var strax uppselt í þessa ferð... enda forréttindi og einstakt tækifæri til að upplifa þessa kyngimögnuðu leið, sem er án efa á heimsmælikvarða hvað varðar formfegurð, öræfakyrrð, fjölbreytileika og litadýrð...


Þó nokkuð margir höfðu áhuga á þessari ferð frá byrjun og mjög margir í klúbbnum hefðu vel getað gert þetta hvað varðar líkamlegt atgervi, enda eru mjög margir í klúbbnum í dúndurformi og ganga reglulega á fjöll árum saman án þess að gefa eftir... en það þarf tvennt að koma til fyrir svona ofurgöngu... mjög gott líkamlegt form og jákvætt, lausnamiðað hugarfar...


Tveir leiðangursmenn voru ákveðnir í því frá byrjun að koma með... þau Sjöfn og Steinar... hikuðu ekki heldur stefndu að þessu frá upphafi... og þeim erum við ævinlega þakklát því líklega hefði þessi ferð frestast annars enn eitt árið... eða jafnvel aldrei orðið að veruleika því það var mjög freistandi að hlusta á úrtölurnar allt í kring... og við stöldruðum líklega öll öðru hvoru við og íhuguðum hvort þetta væri of mikil áhætta og of mikil óvissa... en þau Sjöfn Kristinsdóttir og Steinar Ríkharðsson skráðu sig strax í þessa þriðju ofurgöngu klúbbsins og voru þau einu sem fylgdu þessari hugmynd eitthvað eftir með spurningum og staðræðni í að mæta mánuðina á undan... kraftmikli og jákvæði nýliðinn, hún Aníta sagði strax já þegar hún heyrði af þessari ferð fyrr um sumarið og útivistarkonan öfluga, hún Silla hikaði heldur ekki þegar við auglýstum ferðina enn og aftur innan klúbbsins og minntum menn á hversu söguleg þessi ferð yrði og einstakt tækifæri sem kæmi ekki svo glatt aftur... þó nokkrir fleiri ætluðu sér að koma með frá byrjun eins og Maggi sem skráði sig líka strax í byrjun... Gunnar Viðar sem hefur farið með okkur í hinar ofurgöngurnar og alltaf mætt í allar jöklaferðir að ótöldum mörgum af okkar mest krefjandi ferðum... Inga Guðrún sem einnig hafði mætt í tvær fyrri ofurgöngur og leikið sér að þeim... og loks Ása og Oddný sem vildu eindregið koma með... en öll afboðuðust þau af ýmsum ástæðum sem var mikill missir fyrir okkur... því við hefðum viljað njóta félagsskapar þeirra allra sem ætluðu að koma með... og það voru enn fleiri klúbbmeðlimir mikið að spá í þessa ferð en voru aldrei vissir og enduðu á að koma ekki... og ef ég gleymi einhverjum þá endilega leiðréttið mig...


Þetta er nú meira nöldrið í þjálfaranum... haha, afsakið elskurnar, en það er bara af því hún veit hvers klúbbmeðlimir eru megnugir og það hefði verið svo gaman að hafa fleiri með að upplifa þetta og uppgötva að þeir geta meira en þeir halda... en svo ber að virða það og ekki gleyma að svona ofurgöngur hugnast ekki öllum :-)


En sem betur fer létum við mætinguna ekki aftra för... þjálfarar voru ákveðnir í að fara sama hvað... en það er engu að síður algerlega þökk þessum fjórmenningum sem mættu að þessi ferð varð á endanum að veruleika og varð svona falleg og skemmtileg og sterk upplifun þegar á hólminn var komið... því jú, kannski hefðu þjálfarar farið þetta tvö ein... Bára ætlaði sér ekki að fresta þessari ferð um enn eitt árið... en það hefði ekki verið sama upplifunin að fara tvö eins og sex manns... og kannski hefðum við á endanum fallið í sömu gryfjuna með listann af ástæðum fyrir því að fara ekki... stundum erum við þjálfarar ekkert skárri og teljum upp ástæðurnar fyrir því að framkvæma ekki sumar mjög spennandi hugmyndir sem enn hafa ekki orðið að veruleika í klúbbnum...

Takk elsku Aníta, Silla, Sjöfn og Steinar... fyrir hugrekki og þor... metnað og ævintýrahug... jákvætt hugarfar og lausnamiðaða hugsun... fyrir að kveikja á því hversu geggjuð hugmynd þetta var... fyrir að draga ekki úr henni með alls kyns úrtölum... og fyrir að vera ákveðin í þessu fram að brottför... það skipti sköpum...


Við gáfum okkur fimm daga tímaramma í þessa ferð til að geta gripið besta veðrið því svona ofurganga er ekki farin í roki og rigningu... og ákváðum að hafa þetta fimm virku dagana í viku tvö í júlí... af því helgarnar eru alltaf pakkaðar um sumarið og virku dagarnir oft bestir til að ferðast og fá gistingu og meiri frið í umferðinni...


Við lágum yfir veðurspánni dagana fyrir þessa viku og það var sláandi að sjá að vikurnar fyrir okkar ferð var meira og minna kalt og rigning á svæðinu... en vikuna á undan kom góða veðrið sem lék svo við suðvesturhluta landsins næstu vikurnar í júlí og ágúst... og þetta góðviðri náði inn á okkar viku líka... þó reyndar kæmi stífur norðanvindur sem var það eina sem ekki var fullkomið í ferðinni.... en hann gaf okkur kristaltæra fjallasýn, magnað útsýni og hreint skyggni allan tímann sem gerði mjög mikið fyrir okkur á göngunni... lágskýjaða lognið sem líka einkenndi marga daga þetta sumarið hefði ekki hentað okkur hvað skyggni og birtu varðaði...


Sólríkt... úrkomulaust... og norðanvindur... við vonuðum til að þessi vindur yrði að litlu sem oft gerist uppi á hálendi... meira logn þar en niðri við ströndina... en hann mætti galvaskur og gaf sinn svip á ferðina... en allt hitt var framar v0num...


Kvöldið fyrir þessa ferð hófst loksins þriðja gosið á Reykjanesi... sem menn voru farnir að bíða eftir... og það truflaði aðeins undirbúninginn þetta síðasta kvöld fyrir ferðina... en gaf okkur um leið byr í brjóst... við eigum heima í landi þar sem raunveruleg ævintýri gerast og jörðin er að segja okkur sögur sem við getum fengið að hlusta á með því að ganga um landið og upplifa...


Þegar gengnir eru 50 kílómetrar á einum degi eða nóttu... skiptir öllu að vera ekki að bera of mikinn farangur... um þetta voru allir mjög meðvitaðir og þeir sem mætt höfðu í fyrri ofurgöngur voru komnir með reynslu.... sjá farangur þjálfara hér:


Hlífðarjakki, hlífðarbuxur, ullarpeysa, ullarpils, vara-ullarvettlinga, vara-ullarhúfa, vara-gammosíur, belghlífðarvettlingar, vaðskór, lítill þurrklútur, flugnanet, hnetunasl, hleðslubanki og snúra, vara-rafhlöður x4, sjúkrabúnaður og neyðarskýli. Örn tók svo neyðarpoka sem hægt er að setja einn mann í til að halda honum heitum.


Endurskoðun: Ég sleppti naslinu þegar á hólminn var komið og saknaði þess ekki að vera með það, nóg að borða í nestistímunum, ullarpilsið og varavettlinga, -húfa og -gammósíur hefðu mátt missa sín (hefðu komið sér vel ef úrkoma hefði verið) og nóg var að vera með 2 stk af rafhlöðum. Þetta hefði minnkað farangurinn heilmikið og er lærdómur fyrir næstu ferð.


Nestið sem var í bakpokanum. Uppleggið var fjórar stóra nestispásur ofan á aðrar minni pásur til að þétta hópinn og njóta útsýnis. Við erum búin að læra að vera ekki með það sama í hverri matarpásu, þannig að fjögur ólík nesti er málið og það skiptir án efa öllu því maður hefur ekki mikla matarlyst í þessum ofurgöngum og þarf fjölbreytni til að hafa lyst á að borða. Eins og í fyrri ferðum þá borðuðum við mun minna en við áttum von á... máltíðirnar mínar voru: 1) rækjusamloka + kókómjólk, 2) kjúklingur + kartöflustrá + vatn, 3) flatkökur með hangikjöti + þrjú soðin egg + kók, 4) kleinuhringir + dietkók (búin að læra að maður vill bara eitthvað sætt þegar líður á gönguna, engan mat).


Lexían: Samlokan og kókómjólkin var borðað upp til agna, fékk mér bara 1 egg, eina flatköku, smávegis af kjúklingnum og kartöflustráunum og borðaði helminginn af kleinuhringjunum. Í raun borðaði ég lítið í nesti 2 og 3 og mest í nesti 1 og næst mest í nesti 4 sem var bara sætindi. Dietkókið var geggjað að fá þegar leið á gönguna. Myndi því minnka skammtinn af kjötinu og kartöflunum og eggjunum og flatkökunum í næstu ferð.


Þetta er að sjálfsögðu persónubundið og sumir í hópnum borðuðu meirihlutann af sínu nesti. Örn borðaði um 70% af sínu nesti og allir lentu í því sama að borða vel fyrst en svo minna þegar á leið. Sjá lexíur allra neðst í þessari ferðasögu NB - mjög áhugavert að lesa !


Lagt var af stað kl. 10:00 frá Reykjavík... upphafleg áætlun... en af því við fengum umhugsunarverðar athugasemdir frá þeim sem ekki fóru í ferðina um að vera að vaka svona yfir nótt sem væri erfitt eða jafnvel alveg ómögulegt... að þá voru þjálfarar voru farnir að spá í að taka þetta sem heilsdagsgöngu með því keyra upp í Hólaskjól deginum áður, gista, vakna kl. 04, keyra í 1 klst. og leggja af stað gangandi kl. 06 og vera þá að lenda eftir göngu um kl. 22 - 24 um miðnættið og eiga þá eftir að keyra í 1 klst. og fara að sofa í Hólaskjóli og kl. 01 - nema við tækjum þá smá partý til að skála fyrir göngunni og svo að sofa... og keyra svo heim morguninn eftir... með þessu fengjum við heilan nætursvefn og myndum gista tvær nætur í Hólaskjóli...


... en sem betur fer hreyfðu menn við mótmælum gegn þessu... Sjöfn og Aníta voru auðvitað til í allt og syrgðu það svolítið að fá ekki að ganga yfir nóttina sem þeim fannst áhugavert fyrirbæri og Steinar benti á að hann hefði áhyggjura f því að við myndum ekki ná góðum nætursvefni kvöldið fyrir gönguna í Hólaskjóli þar sem vakna þyrfti mjög snemma og stressast af stað, hvort það væri ekki bara rálegra að halda áætlun, sofa vel og sofa út á mánudeginum og keyra svo í rólegheitunum austur... og þetta gerði útslagið...


... jú, maður sefur oft illa á nýjum stað og orkan sem færi í allt tilstandið við að tjalda og gista og borða og sofa fyrir þessa ferð var ekki spennandi... best að mæta bara ferskur úr eigin rúmi í þessa göngu... svo sem betur fer... héldum við áætlun og þessi ferð festi það algerlega í sessi að þessar ofurgöngur verða alltaf farnar fyir nótt... þó ekki væri nema af því að upplifunin af því að fá sólarlagið, næturhumið og svo sólarupprásina er engu öðru líkt og alveg einstök upplifun ein í heiminum á göngu í óbyggðunum... það kemur einhver ósigranleiki við þessa upplifun og skyndilega verður náttúran og útiveran og nóttin ekki ósigrandi... við getum alveg gengið á nóttunni...


Tímaáætlunin hélst vel... við gleymdum reyndar að spá í nestistímanum í Vík en vorum annars rúmlega 3 klst. í Hólaskjól... og þar var þessi einmuna blíða... svo hlýtt eins og í bænum að stuttbuxur og hlífabolir voru málið... enda vorum við þannig klædd í bílnum á leiðinni austur... sem var eitt og sér ótrúlega sérstakt og óvenjulegt...


Aksturinn frá Hólaskjóli að Langasjó er rétt tæplega klukkustund... Ljónstindur vinkaði okkur á leiðinni...


... og Hörðubreið... en á bæði þessi fjöll gengum við ásamt Gjátindi og Eldgjá í fyrra en fengum því miður þoku og lítið skyggni stóran hluta leiðarinnar... og þurfum því að endurtaka þessa gönguleið sem var tilraunakennd á sjaldfarin fjöll að hætti hússins...Fjallasýnin var meið eindæmum góð þennan dag... Uxatindar heilsa hér... en þeir voru gengnir fyrir tveimur árum í mergjaðri ferð... Grettir og Uxatindar við Skaftá og Sveinstindur við Langasjó í sól og tignarleik. (fjallgongur.is)


Komin við suðurenda Langasjávar þar sem Vatnajökulsþjóðgarður er búinn að setja upp smávegis salerni og upplýsingarmiðstöð sem er ómönnuð en dýrmætt að fá... þarna var gönguhópur á ferð um hálendið á leið á Sveinstind og svo áfram inn í Landmannalaugar minnir mig á nokkrum dögum...


Þjálfari þorði ekki öðru en setja þessa tilkynningu í rúðu bílsins... og við létum öll aðstandendur vita af okkur og tilkynntum ferðina inn á safe-travel... af því í okkur kraumaði smávegis kvíði og áhyggjur af því að við gætum lent í vandræðum á miðri leið... enda höfðum við orðið við athugasemdum um verð ferðarinnar með því að sleppa því að fá bílstjóra og jeppa til að keyra inn í hinn enda Langasjávar til öryggis og taka þá sem ekki gætu gengið lengra eða fækka farangrinum og þarna hefði verið hægt að skipta um skó o.s.frv... en lexían af þessu var sú að í þriðju ofurgöngunni okkar í röð hefur aldrei einhver farið úr ferðinni á miðri leið og við getum vel haldið á öllu alla leið og þurfum ekki að skipta um skó heldur velja vel...


Leiðangursmenn: Silla, Bára, Aníta, Sjöfn Kr., Örn og Steinar Ríkharðs.


Kortið sem er við Langasjó er mun betra en flest kort á veraldarvefnum... þarna eru örnefni sem ekki sjást annars staðar...


Loksins... lögðum við af stað... kl. 15:55... feginleikur og spenna... búin að horfa á þessa ferð í marga mánuði... og undirbúa hana mánuðum saman með löngum göngum og pælingum um farangur og um leiðina sjálfa... þjálfarar að fara þennan hring í fyrsta sinn og eingöngu gen gið um Fögrufjöllin kringum Fagralón ásamt Sveinstindi í tveimur ferðum með Toppfara sem báðar voru alveg geggjaðar...
Litið til baka að upplýsingamiðstöðinni... Hrútabjörg í baksýn... þeir varða syðsta hluta Langasjávar... slaufuna sem var lokahringurinn um morguninn daginn eftir... þarna áttum við loksins eftir að stoppa og hvílast... klukkan sjö morguninn eftir að við lögðum af stað...


Langisjór kemur í ljós... sól og tært skyggni og ennþá hlýtt... þó mun svalara væri samt þarna en í Reykjavík, Vík í Mýrdal og í Hólaskjóli... en samt stuttbuxnafært ennþá... sjá vindsorfið vatnsyfirborðið á Langasjó... það lygndi ekki fyrr en undir miðnætti og við vorum með þenan vind í fangið stóran hlutann á innleið... en þó í skjóli langa kafla í Fögrufjöllum og alveg í skjóli og friði í Grasveri við vatnasvið Skaftár frá jöklinum áður en komið var að Útfallinu.... jebb... það var sko ævintýri framundan....


Allir röskir göngumenn... í toppformi og með rétta hugarfarið... allir gerðu sér grein fyrir því að þessi ferð yrði ekki gengin öðruvísi... ekki með úrtölum og kvörtunum og neikvæðu hugarfari... þá væri best að hætta við strax núna... því kaldur vindurinn reyndi strax á okkur... þetta var ekki yndisveður... en það var sól... þurrt... ekki beint kalt... og yndisskyggni... og landslagið var slíkt að við dáleiddumst áfram frá fyrsta skrefi... við vorum búin að eiga þetta stefnumót við Langasjó í langan tíma og það var engan bilbug á okkur að finna strax þarna... og aldrei í ferðinni... sem var með öllu magnað að sjá...


Fljótlega vorum við komin að vatninu og gengum í fjöruborðinu til að byrja með... við studdumst við gps-slóð frá Ragnari Antoníussyni leiðsögumanni á þessari hringleið... en manninn þekkjum við ekkert en treystum fullkomlega enda var hann, Leifur Hákonarson og Kristjana Bjarnadóttir þau þrjú sem helst voru með eitthvurt lesefni, ljósmyndir eða texta (blogg eins og það hét þá) á veraldarvefnum þegar við byrjuðum með Toppfara og glöggvuðum vefinn í leit að uppplýsingum um fjöll og leiðir... þetta var áður en stóru samskiptamiðlarnir hófu göngu sína að ráði og öllu var deilt þar með smám saman... en gps-slóðir Ragnars og Leifs (ljósmyndir hans einnig á smugsmug) voru okkar helstu vitar sem og bloggfærslur Kristjönu...


En áður en við vissum af byrjuðu hliðargöngurnar í bröttum hlíðum Fögrufjalla sem áttu eftir að halda okkur við efnið allan fyrri hluta leiðarinnar... þetta var ekki einföld leið... heilmikið klöngur og brölt... strax þarna prísuðum við okkur sæl með að vera ekki með allt á bakinu... þetta var langtum léttara með léttan dagpoka... okkar háttur á hlutunum þó hitt hafi sannarlega sinn sjarma... það gaf okkur hugrekki að hafa þekkt nokkra hlaupara sem fóru vikuna á undan þessa sömu leið 50 km á 9 klst. skokkandi... en spyrja má hvort það hafi verið fysrtu hlaupararnir sem það gera svona í einum rykk... en einn af þeim var Stefán bragi Toppfari, bróðir Gunnars Viðars sem hefði svo þurft að vera með okkur í þessari ferð... við fengum ágætis upplýsingar frá þem varðrandi leiðina og aðallega andlega hugarró yfir því að jú... þetta væri hægt að gera á einum sólarhring...


Stígarnir eru stundum fleiri en einn þarna... líklega vegna snjóalaga eða ruglings göngumanna... og við ætluðum að halda okkur við neðri stíginn... og þurftum að lækka okkur því sá efri var fljótur að afvegaleiða okkur upp á Þröskulda sem svo heita þessir hryggir hér...


Litið til baka úr myndavél Arnarins...


Í nyrðri enda Þröskulda vorum við aftur komin í sandinn...


Léttir eftir hliðarhallann... en ef við bara vissum hvað beið okkar...


Öldugangurinn í Langasjó... Fögrufjöllin við Fagralón hægra megin...


Töfrar og dulúð... þetta náttúrufyrirbæri var allt öðruvísi á þessum kafla og á þessum tíma dagsins... en morguninn eftir þarna hinum megin í sólarupprásinni... af því hefðum við ekki viljað missa...


Sveinstindur við Langasjó er útvörður hans og trónir yfir vatninu í suðurendanum...


Komin upp á Þröskuld sem svo heitir þessi hryggur hér milli Langasjávar og Fagralóns sem sést hér hægra megin...


Fagralón var lón númer eitt af níu eða tíu á þessari leið...


Mjög fallegt og við hér í þriðja sinn...


Langisjór vinstra megin... Breiðbakur hér handan sjávarins... sem kom virkilega á óvart þegar við gengum þeim megin um nóttina og morguninn...


Litið til baka með Sveinstind hæstan... tekin með fjarlinsu...


Með eðlilegri linsu...


Slóðinn hér mjög góður kringum Fagralón enda meira genginn en hringleiðin kringum Langasjó...


Fagralón hið fagra...


Inn eftir hér... mjög góður stígurinn...


Niður af Þröskuldi og til Fögrufjalla...


Breiðbakur allur... ekki önnur örnefni í þessum fjallgarði... en sunnan við hann taka Hrútabjörg við sem varða syðsta hluta Langasjávar vestan megin... og svo tekur Grænifjallgarður við af Hrútabjörgum sem blasa við þegar maður keyrir inn að Langasjó... við söfnum þessum fjallstindum Skaftár og í raun þarna Tungnár næstu árin meðan heilsan leyfir....


Komn á stíginn undir tindinum sem við höfum alltaf gengið á þegar farið er kringum Fagralón en nú slepptum við honum...


Fagralón með Sveinstind í endanum... alveg magnaður staður að koma á...


Hin myndavélin... bara varð að hafa báðar myndirnar...


Mjög fallegur kafli og nú kom fiðringur í þjálfara... framundan voru ókunn lönd og nýjar slóðir sem við höfum ekki kynnst áður...


Litið til baka... Þröskuldur hér í baksýn...


Lón númer tvö... var öðruvísi að lit en öll hin... túrkísblátt... og gaf tóninn fyrir það sem framundan var... töfraheima Langasjávar og Fögrufjalla... "Bláalón" gæti það heitið...


Hér var birtan einstök og litirnir ekki af þessum heimi...


Einn af mörgum stöðum sem sátu eftir í minningunni dagana eftir gönguna...


Síðdegisbirtan gaf geisla sem ekki fást með hádegissólinni... þessar næturgöngur eru án efa að gefa meira en dagsgöngurnar...


Sandur og grjót... grænar hlíðar... blár himinn og hvít og grá ský...


Þriðja lónið gaf enn annað landslag... einn af mörgum fjallstindum á þessari leið sem ekki hafa nafn... sem og lónin sem flest hafa ekki nafn... það eitt og sér er grátlegt... "Djúpalón" gæti það heitið þar sem fjallshlíðar umlyktu það á alla vegu og lítil fjara var í kringum það...


Þegar litið var til baka... Sveinstindur vakti yfir okkur fullur aðdáunar yfir hugrekki þessa göngufólks sem hélt sannarlega út í óvissuna...


Örn var mjög upptekinn fyrir þessa ferð og las sér lítið til um leiðina en Bára lá yfir kortum, bókum og veraldarvefnum en fann furðu lítið í raun... frásögn Páls Ásgeirssonar í bókinni Bíl og bakpoki frá árinu var samt mikill fengur en maðurinn sá er snilldarpenni og það er unun að lesa eftir hann lýsingar á ferðum... enda hló ég oft upphátt... sérstaklega fyir lýsingum á stemningu göngumanna og hugarfari þar sem hann hittir oft naglann á höfuðuð... mæli eindregið að lesa allt sem Páll Ásgeir hefur gefið út... það er veisla...


Takk fyrir okkur lón þrjú...


Nú kom skarð sem við fórum upp í og hér var ágætis skjól fyir norðanáttinni sem átti eftir að komast ekki alltaf inn á milli Fögrufjalla...


Fjórða lónið... Breiðalón heitir það á kortum... það var nánast tvískipt en merkist sem eitt á korti svo við töldum það sem hið fjórða...


Töfrandi aðkoma að því... milli brattar fjalla beggja vegna... Langisjór vinstra megin og Skaftá hægra megin... magnað !


Þjálfari tók upp á því að taka ljósmynd af öllum gróðri á leiðinni...


Fífill...
Komin að Breiðalóni...


Skyldi þetta vera endinn á Fögrufjöllum ? ... neibb... hann var lengra... en ekki mikið lengra samt...Fyrsti nestistíminn... eftir tæplega 10 km á 2,5 klst...


Við viðruðum fætur... og áttum ekki eftir að gefa okkur tími í auka fótabað í Langasjó eins og ætluni var... létum nægja að vaða Útfallið... líklega af því kaldur vindurinn feykti okkur sífellt áfram... en þetta var góð viðrun... þeir máttu eiga það þessir fætur allr okkar að hafa staðið sem með eindæmum vel í þessari ferð... smá blöðrur og núningssár samt...


Menn með alls kyns nesti... og strákarnir báðir með primus...


Við reyndum að finna skjól gegn vindinum í þessari nestispásu og fengum það að mestu...


Ætlunin var að taka 30 - 40 mín nestispásur í hvert sinn eins og í fyrri ferðum... en þær urðu styttri þar sem kaldur vindurinn lék við okkur og það var erfitt að vera að reyna að liggja og hvílast þegar maður var orðinn kaldur... þá vildi maður bara leggja af stað frekar og ganga sér aftur til hita... nýtt verkefni sem var ekki til staðar á Laugaveginum... en jú, kuldinn á miðnætti á Vatnaleiðinni var talsverður í efsta hlutanum og eins var kominn mikill vindur á þeirri leið í lokin... Tindferð 201 Laugavegurinn á ein (toppfarar.is)Við hvíldumst nú samt í 33 mínútur í þessari pásu... enda var hún sú "heitasta" í ferðinni... sjá hvernig úrið telur áfram vegalengdina um 330 metra...


Litið til baka... það var gott að leggja aftur af stað...


Hér komin út í norðurenda fyrri hluta Breiðalóns...


Sandbleyturnar á milli í lóninu... greinilega meira vatn í lóninu fyrri part sumars...


Litið til baka... kyndimagnað landslag...


Dulúðin á hálendi Íslands fangaðist vel í þessari ferð... svörtu sandarnir... grænu fjöllin... bleiku jöklarnir... bláu vötnin...


Stærri og nyrðri hluti Breiðalóns... það var einstaklega gaman að kynnast öllum þessum lónum...


Hér var smávegis hliðarhalli meðfram því...


Millikafli við Breiðalón... hér tæmdi örn utanvegaskóna sína... hann og Steinar voru í slíkum skóm en við stelpurnar í fjallgönguskóm... uppháum með ökklastuðningi og betri sóla en nokkurn tíma fæst með utanvegaskónum... en Örn var ekki ánægður með sína Hoka utanvegaskó... þeir eru of lausir utan um ökklann og erfiðir í hliðarhalla... sérstaklega fyrir þann sem er fremstur að kanna leiðin... Steinar var hins vegar mjög ánægður með sína skó og sá ekki eftir því að hafa verið í þeim... á þessari leið hefði Örn viljað vera í fjallgönguskóm en á Laugaveginum þar sem er vel troðinn stígur alla leið hefði verið gott að vera í utanvegaskóm...


Síðdegissólin enn hátt á lofti... hér er klukkan smt orðin 19:31... sem sé komið kvöld... en við fundum ekkert fyrir því...


Sveinstindur hér í endann ennþá að vinka okkur góða ferð...


Heitur og mjúkur sandurinn í grjótinu...


Spor eftir fólk sem nýlega fór öfuga leið miðað við okkur... ef marka mátti sporin...


Mjög breytilegt undirlag er á þessari leið... sandur í öllum þéttleika... grjót... mosi... mun betra undirlag en við áttum von á... sem fór mjúklega með líkamann og fæturna...


Fyrsta sanddrýlið af nokkrum... snjór hér undir sem er einangraður af svörtum sandinum og nær ekki að þiðna í sumarsólinni...


Loksins komin í norðurenda Breiðalóns...


Litið til baka... sérstök mynd frá Erni...


Fimmta lónið framundan... engin eins og hvert og eitt með sinn sjarma...


Takk fyrir okkur Breiðalón.. Gjátindur líklega farinn að kíkja á okkur bak við Sveinstind... ?


Hér voru miklir sandar og för eftir mun stærra lón í vetrarham...


Við gengum eftir eldra fjöruborði...


Töfrarnir fangast vel hér...mynd frá Erni...


Takk fyrir okkur fimmta lón... mikið væri fallegt ef einhver heimamaður myndi nefna þessi lón.. einhver sem ber mikla væntumþykju fyrir þessum slóðum... og lítur á þessi lón og þessi fjöll virðingaraugum... þau eiga skilið að fá sín nöfn til aðgreiningar hvert frá öðru... það gæti til dæmis heitið "Sandalón" því kringum það eru miklir sandar...


Frá skarðinu milli lóna blasti ekki sjötta lónið við... heldur Fagrifjörður hinn frægi... þ.e. frægur meðal þeirra sem ganga kringum Langasjó... þykir sérstakur enda eini alvöru fjörðurinn í Langasjó... og hann geymir sérstaka eyju sem heitir Ást innan sinna fjörðuborða... einstaklega flottur staður...


Þjálfarar eru orðnir elliblindir... sjá ekkert á korti né á gps-tækið lengur nema ná í lesgleraugun... það er verulega heftandi fyrir fjallgöngumann... og okkur hefur lærst að láta landslagið ráða meira og lesa okkur til síðar um hvað heitir hvað... en okkur grunaði að þetta hlyti að vera Fagrifjörður EF það væri sjór á milli þarna neðar... Steinar var duglegur aðn ná í útprentaða kortið sitt og spá í örnefnin... Bára þjálfari sá svolítið eftir því að gera það ekki líka þar sem Grasver var staður sem snerti okkur mikið (ekki komin að honum hér í ferðasögunni) og maður áttaði sig ekki á því fyrr en síðar að þetta magnaða svæði vatnasviðs Skaftár héti Grasver... en nördar Toppfara eru margir og það er dýrmætt að hafa þá innan okkar raða til að spá öðruvísi í hlutina en við gerum sjálf...


Við gengum galvösk niður í Fagrafjörð... landslagið eins og enn eitt lónið... en nú var "pollurinn" hluti af Langasjó og því réttnefndur "fjörður"...


Silla, Aníta, Sjöfn Kr., Steinar R. og Örn...


Skuggar síðdegissólarinnar... bjartasti tími ársins er einstakur tími... strax síðari hlutann í júlí kemur myrkrið... og þá er þetta birtufrelsi tröllum gefið... þar til næsta sumar...


Jú... Fagralón var það og eyjan Ást... en við mundum ekki hvort ún var innri eða ytri eyjan.... og enginn nennti að gá á korti... blindu gamlingjarnir sem við vorum... eða bara í núinu að njóta og smáatriði eins og hvort væri eyjan Ást mátti uppgötvast síðar...


Sjórinn langi... öldugangur í norðargarranum og síðdegissólin bak við fjöllin nær...


Við gengum inn í sólargeislana... eina vitið að fara þennan hringinn og fá kvöldsólina á okkur austan megin... og svo morgunsólina á okkur vestanmegin morguninn eftir... við hefðum verið í skugga meira og minna ef við hefðum tekið réttsælis hring... þetta skiptir máli því sólargeislarnir gera mjög mikið fyrir mann á svona langri göngu...


Litið til baka...


Þessi kafla var sérlega skemmtilegur... í fjöruborðinu þar sem brölta þurfti í grýttri fjöru...


Oft hugsuðum við á leiðinni almennt hvort þetta væri fært... og eina leiðin var að komast að því...


Litið til baka... engar álíka myndir eins og þessar fengust á veraldarvefnumn fyrir þessa ferð... líklega af því menn eru uppteknir að ganga enda fara allir þessa leið með allt á bakinu og þá er maður ekki mikið að stoppa og taka myndir á svona köflum...


Tærleikinn í Langasjó...


Stórkostleg birtan af sólinni... svo hlý og björt...


Eflaust mörg áhrifamikil sólsetur hér við Langasjó... þess virði að koma hingað síðsumars og fanga sólarlagið að kveldi til...


Mosagrónir steinar...


Gróðurinn alls staðar að reyna að kvikna og lifa...


Mosi og lyng...


Vesturhluti Langasjávar... Breiðabakur beið okkar fyrstu klukkustundir næsta dags...


Í norðurenda Fagrafjarðar var ekki lengur hægt að rekja sig eftir fjöruborðinu og slóðinn náði upp tangann hér...


Örn fór fyrstur og rann hér niður og okkur leist ekki á þessa leið...


Lítur mun saklausar út á þessari mynd en það var...


Við ákváðum að snúa við og fara ofar til að freista þess að komast í grasinu yfir... sjá samt leiðina í lagi hér... líklega betra að fara þetta úr þessari átt en þeirri sem við komum...


Þetta var mjög bratt en vel fært í góðu grasi og mosa...


Og ofar fann Bára þennan stíg og kallaði hina hingað upp...


Já, já, þetta var fínasta leið... sjá brattann vinstra megin... þetta var mjög þétt niður...


Sýnin frá Erni sem var kominn yfir...


Bara fara varlega og þá var þetta ekkert mál... en enn einu sinni höfðum við það á orði að vera fegin að vera ekki með allt á bakinu á þessum kafla... svo gott að fara svona kafla bara léttur og með sinn vanalega jafnvægispunkt í burðinum...


Litið til baka... fínasta leið...


Komin yfir versta hjallann og komin út í norðurenda Fagrafjarðar...


Litið til baka... brekkan okkar og brúna brekkan sem Örn fór niður um... nú var sólin farin bak við ský... við vorum heppin að fá hana meðan við þvældusmst hér yfir...


Sólin bak við smá skýjaslæðu...


Norðurendi Fagrafjarðar...Komin í skugga...


Litið til baka...


Aftur sanddrýli... farinn að kvikna gróður í þeim...


Litið til baka yfir Fagrafjörð...


Sanddrýin... hópurinn og sólin í fjöllunum...


Komin upp skarðið ofan við Fagrafjörð...


Sjötta lónið...


Já... hvað skyldi það nú eiga að heita... "Hringalón" ?...


Takk fyrir okkur Fagrifjörður... aftur kominn í kvöldsólargeislana... eyjan Ást... maður skilur vel afhverju Brynhildur og Róbert Marshall hafa boðið upp á kajakferðir um Langasjó þar sem tjaldað er á þessari eyju... alger snilld... en myndbandið þeirra f þeirri ferð var eitt af því fáa sem við gátum stuðst við af youtube í undirbúningi á þessari ferð...


Hringalón var lítið og formfagurt... umkringt sandi og grasi grónum fjöllum...


Fremri skoltur heitir þessi höfði hér...


Litið til baka...


Sjöunda lónið og það síðasta áður en komið er í Grasver... og það þriðja sem ber nafn... "Austasta lón" heitir það á kortum...


Sjá hópinn smáan hægra megin að nálgast lónið..


Hlýir litir hér... það var eitthvað að breytast.... við fundum það...


Góður stígurinn hér og allt grónara en oft áður...


Við stefndum upp í fjallshlíðarnar og gps-slóðin frá Ragnari sagði okkur að nú færum við austan við Fögrufjöll og nágluðustm jökulinn óðfluga...


Nýr kafli var að hefjast á leiðinni... lóna-kaflinn var að baki... grasi gróinn kafli var framundan...


Litið til baka... Innri skoltur heitir höfðinn lengst til hægra sem varðar bæði lónin að hluta...


Hér komum við aftur upp í sólargeislana sem var alveg yndislegt...


Ótrúlegt hvað sólin gerði mikið...


Skyndilega opnaðist jökullinn... vatnasvið Skaftár og fjöllin innst í Skaftártungum við okkur í kvöldsólinni og við tókum andann á lofti...


Einn áhrifamesti kaflinn á leiðinni... engin leið að lýsa tilfinningunni hér...


Framhald í síðari hluta ferðasögunnar hér: Langisjór á einni nóttu - seinni hluti. (fjallgongur.is)

94 views0 comments

Comments


bottom of page