top of page

Langihryggur og hraunið í Nátthaga í gulu og bláu með friðarkveðju til Úkraínu

Updated: Mar 4, 2022

Þriðjudagsæfing 1. mars 2022. Æfing nr. 693.


Fimm dögum eftir innrás Rússlandsforseta inn í Úkraínu mættum við í gulu og bláu til stuðnings úkraínsku þjóðinni og sendum friðarmerkið til stríðandi fylkinga í von um að þessi skelfing vari stutt og endi sem fyrst... flestir mundu eftir þessu og fundu eitthvað gult eða blátt í fórum sínum... gamlar húfur með gulu í... íþróttafána í sömu litum og fána Úkraínu... Sjöfn klippti ermarnar af gulum bol... o.s.frv...


Æfingafjall kvöldsins var Langihryggur sem rís hér fyrir miðri mynd... en við lögðum bílunum á litla bílastæðinu vestan við veginn nokkuð neðar en efsta bílastæðið og ofar en það stóra sem við lögðum í janúar s.l...


Byrjuðum á að brölta yfir gamalt hraun þar til við komum á gamla malarveginn sem þjónar nú sem góður göngustígur fyrir ferðamenn sem heimsækja gosstöðvarnar á hverjum degi óháð veðri... það voru þó nokkrir bílar á efra bílastæðinu og fólk á ferli... en enginn á okkar slóð samt...


Hvert illviðrið á fætur öðru í janúar og febrúar... og mjög stuttur veðurgluggi kom svo þennan þriðjudag með logni og sól frá hádegi og fram á kvöldið... en þegar við lögðum af stað rétt fyrir sex um kvöldið var sólin horfin bak við háský þó hún væri ennþá ágætlega hátt á lofti... svo við nutum birtunnar nægilega lengi upp og niður...


Drykkjarsteinninn... meiri snjór nú en í janúar... en langtum minni snjór hér á Reykjanesinu en á höfuðborgarsvæðinu... allt fokið út í sjó...


Nægt vatn í Drykkjarsteininum og vatnið frosið efst... það var ekki sérlega kalt viðkomu... skyldi vera einhver varmi þarna undir... ?


Færið var frosið og keðjubroddarnir komu sér vel... enn ein gangan þar sem þeir henta fullkomlega og alger óþarfi að vera á jöklabroddum...


Vel mótaður stígur kominn alla leið upp á Langahrygg... með klaka og snjó yfir...


Falleg birta og lygnt til að byrja með... en það var spáð hratt vaxandi vindi þetta kvöld... og sú spá rættist... gengum upp í lygnu veðri en fengum svo hávaðarok efst á tindinum og í bakaleiðinni var mjög hvasst niður þar til komið var í skjól...


Heilmikil umferð þarna upp miðað við sporin sem voru á stígnum... en enginn var þarna nema við...


Komin að útsýnisstaðnum þar sem hraunið í Nátthaga blasir við og gígurinn trónandi efstur...


Svakalegt magn af hrauni í nokkrum dölum þarna niðri...


Langihryggur er langur... við héldum áfram upp...


Mikið spjallað og spáð í komandi göngur og varaplön með þær...


Skála-Mælifell... sem við höfum einu sinni gengið á með fjallinu Slögu sem rís vestar og nær gönguleiðinni...


Brúnin þar sem mjög fallegt er að staldra við og skoða Nátthafa ofan frá...


Gönguleiðin upphaflega að gosinu þarna hinum megin... nú liggur hraunbreiðan yfir brekkuna sem var aðalverkefnið á sínum tíma fyrir alla sem komu að skoða gosið... mikið vatn runnið til sjávar síðan þá...


Gígurinn þarna uppi... mjög stór og margfalt stærri en sá fyrsti... sem við gengum hringinn í kringum... tindur Langahryggjar hægra megin... og tindur Stóra hrúts fjær... glittir í Meradalahnúka enn fjær... vinstra megin er Langihóll í Fagradalsfjalli líklegast...


Ennþá viðraði vel og við stefndum á hæsta tind Langahryggjar...


Sjá hvar hitinn kraumar ennþá í hrauninu... þar er það svart... en snjór annars liggjandi yfir köldu hrauni...


Stuttur kafli ofan á hryggnum á góðri leið... en hér tók að hvessa all verulega... og þegar við komum á tindinn var orðið bálhvasst og varla stætt...


Við bisuðumst við að njóta og horfa á dýrðina... en það var varla að maður gæti staðið... smá skjól af mastrinu en varla...


Mjög flott að sjá yfir gíginn og hraunbreiðuna Nátthagamegin... úr hvarfi ofan af Langahrygg er allt hraunmagnið sem rann niður í Meradali... en við gengum framhjá þeirri breiðu í þveruninni yfir Ísland um legg tvö í lok janúar... þar sem við dáleiddumst um hraunjaðarinn... Fjögurra tinda ganga legg 2 yfir Ísland frá Stóra Leirdal um stórkostlegar gosstöðvarnar að Keili. (fjallgongur.is)

Aftur hópmynd og nú náðu Katrín Kj. og Guðmundur Jón að vera með... það var varla hægt að taka þessa mynd fyrir roki... við lögðum beint af stað niður þegar hún var búin :-)


Efst þurfti að hafa sig allan við að standa og detta ekki eða fjúka til... magnað að sjá hvernig hraunið fyllir dalinn eins og stöðuvatn...


Á niðurleiðinni tók að rökkva... ef við færum hálftíma seinna úr bænum... hefðum við fengið myrkur hér og rökkur uppi á tindinum... þetta munar ótrúlega í birtu að fara svona snemma af stað...


Sjá ljósin í Grindavíkurbæ í fjarska... svo fallegt alltaf í ljósaskiptunum...


Skála-mælifell... í stíl við Krýsuvíkurmælifell sem er þó formfagurra og brattara... alveg kominn tími á að endurtaka göngu á þetta fjall og Slögu... en við eigum ennþá eftir lægri fell á þessu svæði sem vilja komast að á þriðjudegi... best að setja þau fyrst á dagskrána...


Þegar niður var komið tókum við smá krók út af leiðinni að hraunbreiðunni... það var að skella á myrkur... og hávaðarok... en við þrjóskuðumst við að taka þennan krók.. og sáum ekki eftir því...


Hér hefði verið skemmtilegra að vera í meiri birtu... en töfrarnir sem við fengum í janúar voru líka hér... hér er vel hægt að gleyma sér í langan tíma... hér er vel þess virði að koma með erlenda gesti eða bara taka göngu hingað og upplifa þennan hita og þessa formfegurð sem er í þessu nýja hrauni... sem smám saman er að kólna og harðna þó enn sé mjög mikill hiti í því... rjúkandi um allt...


Mynstrin alls konar...


... sem og litirnir... sjá gufustrókinn...


... en þar sem snjórinn hélst... var augljóslega minni hiti...


Við gáfum okkur ágætis tíma hér en héldum svo áfram...


Magnaður staður ! ... einhver sérstök orka...


Það virtist liggja stígur frá efra bílastæðinu að þessym hraunjaðri svo það er engin spurning að ganga þaðan og skoða þetta hraun...


Við gengum rösklega til baka í bílana yfir snævi þakið gamla hraunið í myrkrinu með svo sterk höfuðljós að það hálfa væri nóg...


ATH ljósmynd !


Katrín Kjartans prjónaði vettlinga í stíl við fána Úkraínu...


... og Bára þjálfari prjónaði húfu í fánalitum þessa lands sem skyndilega er ráðist inn í... sama hvað allri landapólitík líður... þá er þessi innrás skelfileg og veldur þjáningu milljóna manna og geysilegri eyðileggingu í fátæku landi sem mátti ekki við þessum ófriði... þyngra en tárum taki...


Hjartansfriður til Úkraínu og Rússlands... til rússnesku hermannanna sem líklega vita fæstir hvers vegna þeir eru í þessum leiðangri... til allra þeirra sem þjást í Úkraínu og Rússlandi vegna þessa gamaldags mikilmennskubrjálæðis eins manns og félaga hans í innsta hring...


Alls 7,4 km á 2:10 klst. upp í 354 m hæð með 398 m hækkun úr 68 m upphafshæð.


Enn ein illviðrasama helgin framundan með lítilli glætu fyrir alvöru fjallgönguferð... sjá breytingar á dagskránni vegna þessa og umræður á lokaða fb-hópnum okkar...

43 views0 comments
bottom of page