Látrabjarg - Keflavík - Rauðisandur. Eins manns ofurganga yfir nótt
- Bára Agnes Ketilsdóttir
- Aug 12
- 7 min read
Smári Freyr Guðmundsson - reynslusaga þann 14. - 15. júlí 2025

Látrabjarg - Keflavík - Rauðasandur | Næturganga 14. - 15. júlí 2025
Komið sæl kæru Toppfarar!
Mig langar að deila með ykkur smá ferðasögu. Gjörið svo vel:
Mig hafði lengi langað að ganga Látrabjargið en það hvarflaði seint að mér að gera það að næturlagi. Hugmyndina fékk ég eftir að hafa skráð mig í næturgöngu um Strútsstíginn með Toppförum sem átti að vera í lok júní en féll niður vegna veðurs. Ég komst heldur ekki í þá göngu á varadagsetningum svo ég ákvað að halda upp í eigin næturgöngu einsamall.

Að ganga um stórbrotið íslenskt landslag í miðnætursól er eitthvað sem allir ættu að prófa a.m.k. einu sinni. Sérstök birtan og þögnin eru engu lík. Stöku sinni mætir maður e.t.v. lóu sem fylgir manni góðan spöl og er félagsskapurinn velkominn þótt ekki sé nema í stutta stund í einu.

Gangan hófst við vitann á Látrabjargi, vestasta hluta Íslands. Þangað var mér skutlað af traustum heimamanni. Ég var vel búinn og öllu viðbúinn en um leið og ég steig út úr bílnum kom fljótt í ljós að miðlagið eitt og sér mundi ekki duga. Það var mjög hvasst en hlýtt og úrkomulaust. Ég skellti mér í vettlinga, húfu og skeljakka. Hófst þá gangan.

Bjargið - 1. hluti
Ferðin hófst á bílaplaninu við bjargið klukkan 19:51. Ég gekk að enda plansins og að vitanum og byrjaði því gönguna alveg frá vestari enda bjargsins. Ég fór meðfram grösugum brúnunum og var duglegur að nema staðar og njóta útsýnisins og virða fyrir mér fuglalífið en fyrstu kílómetrarnir voru síður en svo einmanalegir. Fyrir utan stöku ferðamann þá einkenndist félagsskapurinn af lundum, álkum, mávum og fleiri fuglum úr bjarginu. Á þessum kafla var nokkuð skörp norðanátt með 9 - 10 m/s en annars úrkomulaust og ágætt skyggni. Það mátti vera hlýrra en ég þurfti að nota vettlinga allan tímann.

Bjargið - 2. hluti
Áður en ég vissi var ég kominn það langt að meðfram bjarginu að það var engum manni að mæta. Eflaust hafði tími dags og veður einhverju um að ráða þar en þarna var klukkan orðin um 22 og farið að hvessa meir. Skyggni var ágætt til að byrja með en þegar aðeins lengra leið á þá tók við kuldaleg þoka ásamt rokinu sem ég spái að hafi verið um 20 m/s að meðaltali. Þrátt fyrir enga úrkomu þá var rakinn í loftinu slíkur að ég var farinn að blotna frá toppi til táar. Ég fór því í skelbuxur á þessum tímapunkti.
Ég hélt leið minni áfram en hélt mig nú ekki lengur eins nálægt brúnum og áður sökum hvassviðrisins. Því lengra sem ég gekk hélt bjargið áfram að hækka. Eftir að hafa náð einum toppi leyndist alltaf annar hærri í þokunni framundan.

Bjargið - 3. hluti
Eftir talsvert labb í þoku og roki var klukkan farin að nálgast miðnætti. Leið mín um bjargið var um það bil að verða hálfnuð. Skyndilega greindist stígurinn, ég gat haldið áfram eða beygt til hægri. Ég sá á GPS-inu að þarna var talsvert útskot í bjarginu sem hægt var að labba út á, einhver örfá hundruð metra fram og til baka áður en haldið var áfram meðfram bjarginu til austurs.
Ég ákvað að taka þennan stutta krók. Áður en ég vissi var ég genginn út úr þokunni og þar sem ég stóð á útskotinu blasti við mér - og nú ætla ég að leyfa mér að nota stór orð - ótrúlegasta sjón sem ég hef orðið vitni að í göngum mínum: til austurs og vesturs stóðu björgin og þykk þokan steyptist fram af þeim eins og risavaxnir fossar sem streymdu niður af bjargbrúnunum niður í hafið þar sem þeir leystust upp. Kvöldsólin braust í gegnum þokumúrinn og lýsti þokufossana upp. Til austurs sá ég fleiri þokufossa steypast niður í sæinn marga kílómetra frá mér. Í fjarska í sömu átt beið mín áfangastaður minn, umlukinn sól.
Beint framundan, til suðurs, blasti allur Breiðafjörðurinn við ásamt Snæfellsnesi. Í fjarska sást til Snæfellsjökuls og tveggja skemmtiferðaskipa sem voru að yfirgefa Vestfirðina. Ég átti mjög erfitt með að halda áfram ferð minni, mér fannst ég vera að missa af ef ég héldi af stað aftur inn í þokuna. Eftir þetta áttaði ég mig á því að á meðan ég gekk í þokunni og rokinu á bjargbrúninni, þá var ég að ganga inni í þokufossunum áður en þeir fóru fram af.
Í kjölfarið af þessu komu nokkrir dalir og lægðir þar sem ég þurfti að ganga niður og aftur upp, stundum með talsverðu klifri og háum púlsi. Þungir fætur, hraður púls og mikil mæði. Ég kleif upp úr síðustu lægðinni og komst að lokum upp á veginn sem liggur til Keflavíkur. Bjargbröltinu var lokið.

Keflavík
Vegurinn til Keflavíkur var kærkomin pása frá klettum og grösugum ójöfnum. Sömuleiðis var kyrrðin líka kærkomin en vindurinn hafði minnkað umtalsvert á þessum tímapunkti. Klukkan var að nálgast þrjú og það eina sem heyrðist var daufur vindur, mín eigin fótspor og tíst í nokkrum lóum sem fylgdu mér alla leið niður í Keflavík. Þær héldu vökulu auga yfir mér og vöruðu hverja aðra við þeirri miklu hættu sem stóð af mér.
Eftir um þriggja kílómetra gang var ég kominn niður í Víkina. Þar rennur eina áin sem er á þessari leið og einnig einu lækirnir. Vatnið þar er ekki spennandi til drykkju og mundi ég persónulega ekki drekka það nema ég væri í lífshættu vegna vökvaskorts. Áin er full af slími og svörtum mosa. Lækirnir renna í þröngum skítugum skurðum. Ég er góður sko. Vitandi af þessu gekk ég sparlega á vökvabyrðarnar mínar en ég hafði tvo lítra meðferðis en það dugði rétt svo.

Keflavík er mér ekki ókunnug en þangað gekk ég á sama tíma í fyrra frá Sauðlauksdal. Í fyrra endaði ég ferðina þar og gekk veginn áleiðis til vesturs og var sóttur. Núna var andrúmsloftið nokkuð öðruvísi, í næturhúminu. Það var eiginlega svolítið drungalegt, vitandi að þarna séu gamlar bæjartóftir og að þarna varð sjóslys árið 1698 þar sem að fórust sex franskir sjómenn. Talið er að þeir séu grafnir í malarholti einu sem er í neðanverðri víkinni. (Heimild: https://kollsvik.is/verid/122-skipstroend-i-raudhasandshreppi)
Ég hreyfði mig því hratt í gegnum víkina og upp á fjall sem aðskilur Keflavík og Rauðasand. Það kom mér á óvart hversu góð leiðin upp á og yfir fjallið er. Það er vel stikuð og troðin slóð sem leiðir mann alla leið yfir á Sand.
Ég veit af annarri leið sem ég lagði ekki í að prófa einsamall að nóttu til. Þá er gengið niður fyrir fjallið í fjörunni. Þar er einhvers konar klettur sem stendur í vegi manns og í honum á að vera einhvers konar gat sem þarf að troða sér í gegnum. Mér er sagt að það sé mjög þröngt og leiðin áhættusöm þess vegna og ekki síst einnig vegna mögulegs hruns úr klettunum fyrir ofan. Ég ímynda mér að skyndilegt flóð í fjörunni geti verið til vandræða líka. Ég prófa þetta kannski síðar.

Rauðasandur
Loks blasti Sandurinn við mér. Leiðin niður af fjallinu var mjög brött en í brattanum var búið að stika góða leið sem "sikk-sakk"-aði til hliðanna til að lágmarka brattann.
Klukkan var að nálgast 4:30 þegar ég kom niður á Sand. Sólin var að koma upp fyrir fjöllin og veðrið var fallegt og stillt. Ég áttaði mig ekki strax á hversu langt var til byggða frá þessum vestasta hluta Sandsins. Það reyndist mun lengra en ég hafði áætlað eða um fimm kílómetrar að sveitabænum við Lambavatn. Ég gekk þreyttur og þungfættur yfir sanda og grös þangað til ég kom að bænum. Ég þurfti að fara yfir hlið og í gegnum hlaðið til að komast leiðar minnar að veginum. Ef það var illa séð þá bið ég bændur og búalið hér með afsökunar.
Við tók langur, mjög langur og beinn malarvegur. Á vinstri hönd heyrði ég fjarlægan mávahlátur í klettunum og í fjarska runnu þokubakkar fram af brúnum þeirra, líkt og á Látrabjargi. Ég fylgdi veginum langa og fékk félagsskap frá kríunum og fleiri fuglum. Ég mætti líka einni tófu á leiðinni.

Að lokum kom ég að Saurbæjarkirkju og Franska kaffihúsinu þar sem að ferðinni lauk.
Ég lauk ferðinni talsvert fyrr en ég hafði ætlað mér og þurfti því að bíða talsverðan tíma eftir að vera sóttur. Mér láðist að kanna hversu lengi aðrir höfðu verið að klára þessa leið. Ég lagði af stað rétt fyrir kl. 20 en best hefði verið að fara af stað um kl. 23 til þess að sleppa biðinni löngu eftir því að sóknaraðilar mínir vöknuðu og færu á fætur. Ég gerði nokkrar teygjur og lagði mig svo í berjamó með sólgleraugu og vargskýlu þangað til ég var sóttur rétt fyrir kl. 9.

Þessi leið var engu lík og fær full meðmæli frá mér, ef einhver skyldi efast eftir þennan lestur. Ekki forðast að fara hana ef spáð er roki og skýjum því að ykkar gæti beðið ótrúlegt sjónarspil. Munið bara að fara varlega nálægt háum brúnum í rokinu.

Ýmsar upplýsingar og tölfræði
Upphafstími og staðsetning: 14. júlí 2025 kl. 19:51, Látrabjarg, bílaplan.
Lokatími og staðsetning: 15. júlí 2025 kl. 06:47, Franska kaffihúsið á Rauðasandi.
Heildartími: 10 klst., 55 mínútur og 48 sekúndur.
Hreyfitími: 8 klst., 4 mínútur og 14 sekúndur.
Vegalengd (heildar): 33,12 kílómetrar
Vegalengd (Bjargið - Keflavík): Ca. 15 kílómetrar
Vegalengd (Keflavík - Rauðasandur): Ca. 5 kílómetrar
Vegalengd (Rauðasandur vesturendi - Franska kaffihúsið): Ca. 9 kílómetrar
Söfnuð upphækkun: 1.771 metri.
Söfnuð niðurlækkun: 1.797 metrar.
Veður (Bjarg): 10° C, þoka mest af, 10 - 20 m/s. Úrkomulaust.
Veður (Keflavík): 10° C, léttskýjað, 5 - 7 m/s. Úrkomulaust.
Veður (Rauðasandur): 12 - 14° C, léttskýjað, 5 - 7 m/s. Úrkomulaust.
Stuðst var við leið eftir TrekkingBaer á Wikiloc: https://is.wikiloc.com/fjallaferd-slodir/von-latrabjarg-nach-rothasandur-13895541
----------------------------- Frásögn lýkur ----------------------------------------------
Frá þjálfara undir færsluna á fb, set hana hér til að lýsa hughrifunum sem margir urðu fyrir við að lesa þessa frásögn:
"Þetta er mögnuð ferðasaga Smári !
Hvílíkir töfrar, vá, þessir þokufossar, þú nærð einmitt að fanga tilfinninguna að ganga að nóttu til og eins að glíma við að vera einn á ferð og eins að yfirstíga þreytuna og upplifa umhverfið svona óskaplega sterkt, sem maður gerir einmitt yfir nóttina og ef eins maður er einn á ferð. Gleymi aldrei himbrimanum sem dæmi á Langasjó 2023 o.m.fl. í ofurgöngunum. Þetta er einhver sérstök nánd við landið, dýrin og sólarganginn. Engin leið að lýsa þessu en ég upplifði þetta sterkt við að lesa lýsinguna þína.
Afrek að gera þetta einn að nóttu til við þessar aðstæður, rok, kulda og þoku. Aðdáunarvert... hefði verið auðvelt að hætta við sem þú gerðir ekki
Takk kærlega fyrir að deila, ég set þessa sögu í reynslusögusafnið okkar á vefsíðunni, mikill fengur í þessari sögu.
Ég yrði ekki hissa þó þú sért kominn á bragðið með þetta, bæði að ganga yfir bjarta sumarnótt og eins að fara í svona göngu einn á ferð. Það er ávanabindandi
Þetta tvennt er svo geggjað sem viðbót við þetta venjulega, annaðhvort er maður kominn á bragðið eður ei, þetta er ekki létt og þetta tekur á en upplifunin er svo hrein og tær og sterk og þú nærð að fanga það í lýsingunni."
Kærar þakkir fyrir hreinu og tæru snilld, þessi reynslusaga gleymist aldrei þeim sem lesa !
Þakkir fyrir skemmtilega frásögn kæri systursonur. Mér finnst skylt að segja, að þarna varstu á slóðum forferðnana, því móðurafi þinn, Guðfreður Einar Sigurðsson ( 1903-1971) var síðasti ábúandi í Keflavík um 1930. Myndin er tekin af myndasmið sem var í heimsókn 1932. Tvíbýli var í Keflavík.Lengi vel var þessi mynd á vegg í Skipbrotsmannaskýlinu, en einhver hefur tekið hana ófrjálsri hendi.Pabbi sagði mér þá sögu að einu sinni þurfti hann að sækja lækni yfir í Patreksfjörð og fór fótgangandi fjallveginn yfir í Sauðlauksdal. Lenti hann í svo vondu veðri að fötin rifnuðu af honum í orðins fyllstu merkingu.Ég fór þessa "pílagrimsgöngu" 1987 og sama segi ég þetta gerir sálina betri og setur mann inn í gamlan tíma og hugmyndir u…