Monte Rosa og svo Perrons traverse í stað Matterhorn með #AsgardBeyond - saga Anítu og Sjafnar
- Bára Agnes Ketilsdóttir

- Sep 5
- 17 min read
Updated: Sep 18
Tindferð nr. 337 dagana 1. - 10. júlí 2025

Eftir áralangt samstarf við þá félaga í Asgard Beyond var aftur kominn tími á að fá krefjandi fjallgönguferð með þeim í Ölpunum... og þar sem hugmyndir höfðu kviknað um Monte Rosa og Matterhorn í Mont Blanc ferðinni í fyrra, árið 2024... var ekki aftur snúið og þeir félagar buðu hópnum upp á magnaða ferð árið 2025 um Monte Rosa fjallgarðinn í heild þar sem menn gætu svo endað á Matterhorn ef smekkur væri fyrir því að sigra hið þekkta, bratta og krefjandi fjall.
Úr varð að fjórir Toppfarar, þau Aníta, Inga, Jón Odds. og Sjöfn Kristins stukku á þetta tækifæri og skráðu sig í ferðina sem var 1. - 10. júl 2025.
Ferðin fór ekki eins og upp var lagt með... frekar en árið 2024... né 2017... en það er þetta með varaplönin... þau geta stundum toppað það sem er á dagskránni... að ekki sé talað um að hlutirnir þróast stundum öðruvísi á ferðalagi en nokkur maður gat gert sér grein fyrir... hér kemur frásögn tveggja úr þessari ferð... fyrst Sjafnar Kristinsdóttur og svo Anítu Sigurbergsdóttur þar sem margt fór öðruvísi en áætlað var, en ævintýrið varð stærra fyrir vikið:
Frásögn Sjafnar Kristinsdóttur:
Monte Rosa hringurinn 2-6 júlí 2025

Þann 2-6 júlí 2025 fór ég hinn svokallaða Monte Rosa hring, öðru nafni Spaghetti Traverse, í Sviss og Ítalíu með fjallaleiðsögumönnum frá Asgaard Beyond. Þeir eru Jón Heiðar, Róbert og Bjartur.

Við vorum fimm, 4 Toppfarar þ.e. Aníta, Inga, Jón Odds (Nonni) og ég og svo hann Óli sem ætluðum þennan hring og flest okkar ætluðu síðan að hringnum loknum að reyna við Matterhorn. Ferðin hófst og henni lauk í Sviss, og á jöklinum vorum við ýmist í Sviss eða Ítalíu, t.d. voru allir skálarnir í Ítalíu nema sá síðasti.

Þetta er ganga á jökli þar sem farið var upp á 11 tinda sem allir eru vel yfir 4000 metrunum og sofið í fjallaskálum sem flestir eru í kringum 3500 mys. Við gengum í línu allan daginn á ísbroddum, upp og niður snævi þakin fjöllin og stundum fengum við klettabrölt að auki.
Ég fann alveg fyrir hæðinni , var alltaf móð og másandi upp brekkurnar, en sem betur fór fékk ég ekki neina hæðarveiki, það voru líklega 3 Paratabs sem ég innbyrti í öllum túrnum við vægum höfuðverk.

Við vorum heppin með veður, oftastnær var bjart yfir og sama og engin úrkoma. Þannig að útsýnið yfir undurfagra jöklaveröldina var yfirleitt með ágætum.
Þetta var vissulega krefjandi ferðalag, meir en ég átti von á, líklega vegna hæðarinnar. En alveg erfiðisins virði, þvílík upplifun. Og til að toppa það þá voru ferðafélagarnir frábærir og leiðsögnin af bestu gerð.

Lengi vel voru bara við Toppfararnir fjórir skráðir en skömmu fyrir brottför bættist hann Óli við – og sem betur fer segi ég, því ekki aðeins fengum við frábæran ferðafélaga, heldur varð það til þess að bætt var við einum gæd, sem kom sér vel þegar Aníta veiktist og þurfti að fara niður með þyrlu. Þar með gat einn gæd, Jón Heiðar, farið með henni, hjálpað henni í sínu basli – og verið með henni í alls konar aktívíteti þegar skvísan fór að hressast – svo túrinn varð þrátt fyrir allt geggjaður hjá henni líka, bara öðruvísi geggjaður en til stóð í upphafi !
Ég er mjög löt að trakka og halda utan um þetta tölulega, svo þegar Bára bað mig að skrifa ferðasögu til að hafa í safninu, þá bað ég hann Óla að redda mér slíku, því hann er alveg meððetta !
Þannig að tölurnar eru hans.
Þessi frásögn er eingöngu frá mínu sjónarhorni sögð, enda er hún mjög lituð af minni upplifun. Ósennilegt er að frásagnir hinna væru eins og mín, því það er svo misjafnt hvað nær athygli hvers og eins, hvað stendur uppúr hjá fólki, hvað fer framhjá manni o.s.frv. Og ekki síst hvernig maður er stemmdur en við Toppfararnir áttum öll okkar basldag, skiptum þeim bróðurlega á milli okkar, en Óli var alltaf eins og nýsleginn túskildingur.
Dagur 1
Ferðin hófst í Zermatt í Sviss, en þaðan tókum við kláf upp til Klein Matterhorn (3883 mys) þar sem gangan byrjaði. Þennan fyrsta dag gengum við á tvo tinda, Breithorn west (4164 ) og Breithorn mid (4156). Ganga dagsins endaði í Rifugio Ayas (3420) og varð 9,2 km og hækkun dagsins var 588 m.

Samkvæmt planinu átti líka að fara á Pollux, en þar sem spáði þrumuveðri upp úr hádeginu var honum sleppt og átti að athuga með að taka hann daginn eftir, með Castor bróður sínum, en í grísku goðatrúnni eru þeir Pollux og Castor bræður.
Strax þarna fann Aníta fyrir hæðarveiki og við tók erfið og ömurleg ferð hjá henni niður í skála. Henni bara versnaði eftir sem á leið þó við værum að lækka okkur. Ég var í línu með henni, fyrir aftan hana og það var ömurlegt að horfa upp á göngufélaga og góða vinkonu þjást eins og hún gerði og geta líti annað gert en að létta pokann hennar og reyna að hvetja og hughreysta. Þrumuveðrið var í aðsigi og það varð að halda áfram. Hún sýndi ótrúlega seiglu og ákveðni, það var aldrei um uppgjöf að ræða hjá henni.

Aníta skrifar sjálf sína ferðasögu svo ég er ekki að tíunda neitt hér. En við vorum eðlilega öll í rusli, þetta var jú fyrst og fremst ferðin hannar, sem hún var búin að leggja svo mikið í – þetta var algjörlega absúrd staða. Kvöldið og nóttin liðu í óvissu, það átti að sjá til hvernig hún yrði um morguninn. (sjá ferðasögu Anítu hér neðar NB).

Dagur 2
Gangan þennan dag var einnig á 2 tinda, Castor (4223) og Felikhorn (4174) og endaði í skálanum Rifugio Quintino Sella (3585). Við gengum 6,3 km og hækkunin var 941 m.

Þegar þessi dagur rann upp var ljóst að Aníta var hættulega veik og þyrfti að komast undir læknishendur. Kallað var á þyrlu sem kom skömmu síðar og Aníta og Jón Heiðar voru flogin brott eins og hendi væri veifað.
Lífið heldur alltaf áfram og við hin héldum áfram. En það var fremur hnípinn hópur sem hélt frá Ayer skála upp í fjöllin, áleiðis að hinum stórfenglega Castor.

Ég reikna með að við höfum lagt eitthvað seinna af stað en til stóð vegna veikindanna og þyrluflugsins og ákveðið var að sleppa Pollux en stefna strax á Castor. Það er hrikalega flott fjall með þvengmjóum snjóeggjum sem gönguleiðin liggur eftir. Þar var eins gott að vanda hvert skref og hugsa um það sem maður var að gera. Reglan er sú þegar gengið er í línu í bratta, að upp brekkurnar er gædinn fyrstur, en á niðurleiðinni snýst þetta við og sá síðasti verður fyrstur. Þennan dag var ég öftust í minni línu, svo ég var fremst að ganga grindhoraðan snjóhrygginn niður. Það var æðislegt ! Mér fannst ég bæði vera svo lítil en líka svo stór, alveg bólgin af ábyrgð og einhverskonar stolti. Og hafði allt útsýnið fyrir mig, enginn rass á næsta manni í augsýn. Og maður hamaðist við að reyna að átta sig á núinu og njóta – já ég er í alvöru hér að gera þetta !!!

Þegar leið á gönguna fóru að berast góðar fréttir af Anítu, svo áhyggjur okkar minnkuðu og við nutum þess að vera í fínu veðri í þessum glæsilega fjallasal.

Maður fann samt vel fyrir hæðinni, að vera yfir 4000 metrunum, móður og másandi í öllum brekkum. Ég var að gera mér vonir um að ég myndi venjast þessu og aðlagast, en svo varð nú eigi, frekar á hinn veginn.
Árið áður gekk ég nefnilega á Aiquille du Tour sem er í rúmum 3500 mys og það fannst mér skítlétt og fann varla fyrir mæði þar, svo ég hélt ég myndi nú rúlla þessu upp, en veit núna að það munar um hverja hundrað metrana.
Þessi dagur var fremur stuttur og vorum víð því nokkuð snemma í skála, Quintino Sella.
Fjallaskálarnir

Skálarnir sem við gistum í voru flestir í kringum 3500 m. Sá síðasti og jafnframt sá nýtískulegasti var í tæpum 2900 m. Við heimsóttum einnig skálann Margherita hut síðasta toppadaginn, en það er sú bygging sem hæst stendur í Evrópu, 4554 mys uppi á fjallshrygg.

Mér er sagt að hann vaggi þar í roki, og hæðarinnar vegna eigi margir erfitt með svefn þar, geti t.d. vaknað upp og finnast þeir vera að kafna. Enda var hann upphaflega reistur (árið1893) í vísindalegum tilgangi, einmitt til að rannsaka hæðarveiki.

Til stóð í upphafi að við gistum þar síðustu nóttina, en svo var planinu breytt og í staðinn vorum við í lúxusskála í tæpum 2900 m, Monte Rosa hut. Ég var í aðra röndina drullusvekkt yfir að fá ekki að prófa að gista í þessum magnaða, gamla skála, þar sem bakaðar eru pizzur ( Margarítur að sjálfsögðu) og framreitt expressókaffi úr vél, en á hinn bóginn var mjög næs að bara koma þar við í hádegismat og dvelja síðan í lúxusnum að göngu lokinni.

Það er alveg upplifun að gista í þessum fjallaskálum, þú kemur á broddunum og öllum gírnum, tekur af þér og setur í körfu eða hólf venjulegast við innganginn og finnur þér svo passlega krokkskó til að nota í skálanum. Svefnplássin eru í misstórum sölum/herbergjum svo maður sefur aldrei einn. Gott er því að hafa eyrnatappa. Allstaðar eru koddar og sængur í boði og maður notar svo bara lænerinn sem maður hefur meðferðis.

Klósettin eru oftastnær „gat í gólfi“ – venst frekar illa, enda geggjað að komast á venjulegt og hreint klósett í Monte Rosa skálanum síðustu nóttina.

Í öllum skálunum er veitingasala þar sem er bar og hægt að kaupa sér einfalda smárétti. Ég nýtti mér svo sannarlega að fá mér einn ískaldan bjór um leið og ég var kominn úr göngunni, og stundum súpu eða samloku ef langt var í kvöldmatinn. Hann var alltaf þríréttaður, venjulega kl 19, stundvíslega fram borinn og gekk hratt fyrir sig. Fyrstu tvö kvöldin var roast beef í aðalrétt svo ég var himinlifandi þegar ég sá kjöt á beini 3ja kvöldið. Þetta var allt hinn ágætasti matur og vel úti látinn.

Morgunmaturinn var fremur einfaldur, miseinfaldur. Alltaf gastu mixað þér einhvern spónamat, alltaf var brauð, smjör og sulta og stundum fleira álegg, einu sinni egg. En lystin var heldur ekki upp á marga fiska um miðjar nætur, því dagurinn byrjaði alltaf snemma. Man ekki nákvæma tíma, en held við höfum oftast verið að vakna um kl 5, stundum fyrr. Það er öðru vísi taktur þarna uppi í fjöllunum/jöklinum. Það var betra að vera með fyrstu línum til að lenda ekki í biðröðum þar sem þurfti að klifra, svo var líka kapphlaup við að sólina og „sósusnjóinn“ og síðan gat verið von á þrumuveðrum upp úr hádeginu. Þannig að það var iðulega farið snemma af stað og frekar verið í hraða gírnum.

Dagur 3
Þrír toppar þennan daginn, Naso del Lyskamm (4272), Balmenhorn ( 4167) Vincent Pyramid (4215). Vegalengd rétt tæpir 11 km, hækkun 1135m. Enduðum í skálanum Rifugio Gnifetti (3647).

Mjög skemmtilega fjölbreyttir toppar þennan daginn. Gangan á Naso del Lyskamm var að hluta til klifur, Balmenhorn var bara svona klettur sem var með „hjálpartækjum“ þ.e. járnfótstigum, keðjum o.þ.h. og svo einhver jesústytta á toppinum. Vincent Pyramid var síðan svona ekta snjóbunga með geggjuðu útsýni af. Svolítið var maður að íslenska örnefnin, t.d. fékk Balmenhorn íslenska nafnið Smyrslabaukurinn !

Þegar við vorum að príla á Naso lagðist yfir okkur þoka, en sem betur fór varði það ekki lengi og útsýnið kom aftur, yfir alla dýrðina sem þarna er. Við vorum yfirleitt heppin með veðrið, það gerðist af og til að skýin lögðust yfir okkur, en það stóð aldrei lengi og aldrei rigndi.

Eðlilega var svalt í byrjun göngudags, og úlpan var alveg notuð, en mjög oft var maður einnig bara á innsta laginu.

Dagur 4
Þetta var síðasti toppadagurinn, tókum 4 toppa: Corno Nero (4321), Ludwigshöhe (4343), Parrotspitze (4434) og Signalkuppe/Margherita hut (4554).
Vegalengd 14,33 km, hækkun 1252m, lækkun 1671 m.

Þessi dagur er og verður mér óvenju minnisstæður, fyrir ýmsar sakir.
Fórum óvenju snemma af stað, í myrkri með höfuðljós. Við þurftum að vera fyrsta lína að Corno Nero, sem er klifurfjall, til að lenda ekki í óbærilegum biðröðum.
Frá Gnifetti skálanum að Corno Nero eru ca 670 m hækkun og það var þrammað án þess að stoppa, í að ég held ca 2 tíma, í hraðara tempói en áður. Þetta fór bara ekki vel í mig. Í stað þess að hafa vanist hæðinni smátt og smátt þessa göngudaga og ná stjórn á mæðinni, þá fannst mér ekkert slíkt hafa gerst og ég þoldi illa þetta tempó.

Ég varð svo þreytt, ég hef aldrei áður orðið svona ofboðslega þreytt - held ég sé farin að skilja hugtakið örmögnun núna. Öll orka og hugsun fór bara í að hreyfa fæturna vélrænt áfram. Slökkti ekki á höfuðljósinu þó væri orðið bjart, það fór of mikil orka í það, horfði ekki í kringum mig, það fór of mikil orka í það – þetta var gangan þar sem ég horfði bara á skóna mína og sá að stundum duttu slefdroparnir mínir á skóna, stundum í snjóinn....
Við tókum fram úr nokkrum línum, en um síðir þegar taka átti fram úr enn einni, þá bara stoppaði ég og hneig niðrá stafinn minn – ég varð bara að fá smáhvíld og anda.

Það varð bara örstopp en nóg til þess að ég gat haldið áfram – og við tókum fram úr einni línu enn – og við náðum að vera fyrsta lína að Corno Nero ! Og þar var stoppað og stytt í línum og klifrið undirbúið svo ég fékk góða hvíld þar. Klifrið sjálft var bráðskemmtilegt og þá var sko engin þreyta, en ég skalf svo mikið af áreynslunni áður, auk þess sem það var jú skrambi napurt þarna, að ég hristist eins og ég væri að vinna á höggbor. Uppi á toppinum var maríustytta og það var ljómandi gott að halda um hausinn á henni svo maður hristist ekki niður af klettinum.

Næsti toppur var Ludwigshöge, okkur fannst betra að kalla hann Lúðvíkshöfða. Ég man ekki mikið eftir göngunni upp á hann því stóru vöðvarnir mínir í rassi og lærum hófu harmakvein á ný og mæðiveikar rollur hefðu bliknað í samanburði við mig. Og í stuttu stoppi á toppinum þurfti ég að vesenast við að laga broddana mína, svo athyglin og orkan fór í það bras. Bjartur aðstoðaði mig við það, og ég man að ég sagði við hann „að það væri engin brekka of brött eða of löng, en ég yrði bara að fá aðeins hægara tempó“.

Síðan var það Parrot spitze, og það var nú toppur sem mér líkaði vel. Gangan þangað upp var einnig lituð af öskrandi vöðvum og mæði, en uppi var stoppað í svona dæmigerðu Toppfaranestisstoppi, þ.e. sest á rassgatið og helvítis nestið étið ! Þarna náði ég vopnum mínum nokkurn veginn aftur, og andagiftin kom meira að segja yfir mig svo ég gaf Parrot spitze íslenska nafnið Gauksgnípu. Gauksgnípan er verulega flott fjall, minnti á Castor því það voru svona mjóar og spennandi snjóeggjar til að ganga eftir og útsýnið um fjallasali nær og fjær klikkað.

Þarna spurðu strákarnir, þ.e. Robbi og Bjartur, hvort við vildum bæta við fjórða toppinum, þ.e. Signalkuppe, og kíkja í pítsu í Margherita hut. Fjallið blasti við okkur og skálinn á toppi þess bar við himin – auðvitað vildum við fara þangað. En þetta var bara hægt að ákveða þarna á þessum tíma, því dagskrá dagsins var mjög stór og ekki víst að þessu yrði við komið, en þarna var ljóst að okkur hafði gengið það vel að við gátum vel bætt þessu við.
Sem fyrr segir var það mikil upplifun að koma þarna., í þennan gamla og lúna skála sem trónir á fjallstoppi í þessari miklu hæð og panta sér pitsu ! Bara geggjað !

Og svo tók við niðurleiðin, niður í næsta skála, Monte Rosa hut. Þar var lækkun um 1670 m. Það var stórkostlegt að ganga niður jökulinn, þvílíkir fjallarisar á báða bóga þar sem bæði ís og grjót brotnar úr og hrynur niður svo líklega er eins gott að ganga ekki alveg þar upp við.

Þetta var heitur dagur, með sólskini af og til, og við vorum léttklædd. Eftir því sem neðar dró fór að verða sósusnjór og smásprungur sjáanlegar og það þurfti stundum að hoppa yfir þær. Það þarf vart að taka það fram, en á jökli við vorum alltaf, alla daga, allan tímann í línu. Fyllsta öryggis gætt.

Um síðir þraut jökulinn og við gengum í urð og grýttu landslagi niður í skálann Monte Rosa.

Þar var sól og hiti á pallinum og við komumst ekki nærri strax inn í skálann því það var miklu næsara að sitja úti með kaldan bjór og fara yfir og reifa daginn, sem hafði heldur betur verið stórkostlegur.

Miðað við hvernig dagurinn byrjaði hjá mér, er ég mjög ánægð að hafa gengið 4 toppa með 1252 m hækkun og síðan tekið 1671 m í lækkun – og náð að upplifa bæði verstu píslir og síðan algjöra sælu í þessari geggjuðu jöklaveröld.

Dagur 5
Frá Monte Rosa hut til Rotenboten lestarstöðvarinnar.
Vegalengd 8,5 km, hækkun 543m.

Við morgunverðarborðið eftir góðan svefn í lúxusskálanum Monte Rosa hut sáum við í grjótinu fyrir ofan skálann nokkrar steingeitur. Nokkur okkar þustum út og bröltum í grjótinu á krokksunum til að ná mynd af geitunum, og helst þannig að Matterhorn væri í baksýn, en það blasti orðið við þarna.

Þennan dag var enginn toppur. Gangan var frá skála niður að skriðjökli sem þurfti að fara yfir og síðan var um nokkra hækkun að ræða, þ.e frá dalbotni og upp að lestarstöð.
Veðrið var, eins og oftast mjög gott, og þetta var bara dásamleg ganga. Gengum laus við línu og brodda þennan dag, nema að við gengum á broddum yfir skriðjökulinn. Lína var óþörf þar því þetta var skýr, afmörkuð og örugg gönguleið þar yfir.

Upp frá skriðjöklinum hinum megin dalsins var í byrjun brött leið með stigum og öðrum „hjálpartækjum“. Þar tók við afskaplega litskrúðugt berg sem við vorum algjörlega heilluð af.

Síðan var nú restin af leiðinni bara sakleysilegur göngustígur í grasi og blómskrýddri hlíð, og þarna var orðin talsverð umferð af „öðruvísi“ göngufólki, þ.e ekki jöklaförum, heldur túristum í styttri göngum frá lestarstöðinni, sem við nálguðumst nú óðum.

Þarna í hlíðinni tókum við aftur svona „Toppfarapásu“ bara sátum róleg með nesti og horfðum á hluta af þeim fjöllum hinumegin dals sem við höfðum gengið á nokkrum dögum áður.

Matterhorn var tígullegt og lofandi í augsýn allan þennan dag, og eftir því sem nær dró lokapunktinum tranaði Riffelhornið sér í forgrunninn og minnti mann á hversu gaman hafði verið árið áður að príla þar.
Svo vorum við komin á Rotenboten lestarstöðina og þar með var göngunni lokið. Niðri í Zermatt urðu síðan ánægjulegir endurfundir við Anítu og Jón Heiðar, sem voru þangað komin eftir ýmis ævintýri undanfarinna daga.

Að lokum
Það er við hæfi að leggja saman hæðar-og lengdartölurnar frá Óla að lokum. Í þessari 5 daga göngu gengum við 49,26 km og hækkunin varð 4459 m.
Monte Rosa hringurinn var gríðarleg upplifun og lífsreynsla og kom mér að nokkru leyti á óvart.
Þó partur af einum degi hafi verið söffer end pein, þá var langflest annað frábær upplifun.
Veröldin þarna uppi er einstök. Þvílíkir fjallasalir nær og fjær. Morgunbirtan í ótal fjólubláum litbrigðum og skýjafarið fjölbreytilegt, eldingar sáust stundum í fjarska og veðrið gat breyst hratt.
Þvílíkt að geta ferðast um í svona umhverfi snjóa, ísa og kletta og takast á við allar áskorarirnar sem því fylgja pollrólegur af því að maður veit að það er hægt að treysta gædunum sínum 100%

Fá að kynnast lífinu í fjallaskálunum, þar sem pjatt og sérgæði eiga ekki heima, þar sem maður bara samsamar sig aðstæðum og lætur sér vel líka (muna samt eyrnatappana !) Og eftir sem áður er frábær matur þar og skipulag gott.
Takturinn er öðruvísi þarna. Vakna eldsnemma, koma sér sem fyrst af stað, alltaf verið að keppast við tímann, ekkert slór, ekkert væl yfir smámunum, engin bómullarvæðing !
Ég er mjög ánægð með að hafa farið þessa ferð. Ég kynntist sjálfri mér og eigin getu betur. Get þakkað sjálfri mér kærlega fyrir að hafa haldið mér í góðu formi og virkilega þjálfað mig fyrir þessa ferð, því nægar eru áskoranirnar jafnvel þó formið sé gott.

Ég geri mér enn betri grein fyrir nú en áður hversu mikilvægt það er að vera með góða fjallaleiðsögumenn. Takk Róbert, Bjartur og Jón Heiðar. Takk kæru ferðafélagar, Aníta, Inga, Nonni og Óli.
------------------------------------------
Frásögn Anítu Sigurbergsdóttur
Texti af fb eftir ferðina með ljósmyndum hennar sem þjálfari reyndi að setja á rétta staði:

"Ég ákvað í fyrrasumar standandi á Riffelhorn að ég skyldi fara á Matterhorn. Ég vissi ekki hvernig eða hvenær, en ég ætlaði. Standandi þar þuldi svo Bjartur leiðsögumaður upp 4000+m tindana í augsýn og hafði ég ekki hugmynd þá að þetta var Spaghetti Traverse leiðin sem síðan varð að veruleika… fyrir hluta hópsins.

Eftir flug, lestarmaraþon og rútu með Robba lentum við í Zermatt og byrjaði ferðin á fagnaðarfundum á The North Wall þar sem við hittum Jón Heiðar, Bjart og nýja gaurinn, Óla Þór sem á pottþétt eftir að enda sem Toppfari.

Dagur 1:
Kláfurinn tekinn upp á Klein Matterhorn í 3.883m hæð og þaðan ‘skundað’ upp á Breithorn tvíburana; Breithorn Occidentale og Breithorn Centrale í 4.160m hæð þar sem fyrsti snjóhryggur ferðarinnar var tekinn… alveg tjúllað. Dagurinn endaði í 555m hækkun og 9,5km sem hljómar ekki rassgat en reyndi þokkalega á… svona fyrsta daginn í hæð og allir móðir og másandi.

Og sko… ég var rétt að koma niður af toppnum þegar ég átta mig á að ekki er allt með felldu. Ég að verða fárveik af hæðarveiki og átti eftir einhverja 6km af jöklagöngu í Refugio Guide d’Ayas, kastandi upp með skerta meðvitund á flótta undan eldingaveðri. HRÓSIÐ fer til Sjafnar sem létti bakpokann minn, tróð snjó undir hjálminn eftir uppköstin og þurfti að horfa upp á félagann missa fæturna hvað eftir annað og geta lítið annað gert en að hanga í línu á eftir mér. Uppgjöf var ekki í boði… við urðum að komast í skála á undan eldingunum… og það hratt!

Líklegast var lyfjum sem ég var að taka á þessum tíma um að kenna þessum ýktu viðbrögðum við hæðinni, en ég jafnaði mig ekki, heldur varð verri morguninn eftir og ástand metið krítískt. Það var kallað á þyrlu og húrrað á spítala í Aosta á Ítalíu.
Dagur 2 fór í að jafna mig en Jón Heiðar neitaði að horfa á mig sem sjúkling og sagðist ýta mér áfram þangað til ég segði nei. Ég segi aldrei nei svo á þriðja degi dröslaði hann mér með ælupokann í leigubílaferð dauðans, í kláf og yfir Alpana (kannski sagði doktorinn að ég mætti það ekki), í bíl og lest til Zermatt að sækja farangur. Í lest og bíl til Chamonix í Airbnb íbúð… úffff… ég koma varla upp orði af vanlíðan. Og þá sagði Jón: ...eigum við að fara í klettaklifur. Ehhhh JÁ og enduðum daginn á einhverjum 3-4 spönnum.

Auðvitað var Jón Heiðar með plan. En hann sagði mér ekkert því framundan var klifur af stærðargráðu sem ég hef aldrei gert og var gjörsamlega sturlað. Og heilsan ekki upp á sitt besta.

Dagur 4:
The Crochues Traverse… og Aguille Crochues tindurinn 2840m... tjúllað klifur eftir Crochues hryggnum í Aiguilles Rouges fjöllunum. Flokkað PD (slightly difficult) með 3+/4 á pörtum. Ca 8,5km með 600m hækkun, mest megnis klifur/scramble hækkun. Hólí sjitt hvað þetta var geggjað. Fyrsti bitinn af alvöru alpaklifri og vá hvað ég er komin á bragðið.

Dagur 5:
Jón Heiðar sagði mér ekki fyrr en eftir á; ég vissi þú gætir þetta. Stærsta klifurævintýrið til þessa og fyrsta mómentið í fjallabrasi sem ég hugsaði fokk og þurfti að anda djúpt í hugrekkið. Þvílíkt Index de la Glière kletturinn 2.595m flokkaður sem AD (fairly difficult) 5a og dregur nafn sitt af lúkkinu sem er eins og vísifingur séður frá Chamonix.

Eftir þetta rukum við til Zermatt aftur í fagnaðarfundi með Spaghetti förum. Þvílíka afrekið hjá þeim enda er þessi leið ekki fyrir meðalmenn. Það lentu allir í að taka dag í að ‘horfa á skóna’... nema Óli. Án djóks… Spaghettíið er no joke.

Örþreytta liðið tók hvíldardag en ég öll að hressast svo ég skellti mér ein í göngu upp á Wisshorn um Wisshornweg 2936m með um 1500m hækkun og tæplega 20km. Ég var aðeins að testa þrekið og fann að ég var komin ca 80%. Höfuðverkurinn kikkaði samt strax inn í 2800m svo það var lítið stoppað á toppnum. Sturlað allt… og útsýni á OMG leveli.

Leiðsögumenn stóðu hins vegar í ströngu þar sem kólna tók í háfjöllum og Matti að safna á sig snjó. Nýtt ævintýri var dregið upp úr hattinum… brunað til Chamonix og liðinu hent í æfingaklifur því dagur 7 var ekkert ‘næstbest’ heldur algjörlega galið geim.

The Perron Traverse, klettahryggur fyrir ofan Emosson stífluna með tignarlegum turnum á milli Aiguille du Vent (2578m) og Pointe de l'Ifala (2651m), sá hæsti Grand Perron (2673m). Klifur sem er alls ekki fyrir byrjendur, tæpir 12 km og um 1200m hækkun, flokkað sem AD 4a-4b, eða einni skör lægra en Index kletturinn… bara miiiklu lengra.

Nonni var stíflaður og kaus að tjilla við stífluna en við stelpurnar hentum okkur af stað.
Sjöfn og Ingu var hent í djúpu hérna (og rúlluðu því gjörsamlega upp) en Jón Heiðar aldeilis búinn að skóla mig til og ákvað því að best væri að við tvö tækjum líka fyrsta turninn sem þær slepptu OG SMÁ könnunarleiðangur utan í héluðum vegg... án þess að dragast aftur úr (það eru fleiri en ég með hækkunarblæti ) Án gríns… hann lét mig skokka á þvengmjóum hryggjum sem ég hefði helst viljað skríða á fjórum, en það voru engin grið gefin á hraðanum þó svimandi væri niður beggja vegna. Alltaf kom bara… já en þú getur þetta alveg…LOL

Á endanum þurftu svo allir að bíða eftir okkur í um klukkustund þó gangan til baka væri að hluta á skokkinu. Vesenið varð til þess að við lentum í 90mín flöskuháls við síðustu spannirnar.
Aldrei… aldrei…aldrei hef ég sagt sjjtt fokk sjitt jafnoft og á Perron turnunum. Þetta var algjörlega alvöru. Ekkert smá taste af klifri, heldur 10klst af mjög ‘exposed’ klifri sem er á pari við Matterhorn mínus hæðarálag. Að síga yfir 50m í einum rykk á mínum max hraða er adrenalínskot sem ég er til í aftur og aftur… þvílíkur dýrðardagur og magnað ævintýri.
Rifnar buxur, blóðugir fingur, rispað úr, brotinn símaskjár, marnir leggir… skiptir engu fkn máli. GEGGJAÐ !!

Lexíur ferðarinnar
Ég læknaðist af hæðarveiki en hæðarsýkin er ólæknandi.
Ganga er ekki erfið nema þú takir daginn í að horfa á skóna."
Við viljum ekki relaxing vacation… ekki heldur active vacation… heldur suffer vacation
xx
--------------------------- Frásögn lýkur --------------------------
Þakkir frá þjálfara:
Kærar þakkir elsku snillingar báðar tvær fyrir þessar einstöku ferðasögur sem kenna okkur öllum mikið... og eru bæði hugljómandi og hugvekjandi...
Þessar ferðasögur fara í safnið "Reynslusögur" - þegar höfundar hafa leiðrétt texta, framsetningu mína og staðsetningu ljósmynda - lagt fram nú föstudaginn 5. september !








Comments