top of page

Söðulfell kringum Geitabergsvatn í sól og blíðu.

Æfing nr. 720 þriðjudaginn 6. september 2022.


Yndislegt veður var fyrsta þriðjudag í septembermánuði... 18 stiga hiti á mánudeginum og áfram eftir vikunni ríkti sama veður... og við nutum góðs af því þetta kvöld... á nýrri leið... könnunarleiðangri á fjallið Söðufell innst í Svínadal við Draghálsinn... þar sem vaða þurfti útfall og innfall Geitabersvatns... og byrja hreint og beint á vöðun yfir Draghálsána sjálfa... sem var auðvitað bara heiður... alltaf eitthvað nýtt í þessu lífi... nú að byrja á að vaða á í byrjun þriðjudagsæfingar... :-)


Auðvitað létum við þessa vöðun ekki slá okkur út af laginu... nutum þess að æfa handbrögðin við að ná í vaðskóna, græja sig og pakka saman aftur... það er best ef við getum gert þetta sem oftast... til að slípa af hnökrana við tafir við vöðun... því ef maður er í langri göngu og þarf að vaða oftar en einu sinni... þá er gott að þessi handbrögð séu manni fumlaus og töm... þannig verður þetta fljótlegt og ekkert mál...


Lækjarsprænur flæktu aðeins aðkomuna frá ánni að fjallinu... best að fylgja vatninu til að byrja með... og ekki láta sér bregða við mýrarnar sem eru norðan við vatnið...


Við stefndum í norðurenda fjallsins... þar sem greiðfært er upp...


Fallegt landslag sem leyndi á sér...


Stuttbuxur... stuttermabolir... ekki gerst oft í sumar... dásamlegt...


Hópmyndin hér... alls mættir 21 manns... Arna Harðar, Bára, Birgir, Bjarni, Gerður Jens., Guðmundur Jón, Gylfi, Jaana, Jóhanna Fríða, Jón St., Katrín Kj., Kolbeinn, Linda, Ósk, Siggi, Silla, Sjöfn Kr., Valla, Þórkatla og Örn og Batman fékk loksins aftur að leika sér með vinum sínum þeim Bónó og Mola sem hafa ekki komið í marga mánuði en Skuggi var svo líka með og allir eru þeir bestu vinir þessar elskur...


Við vorum í eltingarleik við sólina sem lækkaði óðum og var að hverfa bak við Skarðsheiðina... upp héldum við og ætluðum okkur að ná nestisstund í síðustu geislunum...


Dragafellið hér til norðurs... orðið rautt af haustlitunum... þarna uppi vorum við í vor... í mjög fallegri göngu...


Ofar var þessi slétta í mýri og mosa... og klettabeltið myndarlegt efst...


Þarna í hlíðinni settumst við niður og fengum okkur nestið...


Yndislegt... því svo var sólin horfin bak við Skarðsheiðina... um leið og við lögðum aftur af stað gangandi... það mátti engu muna...


Dásemdin ein og vel þegið að fá svona fallega nestisstund í haustsólinni...


Áfram upp klettabeltið... síðasti kaflinn...


Uppi var mosaslegin heiði... og fram á brúnunum lúrði Geitabergsvatnið niðri og Skarðsheiðin breiddi úr sér óskaplega víðfeðm...


Þarna hinum megin gengum við síðasta haust á Brennifell, Hlíðarbrúnir og Hestdalsöxl... og ákváðum þá að ganga á þessi fjöll sem risu handan við vatnið... sáum fyrir okkur fallegt sumarkvöld... en það var eiginlega fallegra en maður átti von á...


Við röktum okkur eftir brúnunum á kafla... en Örninn var samviskusamlega með stefnuna á hæsta tind Söðulfells sem er nokkuð innar á fellinu...


Svo við stefndum þangað eftir smá dól meðfram brúnunum... stóðumst ekki mátið með Hvalfjarðarsveitina alla og Svínadalinn útbreiddan alla leið til Akrafjalls roðaslegið í sólarlaginu...


Hin vötnin í Svínadal gullin í sólinni í fjarska... Þórisstaðavatn nær og Eyrarvatn fjær... en bæði koma við sögu í fyrri Toppfaraferðum... og við erum ekki hætt á þessu svæði...


Akrafjallið hér efst á mynd... fjólublátt í sólinni...


Við héldum á eftir Erni upp á hæsta tind Söðulfells sem mældist 369 m hár... og frá honum sást vel til gljúfranna sem leynast í Glámu... og við eigum stefnumót við þau næsta sumar á þriðjudegi...


Falleg tjörn leyndist uppi á heiðinni... Bjargatjörn... í 320 m hæð...


Niður fórum við grasrennuna sem höfðum séð fyrir okkur sem uppgönguleið þegar við skoðuðum þetta í fyrra... en enduðum svo á að hafa sem niðurleið þar sem hentugra var að geyma bílana norðan við vatnið fjær bænum...


... og reyndist þetta óskaplega fallegt gil... í yndislegu dóli hér niður...


... með Akrafjallið fjólublátt í fjarskanum... haustkvöldin gerast ekki fegurri en þetta...


Litið til baka... svo formfagurt... það ætti að hafa nafn... en við fundum ekkert... líklega er bóndinn á Geitabergi með nafn á það... en við kunnum ekki við að hringja aftur í hann...


Yndislegt í einu orði sagt...


Heilmikil vegalengd eftir til baka í bílana kringum vatnið... sólin sest og húmið lagðist að...


Birtu nýtur engu að síður í tæpan klukkutíma eftir sólsetur ef það er heiðskírt... og við vonuðum að við myndum ná þessu án höfuðljósa en vissum að það yrði tæpt... sérstaklega af því við vorum að fara þessa leið í fyrsta sinn... og könnunarleiðangrar fela yfirleitt í sér einhverjar hindranir sem svo eru sniðnar af í næstu ferð...


Takk haust... fyrir að vera svona fallegt...


Geitabergsvatnið svo fallegt...


Svanirnir á vatninu skræktu og höfðu áhyggjur af þessari hjörð sem truflaði kvöldfriðinn... réttilega...


Hér ríkti friður og orku stafaði af vatninu... sál og líkami nærðist í þessum fjörum... og það var vert að vera þakklátur... fyrir stað og stund...


Kýr bæjarins Geitabergs á beit... bóndinn þar gaf þjálfara leyfi til að fara hér framhjá meðfram vatninu... leitir ekki hafnar í sveitinni og við höfðum hundana í bandi á þessum kafla...


Gláma... sjáumst næsta sumar... það verður spennandi að kynnast þér !


Hræ af kind í fjörðuborðinu.... og rúlluplast og annað rusl meðfram vatninu... einhverjir mynduðust við að tína þetta upp en gáfust fljótlega upp... mann langaði að taka eina gönguferð meðfram Geitabergsvatni og hreinsa fjörurnar...


Útfallið í suðurendanum... seinni vöðun kvöldsins... straumharðara en innfallið en furðulega saklaust miðað við þrenginguna... þetta var ekkert mál... hér reyndi á að vera snöggur að þessu... fínpússa vinnubrögðin og flækja þetta ekki of mikið...


Bara yndislegt að viðra tær og kæla fætur...


Við tók ganga meðfram vatninu... sumir fóru strax eða fljótlega upp á veginn... en þjálfarar ætluðu sér að ganga meðfram vatninu og fremstu og öftustu menn gerðu það...


... í vaxandi myrkri þar sem lítið sást í lokin... en þetta slapp ljóslaust... rétt svo... og var mjög skemmtilegur kafli... litlar hindranir nema á stöku stað þar sem kjarrið er vaxið alveg út í vatnið og fóta þarf sig á grjóti eða í gegnum kjarrið með útsjónarsemi...


Það var gott að sjá ljósin á bílunum í norðurendanum... Bára og Silla ráku lestina og voru heilum 31 mínútum lengur en fremstu menn... en þar munaði líka mikið um að fremstu menn lögðu fyrr af stað eftir vaðið en þeir síðustu... þetta er fljótt að koma og munar stundum ótrúlega miklu um leið og það verða tafir... mínúturnar eru fljótar að safnast upp... en við vorum bara öll í núinu og hvert og eitt á sínu róli að njóta fremst eða aftast eða mitt á milli í fjörunni eða á veginum... þannig á það einmitt að vera...


Alls 8,4 km á 3:01 - 3:32 klst. upp í 369 m hæð með alls 338 m hækkun úr 84 m upphafshæð... myrkrið er mætt... höfuðljós eru nauðsynlegt núna... hvert þriðjudagskvöld í birtu er dýrmætt núna... áður en veturinn og myrkrið taka endanlega völdin... en þá taka bara þeir töfrar við... allt öðruvísi en sumarið og birtan... sem einmitt kenna okkur að vera þakklát fyrir svo vorið og sumarið... eins gott að hafa þessa hringrás... við myndum deyja úr leiðindum ef það væri alltaf sama veðrið og sama birtan... það væri skelfilegt... einmitt svona viljum við hafa þetta... alls kyns veður og birta... og breytileikinn í hávegum... takk fyrir okkur elsku Ísland... þú ert best !

60 views0 comments

Kommentare


bottom of page