Æfing nr. 819 þriðjudaginn 17. september 2024.
Ný leið bættist í safnið í Hvalfirði á þriðjudagsæfingu í september... þar sem veður var skýjað og rigning bættist við og svo myrkrið í lok göngunnar... en gangan var engu að síður friðsæl, notaleg og gullfalleg.
Gengið var frá Hvalstöðinni þaðan sem yfirleitt er gengið á Brekkukamb en nú var för heitið á svipmikla tinda milli hans og Þyrils og kom landslagið mjög á óvart... glæsilegir tindar Skyrhlíðar blöstu við og gilið litríka og formfagra kallaði sannarlega á okkur.
Við vorum á stíg sem líklega er ekki af kindavöldum eingöngu upp með gljúfrinu og ákváðum við að prófa að fara gilmegin framhjá neðri tindum sem var fínasta leið og þaðan upp á Skyrhlíðarhornið.
Því miður var birtu tekið að bregða þegar komið var upp á Skyrhlíðina sjálfa og þjálfarar ákváðu að sleppa hringleið um Miðsandsdalinn sem var ætlunin og verðum við að koma hér aftur síðar í meiri sumarbirtu, en leiðin niður var engu að síður mjög skemmtileg og falleg og aftur komum við inn á slóða þegar neðar dró sem leiddi okkur að hluta til niður að Hvalstöðinni aftur.
Mjög friðsælt og fallegt kvöld þar sem Baltasar, nýi hundurinn hennar Anítu fór sína jómfrúarferð og stóð sig með stakri prýði þó ungur væri og smellpassaði hann strax í hópinn...
Alls 7,3 km á 2:48 klst. upp í 490 m hæð með alls 520 m hækkun úr 13 m upphafshæð.
Ljósmyndir úr göngunni hér neðar og nafnalisti undir hópmyndinni:
Mættir voru alls 15 manns:
Guðmundur Jón, Heiðrún, Steinar A., Katrín Kj., Björg, Aníta, Ólafur, Stefán G., Sjöfn Kr., Guðjón, Örn, Kolbeinn, Ása og Oddný T. en Baltasar, Batman og Myrra voru hundar kvöldsins og Bára tók mynd.
Velkominn í hópinn elsku Baltasar... þú bræddir öll okkar hjörtu á fyrstu mínútunni... við eigum eftir að ganga margar spennandi göngur saman...
Takk öll fyrir yndiskvöld með meiru :-)
תגובות