Þriðjudagsæfing 1. febrúar 2022 nr. 690.
Enn einn þriðjudaginn stefndi í erfitt veður en síðustu vikur höfum barist við mikinn vind og annað hvort fært til göngur sem henta betur í erfiðu veðri... eða látið okkur hafa það og komist alla leið... og reynslunni ríkari ákváðu þjálfarar að taka slaginn á þessu erfiða svæði rötunarlega séð ef skyggni er ekki gott... og stefna á nyrsta taglið á Móhálsatindum á leið upp á Hellutinda á Sveifluhálsinum og taka svo nyrsta taglið á honum til baka um Sandfellsklofa...
Við keyrðum í dynjandi snjókomu að Ásvallalaug... það var auðvelt að ákveða að hætta við... og umferðin flæktist fyrir mörgum... en við sem mættum gáfum okkur góðan tíma til að allir næðu að skila sér inn... og vopnuðumst bara því sem við gátum... hlífðarfatnaðinum sem á alltaf að vera meðferðis... skíðagleraugum... lambhúshettu eftir smekk... og góðri hettu á jakkanum... en á þetta þrennt getur virkilega reynt ef veðrið hefði verið erfitt áfram þetta kvöld...
... en það dásamlega gerðist... um leið og við lögðum bílunum við norðurenda Vigdísarvallavegar... stytti upp... það var lygnt... og jú... það tók aðeins að snjóa aftur... en þjálfari sagði veðurspána lofa úrkomulausu þetta kvöld... og spáin rættist orðrétt... það stytti endanlega upp og við fengum dýrindisveður á þessu einstaklega fallega svæði...
Hér að fara upp á nyrsta taglið á Móhálsatindum en svo nefndum við lægri fjallshrygginn sem liggur meðfram Sveifluhálsinum á sínum tíma... okkur og öðrum sem vilja til aðgreiningar... því það er vel hægt að ganga allan þann hrygg endilangan allan með hærri Sveifluhálsinn á vestari hönd án þess að stíga upp nokkurn tíma upp á hann í raun og þess vegna fannst okkur réttast að hann fengi sitt nafn svo við gætum áttað okkur betur á hvar við værum stödd hverju sinni... Móhálsar eru skráð örnefni á svæðinu... og því lá beinast við að kalla þá Móhálsatinda... en það er sannarlega kominn tími á að ganga þá alla þvert og endilangt eins og við gerðum í ekki mjög góðu veðri og óspennandi skyggni svo fegurðin kallaðist engan veginn nægilega fram þó útiveran hefði verið dásamleg...
Tindferð 115 Móhálsatindar á Rey (toppfarar.is) ... þessi fjallshryggur er magnaður... hulinsheimur sem fellur í skuggann af Sveifluhálsi... skartar lægri tindum... en þá mögnuðu útsýni yfir á tinda Sveifluhálssins... og þarna leynast vötn og gil... dalir og klettar...
Upp á tagli Móhálsatinda gengum við yfir á Sveifluhálsinn og tókum stefnuna á Hellutindana... þetta var mun léttari leið en þjálfara minnti... enda vorum við í mun erfiðara veðri hér þegar við bjuggum þessa leið til árið 2017...
Fórum aðeins aðra leið... beint upp á tindinn úr því það var skyggni og við sáum eitthvað til...
Það rökkvaði fljótt þegar upp var komið... og keðjubroddar voru alger nauðsyn... frosið færi með lausasnjó ofan á...
Hellutindar mældust 378 m háir og gáfu mikilfenglegt útsýni yfir Sveifluhálsinn og Kleifarvatnið allt... til borgarinnar og út á Reykjanesbraut og til hafs...
Naglar að mæta !
Ása, Bára, Bryndís, Elís, Gylfi, Hjördís, Jón St., Kolbeinn, Kristín Leifs., Lilja Sesselja, Linda, Magga Páls., Oddný T., Ólafur Vignir, Ragnheiður, Sigrún Bjarna., Sigurbjörg, Siggi, Skúli, Súsanna, Tómas, Valla, Vilhjálmur, Þorleifur, Þórkatla og Örn. Þar af voru Bryndís og Elís að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum og stóðu sig mjög vel við frekar erfiða byrjun á göngunni þar sem við reyndum allt til að önnur hjón sem voru að skrá sig í klúbbinn kæmust til okkar á réttum tíma en þau festust í umferð og náðu okkur ekki en það voru þau Hannes og Svandís en vonandi ná þau að mæta næsta þriðjudag...
Hellutindar þykja frekar litlir og sléttir í samanburði við tindana sem rísa sunnar á Sveifluhálsinum... þeir eru bara byrjunin á veislunni sem þessi fjallshryggur býður upp á fyrir þá sem ganga hann... en þeir eru samt tignarlegir og skemmtilegir á bröltinu... og mældust 378 m háir á þessum stað hér...
Og þó við værum til norðurs frá efsta Hellutindinum þar sem Sveifluhálsinn fjarast smám saman út í einu sléttu tagli við Vatnsskarðið sem Sandfellsklofi... þá biðu okkar samt nokkrir glæsilegir klettar til að klífa eða horfa á á leið okkar til baka...
Sveifluhálsinn er glæsilegastur í snjóhamnum að vetri til... hann er alltaf fagur og alltaf glæsilegur... en hrikaleikurinn er mestur að vetri til... enda höfum við farið fleiri en eina lygilega göngu um hann að hávetri í desember, janúar og febrúar... og það er kominn tími til að ná einni slíkri veislu hér fljótlega...
Á þessum kletti var veggjakrot... Þórkafla staldraði við og lýsti hann upp...
SÞ 1/11 + 47
?? 21/9 ´52
RE 8/9/20
Upphafsstafir og fæðingardagar og númer á bíl/mótorhjóli eða báti ?
Rómantísk saga á bak við þetta eða harmleikur... hugurinn fór á flug... við KLeifarvatn hafa fleiri en einn farist í vatninu... bílar sokkið... en þarna eru líka slóðar fyrir mótorhjól þar sem kannski fór ástfangið par um og áði hér ?
Töfrarnir þetta kvöld voru líklega þeir mestu í vetur... að hinum þriðjudögunum ólöstuðum... hvílík birta og formfegurð...
Síbreytileiki Sveifluhálssins er hans mesti styrkleiki... Sandfellsklofinn saklausi naut sín vel í þessari birtu...
Það var ekki annað hægt en stoppa stöðugt og mynda dýrðina... Samsund Galaxy síminn nýtir alla þá birtu sem hann fær og nær að lýsa upp umhverfið með henni þannig að birtan verður í raun meiri en augun nema...
Móbergsklappirnar í snjónum... og gula ljósið hennar Þórkötlu...
Eitt er að elta bara hópinn og stíga í spor þeirra sem eru á undan... allt annað að vera fyrstur og þurfa að velja hvaða leið á að fara... stöðugar ákvarðanir... stöðugt mat á aðstæðum... stöðug áætlun um það sem lengra er handan við hornið... Örninn fór eftir gps-slóðinni okkar frá því 2017 þar sem við bjuggum þá til þessa leið... en þá misstum við skyggnið hvað eftir annað í snjóhríðum og þvældumst um alls kyns kletta... nú sneið hann af þá aukakróka þar sem hann gat séð lengra frá sér og valið leiðina sem hentaði best til að njóta landslagsins sem fyrir varð á leiðinni... þessir klettar voru nefnilega dýrðarinnar skraut á okkar leið...
Sjá Helgafellið í Hafnarfirði þarna lengst ávalt og stórt... það er í raun hluti af þessum fjallshrygg sem liggur alla leið niðurn á suðurströnd landsins... samhliða fleiri hryggjum sem liggja svona eftir öllu Reykjanesinu... eins og dyngjunum við Sogin, Núpshlíðarhálsi, Mávahlíðum, Fíflavallafjalli... og svona má lengi telja... allt fjallshryggir misháir sem liggja í suðvestur og norðaustur... eftir flekaskilunum... sem fara smám saman í sundur og upp koma gos... eins og í Geldingadölunum í mars í fyrra... þetta Reykjanes drýpur allt af eldgosasögu við hvert fótmál... hér eru líklega vel yfir hundrað gígar sem allir hafa sína sögu... eins og Geldingadalagígurinn sem er sá eini sem náð hefur að segja okkur sína... hvílík forréttindi að fá innsýn inn í líf þessa hrauns og þessara gíga sem hér hafa risið síðustu árhundruð og árþúsundir... vá hvað við erum mikil sandkorn í jarðsögunni...
Kolbeinn byrjaði... var snöggur upp og við sem öftust vorum féllum í stafi... mergjaður klettur sem á sér ekki nafn frekar en allir hinir klettarnir á Sveifluhálsinum nema þessir örfáu eins og Stapatindur, Miðdegishnúkur ofl...
... og hinir stóðust ekki mátið og klöngruðust upp á eftir Kolbeini... þetta kallast að fara út að leika með vinum sínum... upplifa og njóta augnabliksins...
Reynt að ná einhverri hópmynd...
En þetta sjónarhorn var það fegursta...
Ekki mikið pláss þarna uppi... en sannarlega þess virði að brölta þetta...
Eftir klettinn góða snerum við til vesturs niður í mót með stefnuna á bílana... og þá kom snjóhríð... en blaðrið á okkur var svo mikið að við tókum varla eftir því og þjálfari gaf sér ekki tíma til að ná nema einni mynd af snjóævintýrinu í lokin... blaðrið var slíkt !
Alls 6,9 km á 2:12 klst. upp í 280 m á tagli Móhálsatinda, 378 m á Hellutindum og 274 m á hæsta tindi Sandfellsklofa með alls 334 m hækkun úr 128 m upphafshæð...
Töfrandi kvöld sem svo sannarlega gaf okkur ógleymanlegt kvöld sem allir átti skilið fyrir eljuna að mæta og hætta ekki við í snjóhríðinni sem gekk yfir borgina eftir hádegið... #Takkfyrirokkur
Comments