Þriðjudaginn 22. mars 2022. Æfing nr. 696. Ljósmyndir frá Fanneyju Sizemore og Kolbeini...
Alls mættu 30 manns á kvöldnámskeið í vetrarfjallamennsku sem haldið var í Bláfjöllum í þoku en mildu og lygnu veðri... meðan þjálfarar tóku sér frí og voru erlendis...
Farið var í notkun jöklabrodda og ísexi, beitingu ísaxarbremsu, göngu í línum á jökli og sprungubjörgun með sýnikennslu og verklegum æfingum...
Jón Heiðar Andrésson hefur haldið fyrir okkur þó nokkuð mörg námskeið í alls kyns atriðum sem tengjast vetrarfjallamennsku og fékk Ragnar Þór Þrastarson leiðsögumann með sér þar sem þátttökufjöldinn var svona mikill og skiptu þeir hópnum í tvennt... en þeir félagar eiga langa sögu með klúbbnum í mörgum, ógleymanlegum og ómetanlegum jöklaferðum sem gleymast aldrei...
Ísaxarbremsan er líklega það flóknasta en mikilvægasta sem hægt er að æfa í grunnatriðum vetrarfjallamennsku og nauðsynlegt að æfa hana í öllum stellingum, á maga, baki, með fætur fyrst og höfuð... en ekkert kemur í staðinn fyrir að prófa þetta á eigin skinni... og ættum við öll að rifja þessa tækni upp á hverjum vetri... jebb... höfum alltaf eina þriðjudagsæfingu í þessu á hverjum vetri hér með... við höfum reynt það nokkrum sinnum en veður, snjóleysi og annað stundum hindrað það... en nú gerum við skurk í þessu !
Ganga í línu á jökli var tekin í lok námskeiðsins en reynslan innan hópsins í jöklagöngum er mjög misjöfn og sumir orðnir ýmsu vanir... á meðan aðrir hafa aldrei gengið í línu áður og því var þetta námskeið kærkomið fyrir marga þetta kvöld... hvort sem það var ný þekking eða upprifjun...
Margir mikilvægir punktar komu fram þetta kvöld og menn nefndu ýmis atriði þegar námskeiðið var viðrað eftir á... sjá neðar...
Hér er Kristín Leifs látin falla ofan í sprungu... en viðbrögð línunnar við því að fremsti maður fellur ofan í sprungu eru mikilvæg og það er ekki sama hvað menn gera...
Sjá hér nokkra góða punkta frá þátttakendum sem þjálfari bað menn að koma með eftir námskeiðið:
"103 að setja á sig brodda" var algjör snilld. Kennt og útskýrt mikilvægi þess að stilla lengdina rétt, og að strekkja fast, og alveg gjeððððveikt næs að vita að maður má klippa aukalengdina af reimunum af (þ.e. ef þú átt broddana )" !
"Hefði alls ekki viljað missa af þessu námskeiði. Ísaxar bremsuæfingin, tók ekki maga æfinguna en prófaði allar hinar. Hræðslan mín við broddana og ísöxina hefur minnkað. Mjög gott að fara yfir regluna að ganga í línu, og áhugavert að fylgjat með björgun úr sprungunni."
"Þeir voru mjög harðir á því að Esjubroddar væru eingöngu til að nota á jafnsléttu eða í mjög litlum halla og fannst að þeir væru bæði komnir í tísku hérlendis sem og að fólk væri að nota þá rangt. Um leið og halli væri orðinn meiri ætti alltaf að nota jöklabroddana."
"Mjög gagnlegt og gott að bæði sjá og prófa svo ísexarbremsuna á ýmsa vegu, eins og það nú var pínu ógnvekjandi... Samt góð tilfinning að sjá að það er hægt að stoppa sig Og mjög skemmtilegt að læra að bæði bjarga þann sem hefur dottið í sprungu og en skemmtilegra að finna hvernig hinum tekst að toga mann sjálfan upp úr "sprungunni" -still alive !"
"Gott að æfa labb í broddanum og allskyns tækni eftir því hvernig landslagið er. Gaman að æfa sig í ísaxarbremsunni. Svo fannst mér mjög gott og áhugavert að æfa sprungubjörgun þar sem önnur lína bjargar einhverjum úr hinni línunni."
"Ég lærði margt um jöklabrodda, hvað þarf að hafa í huga þegar þeir eru settir á gönguskóna, hvernig á að beita þeim við að labba upp brekkur og niður brekkur, hvernig maður stoppar sig með öxinni þegar maður missir fótanna og rennur niður brekku. Eins að ganga í línu og hvað þarf að hafa í huga þar. Frábært námskeið."
"Það er gamli skólinn að ísexin þurfi að ná svo og svo langt en að hún sé milli 50-65 cm en fínt (mynnir mig) og það þarf ekki að vera með band í henni."
"Já losa sig við bandið af ísexinni og velja ferð og áhættu sem ÞÚ sjálf treystir þér að mæta Það fannst mér góður punktur hjá honum. Talaði jafnframt um + 40 ættu nú ekkert að vaða út í eitthvað svaka ævintýri."
"Margir góðir punktar t.d stilling á broddum og aðalmálið fannst mér hvernig er haldið á öxinni, hún þarf að snúa rétt í höndinni þannig að maður verði snöggur að bregða henni rétt."
Æfum þennan búnað á hverjum vetri... eigum öll okkar eigin búnað... og notum hann sem oftast og óhikað í ferðum okkar að vetri til... eingöngu þannig verður hann manni tamur og nýtist sem best...
Hjartansþakkir elsku Jón Heiðar og Raggi fyrir enn eitt faglega og lærdómsríka námskeiðið sem við fáum hjá ykkur ! ... þar til næst... :-)
Sjá hér samantekt þjálfara af fyrri námskeiðum um mikilvæg atriði í vetrarfjallamennsku: Vetrarfjallamennska | Toppfarar (fjallgongur.is)
Sjá öll námskeið sem haldin hafa verið í fjallgönguklúbbnum og góða lýsingu á hverju og einu þeirra þar undir (færi þetta efni á nýju vefsíðuna síðar): Grunnnámskeið í vetrarfjallamenn (toppfarar.is)
Comments