top of page

Vikrafell var fyrsta föstudagsfjallið á gullfallegum degi í sól, logni og snjó.

Tindferð nr. 259 föstudaginn 13. janúar 2023 #Föstudagsfjallgöngur

Veðurspáin fyrir fyrstu föstudagsfjallgönguna árið 2023 var ágæt og batnaði stöðugt fram að ferð úr miklu frosti og vindi í mildara veður og sífellt meiri sól... við hefðum ekki getað beðið um meira...


Vikrafellið lætur lítið yfir sér frá Vesturlandsvegi fyrr en komið er nær Bifröst... og Hraunsnefið, Baula og Grábrók stela frekar senunni...


Þegar ekið er inn afleggjarann að Hreðavatni sést í þessa kolsvörtu keilu stingast upp úr landslaginu en þetta fjall leynir á sér þar til nær er komið eins og við komumst að í fyrstu göngu klúbbsins á það í nóvember árið 2017 í magnaðri ferð...


Birgir skógarvörður og umsjónarmaður á staðnum gaf okkur góðar upplýsingar um færðina og hvar við mættum leggja bílunum þegar þjálfari hringdi í hann tveimur dögum fyrir ferð en Steinunn Snorra Toppfari var svo almennileg að gefa okkur upp símanúmerið hans þar sem þau eru með bústað við vatnið og þekkja vel til... Birgir var hinn liðlegasti og hleypri okkur að húsinu við vatnið þar sem við gátum skilið bílana eftir en ófærð var aðal áhyggjuefnið í þessari snjóþungu tíð sem nú ríkir í janúar árið 2023...


Við hófum gönguna kl. 10:54... nákvæmlega ekkert að flýta okkur einhvern veginn og bara dólandi 0kkur þennan föstudagsmorgun...


Það birti af degi og við upplifðum sólarupprásina og sólsetrið í þessari göngu sem er einstök upplifun og gefst eingöngu á þessum dimmasta tíma ársins nema gangan sé þeim mun lengri á bjartari tíma ársins...


Gangan var eins og allur þessi morgun... í rólegheitunum að njóta...


Sólin kom upp bak við Skarðsheiðina... Hreðavatnið hér ísilagt... hér lögðum við af stað ofurgönguna okkar árið 2021 um Vatnaleiðina sem er ógleymanleg ferð... en þá var hér ljómandi sumar og sól seinnipart dags einmitt á föstudegi...



Þetta var fyrsta ganga Önnu Birnu og Halldórs með klúbbnum en þau skráðu sig í fyrra en hafa ekkert komist svo þetta var tilvalin ferð fyrir þau... og hundurinn Jökull...


Skarðsheiðin... sjá hornið á Skessuhorni hægra megin... mögnuð birta !


Hraunsnefsöxlin... við eigum þetta fjall alltaf eftir... það er komið á vinnulistann...


Esjan fjær í morgurbirtunni...


Þéttur lítill hópur og stemningin frábær eftir því... við vorum einum fleiri í þessari föstudagsgöngu en helgina áður á laugardegi... svo það er ljóst að það er ekki svo galið að ganga stundum á föstudögum...


Mjög skemmtileg leið er upp á Vikrafellið frá Hreðavatni... við fylgdum veginum til að byrja með í spor sem búið var að móta í þungan snjóinn... en hefðum annars farið tilraunakennda leið upp hjallana norðar... en það var ekki færi fyrir slíkar gloríour núna...


Á miðri uppleið kom sólin til okkar... og þá breyttist allt...


Allt varð gullið og bjart... einstakt að upplifa þetta !


Hvílíkir litir þennan dag !


Við önduðum að okkur sólargeislunum... logninu... frostinu... þetta var algert yndi...


Tindur Vikrafells hér að stingast upp úr hjöllunum nær... Selvatn hér hægra megin ísilagt...


Selvatn og Baula og Hraunsnefsöxl hægra megin fjær...


Færið var skárra en við áttum von á... vindsorfið... fokinn, þurr snjór... engin hálka nema þar sem vatn rann úr hlíðum og þar sem menn voru búnir að troða snjóinn áður...


Lækurinn úr Selvatni... Selvatnslækur... undir snjó að mestu...


Við ákváðum að halda okkur uppi í klettahjöllunum til að þurfa ekki að troða djúpan snjó undir þeim...


Ofar tókum við svo hliðarhallann undir efsta hjallanum ofan við gljúfrið í átt að Vikrafelli...


Gullin birta og svolítið útlenskt landslag þar sem skóglendið og vötnin minntu á Evrópu...


Sjá klakabunkann hér hægra megin... vatn rennandi úr hlíðunum orðið að klaka...


Snjóþungt upp gilið ofan við ána og Örn tróð fyrir okkur hin...


Skemmtileg leið hér... á Vatnaleiðinni árið 2021 var mikill snjóþungi allan þennan kafla ofan við Vikravatnið... í lok maí...


Hundurinn Batman siðaði ákveðinn til nýliðan Jökul sem er ekki alveg fullvaxta og vildi auðvitað bara leika sem mest í snjónum... og hlustaði ekkert á viðvörunarorð eldri hundsins um að spara orkuna fyrir alla fjallgönguna framundan... enda fullur af æskuorku og hafði alveg efni á að leika sér allan daginn...


Fínasta færi hér ofar...


Hvílík fegurð ! Anna, Birna, Halldór og Jökull...


Jöklarnir allir á suðvesturhluta landsins tóku að blasa við í fjarska... og hálendið allt til norðurlands...


Jökull að gá hvort Batman sé kannski smá til í að skoppast í snjónum...


Vindsorfinn laufléttur snjór... frost og stilla einkennt janúarmánuð og lítið blotnað í snjónum... lítil snjóflóðahætta og frekar saklaust færi ennþá...


Eiríksjökull... Grábrók...


Þórisjökull... Okið...


Fanntófell... Skjaldbreið...


Botnssúlurnar... og Búrfell í Þingvallasveit minna hægra megin...


Vikrafellið komið í ljós hér... marghnúka og klettborgótt til beggja enda í austri og vestri...


Við fórum aldrei í keðjubroddana þennan dag... vindsorfið fjall og þurr snjór...


Örn valdi auðvitað að láta okkur klöngrast upp þessa kletta þarna ofar... frekar en að taka stíginn upp... sem var frábært því þá hitnaði okkur og við fórum ekki aaaalveg sömu leið niður til baka...


Fínasta leið og gaman að vera komin svona snemma á fjallið sjálft...


Baula farin að kíkja á okkur... hún átti eftir að rísa ógnvænleg þegar ofar dró...


Hraunsnefsöxlin og Eiríksjökull ofl...


Eiríksjökull, Hafrafell, Langjökull, Geitlandsjökull, Prestahnúkur ?, Ok, Skjaldbreiður, Fanntófell...


Örninn stefndi beint á klettaborgina...


Smávegis klöngur hér í mjög góðu færi...


Bara gaman og hollt og gott ! Stígar... ekki það skemmtilegasta á fjöllum...


Þetta er miklu skemmtilegra og hollara :-)


Mögnuð birtan ! Nýliðarnir voru ekki alveg í sama hraðagírnum og hinir í hópnum sem fannst farið mjög rólega yfir... að ganga vikulega á fjall... með hópnum eða á vinafjallið skilar sér í því að svona göngur eru notalegar og laufléttar... enginn barningur né mæði né vanlíðan... það er margfalt þess virði...


Mögnuð birta !


Jaana og Sjöfn Kr. með Baulu í baksýn...


Fyrsti tindurinn af fjórum...


Jú... klárum þetta og borðum svo uppi... sólin var byrjuð að lækka sig og það var skýjabreiða í suðri sem menn höfðu áhyggjur af að myndi taka frá okkur sólina á tindinum... við settum undir okkur höfuðið og lögðum í þessa síðustu brekku... að því við töldum þá...


Anna Birna og Halldór vildu borða hér og gerðu það bara á meðan við hin kláruðum upp... þjálfara leist ekki voðalega vel á þetta fyrirkomulag en stundum er best að leyfa mönnum að hafa þetta í sínum takti... enda komu þau svo á eftir okkur þegar þau voru búin að borða...


Komin upp... hér fengum við okkur nesti og nutum útsýnisins allan hringinn...


Litið til baka...


Jæja... allt í lagi... hæsti tindur aðeins lengra... við ákváðum að borða allavega hér og fá hin tvö með í hópinn áður en haldið yrði áfram...


Bára þjálfari borðaði út á þessari brún svo þau sæju okkur og fengju orku til að taka þessa brekku upp...


Stórkostlegt útsýnisfjall !


Sólin að verða gullin en ekki bara roðaslegin og bleik eins og fyrr í janúar og allan desember...


Gott að borða og spjalla... Georg sagði skemmtilega sögu af kisanum Ríka... en þjálfari fann ekki lesefnið um hann á veraldarvefnum ! Endilega sendið mér og ég set það hér inn... ótrúlega áhugaverð saga !


Smjörhnúkarnir og Tröllakirkja í Hítardal.... og Vatnaleiðin okkar útbreidd um "tjaldaleið" hér fyrir neðan...


Hluti af Langavatni í fjarska og fjöllin umhverfis það...


Anna Birna og Halldór mætt í söguna hans Georgs á tindinum...

Við tókum auðvitaða alla tinda Vikrafells... og skildum ekkert í því að þetta fjall skyldi ekki heita Vikratindar... en Vikrafell er auðvitað fallegt nafn samt !


Upp og niður alla hnúkana...


Hæsti hér og innstur...


Litið til baka...


Komin upp... í 550 m hæð...


Litið til baka á hina tindana...


Hópmynd dagsins: Sjöfn Kr., Georg, Örn, Gulla, Þórkatla, Jaana, Ása, Magga Páls og Bára tók mynd en á hana vantar Önnu Birnu og Halldór sem létu nægja að fara á fyrsta tindinn... og hundar dagsins voru Batman og Jökull...


Við veltum vöngum yfir þessu stapaða fjalli í norðaustri... komin yfir Arnarvatnsheiðina og því var þetta fjall á norðurlandi í raun... Víðidalsfjall ? ... erfitt að segja...


Til baka um hnúkana þrjá...


Sýnin enn vestar... hér kom fimmti tindurinn... og svo klettaborgin vestar með geilinni þar sem við fórum niður árið 2017 á mjög skemmtilegri leið...


Vikravatn...


Baula farin að safna á sig skýjaþykkni lítið eitt...


Hér blés ísköldum vindi svo það var eins gott að við borðuðum nesti á fyrsta tindinum þar sem var algert logn...


Sólin tekin að setjast í suðvestri...


Frábært færi og engin vandamál...


Aftur komin í logn og blíðu við eystri tindana...


Og nú tókum við stíginn að hluta niður til baka...


Svarti vikurinn allsráðandi og fjallið mjög vindsorfið...


Örn fann bjór á leiðinni... Tuborg Classic... heill en engin dagsetning um úreldingu... skyldi þessi nokkuð vera eftir Toppfara frá árinu 2017 þar sem við einmitt fengum okkur einn á miðri leið í boði Inga ef við munum rétt ? Það skyldi þá aldrei vera... ? :-)


Litið til baka upp eftir Vikrafelli... komin á sama stað og á uppleið... vegna snjóþungans neðar ákváðu þjálfarar að fara sömu leið til baka og allir voru sammála því...


Sólin farin að lækka sig og við komin í skugga hér...


Húmið lagðist inn...


Þessi skítur gaf okkur vangaveltur... eftir ref, rjúpu, kanínu eða ?


Batma og Jökull... þeir skreyttu ferðina mikið og við hlógum að öldnungnum Batman reyna að siða unglinginn hann Jökul til...


Síðasti kaflinn var farinn í sólsetrinu...


Hvílík forréttindi...


Sandhóll heitir líklega þessi hnúkur hér...


Hafnarfjallið greip sólina á lofti á niðurleið...


Skarðsheiðin... og Hafnarfjallið...


Vegaslóðinn handan við lækinn...



Mögnuð sýn á Hafnarfjallið yfir Selvatnslæknum...


Við örkuðum í eigin spor síðasta kaflann á veginum...


Litið til baka...


Selvatnið nær... klakarákirnar í vatninu...


Einstaklega fallegt hérna... líka að sumri... verðum að ganga á þetta fell að sumri líka einn daginn !


Mikið spjallað og spáð og spekúlerað...


Frábær félagsskapur...


Sólsetrið yfir Hreðavatni... eftir sólarupprás fyrr um daginn... magnað !


Komin í bílana fyrir myrkur... við héldum tímaáætlun þennan dag en supuð seyðið af því að hafa fært brottfarartímann til kl. 09 um morguninn... sem var gert til að hafa alveg dagsbirtuna þegar ekið var hér niður eftir...


Alls 11,1 km á 5:02 klst. upp í 550 m hæð með alls 687 m hækkun úr 80 m upphafshæð...


Takk fyrir okkur Vikrafell... fyrsta föstudagsfjallið af vonandi mörgum næstu árin...


Snilld að gera þetta og koma í bæinn á föstudagseftirmiðdegi... með alla helgina framundan... nema reyndar fyrir okkur sem eigum vinnuhelgi framundan... en það er samt betra... fullur af orku eftir svona göngudag...




94 views0 comments
bottom of page