Austari Helgrindur á Kamb og Rauða gíginnÞegar í mögnuðum könnunarleiðangri
- Bára Agnes Ketilsdóttir

- Oct 17
- 7 min read
Tindferð nr. 343 laugardaginn 3. október 2025

Loksins... gengum við á þennan svipmikla hrygg sem blasir við öllum þegar gengið er á Helgrindur sunnan megin... og gefa tóninn fyrir nafn fjallsbrúnanna sem þarna rísa milli Breiðafjarðar og Faxaflóa... Kamb... og annar gamall draumur rættist... Rauði gígurinn sem teygir sig til norður úr brúnunum og gefur stórkostlegt útsýni og alveg nýja sýn fyir Helgrindur... en á hann höfum við mætt oftar en einu sinni og rætt um að við þyrftum að ganga á hann einn daginn...
Mynd her af Kambi austan megin keyrandi út Snæfellsnesið... með Tröllafjölskylduna og austurhluta Helgrinda (ef þær tilheyra þá Helgrindum) blasandi við okkur keyrandi að bænum Kálfárvöllum þar sem ábúendur gáfu okkur góðfúslegt leyfi til að leggja bílunum en nú var það sonur Bjarna bónda sem svaraði þegar hringt var í bæinn...

Örninn hér ábúðarmikill og trónandi yfir ríki sínum... leiðin okkar upp... og syðsti hluti af Kambi lengst til hægri...

Við lögðum af stað kl. 10:28 eftir akstur úr bænum kl. 8:00...

Veðrið með ólíkindum gott... hlýtt, lygnt og sumarfæri ennþá sem var eiginlega nauðsynlegt í svona könnunarleiðangur þar sem við vissum lítið hvað beið okkar... en það átti eftir að koma smá snjókoma á okkur og svo vindur á gígnum... með sól og blíðu á milli... veðrið þennan dag var bipolar eins og sonur þjálfara orðaði það um daginn...

Við héldum okkur austan megin í dalnum ofan við brekkuna góðu... og stefndum á Kamb sem hér sést hægra megin... en þjálfara voru búnir að sjá fyrirtaks leið þar upp í þar síðustu ferð...

Ljúft og gott færi og munaði miklu að vera hvorki í hálku né snjó...

Á þessum brúnum borðuðum við nesti eitt...

Camembert... vínber.... flatkökur með hangikjöti og soðið egg með kókómjólk og vatni... nesti þjálfara...

Dásamlegt í sólinni...

Eftir nestið héldum við áfram upp eftir og tókum stefnuna fyrr á Kamb en við ætluðum þar em við sáum þessa fínu brekku hér... en skyndilega tók að rigna og nánast beint á eftir snjóa...

Ótrúlegt því veðurþáttaspá Veðurstofunnar spáði ekki úrkomu á þessu svæði... en það átti að vera úrkoma yfir Snæfellsjökli... sem fauk greinilega hér yfir...

Sólskin í grennd og þetta var hvarfakennt veður þar sem á skiptust skin og skúrir... ekki í fyrsta sinn á þessu ári...

Halldóra Kristinsdóttir í sinni annarri tindferð með hópnum... mætti líka á Laufafellið.... og mætt vel á þriðjudögum... flottur nýliði !

Þegar komið var upp á Kamb... blöstu smám saman við alveg svakalegar fjallsbrúnir...

... og gullið útsýni niður að Kambsvatni og Þokudal...

Veðurárdalur svo neðar...

Vá ! Kambur útbreiddur í eggjunum sínum sem skreyta svo fallega gönguna á Helgrindur...

Frábær mæting... 12 manns.. Sighvatur, Björg, Smári, Inga, Silla, Batlasar, Aníta, Þór Ríkharðsson gestur, Siggi, Halldóra Kr., Batman og Örn en Bára tók mynd og eina vantar...

Við ákváðum að eiga líka eina með fjallið Örn og fjölskyldu hans í baksýn...
Rauði gígurinn - Tröllkerling - Tröllbatn - Örn - mögnuð fjallasýn !

Niður af Kambi sáum við ágætis leið ofan við dalinn þar sem ekki þyrfti að hækka sig o lækka mikið...

Best að fara ofan við fossinn til að halda hæð sem mest...

Landið talar við mann... ef maður bara... staldrar við... og hlustar... orkan og heilunnin í fjallgöngu er slík að engin orð fá því lýst... skilst eingöngu þeim sem ganga reglulega í óbyggðum... og geta ekki hætt... því næringin er svo mikil... og skákar öllu manngerðu...

Ofan við fossinn...

Litið til baka að kambi þar sem við vorum stuttu áður í 769 m hæð...

Litirnir þennan dag... voru sterkir... fullir af orku, gnægð, raka... eftir sumarið...

Bjarg sem hrunið hafði úr klettaborg Helgrinda...

Þokudalur... hér tóku Tröllkerling, Tröllbarn og Örninn við okkur opnum örmum...

Ánahyrna þarna í fjarska og suðurströnd Snæfellsness...

Við vorum í stórkostlegum fjallasal...

Í annað sinn í ferðinni fauk yfir okkur snjókoma af jöklinum... eða úr norðri... erfitt að átta sig á hvaðan þetta kom... og það dimmdi smá yfir... en við misstum aldrei fjallasýn... stórfurðulegt veður...

Lögð af stað upp á Rauða gíginn... þetta var könnunarleiðangur og við áttum allt undir að hafa skyggnið... því hngað höfðum við aldrei komið áður... og vorum ekki með gps-slóðir frá öðrum...

Gígurinn, Örninn... Tröllkerlingin til austurs...

Kambur þarna niðri með kambsvatnið á fjallsbrúninni... hrikalega fallegt landslag...

Helgrindur hér vinstra megin og Smári að þræða sig upp gígbarminn á þeim Rauða...

Austari hluti Helgrinda hér blasandi við okkur af Rauða gígnum...

Hvílíkur staður að vera á...

Skyndilega blasti Kirkjufellið við okkur ! Eitt af hápunktum þess að ganga á Helgrindur sunnan megin frá er að sjá skyndilega útsýnið til norðurs...

Gígurinn - Örninn (Tröllkarl) - Tröllbarnið að koma smávegis í ljós... og Tröllkerlingin... auðvlt er að sjá hér hvernig menn hafa litið á þetta sem fjölskyldu.... Tröllpabbinn og tröllmamman með barnið á milli sín...vel valin nöfn...

Batman og Baltasar að njóta þess að kanna ókunnar slóðir... eins og við... án efa má líklega fullyrða að ofurhundurinn Batman sé búinn að ganga á fleiri fjöll en nokkur annar hundur á Íslandi... nema við séum svona sjálflæg... því á hverju ári fer hann mneð okkur á fjölda nýrra fjalla eða gönguleiða...

Við byrjuðum að þræða okkur eftir öllum gígbarminum... og gátum ekki betur séð en að það væri fært allan hringinn...

Hópmynd hér til að reyna að fanga þetta útsýni sem er náttúrulega á heimsmælikvarða...

Á gígbarminum var mikill vindur... og við ákváðum að leita skjóls og fá okkur nesti... í grænni lautu...

Fínasti staður í brattanum...

Eftir notalegt nestið lögðum við af stað upp gígbarminn...

Hann er greiðfær að mestu... með smá kafla þar sem fara þarf varlega en alls staðar er gott hald í jarðveginum... þegar það er sumarfæri... þetta er erfiðari leið að vetri til en ef snjórinn er mjúkur þá er þetta fært því saklaust er neðar í gígnum...

Hvílíkur könnunarleiðangur....

Við fengum ekki nóg af því að horfa niður norðan megin á Kirkjufellið...

Brúðarkjóll fyrst þegar við fengum þetta útsýni... í febrúar árið 2009... sú stund var mjög áhrifamikil og gleymist aldrei:
Árið 2009 tvisvar: Toppfarar.is - Tindur 20 - Helgrindur
Árið 2011: Toppfarar.is - Helgrindur 270811
Árið 2021: Helgrindur... hrikalega fagrar fjallsbrúnir
Árið 2022 norðan megin: Tröllkerling og Tröllbarn við Örninn Snæfellsnesi
Árið 2024 : Helgrindur óhefðbundið í snjó og fallegri birtu

Þessi ferð á austari hluta Helgrinda var enn ein útgáfan á þessar kyngimögnuðu fjallsbrúnir...

Brattasti kaflinn á gígbarminum...

Sjá snjóinn norðan megin og sólbráðinn mosann hægra megin...

Örn... tröllkarlinn mikli... Ísleifur Toppfari til margra ára og Jón Oddsson sem bættist í hópinn í fyrra hafa báðir farið hér upp einir á ferð án hjálpartækja... mikil bratti og krefst útsjónarsemi... en er líklega fært þeim sem ekki glíma við lofthræðslu og eru útsjónarsamir í leiðarvali og klöngri í miklum bratta...

Hvílíkt útsýni...

Síðasti hlutinn af gígbarminum...

Við dönsuðum af gleði í þessu fallega veðri og sólbjarta útsýni... hvílíkt lán að fá þetta skyggni þrátt fyrir snjókomubeltin sem komu tvisvar yfir okkur óforvarandis...

Fremstu menn komnir hringinn...

Útsýnið var stórkostlegt allan hringinn af þessum gígbarmi...



Glöð að hafa náð að hringa gíginn... báðum markmiðum dagsins var náð... og það í fullkominni birtu og útsýni...

Litið til baka...

Á korti... virtist ekkert mál að bæta þessum tveimur tindum við... Tröllbarn og Tröllkerling... en við vorum sammála því að þetta var komið gott... hér upp væri ágætis klöngur og þessir tindar krefjandi sérferðar... kannski bara beint upp dalinn sunnan megin...
Ofan af þessum báðum tindum snerum við við ofarlega í hlíðunum árið 2022... í glerhörðu vetrarfæri á jöklabroddum... við hristum nú höfuðið og furðuðum okkur á áræðninni... en svona er fjallamennskan... fjöllin toga mann til sín og dáleiða... þessi ferð árið 2022 var svakalega flott og mikið ævintýri: Tröllkerling og Tröllbarn við Örninn Snæfellsnesi


Kambur hér með Kambsvatni... ofan af gígnum...


Best að koma sér niður... hér var mosinn og hraunið lungamjúkt og gaf allt eftir þegar við fetuðum okkur niður þó við reyndum að fara varlega... en við reyndum að velja rákir eftir grjótið...

Litið til baka...

Tröllkerling...

Sjá jarðfallið í miðjum hlíðum...

Riddarapeysumynd... fáir með hana meðferðis... en öll þrjú voru þau í stíl við landslagið... græni, bleiki og grái liturinn var um allt í náttúrunni...


Við örkuðum til baka en tókum of ofarlegan kafla og fórum niður úr brekkunum... það þarf að sneiða rétt hér milli fjalla...

Riddarapeysumyndahugmynd... hvílík fegurð... mannskepnan bliknar í samanburði við náttúruna... þar sem viskan og reynslan drýpur af hverjum steini... gegnum árþúsundirnar...

Mögnuð sýn á Tröllbarnið...

Og svo fórum við neðar hér en á uppleið og lentum þá í smá bungum upp og niður til að stytta leiðina í óþolinmæði þess sem vill taka stystu leið til baka... en þessi leið var fín líka og greiðfærari en við hefðum haldið... en hér urðum við viðskila við Sillu og Sighvat sem voru þó ekki lengi að finna okkur þar sem Sighvatur gætti þess að elta gps-slóðina frá því um morguninn...

Okkar tindur á gígbaminum vinstra megin... og svo Tröllfjölskyldan hægra megin...

Upp og niður smá brekkur... landslagið í lendum Helgrinda sunnan megin er margbreytilegt...

Kambur hér...

Litið til baka... hugsa sér hvað veðrið var gott...

Við nutum blíðunnar í þessu fallega haustveðri...

Kambur útbreiddur hér... nú þekkjum við hann eftir afar góð kynni þar sem fegurð hans kom virkilega á óvart...

Yfir lækjarsprænurnar sem runnu úr hlíðunum...

Síðasti kaflinn hér niður er jafn hrikalegur og fjöllin ofar...

Man þegar við fórum hér fyrst og okkuir þótti þessi kafli svakalega brattur... viðmiðið færist með reynslunni... ráin hækkar þó maður taki ekki eftir því...

Stuðlarnir og drangarnir... tröllin voru alls staðar og hvísluðu að þeim sem hlustuðu...

Héldum hópinn og gættum að grjóthruni...

Þriðja og síðasta nestispása dagsins í síðdegissólinni...

Litið til baka síðustu metrana...

Já... göngurnar á Helgrindur eru alltaf lengri en maður býst við í tíma... þó vegalengdin sé ekki sérlega mikil... alls 12,7 km á 7:19 klst. upp í 769 m á Kambi og 917 m á Rauða gígnum með alls 1.167 m hækkun úr 32 m upphafshæð...

Alsæl ætluðum við aldrei að koma okkur af stað í bílana... víman var allsráðandi... enn einn sigurinn á fjöllunum í Helgrindum... í einni fegurstu ferðinni á þessu svæði... en ferðirnar á Snæfellsnesi eru í sérflokki og engin leið að reyna að segja frá því hvers lags dýrðarinnar göngur eru mögulegar í þessum landshluta... það upplifist eingöngu á staðnum.. með því að "reima á sig skóna og leggja af stað"... eins og við sögðum hér í gamla daga... ekki bara finnast eitthvað góð hugmynd... heldur mæta... við fjallsrætur og leggja í hann ótrauður og til í óvissuna... sem fylgir því að kanna ókunnar slóðir... takk elsku ofurhugar... fyrir að mæta... því svona könnunarleiðangrar verða einfaldlega ekki að veruleika öðruvísi...
Gps-slóðin hér: https://loc.wiki/t/234948792?wa=sc
Myndbandið hér: Kambur og "Rauði gígurinn" Austari Helgrindum 041025d








Comments