top of page
  • Facebook
  • Instagram
  • YouTube
  • Twitter

Baula í febrúartöfrum

Updated: Mar 5, 2024

Tindferð nr. 296 laugardaginn 10. febrúar 2024.


ree

Örn þjálfari er með Baulublæti... og uppáhaldsfjöll þjálfara eru Baula og Hekla... í fyrra ákváðum við að festa á blað að við ætlum að fara á hverju ári á bæði þessi fjöll... og safna smám saman öllum tólf mánuðum ársins á þessi fjöll... og vera nokkur ár að því...


Fyrsta Bauluferð Toppfara var með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, ÍFLM þann 26. janúar árið 2008... þar sem Jón Gauti og Guðjón Marteinsson... sem tóku fyrstu skrefin með Toppförum árin 2007 - 2009... voru fararstjórar...


Þennan dag var snjóþungt á fjallinu og ekkert skyggni... krefjandi veður og færi... og við toppuðum án þess að sjá nokkuð... og er þetta ennþá eina ferðin á Baulu í engu skyggni:


Árin á eftir fóru þjálfarar svo með hópinn á Baulu kröfugöngu þann 1. maí 2009 sem var mikill sigur og færið krefjandi suðvestan megin: Toppfarar.is - Kröfuganga nr. 1 - Baula


Þremur árum síðar í júní 2012 í sól og blíðu og krefjandi sumarfæri þar sem við prófuðum að fara niður sunnan megin og vorum mjög lengi að koma okkur út úr lausagrjótinu:


Fimm árum síðar aftur að vetri til í mars árið 2017 þar sem við prófuðum að fara upp nýja leið hinum megin, að sunnan sem var krefjandi og ekki var niðurleiðin léttari norðan megin í miklu harðfenni þar sem vel reyndi á að vera með jöklabrodda: Tindferð 140 laugardaginn 4 (toppfarar.is)


Þremur árum síðar vegna fjölda áskorana og þá var aftur farið í blíðskaparveðri í júní árið 2020 og aftur reynt að finna betri leið sunnan megin en sama lausgrýtið tafði för: Tindferð 199 Baula í Borgarfirði (toppfarar.is)


Og enn leitaði Örn að betri leið í sjöttu ferðinni sem var farin í júlí í fyrra 2023 í bongóblíðu eins og áður og nú var farið alveg upp með öxlinni norðan megin sem reyndist besta leiðin sem við höfum funduð á Baulu... það er besta sumarleiðin... því Örn ákvað að fara þessa leið nú í ár 2024... en að vetri til... og þá reyndi vel á lofthræðslu þar sem farið var á jöklabroddum upp öxlina með brattar hlíðarnar beggja vegna... Baula í sjötta sinn í sól og blíðu og nú náðum við júlí ! #Föstudagsfjallgöngur (fjallgongur.is)


ree

Heiðskírt, logn og tært skyggni... ekki svo snjóþungt færið... og eingöngu örlítil gola í skarðinu við Mælifellið...


ree

Farið upp með Mælifellsgiliinu... Mælifell hér vinstra megin...


ree

Mættir voru 13 manns... allir að fara á Baulu í fyrsta sinn... nema Jaana, Karen, Steinar og Örn...



ree

Fjallið okkar fagra... dáleiðandi í formfegurð sinni og tignarleik...


ree

Sólin kom smám saman upp...


ree

Mælifellið og Mælifellsgilið...


ree

Fossinn í klakaböndum...


ree

Færið í stakasta lagi... ekki mjög þungt eins og það getur svo auðveldlega verið á þessari leið...


ree

Að vakna með fjöllunum á morgnana á veturna... ein í heiminum... eru forréttindi sem við skulum njóta meðan við megum og getum...


ree

Baulufararnir geggjuðu árið 2024:


Maggi, Birgir, Siggi, Jaana, Björg, Ingunn, Aníta, Sjöfn Kr., Sighvatur, Steinar R., Fanney og Karen... Örn tók mynd og Bára var að vinna en fylgdist með úr fjarlægð og lifði sig inn í blíðuna sem þarna var...


ree

Snjóflóð í gilinu... góð áminning en snjóflóðahættan á sjálfri Baulu er ekki mikil þar sem fjallið er bratt og safnar ekki miklum snjó í sig... það fýkur að mestu burt...


ree

Gott dæmi um hversu hættulegt það er að ferðast niðri í giljum á veturna... minnnti á alvarlega fjallaskíðaslysið sem varð á Esjunni neðan við Móskörðin fyrir nokkrum árum síðan... hvert einasta slys á fjöllum er okkur öllum víti til varnaðar... það væri óskandi að slysaskráning væri um þessi slys með skilgreindum lærdómi fyrir allt útivistarfólk... okkur hugnast ekki bendandi fingur né leit að sökudólgum eins og alltaf vill verða við svona slys... heldur málefnaleg greining á því sem gerðist og lærdómur dreginn af fyrir alla til að varast hætturnar...


ree

Grýtið á Baulu er úfið og skreytir fjallsræturnar langt niður eftir lendunum...


ree

Snjóhengja... hundurinn Batman fer oft alveg fram á ystu nöf... og enn vitum við ekki hvort það er yfirvegað mat eða óvitandi um hættuna... en þetta er saklaust hér miðað við það sem við höfum stundum séð hundinn gera...


ree

Sólin að koma upp og byrjar að skína að göngumenn hér þegar stutt er upp í skarðið... aldrei skynjar maður eins vel eins og á veturna hversu mikil orka, birta, hlýja og áhrif sólin hefur... þegar hún mætir á svæðið í myrkrinu... kuldanum...


ree

Skarðið framundan...


ree

Á leið upp í skarðið...


ree

Síðustu metrarnir upp í skarðið...


ree

Í skarðinu blasir skyndilega Litla Baula við... sem er kyngimagnað fjall...


ree

Leiðin lá upp hrygginn... sem var fínasta leið síðasta sumar...


ree

Komin á jöklabrodda frá því í skarðinu...


ree

Mælifellið hér handan við skarðið...


ree

Litla Baula og svo er spurning hvað þessi ás heitir... á kortum er Skildingafell ekki alveg á þessum stað...


ree

Uppgangan sóttist vel... ekki reyndi á lofthræðslu fyrr en ofar dró...


ree

Leiðin framundan hér... brattinn talsverður ofar en með mjúkan snjóinn þá er þessi leið í stakasta lagi...


ree

Allir himinlifandi með að vera hér... á þessum stað... á þessari stundu...


ree

Austurhlíðarnar á Baulu...


ree

Útsýnið til suðausturs...


ree

Hér var farið að brattna... en sjá snjóinn...


ree

Skugginn af Baulu farinn að lenda á Mælifelli...


ree

Farið að sjást í efsta tind...


ree

Gleðin... var alltumlykjandi...


ree

Kyngimögnuð uppleið sem tók vel í alla... og lofthræðslan ekki langt undan...


ree

Í skugganum af tindinum... en allt bakað í sólinni í kring...


ree

Hvílíkar myndir... skuggi Baulu hér á Mælifelli...


ree

Komin upp og eingöngu eftir að taka hrygginn upp á efsta tind... hundurinn Batman hér í sinni fjórðu ferð á þetta fjall...


ree

Hryggurinn efst upp á toppinn er magnaður kafli... litið til baka eftir honum hér af efsta tindi...


ree

Uppi breyttist veðrið úr nístandi kulda uppleiðarinnar í skugganum... í bongóblíðu sólar og logns á tindinu... ótrúleg viðbrigði og fljótlega voru höfuðföt og vettlingar komið ofan í bakpokann...


ree

Tær fjallasýn til jökla, fjalla og bæja allan hringinn...


ree

Hafnarfjallið og Skarðsheiðin...


ree

Til suðvesturs að Snæfellsnesi og fjöllunum við Hítarvatn ofl...


ree

Til norðvesturs... að Breiðafirði og fjallanna handan hans...


ree

Til norðurs...


ree

Til norðausturs... Holtavörðuheiði með Tröllakirkjuna sína...


ree

Til austurs inn Norðurárdal...


ree

Eiríksjökull, Strútur ofl...


ree

Nestistími í mikilli sigurvímu...


ree

Sjá snjóskálina neðst á mynd... Litla Baula ofarlega á mynd...


ree

Hópmynd á tindinum...


ree

Steinar, Maggi, Jaana, Fanneu, Aníta, Sjöfn Kr., Ingunn, Karen, Siggi, Björg, Biggi og Sighvatur... englar á ferð...


ree

Frábær hópur og mikil gleði þennan dag... Örn tók mynd og Batman var eini hundurinn...


ree

Örn ákvað að prófa niðurleið sunnan megin þar sem farið hafði um suma á uppleið norðan megin... smá áhætta því þessi leið hefur verið okkur þung í skauti að sumri til... en að vetri var hún í fínasta lagi...


ree

Sjá afstöðuna...


ree

Færið var með okkur þennan dag...


ree

Leiðin framundan... bílarnir bak við hjallana á miðri mynd... sjá þjóðveginn um Bröttubrekku hægra megin...


ree

Frábær leið...


ree

Ísaxargleði...


ree

Já... þá vitum við það... Baula er fær í febrúar... eins og hún var í janúar 2008 og mars 2017...


ree

Leiðin niður sóttist seint eins og uppleiðin... þannig er Baula... hjún er krefjandi frá upphafi til enda...


ree

Efsti hlutinn að baki hér...


ree

Sjá afstöðuna hægra megin hér...


ree

Ágætis sylla á miðri leið niður...


ree

Svo hélt niðurleiðin áfram eftir öxlinni...


ree

Bros, hlátur og gleði... ekki síst þess vegna eru fjallgöngurnar það besta...


ree

Enn talsvert eftir niður...


ree

En færið var áfram mjög gott þó krefjandi væri þar sem erfitt var að vita hvað beið undir snjónum... alls staðar holrúm og óvissa milli grjótsins... en það var allavega ekki á hreyfingu eins og það er að sumri til... þessi leið er mun erfiðari að sumri...


ree

Sjá mjúkan snjóinn...


ree

Frábær æfing í notkun jöklabrodda í bratta bæði upp og niður... þessi búnaður æfing ekki nema með reglulegri notkun... það er eina leiðin... nota þá sem oftast á hverjum vetri...

ree

Sólin beint á hópinn á niðurleið... hún lífgaði upp á og gerði allt léttara en ella...


ree

Farið að styttast...


ree

Komin niður nánast...


ree

Fjallahundurinn Batman með ótal fjöll á hreinu...


ree

Komin niður og nú var að strauja lendurnar til bakak í bílana...


ree

Veðrið að breytast... farið að þykkna upp en ennþá sól í gegnum skýjaslæðuna sem læddist mjúklega inn og yfir allt...


ree

Aldrei aftur á Baulu ? ... neibb... við erum ekki sammála... árlega skulum við fara á þetta fjall... og taka þannig púlsinn á okkur á hverju ári... meðan við getum gengið á Baulu... þá erum við sannarlega í góðu ásigkomulagi... nú eru apríl, ágúst, september, október, nóvember og desember eftir... búin með sex mánuði af tólf...


ree

Einstök birta...


ree

Leiðin til baka er nokkuð löng eftir krefjandi fjallgöngu bæði upp og niður.. við þveruðum fjallið... upp vinstra megin að norðan... og niður hægra megin... að sunnan... magnað !


ree

Neðar tókum við smá rennsli niður hjallana...


ree

Brjálað stuð... svona rennsli er svo heilandi !


ree

Komin undir klettabeltið að bílunum... engin mynd tekin við bílana...


ree

Á akstursleiðinni varð okkur litið á Baulu úr fjarska... og stóðumst ekki mátið að stoppa og taka mynd af fjalli dagsins... ótrúlegt að ahfa gengið á þetta fbratta fjall... vorum við virkilega þarna uppi fyrr um daginn ? Jebb... við máttum vera stolt af okkur... mjög sætur sigur að ganga á þetta fjall... og ekki skrítið að fá blæti fyrir því... það stenst ekki samanburð við mörg fjöll á Íslandi... hvað varðar lögun þá jú, talsvert af fjöllum á hálendinu hafa þetta strítulaga útlit... en lausgrýtið... liturinn... einstakt !


Alls 12,3 km á 7:03 klst. upp í 953 m hæð með alls 945 m hækkun úr 141 m upphafshæð...


Gps-ferill af leiðinni hér: Wikiloc | Trails of the World


Myndband af ferðinni hér: Baula 10. febrúar 2024 (youtube.com)


Allar ferðir á fjöll sem byrja á stafnum B- hér... þarna er Baula í stafrófsröðinni... og við hættum ekki fyrr en 13 ferðir eru komnar á listann... af því júní á tvær ferðir... B öll fjöll sem byrja á B | Toppfarar (fjallgongur.is)

 
 
 

Comments


bottom of page