top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Drápuhlíðarfjall og Írafell í töfrandi fagurri fjallasýn.

Updated: Nov 28, 2022

Tindferð nr. 254 laugardaginn 5. nóvember 2022.


Fyrstu helgina í nóvember var ætlunin að taka legg sex áfram leið okkar yfir landið frá Henglinum til Þingvalla en þar sem dræm þátttaka var í þá ferð og nauðsynlegt að ná nægilega mörgum til að fá rútu frá endastað... breyttu þjálfarar um leiðarval og ákváðu að fara loksins á fjall sem þá sárvantaði í safnið...hið litfagra og þekkta Drápuhlíðarfjall... og auðvitað urðum við að bæta við öðrum fjallstindi til að skreyta ferðina og réttlæta allan þennan akstur... og því var einnig gengið á Írafell sem fáir fara á... sem þýddi enn eina fjallatvennuna sem á vel við á þessari leið því frá Írafelli næst mjög falleg sýn yfir Drápuhlíðarfjallið... auk þess sem Jötunsfellið, Grímsfjallið og Kerlingarfjall nutu sín sérlega vel ofan af tindi Írafells...


Aftur var því ekið rúmlega tvo tíma yfir á norðanvert Snæfellsnesið... einni viku frá því við gengum á Tröllatindana við Örninn... en það var sannarlega þess virði... allt öðruvísi veður... frost og kaldur vindur... og fjallasýnin óskert um allt Snæfellsnesið sem var óborganlega fallegt þennan dag...


Hafursfellið (2012, 2019, 2022)... Tvíhnúkar (2021)... Ljósufjöll (2007, 2010)... Skyrtunna, Snjófjall og Svartafjall (2013)... Hestur (2016, 2022)...


Bjarnarhafnarfjallið (2014) í auðri nóvemberdýrðinni sinni...


Kerlingartindar og Rauðakúla... komin í framtíðarlistann...


Gráaklúla og Smáhraunskúla...


Grímsfjall, Kerlingartindar og Rauðakúla...


Fjallasýnin sem brátt tók að blasa við ofan við Drápuhlíðarfjall og Írafell var kyngimögnuð...


Drápuhlíðarfjallið og Írafell í morgunsólinni...


Við lögðum af stað frá hefðbundnum uppgöngustað þar sem er gott bílastæði og hlið inn i skóginn...


Falleg byrjun á gullfallegu fjalli sem beið okkar...


Nokkrir búnir að ganga á þetta fjall áður en komu engu að síður... og fengu aðra upplifun en síðast enda ekki hefðbundinn árstími á þessu fjalli... hávetur... en flest okkar aldrei komið hingað áður og búin að vera lengi á leiðinni...


Drápuhlíðarfjalli er líklega best líst sem margslungnu... það hefur ólíkar hliðar... ólíkar fjallsbungur... marga liti... alls kyns áferð... og fjölbreyttar bergmyndanir... auk þess sem landslagið í kringum það er fjölbreytt... allt frá miklum mosavöxnum hraunbreiðum... skriðum og grjóti... graslendi og mýrlendi... vötn... og skóg...


Litirnir sem einkenna þetta fjall tóku af allan vafa um að við vorum að fara að heimsækja einstakt fjall...


Vatnsdalsvatn... eflaust fallegt að ganga hring í kringum það í bakaleiðinni af Drápuhlíðarfjalli sé komið niður af því austan megin...


Landslagið að fjallinu leiddi okkur að þessum skriðukenndu ásum... alls kyns leiðir voru á wikiloc á Drápuhlíðarfjall... þar sem ætlunin var að fara einnig á Írafellið réð sú nálgun okkar för að hluta til... og gaf okkur sýn á fjallið frá þremur af fjórum ólíkum hliðum þess...


Frábær mæting þrátt fyrir skyndiákvörðunin að fara á þetta fjall... þjálfarar voru hæstánægðir með að við skyldum vera svona mörg sem drifum okkur þrátt fyrir langan akstur og kulda í kortunum... það átti jú að vera lygnt og gott skyggni... en lognið lét á sér standa... sem reyndisst svo gefa okkur skýjafar og fjallasýn sem var engu lík...


Bjarnarhafnarfjallið... ótrúlega fallegt fjall...


Örninn og Helgrindurnar hvít efst í fjallgarðinum til vesturs... nær voru gígarnir... kúlurnar allar... og fagurmótuð fjöll sem við eigum enn eftir að ganga á... og fóru á framtíðarlistann...


Þórkatla sagði okkur frá skaðræðisleið sem hún fór fyrir tilviljun fyrr á Drápuhlíðarfjall... þarna upp skriðurnar efst sem voru ekki álitlegar úr fjarlægð... þegar nær var komið varð okkur ljóst að við vorum að enda sömu leið.... jæja... við létum okkur hafa það...


Litið til baka... Breiðafjörðurinn svo fagur þennan dag...


Skriðan upp sem Þórkatla gaf ekki góða sögu af... en virtist kominn stígur... og Örn vildi láta slag standa... þetta lá beinast við... krókaleiðir framhjá sitt hvoru megin voru með mun hærra flækjustigi en að halda stefnunni hér upp... þjálfarar voru með gamlga gps-slóðin frá Leifi Hákonarsyni eins og svo oft áður í tækjunum sínum tið viðmiðunar en höfðu skoðað fleiri leiðir frá öðrum af wikiloc... þetta virtist vera í lagi...


Nærmynd af Erninum og félögum...


Skriðukennt líparítgrjótið var sæmilega mjúkt yfirferðar þrátt fyrir kuldann...


Við vorum undir það búin að þurfa að fara í keðjubroddana ef frost væri ofar... en þetta slapp ennþá...


Litið til baka...


Frosin og brostin hjörtu um allt... það var eins og þau væru að reyna að segja okkur eitthvað...


Komin upp... þetta var fínasta leið... orðin mótuð af umferð fyrri göngumanna og örugg alla leið...


Bungurnar héldu áfram upp eftir...


Breiðafjörðurinn að sjást betur með öllum sínum eyjum... nesjum og fjörum...


Skyndilega sást myndarlegur fjallsklettur í austri... þetta hlaut að vera fjallið Hestur... þarna vorum við í vor... í magnaðri ferð... Hestur Snæfellsnesi frá Rauðamelsölkeldu (fjallgongur.is)


Hér var komið hrím á grjótið og ljóst að við vorum að fá snefil af vetrinum á þessu lága fjalli...


Frostið gaf töfra á grjótinu sem við mynduðum í gríð og erg...


Líparítið lék sér að hríminu... litir í riddarapeysu...


Brátt opnaðist á fleiri fjöll í vestri og suðri...


Vá ! Við tókum andann á lofti ! Hrein fjallasýn og engin ský yfir einum einasta fjallstindi... það var ansi sjaldgæft á þessum slóðum... meira að segja Ljósufjöllin sem voru eiginlega í hvarfi af þeim sem norðar eru voru skýlaus að því er virtist...


Grímsfjall og Kerlingartindar... gleymast okkur aldrei eftir þessa ferð... frekar en fleiri fjallstindar sem áttu eftir að skreyta daginn...


Við vorum á nyrðri tindi fjallsins... eða einum af nokkrum tindum þess... hér framundan var sá hæsti... til suðurs...


Smávegis varða hér... þetta var í raun gulari tindurinn... sá hærri var hvítur af hrími...


Helgrindur og félagar með Bjarnarhafnarfjallið hægra megin nær...


Niður hér í góðum grjótskriðum...


Hvílíkir litir í berginu...


Yfir á hæsta tind...


Hér var frostið alls ráðandi... ískaldur vindur og mikill kuldi... ekkert vit í öðru en fara í keðjubroddana til að detta ekki í svelluðu grjótinu...


Sjá heiðgula litinn á nyrðri tindinum...


Samhengið við Breiðafjörðinn...


Stuðlabergssleginn kletturinn hér... við hefðum átt að skoða hann betur... fórum framhjá honum því miður...


Litir Drápuhlíðarfjalls...


Þetta hjarta var óðamála... það sagði...


"Tölum fallega um aðra... verum þakklát fyrir allt það sem aðrir gefa okkur... berum virðingu fyrir hvort öðru...

...tileinkum okkur jákvæðni og gleði öllum stundum... tökum eftir öllu því góða í fari annarra... tökum eftir fegurðinni allt í kringum okkur...

... spyrjum okkur hvað við getum gert til að hlutirnir séu betri en ella... höfum kærleikann alltaf með í för í hugsun... orði... og gjörðum... tileinkum okkur fallegt hjartalag..."


Öll þessi hjörtu í náttúrunni... eru án efa að minna okkur á einmitt þetta... að tileinka okkur fallegt hjartalag... æfum þakklætið... jákvæðnina... góðvildina... kærleikann... víðsjárverðir tímarnir núna kalla á það...


Frosið grjót... svellkalt og hált...


Mjög skemmtileg leið hér upp...


Keðjubroddarnir komu sér vel...


Stuðlabergsklettur.. líklega er þetta Grýla sem er merkt á korti... en við vorum ekki viss...


Það var erfitt að slíta sig frá myndatökum... þetta fjall var veisla...


Katrín og Guðmundur eru tvö af okkar allra bestu fjallgöngumönnum... víla ekkert fyrir sér... ólofthrædd og láta ekki veðrið stöðva för... Katrín búin að fara í liðskipti á hné sem flækir málin og kallar á aðgát í fjallamennskunni sem aldrei fyrr... mögnuð hjón sem hafa farið í ótal margar krefjandi ferðir með okkur...


Örninn að kanna slóðirnar ofar... birtan þennan dag var lygileg... Jötunsfellið farið að koma í ljós...


Bergið nær var eins og fjöllin fjær...


Frostið réði öllu í efsta tindi...


Við gengum upp á ávalan efst tindinn...


... sem mældist 538 m hár...


Allt hélað eða hrímað... einstakur tími þegar maður bókstaflega horfir á veturinn læsa klónum sínum í allt...


Sá guli ekki endilega á því að verða hvítur alveg strax og þrjóskaðist við...


Stórbrotið útsýni er af efsta tindi Drápuhlíðarfjalls... ef skýjafarið leyfir...


Við horfðum og nutum í 360 gráðum...


En áhrifamest var fjallasýnin upp með Snæfellsnesinu... enda í enda... frá Hesti í austri... alla leið að Helgrindum í vestri... allt önnur sýn en áður... vanalega erum við uppi í þessum fjöllum og horfum út eftir eða inn eftir... en nú vorum við neðan frá og það var ekki síðra...


Kattareyra... Hreggnasi... Rauðakúla fjærst hvít... Svelgsárhraunskúla (heitir einnig Rauðakúla á sumum kortum, m.a. mapsource / basecamp en þetta nafn kemur frá Reyni Ingibjartssyni af nákvæmari kortum af Snæfellsnesi en almennt er í boði) og ... Jötunsfell...


Jötunsfell... nafnlaust... Grímsfjall... Kerlingarfjall...


Hópmynd í kuldanum á toppnum í þessu kyngimagnaða útsýni !


Agnar, Guðmundur Jón, Örn, Oddný T., Sjöfn Kr., Þórkatla, Jaana, Jóhanna D., Fanney, Gulla og Katrín Kj. en Bára tók mynd og Batman og Kolka voru með...


Hópmynd með Breiðafirði í baksýn og nyrðri tind Drápuhlíðarfjalls sem var í sumarfæri ólíkt hæsta tindi... aðrir litir og önnur birta með sólina í fangið...


Meira að segja grjótið á vörðunni var litríkt...


Jæja... niður sunnan megin... við vissum að menn eru að fara hér niður suðaustan megin og taka þá hring austan megin undir fjallinu til baka... en við áttum stefnumót við Írafell og Örn tók að skima eftir hentugri leið...


Hvílík birta... það var eins og við værum í teiknimynd...


Einstakt landslag... Írafellið hér mosagrænt framundan og Grímsfjallið efst hvítt í tindinum...


Auðvitað fann Örn leið niður í gegnum grjótið... þetta var heilmikið brölt á þessu litla fjalli... heilmikil fjallganga bæði upp og niður...


Flottur hliðarhallinn hér... Bjarnarhafnarfjallið og Helgrindur í fjarska...


Hér heilluðumst við að berginu sem raðaðist í skífur niður eftir brekkunni... magnað að sjá þetta... mikil grjóttínsla var í Drápuhlíðarfjalli hér áður fyrr þar til menn stöðvuðu þá iðju og nú er bannað að taka úr fjalllinu...


Skífurnar í bunkum...


Ótrúlegt að sjá þetta... heilu veggirnir voru skreyttir með þessu bergi í Reykjavík á árum áður... hver man ekki eftir steinklæddu útveggjunum og inniveggjunum ?


Slétta fjallsöxlin næst okkur var svolítið sérstök... krossaður mosi á sléttunni efst... við veltum því fyrir okkur hvort þetta væri viljandi gert fyrir þyrlulendingu... ?


Krossinn hér... var þetta tilviljun eða manngert ? Væri mjög gaman að vita það !


Eftir nesti við grjótskífurnar í dásamlegu útsýni og skemmtilegu spjalli um alls kyns spennandi fjallgönguferðir klúbbfélaga erlendis á næsta ári... héldum við niður Drápuhlíðarfjallið í átt að Írafelli...


Jötunsfellið og Svelgsárklúla horfðu á okkur... og þessi hvíta fjærst vinstra megin er þá Rauðakúla...


Hestur... Botna-skyrtunna... Kattareyra... Hreggnasi... Rauðakúla...


Litið til baka...


Lungamjúkur mosinn í mun betra veðri hér niðri en uppi á tindinum...


Fjallið í fjærlinsu... skörðótt og bungótt...


Bjarnarhafnarfjallið kíkti milli Írafells og Drápuhlíðarfjalls...


Birtan og skýjafarið breyttist stöðugt í þessum stífa vindi sem var þennan dag... þökk sé vindinum fáum við oft stórkostlega meistaratakta á himni í staðinn...


Hreggnasi í allri sinni dýrð... í okkar einu ferð á hann þá náðum við ekki alla leið upp á tind í vetrarfæri í janúar... við þurfum að heimsækja þetta fjalll aftur... er ekki fær leið þarna vinstra megin undir tindinum ?


Botna-skyrtunna og Kattareyra... við ætlum á Botna-skyrtunnu á næsta ári og taka það fjall í sátt eftir slysið árið 2020 þar sem Sigga Lár og Linda slösuðust á ökkla í jöklabroddunum...


Létt leið upp á Írafell...


Grímsfjallið frá fjallsrótum blasti við okkur ofan af Írafelli... Kerlingarfjall fjær snjólaust...


Jötunsfellið og Svelgsárkúla... við VERÐUM að ganga á þetta fjall !


Litið til baka... Drápuhlíðarfjallið í sínum líparítrauðgula lit...


Fjærlinsa hér...


Tindur Írafells mældist 450 m hátt...


Flugvélarrák á himni...


Drápuhlíðarfjallið í allri sinni dýrð sunnan megin... það er þess virði að ganga á Írafell til að sjá það í heild sinni... stórar fjallsbungur...


Leiðin okkar til baka hér í vesturfjallsrótum...


Eina hliðin sem við sáum ekki á þessu fjalli var austurhlíðin... hún mun blasa við þegar við göngum á Jötunsfellið og Svelgsárkúlu... gegnum Svelgsárhraunið...


Hér voru aðstæður saklausar í samanburði við tind Drápuhlíðarfjalls... sumarfæri...


Þess virði að staldra við og njóta útsýnisins...


Kyngimagnað !


Þessi fjöll allt í kring verða okkur ógleymanleg eftir þessa ferð...


Samhengið við vestari hluta Snæfellsness... ótrúlega gaman að safna smám saman öllum fjöllunum á nesinu... komin með alls 43 fjöll í ómetanlegum fjöllum... og mörg ennþá eftir...


Við vorum alveg í stíl við liti náttúrunnar...


og þess vegna var engin spurning að taka mynd hér... bros, gleði, jákvæðni, elja og samstaða... og mörg fleiri orð koma upp í hugann þegar maður horfir á þessar yndislegu konur... hver með sínu lagi... auðga tilveru hvors annars... ómetanlegt...


Niður var svo farið milli fjallanna...


Nestispása hér í skjóli...


Og svo rúllað til baka í bílana meðfram fjöllunum og svo undir Drápuhlíðarfjalli...


Lungamjúk og létt leið...


... og falleg í fegurð hins smáa sem stóra...


Áfram óskert fjallasýn... það var langt í frá sjálfgefið...


Mjög gaman að sjá fjallið neðan frá og hversu breytilegt það er...


Litir... form... áferð...


Litið til baka... Írafellið hér fjær...


KLettastrítur stingandi sér upp í hlíðunum... það er greinlega hægt að ganga aftur á þetta fjall og upplifa annað en síðast...


Verkefnið þegar gengið er meðfram fjalli eru lækirnir og gilin sem renna niður það... sem skreytir bara og auðgar...


Smá pása á spjallinu...


Lendurnar síðasta kaflann voru góðar yfirferðar... við áttum von á meiri mýri eða öðrumn hindrunum en svo varð ekki...


Brátt kom fjallið að norðan aftur í ljós...


Ótrúlega fagurt fjall...


Skógurinn að bílastæðinu... mjúkur endir á gullfallegri göngu...


Alls 11,7 km á 5:17 - 5:19 klst. upp í 538 m hæð og 450 m hæð með alls 838 m hækkun úr 42 m upphafshæð... engin tæki alveg sammála... þjálfarar reyna að taka milliveginn og það sem er trúlegast af sínum tækjum... þau stóru nákvæmari en úrin eða símarnir... eða hvað ?


Aksturinn til baka var í dagsbirtu lungað af leiðinni... með stórkostlega fjallasýn allan tímann...


Hafursfellið hér í kvöldsólinni sunnan megin á Snæfellsnesinu...


Skyrtunna með Svartafjalli en Snjófjall er í hvarfi... við þurfum að fara að endurtaka þessa leið !


Hrútaborg og Tröllakirkja í Kolbeinsstaðafjalli og félagar... kominn tími á þau fjöll aftur líka... sérstaklega Tröllakirkjuna...


Gullfalleg ganga sem sýndi vel hversu flottar stuttar dagsgöngur á lág fjöll geta gefið jafn mikið og langar göngur á þau háu... gerum þetta oftar... við eigum enda svo mörg af þessum lágu fjöllum á Snæfellsnesi ennþá eftir... takk fyrir að mæta og gera þessa göngu að veruleika elskurnar !


Gps-slóðin hér:


Myndband af ferðinni hér:

266 views0 comments

Comments