top of page
  • Facebook
  • Instagram
  • YouTube
  • Twitter

Skjannanípa og Raufarfell upp Kaldaklifsgil og niður Seljavelli #Eyjafjöllin

Tindferð nr. 332 laugardaginn 17. maí 2025


Eftir stórkostlega göngu á Hornfellsnípu og Drangshlíðarfjall í maí í fyrra ( Hornfellsnípa og Drangshlíðarfjall um Fimmvörðuhálsleið meðfram Skógá ) ákváðum við að safna skipulega fjöllunum undir Eyjafjallajökli næstu árin og lá beinast við að ganga á fjöllin sem blöstu við ofan af Drangshlíðarfjalli og öskruðu bókstaflega á okkur að koma og heimsækja sig...


Það varð úr helgina 17. maí þegar fádæma blíða ríkti á landinu öllu í samfelldri 10 daga sólar-hita-blíðu þar sem hitamet voru slegin með yfir 20 stiga hita 10 daga í röð einhvers staðar á landinu hvern dag... ótrúlegt !


Við lögðum af stað frá Rvík kl. 08, hittumst á Hvolsvelli eins og vaninn er og heilsuðum svo upp á Finn, bónda að Raufarfelli 3 sem þjálfari hafði hringt í deginum áður og gaf kappinn sá okkur góðar upplýsingar og var áfjáður í að koma með ef heilsan leyfði en svo var ekki. Hann gaf okkur leyfi til að leggja bílunum á slóðanum við Kaldaklifsá og reyndist sérlega vinsamlegurm fróður og hjálpsamur okkur við undirbúning göngunnar...


Lagt var af stað kl. 10:36 á áraurum Kaldaklifsár... og var ætlunin að skoða gljúfrið til að byrja með áður en haldið yrði upp brekkurnar á Skjanna...


Kaldaklifsgilið kom virkilega á óvart og undirstrikaði enn meira fyrirætlanir þjálfara um að hafa gljúfurþema eitthvurt árið þar sem við rekjum okkur upp kyngimögnuð gljúfur sem eiga skilið að fá óskipta athygli...


Stórbrotið og fjölbreytt landslagið minnti á Þrengslin í Jökulgilsá við Torfajökul... göldrótt landslag með meiru...


Þetta gljúfur kallar á okkur síðar...


Fyrsta hópmynd dagsins og sú fegursta... alls mættir 18 manns og þar af 6 gestir sem allir stóðu sig með prýði og var sérlega ánægjulegt að kynnast...


Bára, Birgir, Björg, Dina, Elsa Þórey Eysteinsdóttir gestur, Guðmundur Friðrik Magnússon gestur, Guðný Ester, Helga Rún, Helgi, Jaana, Maggi, Sigtryggur, Silla, Sveinn gestur, Tinna gestur, Þráinn Friðriksson gestur, Örn. Batman var eini hundur dagsins...


Hér snerum við frá gljúfrinu og héldum upp í brekkurnar en sáum þegar ofar dró að þetta gljúfur verður stórbrotnara innar og eins þvergilin sem í það renna ofar... þjálfari er komin með magnaða leið sem verður gaman að fara einn daginn...


Skjanni... Raufarfell.... hér komum við... það var tími kominn á að halda upp í fjöllin...


Við völdum gilið milli kletta og fengum okkur nesti áður en mesti brattinn tók við þar sem að baki var langur akstur, hiti var mikill og við vildum hvílast áður en bröltið hófst fyrir alvöru...


Kaldaklifsgil fyrir neðan okkur og Hjörleifshöfði líklega þarna í fjarska... Drangshlíðarfjall er út af mynd hægra megin...


Eftir þennan hita dögum saman var jarðvegur mjög þurr og laus í sér svo brekkurnar þennan dag reyndu vel á í lausamöl og lausagrjóti en allir yfirvegaðir og fótfimir svo þetta sóttist vel...


Ofan við skarðið tóku klettarimar við og útsýni sem var með ólíkindum á báða jöklana og svo til sjávar og fjalla allt í kring...


Við tókum fjallarimann norðan megin og einhverjir skutluðust upp á rimann sunnar...


Gljúfur Kaldaklifsár... innar er heitt vatn úr jörðu sem Finnur, bóndi sagði okkur frá en það er meira en að segja það að komast að þeirri uppsprettu...


Hrikalegt landslag og mikill bratti einkenndi þennan dag...


Upp með fjallsrimanum... með gljúfrin fyrir neðan...


Drangshlíðarfjallið komið í ljós... og var óskaplega lítið að sjá frá Raufarfelli... en hvílík ferð í fyrra... hún lifðir lengi með okkur og lifir enn... en Raufarfellsferðin skákaði henni þó... sem var erfitt að sjá fyrir og erfitt að viðurkenna þar sem ferðin í fyrra var svo kyngimögnuð...


Þegar komið var upp á meginhrygg Raufarfells... liggja rimar til þriggja átta... einn þeirra er Skjanni með Skjannanípu yst og hæst... við vildum þangað og það tók vel í...


Allt laust í sér og bratt... og við þurftum að fóta okkur varlega og rólega hér undir og yfir klettahrygginn...


Berggangar ganga gegnum fjallið og koma upp úr skriðunum á stöku stað... Þráinn fræddi okkur um tilurð þeirra... áhrifamikið fyrirbæri...


Lausagrjótið... rennslið... þurrðin... brattinn sést ekki nætilega vel á myndinni... nokkrir slepptu síðasta kaflanum hér þegar verst lét og biðu hópsins meðan hann gekk á Skjannanípu...


Síðari hlutinn var greiðfær upp á Nípuna... þetta er eflaust betra í rakari jarðvegi...


Litið til baka... sjá bergganginn sem gengur niður með hryggnum... og sjálfan kónginn á svæðinu... Eyjafjallajökul gnæfandi yfir öllu saman... tindar hans verða gengnir smám saman næstu 10 árin eða svo... við gefum ekkert eftir... hér þarf ekki að spá í jeppafæri... sem var ein af ástæðunum líka fyrir því að við beindum sjónum okkar að þessu svæði...


Skjannanípa mældist 727 m há og gaf magnað útsýni... meðal annars beint niður á bæina Raufarfell og Rauðafell...


Guðmundur gestur hér með stafi móður sinnar í sér tösku sem hann bar í rólegheitunum alla gönguna... mikill fengur í slíkri smíði... Maggi Toppfari, Helga Rún Toppfari og Sveinn gestur í boði Helgu Rúnar en hann lék sér að brattanum og var sérlega fótfimur... eins og reyndar allir gestirnir því þessi ferð reyndi vel á...


Skjannanípufarar ! 14 manns af 18 :-)


Til baka sömu leið... við hefðum getað gengið niður að Högnakletti... en þar sem fjórir voru að bíða eftir okkur... hitinn var steikjandi... gangan hafði nú þegar tekið sinn tíma... það var nóg eftir... þá létum við Skjanna nægja...


Sama lausagrjótið til baka... en þetta sóttist vel...


Komin að bergganginum... neðan við þennan klett biðu fjórmenningarnir... og við fengum okkur nesti þar...


Nesti í miklu bratta en í mosa og sól... það var svo heitt þennan dag að sumir sátu í skugga til að hvíla sig á sólinni... það gerist MJÖG sjaldan í okkar göngum...


Allir komnir saman aftur og nú var stefnan tekin á hæsta tind Raufarfells...


Hann reyndist greiðfær og mosavaxinn og mældist 767 m hár og var mesta hæð dagsins...


Stórkostlegur tindur og svakalegt útsýni... hryggurinn út hér heitir Geldingaklettur... hann væri einnig hægt að ganga eftir eins og að Högnakletti... en við höfðum ekki tíma í það, létum Skjanna nægja með Raufarfellinu... hvílíkt fjall ! Hvílík veisla !


Ofan af tindi Raufarfells blasti dalurinn við neðan við Eyjafjallajökul... þar sem Seljavallalaug lúrir innarlega... ekki hægt að sjá að þessi dalur hafi nafn í sjálfu sér... Lambatungurnar vestar þar sem gengið er á Eyjafjallajökul frá Seljavöllum...


Krókódíllinn sem við sáum ofan af Raufarfelli...


Hópmyndin af tindinum... við vorum óskaplega smá í þessu hrikalega stórbrotna landslagi jökulsins... Uppistungnahaus sem er þarna innar eftir hryggnum... var okkar ætlun í þessari göngu en þjálfarar sáu fljótlega að það yrði of mikið... og féllu frá þeim tindi í upphafi dags... og var rétt metið því við komum nógu seint heim samt ! :-)


Frábær hópur á krókódílnum !


Drangshlíðarfjall og svo Skjannanípa...


Þarna sást Seljavallalaug... aðdáunarverð smíði og metnaður sem ekki sést lengur í samfélagi manna... nú eru allir uppteknir í símanum og dettur ekki í hug að erfiða svona við að búa til sundlaug inni í fjallasal sem á sér engan líka í heiminum...


Mesta óvissan fyrir þjálfara í þessum könnunarleiðangri var leiðin niður af Raufarfelli... við höfðum slóðina hans Ísleifs sem var á wikiloc... en við vildum fara fyrr niður... og sáum ofan af tindinum tvær leiðir... sú sem var fjær var líklega sú sem Ísleifur fór...


Leið hér niður ? Við horfðum á laugina...


Tungugil... eitt af þvergiljum Kaldaklifsgils... sem Finnur bóndi sagði stórkostlega smíði... og svo Hornfellsnípa sem við gengum á með Drangshlíðarfjalli í fyrra... þetta munum við skoða eitthvurt árið...


Maggi fann hjartastein sem var alveg í stíl við bolinn hans...


Geri aðrir betur !


Batman gaf tóninn fyrir þessa niðurgönguleið og skellti sér í skaflinn meðan Örn spáði í leiðina... jú, hér er fært niður...


Við tók mjög löng leið niður í dalinn... með heilmiklu brölti og klöngri í miklum bratta sem illa náðist á ljósmyndum... við hvíldum okkur reglulega á leiðinni... hún var það torfær... en NB... vel fær öllum sem á annað borð ganga á fjöll...


Meiri dásemdin... pils, stuttbuxur og hlíragbolir... við sem ekki vorum með stuttbuxurnar dauðsáum eftir því í mesta hitanum... og Batman var móður en fékk sína læki um allt sem betur fer...


Leiðin var sannarlega fjölbreytt og óskaplega falleg... ekki hægt annað en mæla með henni... en neðan frá var hún ekki árennileg að sjá...


Dýjamosi og lækjarsprænur um allt...


Á þessum kafla kom aftur óvissa... stundum vorum við ofan við smáfossa... og þurftum að sneiða framhjá þeim...


Brattinn fangast ágætlega hér...


Jú... brattinn sést ágætlega hér...


Aftur hvíld... þetta reyndi vel á en var svo dásamlegt að við gleymdum okkur endalaust...


Kærkomin lækjarspræna í hitanum...


Nú var þetta að koma... þjálfarar höfðu alltaf augastað á mögulegum varaleiðum ef við kæmumst ekki niður beint...


Gljúfrið sem við verðum að skoða síðar... fossaröð þarna inni...


Litið til baka... þessi leið var rosaleg !


Hér sést hvar við fórum niður... fossarnir og skriðan...


Þegar niður var komið ákváðu þjálfarar að sleppa því að vaða Laugará og skoða Seljavallalaug í návígi heldur halda sig fjallsmegin við ána og freista þess að komast löglega leið í gegnum byggðina og bændabýlin neðan við Raufarfellið þar sem Finnur bóndi mælti ekki með því að fara ofan við bæina eins og ætlunin var fyrst... en við fundum í raun bestu leiðina...


Mjög skemmtilegur kafli hér meðfram ánni...


Litið til baka... dýrðarinnar staður...


Komin á sveitaveginn neðan við bæina Rauðafell og Raufarfell... þar hittum við fólk, börn og hunda og allir heilsuðu glaðlega og vinalega...


Lent... dauðþreytt og sólbökuð eftir hreint úr sagt stórfenglegan dag...


Alls 14,9 km á 8:06 klst. upp í 188 m við Kaldaklifsgil, 727 m á Skjannanípu og 767 á Raufarfelli... með alls 1.080 m hækkun úr 42 m upphafshæð.


Takk fyrir okkur Raufarfell ! Eitt svipmesta fjallið sem blasir við þegar ekið er undir Eyjafjöllum... er hér með komið í safnið okkar... í gullfallegri og ógleymanlegri ferð...



Myndbandið á youtube hér:


Hjartansþakkir allir fyrir stórkostlegan dag, ljúfan félagsskap og sólskinsskap... og haf þökk kæru gestir sem skelltu sér með okkur, þessi ganga var alvöru og reyndi vel á en gaf í samræmi... þess vegna göngum við á þessi fjöll... þetta er svo lyglegt að engin orð né myndir fanga það sem upplifist...

Comentarios


bottom of page