Tindferð nr. 322 laugardaginn 23. nóvember 2024
Á Drápuhlíðarfjalli árið 2022 blöstu við okkur glæsileg fjöll af tindinum sem gerðu okkur agndofa af aðdáun... og þjálfari byrjaði þá strax að skima eftir leiðum á þessa fjallatinda sem hétu Grímsfjall, Jötunsfell og Svelgsárkúla... auk Kerlingarfjalls og svo voru fjær Hreggnasi, Rauðakúla, Botnaskyrtunna og Ljósufjöll og félagar ofl... en síðarnefndu fjöllin voru öll komin í safn Toppfara og því var augljós... að við yrðum að ganga á þessi fögru fjöll næstu árin...
Það gekk eftir og í fyrra gengum við á Svelgsárkúlu og Jötunsfell í alveg magnaðri ferð... og nú var komið að Grímsfjalli og félögum... en fyrst var ætlunin að fara á Kerlingarfjall með auk Hafrafells og Rauðkúlu en þar sem ferðinni var smám saman ýtt neðar á dagskrána alla leið á næst síðustu helgi nóvember mánaðar ákváðu þjálfarar að það yrði nægt verkefni á þessum dimmasta tíma ársins að glíma við Grímsfjall...
Sjá hér tinda þess tvo rísa í skarðinu eins og tvíbura, hvíta og formfagra... en vinstra megin er svo gostappinn Geirhnúkur en hann ásamt Háakasti og Seljafelli eru búin að panta pláss á dagskrá Toppfara í nokkur ár... og eru komin á dagskrá í janúar 2026...
Nærmynd af Grímsfjalli... hér fjærst á miðri mynd... Geirhnúkur vinstra megin og Einbúi og Rófuborg hægra megin... en þeir tindar eru líka á dagskrá árið 2026... í desember... það verður gaman að fara könnunarleiðangur á þessi sjaldförnu fjöll...
Þar sem leiðin var stytt niður í eitt fjall... gátum við lagt af stað úr bænum kl. 08 í stað 07 sem var kærkomið um miðjan vetur... en það þýddi að komin var dagsbirta þegar bílum var lagt þó sólin væri ekki komin upp... kl. 10:10...
Elliðatindar hér í baksýn... og allan hringinn blöstu við fjöll sem við höfum nú þegar gengið á... Vatnafell og Horn við vötnin, Hóls- og Tröllatindar fjær ofl. ofl... magnað alveg... og enn magnaðri að hugsa til þess hvílík ævintýri eru að baki á þessum fjöllum....
Þessi fjöll voru gengin í febrúar árið 2019... í færi, birtu og landslagi sem gleymist aldrei...
Það var napurt... spáð miklum vindi og kulda... en björtu og úrkomulausu veðri... og auðvitað grípum við það... gefum ekki eftir... annars förum við aldrei í fjallgöngu... ef við bíðum endalaust eftir hinu fullkomna veðri...
Eingöngu mættir 9 manns... grátlegt alveg... en góðmennt var það með eindæmum... og óvenjulegur hópur á ferð þar sem ofurkonurnar voru aldrei þessu vant ekki viðlátnar og sjaldséðir hrafnar á ferð... Steinar Ríkharðs, Helga Rún sem nú snýr aftur í klúbbinn eftir 2ja ára hlé, Björg sem kom í klúbbinn fyrir rúmu ári síðar, Pétur sem skráði sig í klúbbinn í nóvember en er nú þegar búinn að ganga með okkur á Helgrindur og Heklu, Berta sem kom í klúbbinn í vori, Siggi sem hefur verið með okkur árum saman og loks Skarphéðinn sem líka skráði sig í vor... frábær hópur á ferð og allir nautsterkir göngumenn...
Seljafellið... sem með Háakasti og Geirhnúk verður mergjuð ferð árið 2026...
Brátt komu fjallstindar í ljós sem við giskuðum á að væri Grímsfjall... en vorum ekki viss.... en, jú, það er hér vinstra megin með dökkri öxl fyrir miðri mynd... og fjær hægra megin er Hreggnasi og Rauðakúla...
Fjall dagsins... þetta vart könnunarleiðangur og þjálfarar höfðu ekkert við að styðjast nema svo oft áður... upplýsingar frá Jóni Oddssyni á wikiloc... en hann ásamt Ísleifi eru ötulir fjallakönnunarleiðangursmenn eins og við og gjarnan þeir einu sem búnir eru að ganga á sjaldfarin fjöll sem við erum stöðugt að leita uppi til að bæta í safnið....
Formfagurt var það Grímsfjallið... vá, hvað birtan átti eftir að breytast þennan dag og þetta fjall skipta litum allan daginn...
Hafrafellið og Kerlingarfjall... þau áttu að vera með í þessari göngu... og það hefði hugsanlega tekist ef við hefðum gefið okkur tíma til að kanna með bílfærið inn gamla jeppaslóðann um Kerlingarskarð... en þjálfarar eru nú á jepplingi og taka engar áhættur af könnunarleiðöngrum um jeppaslóða að hávetri... Vatnaleið opnuð formlega – Sturla
En þjálfurum fannst óþarfi að eltast við jeppaslóðann sem liggur alveg að fjallsrótum því þá yrði gangan svo stutt... frá hálsinum ætluðum við hana um 12 km sem er notalegur dagsskammtur í nóvember... má eiginlega ekki minna vera... svo við létum okkur hafa það að fara bara á fólksbílum upp hálsinn á Vatnaleiðinni og ganga yfir heiðina...
Þessi heiði og þar með þessi leið sem við fórum er hins vegar mjög blaut... og hindraði okkur ekki þar sem frost var í jörðu... en að sumri til eða í leysingum að vori eða hlýindum að vetri... er þessi leið ekki spennandi... hér með sett fram öðrum til aðvörunar...
En falleg var þessi leið í frostinu og greiðfær mjög... við skoppandi milli þúfna yfir frosna læki og klakabundnar tjarnir...
Hafrafellið... það var erfitt að fara ekk á öll þrjú fjöllin þarna og svo átti upphaflega að hafa Rauðkúlu með sem er ein af fjórum kúlum við Berserkjahraunið... en þær eru á dagskrá síðla árs 2025 svo það verður sárabót...
Litið til baka yfir heiðina... þessir ásar nefnast Hryggir á korti en við skráðum þá ekki með þar sem við fórum ekki á efsta punkt... Elliðatindar hér að kíkja yfir efst á mynd...
Öxlin á Grímsfjalli... og tindur Rauðakúlu hægra megin...
Vesturöxlin hér komin betur í ljós... við fórum upp hana... og reyndist þessi hryggur með hvassasta vind ferðarinnar... tindarnir tveir efst... og sá hæsti er sá vestari...
Hafrafell og Kerlingarfjall...
Sólarupprás hafin... og litirnir þar með að breytast úr gráum, bláum og hvítum... i bleikan, gulan og rauðan...
Seljafell og Háakast... bíða eftir okkur í janúar 2026...
Skyndilega varð hindrun á vegi okkar... einhver árræfill sem var ekki alveg frosin... hvernig stóð á því í þessu langvarandi frosti hér mitt uppi á fjallsheiði, ha ? Þetta var ein af nokkrum upptöksám Kaldár sem svo rennur úr dalnum til suðurs undir Seljafelli...
Skyndilega varð Grímsfjallið uppljómað af sólargeislum... sólin gyllti allt á nokkrum mínútum... einstakt að upplifa þetta... pant... pant... pant... eins lengi og við lifum... að fá að upplifa þetta... á veturna... á dimmasta tíma ársins... það er ekkert vit í að vera bara á fjöllum á sumrin... þessu vill maður ekki hafa misst af að upplifa öll þessi ár...
Suðuröxlin uppljómuð líka... sjá ána...
Við leituðum að góðum stað til að komast yfir á klaka... og fundum tvo staði...
Smá áhætta... ekki gott að blotna í þessum kulda svona snemma í ferðinni... einhverjir fóru í keðjubrodda þar sem við höfðum verið að renna til í klakanum á heiðinni og Örn kolféll á einum staðnum þar...
En ef maður fór varlega... og vandaði sig þá slapp þetta keðjubroddalaust...
Hundurinn Batman ávalt viðbúinn... klærnar dregnar fram þegar á þarf að halda... það væri aldeilis góður búnaður... gaman væri að vita hvað fer í gegnum höfuðið á honum þegar við erum að setja á okkur broddana.... og klæða okkur í fötin á leið út... hann alltaf tilbúinn á einni sekúndu í sínum feldi með sínar klær... maðurinn fullkomnasta skepna jarðarinnar ? ... neeeeeeiiii... ekki endilega...
Frostið í jörðu...
Það brast í öllu í jörðu... ekta vetrarganga... töfrar... núvitund... forréttindi...
Jahá... gamli vegurinn um Kerlingarskarð... greiðfær að sjá... hann nær niður á þjóðveg norðan megin... en virtist ekki gera það á korti sunnan megin... en hlýtur að gera það nema búið sé að loka honum þeim megin ?
Ársprænur komandi alls staðar niður úr fjöllunum í kring... og saman mynda þær Kaldá...
Elliðatindar og Tröllatindar í fyrstu sólargeislum dagsins...
Hér ákváðum við að hafa smá nesti... í sólinni... í skjóli... það var stífur mótvindur á heiðinni en skjólsælla hér undir fjallinu...
Sólin mætt... með Geirhnúk þarna svipmikinn... þarna verður magnað að koma...
Kerlingarskarðið sunnan megin...
Eftir nesti... sem gleymdist að ljósmynda... var haldið uppn á vesturhrygginn...
Fjallgarður Snæfellsness kom smám saman í ljós í vestri. eftir því sem ofar dró...
Þegar komið var upp á vesturhrygg Grímsfjalls var vindurinn mjög stífur... svo stífur að við gátum vart haldið okkur á fótunum og flúðum fljótlega inn hvilftina hér og upp í skarðið austan hryggjarins þar sem var skjól og mun betra veður... engin mynd var tekin á hryggnum enda áttum við fullt í fangi með að halda okkur á fótunum, haha... við erum sko engir aumingjar sko... sögðum við við okkur svona til að peppa okkur upp þegar verst lét...
Suðuröxl Grímsfjalls...
Það breyttist allt við að færa okkur af hryggnum niður í hvilftina og upp í skarðið... einhverji eflaust farnir að hugsa að við þyrftum að snúa við þegar verst lét uppi á hryggnum... en þjálfarar voru aldeilis ekki á því að snúa við... í verra roki höfum við oft verið... sest niður og lagst og skriðið... það lagast alltaf eftir því hvernig landslagið leggst í kring og nauðsynlegt að breyta bara um staðsetningu þegar vindurinn blæs svona svakalega á ákveðnum stað...
Hér lék allt í lyndi í skjólinu og allir búnir að taka gleði sína á ný eftir skelfinguna... nei, ég segi svona... harðneskjuna á hryggnum...
Skarphéðinn, Berta, Helga Rún, Siggi, Steinar R., Örn, Pétur og Björg en Bára tók mynd...
Batman lét sér hvergi bregða í þessu veðri... öllu vanur með sínu fólki... búinn að þurfa að snúa við með Báru sinni tvisvar af tindi Úlfarsfells án þess að ná á efsta tind fyrr í vetur... á vinafjallinu þeirra... í tæplega 300 m hæð... veit að þetta lagast alltaf... en það reynir einmitt á þetta í svona veðrum... hversu vanir eru menn svona vindi og hversu fljótt þeir þá gefa eftir og vilja snúa við...
Þriðjudagarnir og vinafjallið eru frábær leið til að fara sama hvernig veðrið er... og æfa sig og búnaðinn í öllum veðrum... til að láta sér hvergi bregða þegar vindur blæs... frostið bítur... og úrkoma bleytir allan búnað... ef maður hörfar sífellt og breytir eða frestar ferðum út af veðri... þá hættir maður að kunna á sjálfan sig og búnaðinn í erfiðum veðrum... eiginlega getur maður ekki verið alvöru fjallgöngumaður á Íslandi nema kunna á öll veður og vera það tamt að lenda í miklum vindi, úrkomu og kulda...
Þjálfarar eru ekkert skárri í þessari hörfun... breytandi þriðjudagsfjöllum oftar en áður fyrr út af veðri... kannski ættum við að hætta því aftur og láta okkur bara hafa það eins og fyrstu ár Toppfara þegar við bara mættum sama hvað og tókumst á við það veður sem var í boði þann daginn og æfðum þannig þennan barning...
... því á svona dögum reynir mjög vel á hversu vanur maður er að kljást við svona vind... kulda... og svo á öðrum dögum úrkomu... en myrkrið og vetrarfærið kemur svo líka inn í með þetta að æfa sig og vera það tamt að kljást við slíkar aðstæður... það er mjög frelsandi að upplifa að þessar aðstæður slá mann ekki út af laginu... heldur kikkar reynslan inn og maður setur undir sig hausinn og heldur áfram... vitandi að vindurinn er minni ofar eða handan við hrygginn eða klettinn eða álíka...
Það var nefnilega þannig þennan dag... að þegar hryggnum sleppti vestan megin... varð veðrið betra og vindurinn blés ekki svona stíft aftur nema undir tindinum... og svo var lygnara efst á fjallinu... hið svokallaða brúnalogn ríkti þar nokkurn veginn... en nú erum við hætt að telja hversu oft við höfum upplifað það... það er svo oft...
Geirhnúkur, Háakast og Seljafell og svo nær er vesturöxl Grímsfjalls...
Færið var með besta móti... hart en án hálku og við þurftum aldrei keðjubroddana þennan dag... se m er ótrúlegt í rúmlega 800 m hæð síðari hlutann í nóvember... veðrið er sannarlega mildara en það var fyrstu ár Toppfara... það verður að viðurkennast...
Þarna var Kirkjufellið... hægra megin eins og dökkur stapi... Tröllatindarnir hvítir efst vinstra megin... Helgrindurnar enn fjær en lítið sást til þeirra sökum skýjafars... við vorum ljónheppin með skyggni, skýjafar og birtu þennan dag... norðan megin hefðum við verið í skugga því sólin er svo lágt á lofti á þessum árstíma og það þarf að hafa það í huga þegar verið er að velja fjöllin...
Við runnum blint í sjóinn... var fært þessa leið upp á Grímsfjallið ? Jú... allavega að sumri til þegar Jón Odds fór... annað vissum við ekki... og höfðum engar myndir né frásagnir af göngu þarna nema frá honum...
Vá... Hafrafellið og Kerlingarfjall nær og fjær er Bjarnarhafnarfjallið að birtast svo fallegt að það var lyginni líkast...
Hví... lík... birta... þarna fórum við upp árið 2014 og vorum svo lánsöm að ná að hitta og spjalla heilmikið við Hildibrand sem sagði okkur heilu sögurnar... það verður sífellt verðmætara að hafa hitt þennan mann og kynnst honum svona vel þennan dag...
Útsýnið varð sífellt magnaðra...
Hér blasti tindurinn við... en Grímsfjallið er tvítinda og þjálfarar héldu jafnvel að efsti tindur væri hinn sem væri fjær í hvarfi hér...
Frostið var læst utan um allt á leiðinni... líka mosann sem var brakandi en samt "mjúkur inn við beinið"...
Birtan þennan dag... forréttindi að fá svona dag á þessum árstíma...
Verum þakklát... númer eitt... að fá að upplifa svona dag... hvort það var vindur eður ei... það gleymdist allavega á bæ ritara áður en daguirnn var allur... eftir lifði birtan og fegurðin og félagsskapurinn...
Þegar litið var til baka vorum við í sólarlagi allan daginn... sólarupprás og sólsetur rann út í eina gyllta fegurð sem sló gulli á allt umhverfið...
Snæfellsnesið til vesturs norðan megin... og Hraunsfjarðarvatn og svo hægra megin fjærst er Hraunsfjörður... Baulárvallavatn er út af mynd vinstra megin en það skreytti fyrsta og síðasta hluta göngunnar...
Bjarnarhafnarfjall... við eigum alltaf eftir að ganga á syðri hluta fjallgarsðins... búin með þaðnn nyrðri árið 2014 sem fyrr segir...
Hafrafell næst okkur en Kerlingarfjall sést ekki ennþá...
Austari tindurinn kominn í ljós baðaður sólargeislum...
Svelgsárkúla vinstra megin við miðja mynd... svo Hreggnasi og Rauðakúla og fjærst hægra megin eru tindar Hafursfells sem við höfum gengið á þrisvar...
Nærmynd... Hreggnasi nú að mestu í skýjunum... Jötunsfell sést ekki...
Birtan breyttist stöðugt...
Elliðatindar og Tröllatindar með Baulárvallavatni...
Seljafell og félagar...
Hér í skarðinu milli tinda blés tindurinn hvassog kalt... en við létum engan bilbug á okkur finna... þjálfarar komust að því að efsti tindur var sá vestari... voru ekki vissir... þetta er einmitt það skemmtilega við könnunarleiðangrana... að komast að þessu... á eigin skinni... á staðnum...
Ennþá sluppum við við keðjubroddana... gott viðnám í þessu frosna færi...
Það reyndi vel á búnaðinn... ullin innst og hlífðarfatnaður utan um... það er besta blandan... annað dugar ekki í mjög hvössum vindi og kulda...
Dásamlegt að fá Helgu Rún aftur til okkar... nagli eins og fleiri konur í hópnum... og alltaf gleði og jákvæðni... það er lykilatriði... ef maður ætlar að endast í þessu... og gefast ekki upp því það reynir jafn mikið á hugarfarið eins og líkamlegt ástand í alvöru fjallgöngum...
Vá... skyndilega milli tinda Grímsfjalls... birtist Drápuhlíðarfjall... svo fagurmótað og marghryggja... með sólargeislana eingöngu á efstu tindum... þar sem Grímsfjalliðn skyggði á þessa lágu vetrarsól... það var betra að vera sunnan megin...
Brátt opnaðist líka útsýnið til austurs... hér næst er austurtindur Grímsfjalls... við slepptum honum úr því það var svona hvasst... enda var heilmikill munur á hæðinnni milli tinda...
Tindur Grímsfjalls mældist 822 m hátt... magnað að ná þessu !
Drápuhlíðarfjall... þetta voru töfrar...
Steinar Ríkharðs á leið upp síðasta kaflann...
Til suðurs... út Kerlingarskarð... Hafursfell vinstra megin og Geirhnúkur í Seljafelli hægra megin...
Baulárvallavatn og Hraunsfjarðarvatn með Elliðatindum baksviðsmegin...
Þetta var mikill sigur...
Hér var mjög kalt en minni vindur en síðustu metrana upp og á hryggnum neðar...
Útsýnið niður til norðurs að Bjarnarhafnarfjalli...
Drápuhlíðarfjall og Írafell... sællar minningar 2022...
Jötunsfell, Svelgsárkúla, hreggnasi, Rauðakúla og Hafrafell til austurs...
Hafrafell, Kerlingarfjall og Bjarnarhafnarfjall en fjallgarðarnir vinstra megin ofar á mynd eru enn ógengnir í klúbbnum og bíða stöðugt færis við að komast að... við gefumst ekki upp fyrr en öll fjöllin á Snæfellsnesi eru gengin... engar afsakanir... bara fjallgöngur...
Örn, Siggi, Pétur, Björg, Steinar R., Berta, Skarphéðinn og Helga Rún... magnað fólk sem fór hratt upp og hratt niður... með bros á vör og bara gleði á vörum... forréttindi að vera með svona fólki á fjöllum...
Hópmynd í hina áttina...
Niður til vesturs... ég veit... alltaf sama útsýnið... bara til að skrásetja landslagið... sjá gamla veginn um Vatnaleið...
Pétur í sinni þriðju tindferð með okkur... hann er á leið á Aconcagua í janúar með Leifi Erni Everestfara og Slóðum... við munum lifa okkur inn í það ævintýri með honum... þessi ganga var ágætis æfing fyrir það... kuldi og vindur...
Bjarnarhafnarfjall...
Drápuhlíðarfjall og Írafell...
Þarna vorum við í fyrra... og árin á undan... á öllum þessum tindum... við eigum samt Kattareyra eftir...
Geirhnúkur... og suðurströnd Snæfellsness...
Eftir myndatökur og fagn uppi... héldum við beinustu leið niður... fram af hryggnum en ekki niður um skarðið... en þarna feyktu sviptivindarnir okkur niður og voru ansi ófyrirsjáanlegir... það þurfti alveg að hafa fyrir því að halda sér á fótum sum andartökin... en almennt var þetta bara skemmtileg og rösk niðurleið...
Litið til baka... allt bakað í sólinni... dásamlega bjart og fallegt...
Það var svo gaman hjá okkur... mikið spjallað og spáð í hlutina... dásamlegt alveg...
Leiðin niður... með sólina beint í fangið... ekki hægt að fá flottari útiveru á þessum árstíma...
Vesturöxlin á Grímsfjalli þessi dökki þarna niðri... við enn á leið niður hvíta tindinn... gígbarminn í raun... þetta var vottur af gíg þarna uppi og báðir tindar hluti af gígnum... Snæfellsnesið er ekkert nema gígar og gígbarmar...
Alvöru fjallgöngufólk á ferð... ekkert væl... engar afsakanir... ekkert gefið eftir... mætt í kulda og vindi að vetri til...
Komin úr snjónum og í mosann....
Aftur nesti... og nú í skjólinu og sólargeislunum efst í skarðinu við vesturöxlina...
Hvílík fegurð... hér meðfram vesturöxlinni niður hvilftina...
Þarna niðri ákváðum við að þvera aftur yfir öxlina... og það var stórmerkilegt að uppgötva... að á hryggnum var sama skelfingarrokið... eins og fyrr um daginn... það skipti greinilega miklu máli hvar maður var staddur á fjallinu hvað vindurinn blés mikið...
Við flýttum okkur niður öxlina úr þessu roki...
Litið til baka...
Sjá ána Kaldá... neðar...
Sjá heiðina sem var svo framundan að bílunum...
Hafrafellið... það bíður eftir okkur síðar...
Birtan á því gullin... þessi dagur var svo fallegur...
Grímsfjallið í sólinni... hér sést eingöngu í vesturöxlina... eða vesturhamrana...
Aftur á veginn og yfir aðra kvíslina á ánni...
... og yfir að hinni árkvíslinni...
... sem við urðum að þvera aftur... en það hafði nú aldeilis ekkert hlýnað með deginum... jafn kalt núna eins og áðan svo ekki var það vandamál að klakinn hefði gefið eftir...
Hafrafell og hluti af Kerlingarfjalli... hafrar... kerlingar... Grímur... hvaða Grímur var þetta ? Afhverju fékk fjallið ekki frekar nafn einhverrar konu frekar en bara "kerlingar" ?
Grímsfjallið ennþá baðað í sólinni... þjálfari ætlaði að taka hópmynd með fjallið í baksýn og sá að það yrði að grípa þessa birtu meðan hún gæfist...
En fyrst var að koma sér yfir ána...
Allt frosið... stoppaði og tók mynd í gegnum klakann...
Himininn...
Æj... hópmyndin... hey... bíðið...
Takk fyrir okkur...
Skugginn var að koma... en ég vildi fá meira af fjallinu á myndina... við urðum að fara fjær...
Frostið í jörðu...
Nú sást á tindinn hvítan þarna í skýjaslæðunni...
Náðum hópmynd af þessu tignarlega fjalli.... með leiðangursmönnum dagins...
Björg, Skarphéðinn, Steinar R., Helga Rún, Pétur, Örn, Siggi og Berta... en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn þennan dag...
Rétt eftir hópmyndatökuna... læstust skýin í fjallið...
... og skyndilega tók að snjóa mjög létt...
... og fjallasýnin hvarf si svona... ótrúlegt alveg !
Snjókoman fest á mynd... samt var sólin á lofti... það fór greinilega þunnur snjókomubakki yfir okkar svæði akkúrat á þessum tíma...
Við prísuðum okkur sæl að þetta skyldi ekki hafa komið þegar við vorum á leið upp eða niður eða á tindinum...
Fjallasýnin horfin...
Farið að sjást til bílana við Baulárvallavatn...
Elliðatindar að hverfa bak við skýin...
Litið til baka.. þýft landslag allan þennan kafla... og mjög mýrlent...
Svo varð aftur bjart...
Seljafellið aftur...
Bílarnir við þjóðveginn á Vatnaleiðinni...
Lent... eftir stutta og snarpa göngu í magnaðri birtu og landslagi og srórkostlegu útsýni...
Við mældum gönguna frá 12,0 - 13,4 km og skráðum hana 12,2 km...
Mismunandi eftir tækjum... alls 12,2 km á 5:11 - 5:12 klst. með alls 881 m hækkun úr 225 m upphafshæð...
Við búin með göngu og komin upp í bílinn keyrandi heim kl. 15:30... það var alveg dásamlegt... pant fleiri svona stuttar göngur takk fyrir... aksturinn heim tók 1,5 klst. með engu stoppi í Borgarfirði... en við gleymdum að leiðrétta akstsurstímann sem við áætluðum í þessa ferð sem var 2,5 klst. á viðburðinum... en þetta þýddi bara að við vorum komin heim klukkutíma fyrr en við áætluðum um fimmleytið seinnipart dags...
Hafursfellið... sem geymir ómetanlegar minningar úr þremur mjög ólíkum göngum... þar sem við prufukeyrðum mismunandi leiðir og uppgötvuðum drangana sunnan megin sem okkur er til efs að nokkur hafi gengið að áður...
Skyrtunna í síðdegissólinni... óvenjuleg sýn á hana... svona gefa vetrarferðirnar eitthvað alveg sérstakt...
Magnað ! Tindferð 92 miðvikudaginn 1
Hrútaborg og Tröllakirkja í Kolbeinsstaðafjalli... sem við höfum gengið á nokkrum sinnum... og í þar bættist fjallgarðurinn norðan megin við safnið... en sú ferð var mun flottari og flóknari en við áttum von á...
Rauðamelskúlur... þessar kúlur á Snæfellsnesi... söfnum þeim !
Hreggnasi og félagar... kyngimagnaður könnunarleiðangur sem gleymist aldrei...
Erum við virkilega búin að ganga á bókstaflega alla þessa tinda ?
Sólin settist við Eldborg...
Skessuhorn og Hafnarfjallið eftir að sólin var sest...
Gullið ennþá á himni... þetta fer allt framhjá manni ef maður er bara uppi í sófa á þessum árstíma...
Tíunda gosið á Reykjanesi hófst mánudag þessarar viku... þetta var laugardagur... og enn sást vel til þess... hér á leið að Hvalfjarðargöngum...
Gosið frá veginum í Mosó...
Og loks gosið frá veginum í Grafarvogi... komin heim um fimm síðdegis... og ekki enn orðið alveg myrkur.. geggjað dagsverk að baki ! Ekki hægt að fara inn í laugardagskvöld sáttari né sælli en eftir svona dag... pant upplifa þetta reglulega svo lengi sem maður lifir...
Myndbandið af ferðinni hér: Grímsfjall á Snæfellsnesi 231124 - stórkostleg birta og útsýni! #Toppfarar
Takk innilega fyrir að láta slag standa og mæta elsku leiðangursmenn... annars hefðum við aldrei upplifað þessa fegurð... og þessi ganga hefði aldrei orðið að veruleika í þeirri birtu sem þarna var þennan nóvemberdag... #þakklæti
Bình luận