Hekla í janúar... stjarnfræðilegt !
- Bára Agnes Ketilsdóttir

- 5 days ago
- 9 min read
Tindferð nr. 349 laugardaginn 3. janúar 2026

Við erum að safna mánuðum á Heklu... og töldum það ansi djarft... enda almennt ekki bílfært inn Dómadal yfir vetrartímann... við töldum okkur því ansi lánsöm að ná Heklu í nóvember í hitteðfyrra... 2024...

Svo þegar kom fram í desember árið 2025... og enginn snjór á hálendinu... þá fóru þjálfarar að hugsa... gætum við komist upp eftir í janúar ?

Og það stóð á endum… snjólaust og akstursfært inn eftir að Skjólkvíum á fjórum jeppum og einum Dasia Duster upphækkuðum… en smávegis lagni þurfti til að komast í gegnum frosnar leysingarnar sem voru þá þegar búnar að skemma veginn umtalsvert…

Lagt var af stað úr bænum kl. 07:30… áð á landvegamótum þar sem dóttir Pálínu opnaði fyrr fyrir okkur af stakri þjónustulund sem við ætluðumst alls ekki til… en kom sér mjög vel enda voru fleiri en við mætt á staðinn… og aksturinn tók með öllu rúma 2,5 klukkutíma… í myrkri allan tímann en þó farið að birta af degi þegar keyrt var inn að fjallsrótum… og það kom á óvart að á tveimur stöðum á leiðinni voru stórir bílar… hugsanlega hjólamennirnir sem við svo hittum á leiðinni… en gangandi lögðum við af stað kl. 10:21…

Þegar við litum til baka nýlögð af stað sáum við að annar jeppi var mættur á svæðið… og út stigu fjórir menn… við vorum sannarlega ekki ein á fjallinu… og greinilega ekki þau einu í heiminum sem ekki eru haldin þeirri sjálflægni að halda að Hekla muni gjósa einmitt þegar við erum stödd á henni…

Tunglið fyldi okkur allan þennan dag… og birtan var með ólíkindum fögur…

Þjálfarar mæltu með að fara strax í keðjubroddana því allt væri helfrosið og glerhart… og mikið gengið í hliðarhalla til að byrja með sem er ekki þægilegt í mjög hörðu færi… og það koma á daginn… þeir sem ekki voru komnir í brodda fóru í þá eftir fyrstu brekkuna…

Þessi frosni skafl var harður… og við sniðgengum hann flest í hópnum á niðurleið…

Frábær hópur á ferð… alls 18 manns… þar af fjórir gestir og tveir til sem eru fyrrum Toppfarar… þau Kári Rúnar og Sigrún Eðvalds sem hafa mætt í nokkrar göngur með okkur eftir að þau hættu í klúbbnum sem er frábært…



Við áttum von á að þurfa að fara í jöklabrodda þennan dag… en þess gerðist ekki þörf… og úfið glerjað færið í efri hluta fjallsins var slíkt að keðjubroddarnir voru mun betri en jöklabroddarnir því hjarnið var það úfið og hart… ótrúlegt færi !

Heiðskírt… gjóla í byrjun og svo skjól fyrri hlutann en gjóla uppi… “bara -12 stiga frosti niðri” en mun kaldar uppi þar sem vindkælingin var agaleg…




Útsýnið með ólíkindum þennan dag… upp á hálendið… til Þingvallafjalla… til jöklanna allt í kring… tært og skýrt…



Krakatindur og Löðmundur farnir að kíkja upp úr landslaginu…

… og Rauðufossafjöllin líka…



Létt og greiðfær ganga sem þó leynir á sér í hækkun og vegalengd… og ef ekki er skyggni… og maður er ekki með gps… þá er maður fljótur að villast hér…

Skugginn af Heklu skreytti bæði uppleið og niðurleið… þetta minnti á Mistý 5.822 m í Perú… og fleiri fjöll í gegnum tíðina…

Gígurinn okkar góði þar sem við höfum stundum borðað nesti í… gjólan læddist samt hér niður líka… einmitt þar sem við héldum að við fengjum skjól…

Nestið var ískalt undir tönn… nánast frosið þó það væri ofan í pokanum en ekki utan á honum… þetta var kuldi þar sem allt frýs ef það kemst í tæri við loft eða vind…

Við stöldruðum ekki lengi… of lengi fyrir smekk einhverra… mann kólnaði strax við kyrrsetu… þessi kuldi var slíkur að það var lítið hægt að stoppa…

En… alltaf mikilvægt að borða til að fá brennsluna af stað og hita í kroppinn… og ofan við gíginn beið okkar sólin… það voru góð kaflaskipti…




Stórskostleg fegurð… og við vorum ekki ein í heiminum aldrei þessu vant… smám saman týndust upp hjólreiðamann framhjá okkur á þessum kafla í sólinni…


Íshrönglið… var með ólíkindum… og það klingdi í því sérstakur bjölluhljómur… þetta var margfalt umfangsmeira og stærra og sterkara íshröngl en við höfðum áður upplifað… og torfært var það á köflum því það gaf ekki eftir og við vorum að stíga niður á ójafnt landslag og þurftum að fóta okkur yfir þetta alla leiðina í efsta hluta fjallsins… ótrúlegt…







Skugginn... þarna niðri voru fjöllin sem við ætlum að ganga á í lok febrúar...


Hvílík náttúrusmíð... við reyndum að mynda þetta...








Í fjarska sáum við hjólreiðamennina fagna á tindinum þarna uppi… sést illa á þessari mynd samt…





Smám saman óx kuldinn og gjólan hélt okkur vel við efnið… það var eins gott að geta haldið áfram göngu og þurfa ekki að stoppa mikið…


Hér komu hjólreiðamennirnir aftur niður af tindinum og þjálfari tók þá tali og þeir voru hinir almennilegustu… hétu Hreðjarnar… voru líklega 12 manns… allt karlmenn… þeir voru einn og hálfan tíma upp þrátt fyrir tafir á uppleið vegna tæknilegra örðugleika… og þeir voru sammála okkur um að þetta færi væri skelfing… við óskuðum þeim góðrar niðurferðar og horfðum á þá hjóla niður Heklu… magnað alveg !

Hjólreiðamenn Toppfara eins og Birgir og Sighvatur fengu innblástur og við ræddum spennandi hjólaleiðir sumarsins 2026…

Stutt í tindinn…

Hvílíkir litir… birta… fomfegurð… náttúrutöfrar á þessum degi… við gátum ekki verið heppnari…





Hér sést hversu úfið þetta frosna færi gegnum íshrönglið var á köflum… maður beyglaði ökklann margsinnis frekar mikið og þurfti oft að stíga fleiri en eitt skref til að komast áfram…


Tindurinn í augsýn…


Komin upp í 1.507 m hæð ! Við víðsjárverðar aðstæður mikils kulda og vindkælingar þar sem lítið mátti út af bregða til að illa færi… hér var lítið hægt að stoppa og alls ekki halda kyrru fyrir… fingurnir strax ískaldir ef þeir fóru út vettlingum… og þegar fingurnir frjósa… þá er ekkert hægt að athafna sig með gps, reimar, rennilása né síma…

Kári Rúnar fyrrum Toppfari til margra ára... fór m. a. með okkur til Perú og í margar stórkostlegar ferðir hér áður fyrr... einn af okkar allra bestu mönnum í sögu Toppfara... alltaf mættur ef eitthvað kemur upp á... klettur við hlið þjálfara... hjálpsemi og samstaða... tvennt sem breytir öllu þegar á reynir... pant alltaf hafa svona mann með á fjöllum...


Hitinn í hitaröndinni eða hitasprungunni á toppnum... sem sést ná yfir báða toppa og niður eftir í suðri og norðvestri...





Hitinn að bræða ísinn af sér hér... heilu holrýmin undir ísnum... og heilu íshellarnir vestar í fjallinu...


Hitabreytingarnar sáust í mölinni... sem átti auðvitað ekki að sjást í ef enginn væri hiti hér...


Hitaröndin...


Hitaröndin...


Hér var smá skjól af kassanum sem hefur komið síðustu ár... en áður var gestabókin sem var hulin ís fyrr á leiðinni aðal viðkomustaðurinn á tindinum...



Auðvitað tókum við báða tindana... þó það væri freistandi að sleppa því í þessum skelfilega kulda...

Sjá hitabræðinginn hér og í hlíðunum á hinum tindinum...



Litið til baka...


Þessi kafli var mjög úfinn.... og íshrönglið stórt og fast fyrir svo við fótuðum okkur á milli ísköggla...



Mjög úfið hér uppi...

Útsýnið til suðurs… hér komum við upp frá Næfurholti árið 2014… og um páskana nú árið 2026… ætlum við að prófa að fara nýja leið… frá Ytri Rangá… það verður löng og ströng ganga en greiðfær og mjög spennandi… við sáum hana frá Litlu Heklu í fyrra… og ákváðum þá að prófa þessa leið… allir páskarnir verða undir… komi þeir sem vilja… feta nýjar, ótroðnar slóðir…


Fyrri... syðri... hæsti... tindurinn á Heklu... þar sem við komum fyrst upp á...

Óvart var tekin mynd þar sem Ása liggur hér... hún datt fram á hnén og slasaði sig illa á hnénu... og þetta tafði hennar gang niður og hópinn allan um líklega klukkutíma eða svo... með töfunum sem kvenþjálfarinn olli með týnda síma málinu sínu...

Magnaður hópur !
Sighvatur, Kári Rúnar Halldóra Kr., Aníta, Sjöfn Kr., Hilmar gestur, Guðrún gestur, Björg, Siggi, Sigrún Eðvalds gestur, Ása, Gulla, Grétar gestur, Katarina gestur, Örn og Birgir en Bára tók mynd og Batman og Myrra voru með...

Við slepptum nestispásu sem annars er alltaf tekin hér... vegna kulda og vinds...

Hér áttar Bára þjálfari sig á að hún er búin að týna símanum... og sneri við og gerði dauðaleit... en á meðan fór hópurinn niður og leitaði skjóls í brekku sólarmegin meðan Kári og Örn sneru við til að kanna málið... og hjálpuðu fjórmenningarnir Báru að leita. þ.e. þeir sem voru fyrri til upp og höfðu náð í skottið á hópnum... en þar á meðal var Þorvaldur hátindahöfðingi sem var fyrstur Íslendinga til að ganga á 100 hæstu fjöll landsins... en þjálfari er búin að hvetja hann margsinnis til að skrá þá sögu í bók eða álíka... okkur öllum til innblásturs... hann sagði okkur að þeir hefðu hitt mann nokkurn á uppleið á fjallaskíðum sem væri kominn með rúmlega 80 af þessum 100 fjöllum... það var spennandi að heyra !

Hér inni í ísnum var gestabókin... Örn hefur oftar en einu sinni lamið hana úr snjó og ís... en þessi ís var of þéttur... við slepptum því í þetta skiptið...

Hópurinn farinn niður... Örn flýtti sér til baka til hópsins... þar sem menn höfðu sem betur fer haft vit á að fá sér nesti meðan beðið var...




Ískuldi hér þrátt fyrir sólina... Ása slæm í hnénu og fór hægt yfir en það var ráð að koma sér niður úr þessum kulda sem fyrst... það styttist í myrkur...

Hvílík fegurð !


Ófærðin í íshrönglinu... allt glerhart og gaf ekkert eftir...





Skuggi Heklu varpaðist niður á niðurleiðina...

Við vorum fljót hér niður en Ása barðist við verkjað hnéð og þjálfarar veltu því fyrir sér hvort kalla ætti á björgunarsveitir en afréðu að úr því hún gat gengið og haldið áfram þá væri það ekki forsvaranlegt... við skyldum frekar skipta liði svo flestir gætu farið a röskum hraða niður en þjálfarar og Ása og einn jeppi yrðu eftir og tækju sér lengri tíma niður... en Bára bað Ásu að láta vita ef hún gæti ekki gengið meira því þá skyldum við kalla á hjálp...

Kuldinn var slíkur að við fundum að við gætum ekki haldið kyrru fyrir... það hefði verið lífshættulegt...

Þökk sé Sighvati þá tóku nokkrir farangurinn úr bakpoka Ásu og þetta hefðum við átt að gera strax en það munaði um það og eins að hún fékk Parkódín Forte og Íbúfen sem linaði nokkuð verkina...

Hún var farin að ganga hraðar þegar á leið og við (þ.e. Ása og Bára) vorum í slíku banastuði þegar komið var að gígnum þar sem Örn ætlaði að hafa smá nestispásu að við ákváðum að halda áfram gangandi frekar en að borða nesti til að vinna okkur inn tíma... en þetta þýddi að fleiri ákváðu að halda frekar áfram og áður en Bára vissi af voru hröðustu göngumennirnir komnir fremst og Örn fylgdi síðustu mönnum niður löngu brekkuna neðan við gíginn...

Hér stoppaði hún og þeir sem treystu sér héldu áfram stikuðu leiðina niður í bílana... en Bára beið eftir Erni, Ásu og síðustu mönnum og eftirlegukindurnar héldu þar með hópinn enda farið að skyggja... sólin sest... og stutt í myrkrið...


Leiðin sem var eftir í tveimur hópum eða í raun þremur...

Slefið á feldi Batmans fraust og hrönglaðist í ísköggla... sést hér hvernig neðri kjálkann vantar með öllu...

Síðustuu menn skila sér frá gígnum...


Yfirnáttúrulega birtan sem rís svona upp með Heklu eins og í nóvember mætti á svæðið þennan síðasta kafla niður...

Birtan var töfrandi...


Stígurinn niður... þetta er orðið túristavænt eins og á Þingvöllum... neðsti hluti leiðarinnar...




Frosni skaflinn sem síðasti hópurinn sniðgekk og tók "Birgisleið" niður gegnum hranið og mosann... en fremri menn spjöruðu sig vel þarna yfir...



Komið myrkur og himininn roðagylltist...


Níunda skiptið sem Toppfarar ganga á þetta fjall... ótrúlegt...

Jeppaslóðinn frosinn í brekkunni og beygjunni góðu rétt ofan við bílana við Skjólkvíar...

Tunglið var mikill birtugjafi...

Þrír fjallaskíðamenn fóru á fjallinu auk okkar og fjallahjólreiðamannanna og fjórmenningana sem líka gengu eins og við... og við tókum þá tali bæði uppi og hér við bílana... magnað að hafa verið á þrennan hátt á fjallinu þennan dag... en einu konurnar sem voru á fjalllinu þennan dag voru í gönguhópnum okkar...

Tveir jepplingar skildir eftir við afleggjarann að Dómadal þar sem Kári mætti á jeppa... og vorum við mjög fegin að hafa ekki þurft að bögglast í gegnum slóðann að fjallsrótum...
Hér var -12 stiga hiti... og okkur fannst það hlýtt... eftir það sem á undan var gengið á fjallinu...

Hvílíkt fjall... einhverra hluta vegna elska þjálfarar Heklu... fá ekki nóg af henni... nú eiga Toppfarar eftir að ganga á hana í febrúar, mars, maí, júní, júlí og desember... miðað við þessi tvö síðustu ævintýri í nóv og jan... þá munum við ná þessu... með staðfestu og hugsun í lausnum en ekki hindrunum...
Takk elskurnar fyrir að vera til í þetta ævintýri... fyrir að mæta... fyrir alla hjálpsemina og samstöðuna... fyrir þakklætið og virðinguna... vináttuna og samstöðuna... eingöngu þannig verða svona töfrar að veruleika...
Gps-slóðin frá nóvember 2024 hér sem við studdumst við í þessari göngu svo leiðin er svipuð: Wikiloc | Hekla vetrarferð í nóvember 011124 Trail
Myndbandið hér: Hekla 3. janúar 2026. Stjarnfræðilega flott ganga !
Fyrri Hekluferðir frá upphafi í sögu Toppfara:
2011 í apríl þar sem snúið var við v/veðurs: toppfarar.is - Hekla
2011 í október: Toppfarar.is - Tindur 66 Hekla 231011
2014 frá Næfurholti: Tindferð 107 Hekla frá Næfurholt
2023: Hekla í sjöunda sinn
... og aldrei gaus fjallið... :-) :-)








Comments