top of page

Áskorun ársins 2023 er þriðjudagsþakklæti...

... þar sem skorað er á alla klúbbmeðlimi að mæta sem flesta þriðjudaga allt árið með klúbbnum
eða ganga á eigin vegum ef menn komast ekki í þriðjudagsgöngu.
Eingöngu þriðjudagsgöngur Toppfara gilda eða ganga á eigin vegum (ekki göngur með öðrum hópum NB)
og gangan þarf að vera utan malbiks, en þarf ekki að vera á fjall, nóg að sé gönguleið utan malbiks


Hver og einn telur sína þriðjudaga (með klúbbnum eða á eigin vegum)
og skráir þá tölfræði sem hann vill (km, hækkun o.fl. eftir smekk)

og meldar inn sinn lista í lok árs eða eftir hvern mánuð (nóg að telja þriðjudagana NB)
en mjög gaman væri ef þátttakendur myndu skrá hversu oft þeir eru að fara í fyrsta sinn á viðkomandi fjall/leið

og ýmsa aðra tölfræði. 

20230620_204803.jpg

Takk...

1. Fjallið eina og Sandfell... takk fyrir að hafa heilsu, getu og tækifæri til að geta mætt í flotta þriðjudagsgöngu í óbyggðum í jaðri höfuðborgar Íslands... 3. janúar.

2. Ásfjall og Vatnshlíð... takk fyrir hláturinn sem glumdi í fjallasölum Hafnarfjarðar 10. janúar.

3. Rauðuhnúkar... takk stjörnur himins fyrir að skreyta þriðjudagsæfingarnar svona fallega í myrkrinu 17. janúar.

4. Mosfell... takk fyrir fínt veður mitt í löngum óveðurskafla (Katrín Kj.)... 24. janúar.

5. Helgafell Hafnarfirði... takk fyrir spor félaganna sem fóru á undan... 31. janúar...

6. Úlfarsfell á alla þrjá frá Skarhólamýri í snjóstormi... takk fyrir veður og vinda sem gerir okkur sterkari og sýnir okkur að við getum meira en við höldum... 7. febrúar.

7. Þorbjörn... takk fyrir dagsbirtuna sem gaf okkur útsýni og upplifun af einstöku landslagi þessa fjalls... 14. febrúar.

8. Bláfjallahryggur, Kerlingarhnúkur og Heiðartoppur... takk fyrir snjóinn... sem gefur greiðfærar öldur yfir úfið landslag... slær töfrum yfir óbyggðirnar... gefur birtu í ljósaskiptunum... vísar veginn í myrkrinu... 21. febrúar...

9. Litli og Stóri Sandhryggur, Kollafjarðarárfoss og Nípa í Esju... takk Esja... fyrir að gefa okkur endalausa króka og kima til að uppgötva eftir 16 ár í hlíðum þínum... 28. febrúar... 

10. Litla Sandfell og Krossfjöll í Þrengslum... takk fyrir íslensku ullina sem er það eina sem dugar þegar frostið bítur fast í mikilli vindkælingu á fjöllum... 7. mars... 

11. Sandfell í Kjós... takk fyrir umhyggjuna í garð hvert annars þegar á bjátar og menn (jebb, við erum ÖLL menn )...detta tímabundið út og fá hlýjan faðminn þegar þeir mæta aftur eftir hlé... 14. mars... 

12. Reykjafell og Æsustaðafjall... takk úthverfi Reykjavíkur fyrir að gefa okkur þetta val... að geta farið upp í fjöll og fjölbreyttar óbyggðir í jaðri borgarinnar og slegist við slæm veður... og koma sterkari heim... með nýjar hugmyndir... rjóðheitar kinnar... hlátur í huga... meira sjálfstraust... ólgandi blóð í ystu æðum... yl í hjarta eftir hlátur og samveru alls kyns fólks úr öllum áttum... á öllum aldri... með önnur sjónarhorn en maður sjálfur... 21. mars...

13. Stóra Skógfell, Sundhnúkur og Hagafell... takk íslenska hraun fyrir sláandi fegurð, orku og fjölbreytileika... óþrjótandi kynjamyndir og áhrifamikla jarðsöguna sem blasir við okkur gömul og glæný um allt... 28. mars...

14. Úlfarsfell... takk elsku félagar fyrir að hafa vit á að elska hundana okkar í fjallgönguklúbbnum... fyrir að hafa vit á því að sýna þeim umburðarlyndi... njóta þess að hafa þá með... og smitast af botnlausri gleði þeirra öllum stundum... hafa vit á að njóta þess hvernig þeir bæta okkur sem menn... auka gleði okkar, umburðarlyndi, sveigjanleika og þakklæti... og svona gæti maður haldið áfram endalaust... þeir eru ómetanlegur hluti af klúbbnum... 4. apríl... 

15. Lakahnúkar... takk fyrir vorblíðuna sem nú tekur svo hlýlega og mjúklega við okkur eftir veturinn... töfrar þessa árstíma eru ólýsanlegir en upplifast sterkast hafi maður gengið í gegnum veturinn í öllum sínum kulda, illviðrum og myrkri...  11. apríl... 

16. Jókubunga um Kúludal... takk bændur Íslands fyrir öll ykkar liðlegheit, vinsemd og hjálpsemi sem þið hafið auðsýnt okkur öll þessi ár þegar við höfum fengið að ganga um landið ykkar á leið upp í fjöllin... 18. apríl... 

17. Torfdalshryggur... takk harðneskjulega veður Íslands... fyrir að halda okkur á tánum... og minna okkur stöðugt á að vera þakklát þegar það loksins kemur gott veður... gleðin þegar það kemur er svo innilega og fölskvalaus... við myndum engan veginn kunna að meta sól og hlýindi ef ekki væri fyrir alla hráslagalegu dagana sem mæta þegar við héldum að það yrði gott veður... 25. apríl...

18. Þurárhnúkur, Valahnúkur og Núpahnúkur Ölfusi... takk botnlausu hulinsheimar... sem alls staðar leynast og uppgötvast eingöngu ef betur er að gáð og nær komið með göngu um óþekkt gil, gljúfur og kletta... 2. maí...

19. Bláihryggur Grænsdal... takk fyrir litadýrðina í náttúru Íslands sem getur stundum verið svo lygileg að maður trúir nánast ekki því sem fyrir augu ber... 9. maí...

20. Ketilstindur, Bleiktindur og Kleifartindur kringum Arnarvatn... takk eljusömu og áræðnu klúbbfélagar... fyrir að láta ykkur hafa alls kyns könnunarleiðangra um ótroðnar slóðir og tilraunakenndar leiðir öll þessi 16 ár saman á fjöllum... 16. maí... 

21. Hafrahlíð, Lali og Reykjaborg... takk veðurguðir Íslands fyrir að bjóða okkur upp á bókstaflega ÖLL veður í einni þriðjudagsgöngu... rok, logn, sól, rigningu, él, kulda og hlýju... 23. maí...

22. Helgafell í Hafnarfirði... takk fyrir að dásamlega fjallgöngufélaga sem eru alltaf til í að koma í göngu með manni... 30. maí..

23. Þorbjörn við Grindavík... takk fyrir að taka ykkur ekki of alvarlega og vera alltaf til í að grínast og hafa gaman... 6. júní...

24. Grænavatnseggjar og Djúpavatnseggjar um Sogin og vötnin þrjú... takk fyrir að fá loksins sól og heiðskírt veður. þá sjaldan að það gefst... 13. júní... 

25. Gláma og Þjófagil... takk búsældarleg tún og kindur í haga... sem gengu með okkur út hlíðar fjallsins... 20. júní... 

26. Kollafjarðargljúfur, Nípa, Geitabak og Geithóll... takk ævintýraþrá... sem leiðir okkur sífellt á nýjar, ókannaðar slóðir... meira að segja á fjölförnum svæði í Esjunni sem lumar enn á tindum bak við þá þekktari... 27. júní...

27. Köldulaugargil, Hagavíkurlaugar og Sandklettar... takk háhitasvæði Íslands... sem eru um allt og skarta litum si svona eins og ekkert annað í íslenskri náttúru... 4. júlí...

28. Móskarðahnúkar... takk litríku fjöll Íslands... fyrir að auðga anda okkar stöðugt með sláandi fegurð og fjölbreyttni... 11. júlí... 

29. Gosstöðvarnar á Reykjanesi... takk Reykjanes fyrir að gefa okkur þessi þrjú eldgos í beinni eitt á ári... 18. júlí...

30. Sköflungur með Sigga... takk Siggi og Linda og aðrir klúbbfélagar fyrir að bjóða upp á mergjaðar klúbbgöngur þegar þjálfarar fara í sumarfrí... 1. ágúst...

31. Trölladyngja, Grænadyngja, Hörðuvallaklof og Lambafellsgjá... takk fyrir hreina og góða loftslagið... sem ekki er sjálfgefið nú á tímum þegar flóð, hitabylgjur og mengun hrjá stóran hluta hins vestræna heims...15. ágúst... 

32. Litla Horn í Skarðsheiði... takk nýliðar... fyrir að koma með nýja orku og kraft inn í hópinn... 22. ágúst...

33. Latsfjall, Núpshlíðarháls og Höfði... takk sumarið 2023... fyrir að gefa okkur einmuna blíðu í tvo mánuði samfleitt svo varla er hægt að muna eftir öðru eins... nema kannski árinu 2012 reyndar... 29. ágúst...

34. Kerhólakambur, klúbbganga með Sigga... takk fyrir gleðina á hópmyndunum sem hafa verið frábærar í sumar... 4. september...

35. Sandfell, Lómatjörn og Bæjarfjall... takk elsku hundar... fyrir gleðina og vináttuna, botnlausu tryggðina og hæfni ykkar til að njóta alltaf staðar og stundar... 12. september...

36. Lágaskarðshnúkur, Þrengslahnúkur, Gráuhnúkar og Staki hnúkur... takk fyrir hugljómunina sem fylgir fjallgöngunum... góðar hugmyndir og betri lausnir sem kvikna alltaf á göngu, sérstaklega þegar gengið er með góðu fólki sem nýtur þess að velta vöngum saman... 19. september... 

37. Reykjaborg, Lali og Hafrahlíð... takk fyrir gullfallegt haustið sem gefur okkur haustliti eins í botnlausri litaveislu... 26. september...

38. Ármannsfell... takk fyrir erfið fjöll á þriðjudögum sem gefa okkur krefjandi verkefni til að æfa okkur og styrkja... 3. október... 

39. Illaklif kringum Leirvogsvatn... takk fyrir fyrsta snjóinn... sem stimplar inn veturinn og kemur alltaf jafn fallega á óvart... 10. október... 

40.Úlfarsfell... takk fyrir slæm veður á æfingafjöllunum okkar... því þau styrkja okkur og gera okkur hæfari til að takast á við þau... þegar þau skella fyrirvaralaust á í óbyggðum þar sem mun lengra er í byggð og vel reynir á búnað og reynslu... 17. október...

41. Hnefi í Lokufjalli... takk húsdýr Íslands sem á vegi okkar verða í göngunum... sem eingöngu með þögulli nærveru sinni minna okkur á að við erum ekki miðpunktur alheimsins... heldur eingöngu gestir á leið um þeirra heimasvæði... 24. október...

42. Helgafell í Mosó... takk haust fyrir að taka okkur mildilega inn í veturinn... með því að lýsa allt upp og gera fallegt áður en harðneskja vetrarins tekur yfir... 30. október...

43. Húsfell í Hafnarfirði... takk myrkur vetrarins... fyrir að kenna okkur að við getum samt gengið á fjöll ef við erum búin höfuðljósum og þekkjum leiðina... 7. nóvember...

44. Búrfellsgjá... takk áskoranir klúbbsins... fyrir að koma okkur á alls konar fjöll sem við annars myndum ekki drífa okkur á... en hvert og eitt þeirra víkkar út sjóndeildarhringinn og gerir okkur víðförlari... 14. nóvember... 

45. Stórhöfði kringum Hvaleyrarvatn... takk stöðuvötn höfuðborgarsvæðisins... fyrir að gefa okkur hverja yndisupplifunina á fætur annarri með ægifegurð og mildu landslagi sem stundum er svo gott að fá milli fjallgangnanna... 21. nóvember... 

46. Háihnúkur Akrafjalli... takk óteljandi meðlimir klúbbsins sem hafa í gegnum tíðina mætt á afmælisdaginn sinn í göngu svo við getum öll fagnað saman við okkar uppáhaldsiðju... að ganga á fjöll á öllum tímum ársins... 28. nóvember...

47. Vífilsstaðahlíð kringum Vífilsstaðavatn... takk lognið dæmalausa sem ríkt hefur á árinu 2023... það er með eindæmum oft í göngunum okkar og slær líklega öll met... 5. desember... 

48. Lágafell og Lágafellshamrar... takk hefðbundnu þriðjudagsfjöll í desember... sem einstaklega gaman hefur verið að ganga á árum saman og bera saman milli ára veður, færð og okkar eigin getu... þessi bratta brekka í Lágafellshömrum verður sífellt léttari með hverju árinu... það er ótrúlegt að upplifa... 12. desember...

49. Úlfarsfell að jólatrjánum hans Kolbeins... takk Kolbeinn og aðrir sem taka sig til og skreyta tilveru okkar allra með því að skreyta jólatré í miðjum hlíðum Úlfarsfells árum saman... 19. desember...

50. Gamlársdagaganga á Úlfarsfell með Kolbeini og Sigga... takk klúbbmeðlimir fyrir að bjóða öllum hópnum í göngu öðruhvoru og skapa hefð eins og þessa sem er orðin ómissandi hluti af lífið margra Toppfara á Gamlársdag... 31. desember. 

bottom of page